07.02.1972
Efri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

160. mál, lán til kaupa á skuttogurum

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það var rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að ég eyddi ekki miklum tíma í það að gera grein fyrir þessu frv., enda er frv. ekki fyrirferðarmikið í sniðum. Það, sem hér er um að ræða, er ákveðin formbreyting á þessum ábyrgðum miðað við það, sem áður og annars gildir um slíkar ábyrgðir, en hins vegar var heimildin til ábyrgðarinnar tekin við fjárlagaafgreiðslu.

Ástæðan til þess, að þessi breyting er gerð, er sú, að hún er óumflýjanleg vegna seljendanna, sem er verið að kaupa þessi skip af. Þá varð hér að vera um sjálfskuldarábyrgð að ræða, til þess að málið næði fram að ganga. Ég tek undir það með hv. 2. þm. Norðurl. e., að nauðsyn ber til að gæta fullrar varúðar við öllum slíkum ábyrgðum, og þessi breyting var gerð því aðeins, að ábyrgðin kom ekki að gagni að öðrum kosti. Hins vegar er það rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að raunveruleg ábyrgð, sem hér er um að ræða, er 13%, því að 67% af þessu er það, sem Fiskveiðasjóður mun taka í endurgreiðslu á þessum erlendu lánum og afgreiða sín lán þá jafnharðan og þessar greiðslur falla til. Í sambandi við þessa afgreiðslu hefur verið reynt að tryggja þetta mál eins vel og mögulegt er, til þess að ekki valdi slysi og á Ríkisábyrgðasjóð falli ekki mikið af þessum lánum. Tel ég, að bezta svarið til þess að skýra þetta verði að lesa það bréf, sem Ríkisábyrgðasjóði var sent sem fyrirmæli um að gefa ábyrgðirnar út. Ég vil svo taka það fram áður, að hér er eingöngu um skuttogara að ræða, þessi 80% eru eingöngu bundin við það, og aldur skipanna er einnig bundinn við það, að Fiskveiðasjóður láni út á þau sem ný. Hygg ég, að þá séu þriggja eða fjögurra ára mörkin það, sem gildir. Það hefur hins vegar ekki verið hugsunin að fara á neinn hátt lengra í þessu heldur en þar er mælt fyrir.

Um afgreiðslu á þessum málum er það að segja, að 11 skip ný hafa fengið afgreiðslu, og er það umfram þessa átta togara, sem fyrrv. ríkisstj. var búin að semja um, og tveir togarar, sem eru eldri en nýsmíði. Fleiri hafa ekki fengið afgreiðslu á sínum málum og endanlegar ákvarðanir um það. (MJ: Á ráðh. við með orðinu afgreiðslu, að ríkisábyrgð sé veitt?) Já, það á ég við með því. Það hefur fullkomlega verið gengið frá málinu út á við. En hins vegar eru mörg af þessum málum nú til athugunar, og er ásóknin í þetta mikil, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði, og ég tek undir það með honum, og það er ekki í fyrsta sinn hér á landi, sem koma þessar stórsveiflur í okkar framkvæmdir, sem eru alls ekki heppilegar. Hins vegar kemur þetta til af því, að við höfum látið þetta ganga svona skipulagslítið og það hefur verið svelta í þessu, og svo þegar flóðgáttin opnast, þá verður flóðið svo mikið sem raun ber vitni um, hvað sem það kann nú endanlega að verða í þessu tilfelli. En ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa þetta bréf, sem Ríkisábyrgðasjóði var sent frá fjmrn. í sambandi við afgreiðslu þessa máls:

„Eins og Ríkisábyrgðasjóði er kunnugt, hefur ríkisstj. ákveðið, að veitt verði allt að 80% ríkisábyrgð á kaupverði skuttogara. Í samráði við sjútvrn. hefur þetta rn. ákveðið eftirgreind atriði um veitingu nefndra ríkisábyrgða:

1. Seljandi skipanna veiti eða útvegi lán, sem svarar 80% af kaupverði, með jöfnum afborgunum á 8 árum.

2. Hámarksvextir til seljenda verði 7.5%.

3. Ríkissjóður ábyrgist með sjálfskuldarábyrgð greiðslu hinna erlendu lána gagnvart lánveitanda.

4. Fiskveiðasjóður Íslands láni þann hluta hins erlenda láns, um 66–67/80 eða 83.33%, með þeim kjörum, sem reglur sjóðsins segja til um. Geta lán sjóðsins numið r/3 af kaupverði skipsins eða matsverði, hvort sem lægra reynist, sbr. í 1. gr. laga um Fiskveiðasjóð, nr. 75 fra 1966. Þann hluta hins erlenda láns, um 13.33/80 eða 16.67%, sem lánveiting Fiskveiðasjóðs ekki tekur til, skuldbindur kaupandi sig til þess að greiða hinum erlenda lánveitanda, eins og lán hans fellur til greiðslu.

5. Kaupandi skuldbindur sig til þess að greiða 20% af brúttóaflaverðmæti og öllum öðrum brúttótekjum skipanna fyrstu þrjú árin jafnharðan til afborgana og vaxta af hinum tryggðu lánum fyrir milligöngu Stofnfjársjóðs fiskiskipa, eða a.m.k. 16% eftir það, þar til lánið er að fullu greitt. Ríkisábyrgð verði ekki veitt fyrr en ljóst er af yfirlýsingu hlutaðeigandi viðskiptabanka, að fyrir hendi séu a.m.k. 15% af kaupverði togaranna í reiðufé.

7. Fiskveiðasjóður fallist á, að fé, sem greiðist í Stofnfjársjóð samkv. 5. lið, skiptist á milli greiðslu á láni Fiskveiðasjóðs og framangreindu láni, 13.33/80 hlutar eða 16.67% af erlenda láninu, í þeim hlutföllum, sem afborganir og vextir falla til greiðslu af lánum þessum á hverjum tíma. Vanskil við Fiskveiðasjóð eða Ríkisábyrgðasjóð skal í slíku tilfelli farið eins með og afborgun samkv. framansögðu. Ríkisábyrgðasjóður tilnefni af sinni hálfu fulltrúa til þess að fylgjast með samningsgerð að skipakaupum hverju sinni. Skal hann kanna sérstaklega í samvinnu við Fiskveiðasjóð, hvort samningsverðið geti talizt hæfilegt, enda verði ekki gengið frá ríkisábyrgð, nema slík könnun leiði það í ljós.

Að uppfylltum þessum skilyrðum felur rn. Ríkisábyrgðasjóði í hverju einstöku tilfelli að ganga frá ríkisábyrgð fyrir 80% af kaupverði togara þeirra, sem hér um ræðir. Fiskveiðasjóður tekur, sbr. 11. gr. laga um Fiskveiðasjóð, nr. 75 1966, 1. veðrétt í skipum þeim, sem hér um ræðir, enda verði Ríkisábyrgðasjóði framselt óafturkallanlegt, andvirði lána þeirra, er Fiskveiðasjóður veitir til kaupa skipanna. Við það er miðað, að innstæða lántakenda hjá Fiskveiðasjóði sé gengistryggð. Það er bundið í sömu mynt og viðkomandi erlend skipakaupalán. Ríkisábyrgðasjóður taki 2. veðrétt fyrir þeim hluta lánsins, sem umfram lán Fiskveiðasjóðs er, þ.e. 13.33/80 hluta af kaupverðinu. Fer rn. þess á leit, að Ríkisábyrgðasjóður geri öllum þeim aðilum, sem hyggja á kaup togara með ríkisábyrgð, grein fyrir þessum skyldum.“

Þetta svar vona ég, að nægi til þess að skýra það, sem hv. þm. spurði um.