16.12.1971
Efri deild: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki í þeim fáu orðum, sem ég segi hér við 1. umr. þessa máls, að fara að verulegu marki inn á ákveðna efnisþætti þessa frv., en mig langar til að gera lítils háttar að umræðuefni þá stefnubreytingu og stefnumörkun, sem mér sýnist, að ég geti lesið beint úr frv., eins og það liggur hér fyrir.

Áður en ég geri það sjálft að umræðuefni, langar mig til að vitna til þess, að á síðasta þingi átti ég þátt í því að flytja ásamt sjö öðrum sjálfstæðismönnum hér á hv. Alþingi till. til þál., sem hugsuð var til þess, að gerðar yrðu till. um nýja og breytta tekju- og verkefnaskiptingu sveitarfélaga til eflingar héraðsstjórnum. Í grg. með þeirri till. tókum við flm. það fram, að við teldum rétt að rannsaka það rækilega, hvort ekki væri tímabært að efla samstarf sveitarfélaganna og fá samtökum þeirra fleiri verkefni og stærri, verkefni, sem ríkinu hefði áður verið ætlað að annast að hluta til eða öllu leyti. Í því efni bentum við á kostnað við gerð skólamannvirkja, t.d. á barna- og skyldunámsstigi og ýmsa aðra þætti verklegra framkvæmda, sem vænta mætti, að gæti gengið hraðar að koma fram og jafnvel með ábyrgari og ódýrari hætti, ef einn framkvæmdaaðili ætti um það að fjalla í stað tveggja, sem nú mega taka ákvörðun og vera sammála um, að í framkvæmdina skuli ráðizt. Þar áttum við að sjálfsögðu við það, að sveitarfélögin sjálf fengju þessi umráð í hendur. Um leið og slík breyting væri gerð sáum við að sjálfsögðu, að það þurfti að skipta tekjustofnunum í samræmi við þau verkefni, sem féllu í hlut hvors aðila fyrir sig.

Þá vil ég einnig í þessu sambandi minna á, að á síðasta þingi flutti Lúðvík Jósepsson till. til þál. um dreifingu framkvæmdavalds og eflingu í sjálfsstjórn héraða, till., sem hafði inni að halda að nokkru leyti sama sjónarmið og við settum fram í okkar þáltill., sjálfstæðismenn, þó að þar væri nokkur munur á og mætti segja, að væri ekki eins víðfeðm og sú, sem við stóðum að flutningi að. Þá má minna á það, að þm. Framsfl. hafa þing eftir þing flutt frv. til l. um Byggðajafnvægisstofnun, sem þeir ætlast til, að verði til þess sérstaklega að treysta byggðajafnvægið í landinu. Framsóknarmenn hafa í þeim till. miklu minna komið inn á afskipti sveitarfélaganna sjálfra heldur en ég tel, að æskilegt hefði verið.

Í fjórða lagi langar mig að minna á frv. til l., sem Hannibal Valdimarsson, núv. hæstv. félmrh„ flutti á siðasta þingi um verkfræðiskrifstofu fyrir Vestfjarðakjördæmi, sem er þó annars eðlis en þau frv. og till., sem ég hef lýst hér áður. Þó að það sé annars eðlis, er því þó að hluta til ætlað að styrkja byggðina á ákveðnum stöðum úti á landi. Vegna þessa og margs annars gat ég ætlað, að það væri áhugi fyrir því í velflestum stjórnmálaflokkum, sem á þingi ættu fulltrúa, að efla sveitarstjórnirnar og vald byggðarlaganna. Mér var þess vegna ánægjuefni, þegar ég las fagnaðarboðskapinn í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar um, að þessir hlutir höfðu ekki gleymzt. Þar er tekið fram, að í tengslum við Framkvæmdastofnun ríkisins skuli starfa sjóður með sérstakri stjórn, sem veitir fjárstuðning til þess að treysta sem bezt eðlilega þróun í byggð landsins. Við erum búnir að sjá frv. að lögum um Framkvæmdastofnunina og búið er að afgreiða það hér í Ed. Ég er þeirrar skoðunar, að þar hafi hvergi nærri verið gætt svo sem skyldi þeirra sjónarmiða, sem ætlazt var þó til, að sá sjóður fyrst og fremst þjónaði. Í málefnasamningnum segir enn fremur, að endurskoða beri skiptingu verkefna og valds á milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði byggðarlaganna. Haft verði samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og samtök sveitarfélaganna í einstökum landshlutum um þessa endurskoðun. Því miður hefur ekki verið staðið við þessa yfirlýsingu enn. Það fyrsta, sem lesið verður út úr þessu frv., sem hér er til umr., virðist mér benda í gagnstæða átt, þ.e. til þess að draga úr sjálfsforræði byggðarlaganna. Í öðru lagi hefur ekki verið haft samráð við Samband ísl. sveitarfélaga, og því ákvæði sáttmálans hefur, að mínu viti, ekki verið sinnt að þessu sinni. En því minni ég á þetta, að ég tel það einsýnt, að með þeim skertu verkefnum, sem gert er ráð fyrir með þessu frv., að sveitarfélögin hafi, þá verður kippt styrkum stoðum undan þeirri starfsemi, sem þar hefur farið fram síðustu áratugi. Í því efni nægir að minna á það, að í 24. gr. þessa frv. er blátt áfram tekið fram, að sveitarstjórnirnar eigi ekki að annast álagningu útsvara. Það á ekki einu sinni að trúa þeim fyrir því tiltölulega einfalda atriði í þessum málum að annast álagningu útsvaranna. Þó eru þær reglur, sem gert er ráð fyrir að nota við útsvarsálagninguna, tiltölulega mjög einfaldar. Hins vegar er sveitarstjórninni heimilt að ákveða að undanþiggja bætur samkv. 11. kafla laga nr. 67 20. apríl 1971, um almannatryggingar, og enn fremur er gert ráð fyrir því í 27. gr., að sveitarstjórn sé heimilt að lækka útsvör gjaldanda og eru þar tekin til fjögur efnisatriði. Það er annað mál, en mér sýnist, að það sé æði undarlegt að hafa ekki heimildarákvæðin öll í sömu gr. laganna, þar sem sveitarstjórn á að hafa einhverja möguleika á að hreyfa til tekjuhluta, sem lagt er á.

