25.10.1971
Neðri deild: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

7. mál, ríkisreikningurinn 1969

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Í sjálfu sér virðist ekki mikil ástæða fyrir einn af yfirskoðunarmönnum ríkisreikninga að standa hér upp að þessu sinni og halda langa ræðu um það, sem allir hv. alþm. geta séð. Það eru aths. þeirra, svör ráðherra og opinberra stofnana og síðan till. yfirskoðunarmanna. En að gefnu tilefni vil ég aðeins segja nokkur orð um 16. aths. yfirskoðunarmanna. Ef hv. alþm. vilja fletta upp á 5. lið þessarar endurskoðunar, má sjá í lok hennar, að yfirskoðunarmenn ríkisreikninga leita ekki eftir frekari skýringum að sinni, vegna þess að Rannsóknaráði hefur ekki tímans vegna gefizt kostur á að svara aths. ríkisendurskoðunarinnar. Svör, ítarleg svör bárust við því, sem um var spurt, frá Rannsóknaráðinu, eins og kemur fram í síðustu aths. yfirskoðunarmanna og sjá má á bls. 378, en þar segir í a-lið, að í svörum Rannsóknaráðs við aths. yfirskoðunarmanna sé að finna skýringar á því, sem leitað var eftir skýringum á. Ég vil í sambandi við þetta draga fram lokamálsgrein í aths. okkar yfirskoðunarmanna, en þar segir, að frá framangreindum till. okkar hafi verið gengið hinn 18. marz s.l. að öðru leyti en því, sem tekur til nefnda í lið 20. Hv. alþm. muna flestir eftir því, að allmikil blaðaskrif hófust nokkru síðar í sambandi við Rannsóknaráðið og stjórnun þess, er fólgin voru í ítarlegum aths. eins af stjórnarmönnum þess. Endalok þessara blaðaskrifa að þessu sinni urðu þau, að forstöðumaður Rannsóknaráðs óskaði eftir opinberri rannsókn á málinu í heild. Það hefur ekki verið venja okkar yfirskoðunarmanna að gera frekari úttekt á slíkum málum, þegar þannig hefur staðið á, og ég sé ekki heldur, að slíkt þjóni neinu, fyrr en niðurstöður liggja fyrir úr þessari rannsókn, og læt ég því umr. um þetta mál að sinni lokið. Það er tekið fram í þessu niðurlagi, sem ég hef þegar vitnað til. um þann drátt, sem varð á því, að hægt væri að leggja fyrir ríkisreikning fyrir árið 1969, að það væri vegna þess að ekki hafði unnizt tími til að vinna þá ítarlegu skýrslu til hlítar, sem hér liggur nú fyrir hjá hv. alþm. sérprentuð um nefndafjölda og nefndaþóknun. Við vorum allir sammála um það yfirskoðunarmenn, að nauðsynlegt væri orðið, að slík skýrsla lægi fyrir hæstv. Alþ., og er þess að vænta, að núv. hæstv. fjmrh. beiti sér fyrir því, að svo verði í framtíðinni, og efa ég persónulega ekki, að svo verði.

Ég vil aðeins í lok þessarar stuttu ræðu minnar leyfa mér að þakka hæstv. fjmrh. fyrir störf hans sem yfirskoðunarmaður ríkisreikninga á undanförnum árum og vænti þess af mörgum þeim athyglisverðu aths., sem hann hefur þar komið fram með, að hann muni finna leiðir til úrbóta á ýmsum vandamálum í ríkisrekstrinum, eins og hann reyndar þegar hefur gefið fyrirheit um í sambandi við fjárlagaræðu sína. Ég sé líka ástæðu til þess sem einn af yfirskoðunarmönnum ríkisreikninga að þakka ekki aðeins ríkisendurskoðendum heldur og ríkisbókhaldi eða starfsmönnum þess fyrir frábær störf á undanförnum árum, og ég tel, að þeir menn, sem Alþ. kýs til þess að framkvæma þá yfirskoðun, sem þingsköp segja til um, eigi þar hauk í horni. Og þótt ekki verði annað sagt um fyrrv. fjmrh. báða tvo en að sú endurskipulagning, sem fór fram á störfum þessara aðila, sé þeim til hins bezta upp á framtíðina að gera, þá veit ég, að bæði ég og hæstv. fjmrh. viðurkennum þá skoðun, að þar hafi vel verið að verki staðið, er þeir menn voru ráðnir til starfanna, sem að þeim vinna í dag.