15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 1. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, þar eð ég vil ekki verða til þess að lengja þessar umr., þannig að hægt verði að afgreiða málið nú í dag. Hv. frsm. meiri hl. andmælti þeim ummælum mínum, að niðurfelling helmingsfrádráttar vegna tekna giftrar konu, sem vinnur utan heimilis, rýrði kjör eða hag þeirrar giftrar konu, sem aflar sér tekna utan heimilis, vegna þess að nú væri gert ráð fyrir því í því frv., sem hér er um að ræða, að um brúttóskatt yrði að ræða og greiddu allir jafnt hlutfall af tekjum, bæði gift kona, sem ynni utan heimilis, og eiginmaður hennar, þannig að nú væri fullkomið jafnrétti á milli skattgreiðslu einhleyps manns, gifts eiginmanns og konu, sem vinnur utan heimilis. Þetta er auðvitað hárrétt hjá hv. þm. En hann gleymir því, að nú nýtur gift kona, sem vinnur utan heimilis, sérstakra forréttinda, sem eru fólgin í því, að frá tekjum heimilisföðurins er dreginn helmingur af hennar tekjum, áður en skattur eða útsvar er lagt á. Ég geri mér algjörlega ljóst, að það er erfitt að framkvæma frádráttarreglur, þegar um brúttóskatt er að ræða, en það, sem ég var að benda á með mínum orðum, var sú staðreynd, að sérstök hlunnindi, sem gift kona, sem vinnur utan heimilis, hefur hingað til notið, bæði að því er varðar greiðslu tekjuskatts og útsvars, eru nú felld niður í útsvarsgreiðslunni, vegna þess að breytt er um skattakerfi, tekinn upp brúttóskattur. Ég hygg, að við hv. þm. skiljum hvor annan algjörlega í þessu efni. Um efni málsins er enginn ágreiningur.

Svo aðeins örfá orð um það, að ég telji Alþfl. eiga hugmyndina að því að gera allar konur, hvort sem þær afla sér sjálfstæðra tekna utan heimilis eða vinna á heimili, að sjálfstæðum skattþegnum, að ég vilji eigna þessa hugmynd Alþfl. Mér hefur aldrei dottið það í hug. Mér er það ljóst, að þetta er gömul hugmynd, sem mikið hefur verið rætt um á Norðurlöndum og víða í löndum, sem búa við tekjuskattskerfl. Það er mér algerlega ljóst. Ég var fylgjandi þessari hugmynd þegar á árinu 1957, þegar núgildandi hlunnindaákvæði voru lögtekin af stjórn Hermanns Jónassonar á sínum tíma. og hef verið henni fylgjandi alla tíð síðan, þó að hún hafi ekki átt stuðningi að fagna í þeim ríkisstj., sem síðar hafa setið. Og þeim mun meir fagna ég því, að hugmyndin um þetta skuli nú fá a.m.k. loforð um jákvæða athugun í sumar fram að hausti komanda. Ég veit satt að segja ekkert, hverjum fyrst hefur dottið þetta í hug, og skiptir raunar ekki nokkru minnsta máli. Ég orðaði þetta við Alþfl. af því einu, að Alþfl. er eini flokkurinn, sem nú gerist talsmaður þessarar hugmyndar opinberlega hér á hinu háa Alþ. Og þann heiður vona ég, að hv. frsm. vilji ekki taka af Alþfl.