Í grg. með frv. er sagt, að í stað stighækkandi tekjuútsvars komi ákveðinn hundraðshluti af tekjum og því lýst nánar. En það má náttúrlega kalla það því nafni, að hér sé ekki gert ráð fyrir stighækkandi útsvarsálagningu. Mér sýnist þó, að skattstigarnir í þessu tilfelli séu ekki undir 25 og eftir því, á hvaða stigi tekjurnar eru, og fleiri raunar, þegar tekið er tillit til þeirra heimilda, sem í frv. eru fólgnar. Mér sýnist, að í sambandi við álagningu útsvaranna sé frá sveitarstjórnunum tekinn vandaminnsti hlutinn, sem er langfljótlegast að eiga við, en sá vandinn eftir skilinn, sem er útilokað að taka verulega afstöðu til fyrr en séð verður, hvernig tekjuframtölin eru. Og ef það á að vinna sæmilega hratt, þá verður sveitarstjórnin að eiga fulltrúa á skrifstofu hjá skattstjóra, til þess að það sé hægt að koma þessu afram með eðlilegum hætti. En hún má ekki ákveða útsvarsupphæðirnar eigi að síður.

Þá vil ég aðeins drepa á það, sem einnig kemur fram í aths. með frv., að þar er gert ráð fyrir að létta af sveitarsjóðunum ýmsum gjöldum. M.a. er það, að iðgjöld sveitarfélaganna til sjúkratrygginga verði lækkuð um helming. Ég geri ráð fyrir því, að það hafi verið athugað gaumgæfilega, hvað þessar upphæðir eru miklar, til þess að geta um leið ákveðið, hverja möguleika til álagningar sveitarstjórnirnar þyrftu að hafa, en ég sé á brtt., sem lögð var fram í gær við frv. til I. um almannatryggingar, að gert er ráð fyrir, að gjald sveitarfélagsins vegna hvers sjúkrasamlagsmeðlims á árinu 1972 skuli vera 2 125 kr. Þetta er allt annað heldur en helmingurinn af hinu almenna sjúkrasamlagsgjaldi í landinu, því að 2 125 kr. er helmingurinn af því gjaldi, sem sveitarsjóður ætti að greiða, ef sjúkrasamlagsiðgjaldið væri 5 000 kr. Nú hef ég ekki fyrir mér, hvað sjúkrasamlagsgjaldið er hátt í Reykjavík. Á Akureyri mun það vera 3 300 kr., í Kópavogi 4 020 kr., á Selfossi 3 600 kr.. á Seltjarnarnesi 3 660 kr. og annars staðar í mörgum sveitarfélögum miklu lægra, þannig að í þessu er ekkert samræmi, og ég vænti þess, að þessu atriði ásamt fjölmörgum öðrum atriðum í þessu frv. verði veitt nánari athygli, enda sé ég, að það er ekki með nokkru móti stætt á því að ganga almennilega frá frv. eins og þessu nema í mjög ákveðnum tengslum og í samráði við samtök sveitarfélaganna í landinu.

Mig langar svo aðeins í lokin að segja frá því, að fyrir örfáum dögum barst mér bréf frá reyndum sveitarstjórnarmanni, og ég vil taka það fram. að þessi sveitarstjórnarmaður er ekki flokksfélagi mun. Hann hefur verið ákveðinn og öflugur stuðningsmaður Framsfl. Hann er að ræða við mig um ýmsa þá áráttu og árás, sem honum virðist vera á döfinni, og að beint sé að hinum dreifðu byggðum, og segir svo í bréfi sínu:

„Þá er fyrirhugaður samruni sveitarfélaga, sjúkrasamlaga og e.t.v. útsvarsstigi til jöfnunar með meiru. Allt, sem hér er talið, á í því sammerkt að draga vald úr höndum strjálbýlis til fjölmennis. Það hefur þær afleiðingar auðsæilegastar, að sá dugur, sá samtakamáttur, sem býr í litlum samstilltum hóp og víða sér eftir stórmerki, mun hverfa í sinnuleysi og óvirka andstöðu við það óþekkta.“

Þessum orðum tel ég rétt að veita athygli, þegar frv. um tekjustofna sveitarfélaganna er rætt og afgreitt.