19.12.1972
Efri deild: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það fer nú vart á milli mála eftir þær umr., sem orðið hafa í hv. Nd. nú í hálfan annan sólarhring, þó að þessari hv. þd. séu ekki ætlaðar nema nokkrar klukkustundir til að ræða málin, að flutningur þessa frv. er tvímælalaus brigð á gefnum loforðum hæstv. núv. ríkisstj. þann meiri hl., sem hún styðst við eða studdist við á tímum valdatöku sinnar, má áreiðanlega rökstyðja eins og margt annað, sem hér hefur verið sagt af hálfu hæstv. ríkisstj., þannig, að hann hafi út af fyrir sig getað ráðið úrslitum um, að núv. ríkisstj. komst til valda. Eftir 12 ára róg um fyrrv. stjórnendur landsins um, að þeir treystu aldrei til þess að leysa efnahagsvandann með öðru hagstjórnartæki en gengislækkun, tókst þeim að telja svo mörgum kjósendum trú um ágæti sitt, fyrst og fremst þó vegna þess, að þeir lofuðu að beita aldrei gengislækkun. Það er þessi hópur kjósenda, sem tvímælalaust hefur verið svikinn. Þess vegna má með fullum rökum segja, að meiri hl. hæstv. núv. ríkisstj. sé brostinn meðal kjósenda sjálfra.

Ég skal að öðru leyti ekki, herra forseti, teygja lopann í þessum umr. með endurtekningum á því, sem menn hafa bæði heyrt og lesið úr umr. um þetta mál þegar hér á hv. Alþ. Fyrri vitnanir og rökstuðningur hefur verið ljósprentaður og er til sýnis reyndar í skjölum Alþingis og fjölmiðlum um það, hvernig þessir hv. núv. stjórnarherrar rökstuddu og lofuðu fyrir síðustu kosningar því, að aldrei skyldi beitt gengislækkunum, ásamt öðrum þeim brigðum, sem þeir hafa nú þegar orðið berir að. Allt þetta er til í prentuðum skjölum, sem munu vitna bezt um heilindi þeirra í þessum vandamálum, sem og hvernig þeir hafa snúizt við ýmsum öðrum.

Ég get lýst því yfir fyrir hönd okkar Alþfl.- manna, að við lítum svo á, að þetta frv. sé skilgetið afkvæmi ríkisstj., sem hún verði sjálf að bera ábyrgð á. Við munum þess vegna ekki taka afstöðu til annars atriðis í frv. heldur en þess, sem 3. gr. þess felur í sér, og teljum, að þann vanda, sem fyrirhugaður er að leysa með löggildingu þess ákvæðis, hefði átt að setja í sérstök lög um Seðlabankann sjálfan. Gegn þeirri gr. frv. munum við því greiða atkv.

Það stóð ekkert á því hér á erfiðleikaárunum 1967–1969, að þáv. ríkisstj. og einstökum ráðh. væri brigzlað um heimatilbúinn vanda. Engum datt þó í hug að bera það á ríkisstj. þá, að hún hefði framkallað 40–50% lækkun á öllum okkar útflutningsafurðum, eins og staðreyndir töluðu þó um. En þær efnahagsráðstafanir, sem gera varð á stjórnarferli fyrrv. ríkisstj., voru þó fyrst og fremst tilkomnar utanlands frá, en það verður ekki sagt um þann vanda, sem hér er á ferðinni. Og það er meira að segja gengið svo langt í þeim gleðiboðskap, sem stjórnarherrarnir telja sig nú vera að flytja þjóðinni, að það er talið gengislækkun nú til lofs, að hún sé flutt undir allt öðrum kringumstæðum, og það jafnvel rök fyrir flutningi málsins. Og hver skyldi nú geta gert annað en viðurkenna, að aðstæður eru allt öðruvísi. Svo að við tökum einn veigamesta þátt útflutningsafurða okkar, fiskiblokkina, þá komst hún á sínum tíma, þegar verst gegndi, niður í 19 sent pundið, en nálgast nú óðum 50 cent, þ.e.a.s. meira en tvöfaldast. hetta er stærsti þátturinn í okkar útflutningsafurðum og ætti því að vera veigamikill. Það er hins vegar rétt, sem hæstv. forsrh. sagði áðan, að víxlanir hafa orðið á ýmsum veiðigreinum flotans, en ekkert meira en átt hefur sér stað frá ári til árs, svo lengi sem sögur fara af. Fyrrv. ríkisstj. mátti muna þennan dans mjög glöggt, þegar við lifðum ein mestu síldarár, sem hér hafa komið, og allt til þess, að engin síld sást og að beztu manna yfirsýn var talið ráðlegast að banna veiði á þeim fáu kvikindum, sem kringum landið dvöldust. En allt þetta var þá talið heimatilbúið ásamt verðlagi á afurðum okkar erlendis, og sjá allir, hver rök og skynsemi lágu að baki slíkum fullyrðingum.

