17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

161. mál, lántaka vegna kaupa á þyrlu og viðgerðar á varðskipinu Þór

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Þann 15. marz s.l. skrifaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið svo hljóðandi bréf:

„Stefnt er að því að framkvæma endurnýjunarviðgerð á varðskipinu Þór á komandi sumri og fyrirhugað, að tekið verði lán erlendis til 4–5 ára til verksins, og er þess óskað í samráði við fjmrn., að hv. fjhn. Ed. hlutist til um, að heimild til lántöku, allt að 48 millj. kr., vegna þessara framkvæmda verði tekin inn í lagafrv. um heimild til lántöku vegna kaupa á þyrlu, sem nú liggur fyrir Ed.

Til upplýsinga fylgja hér með ljósrit af bréfum Landhelgisgæzlunnar, dags. 18. jan. s.l., dómsmrn., dags. 25. jan. s.l., og viðskrn„ dags. 29. f.m.“ — Undir þetta ritar Baldur Möller fyrir hönd ráðh.

Nú tókst þannig til, að þetta bréf náði ekki til fjhn. Ed., áður en hún afgreiddi sitt nál. um þetta mál. því að hún mun hafa gert það sama daginn og bréfið var skrifað. Fyrir einhver mistök fór á sömu leið, þegar málið var til meðferðar í fjhn. þessarar hv. d., að bréfið barst henni ekki fyrr en eftir að hún hafði lokið afgreiðslu málsins fyrir 2. umr. Síðan barst n. bréfið, og hún hefur kynnt sér þetta mál. Það er vitað, að stór hluti kostnaðar við endurnýjun þá og viðgerð á Þór, sem nú er fyrirhuguð, er vegna vélaskipta og vegna styrkingar skipsins í sambandi við þau vélaskipti. Vélin í Þór var frá upphafi gölluð, þó að skipið hafi ævinlega þótt ágætt.

Eins og fram kemur í þessu bréfi, sem ég las hér áðan, þá fylgdu með til n. erindi og grg. frá viðkomandi aðilum, Landhelgisgæzlunni og viðskrn. út af lántökunni. Þetta er allt jákvætt, og varð fjhn. sammála um að flytja þá brtt., sem hér liggur fyrir og er nánast um það, að þessi umbeðna lántökuheimild skuli einnig veitt, um leið og veitt er heimild til lántöku vegna kaupa á þyrlu.