Ég lofaði því í upphafi að teygja ekki lopann við þessa umr., a.m.k. ekki um þetta frv. Á því verður hæstv. núv. ríkisstj. að bera ábyrgð, enda skilgetið afkvæmi hennar og nú má færa full rök fyrir því, að vandinn sé heimatilbúinn. Geri hver sem vill samanburð á því þjóðarbúi, sem hæstv. ríkisstj. tók við, þegar hún settist í valdastólana 14. júlí s.l., og því ástandi, sem hún skilar nú.

Hæstv. forsrh. sagði áðan eða bað reyndar þdm. um að hugsa það, hvaða ástand hefði hér skapazt, ef ríkisstj. hefði ekki snúizt gegn vandanum. Fyrst og fremst höfðu stjórnarandstæðingar nú takmarkaða aðstöðu til þess að vega og meta, hvernig ástandið raunverulega var. En þegar við höfum nú þeirra eigin orð fyrir því, í hvaða þrotabú þeir hafa komið þjóðarbúinu, og ögranir um það, eins og af hálfu hæstv. forsrh. áðan, að hér hefði allt verið komið á vonarvöl eftir eins og hálfs árs stjórnarferil hans í ríkisstj., þá förum við að skilja og þá er það ekki lengur áróður okkar, að illa hafi verið stjórnað. Það er þeirra eigin viðurkenning. Vandinn er tilbúinn af þeim sjálfum og verður að leysast af þeim sjálfum. Það er út af fyrir sig mannskapsbragur að því. Þó að aðdragandinn væri með nokkuð einkennilegum hætti miðað við stjórnarhætti á Íslandi, er það samt virðingarvert að gera tilraun til þess að leysa vandann. Það er nú einu sinni skylda hverrar ríkisstj. En á þessum árum, sem ég minntist á áðan og lýsti ástandinu þá, var þess líka krafizt, að þáv. ríkisstj. segði af sér vegna þess, að Englendingar og Ameríkumenn vildu ekki kaupa fiskinn á því verði, sem við þurftum að fá fyrir hann. Nú þegar verðið hefur meira en tvöfaldazt á þessum sömu afurðum, kemur ríkisstj. og segir: Hér er allt í kaldakoli eftir eins árs stjórnarferil okkar, ef ekki verður snúizt gegn vandanum. — Það er út af fyrir sig yfirlýsing, sem gott er að hafa bókfesta.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. örfárra spurninga að lokum, sem ég tel, að gætu orðið innlegg í frekari umr. um málið og þó öllu heldur til upplýsingar fyrir okkur, sem eigum nú, eins og ég segi, að afgreiða málið á örfáum klukkutímum, þegar önnur d. þingsins er búin að hafa það í hálfan annan sólarhring. Þá er það í fyrsta lagi: Liggur það fyrir, hver áhrif þetta frv. muni hafa á kaupgjaldsvísitölu, þegar lögin eru komin til fullra framkvæmda? Í öðru lagi hefur verið mikið rætt um togarakaup hér á Íslandi undanfarin ár og nauðsyn þess að endurnýja togaraflotann. Þess er svo gjarnan getið í málgögnum núv. hæstv. ríkisstj., að um þessi mál hafi enginn hugsað nema hún. Sagan segir okkur þó, að það hafi verið búið að semja um kaup á 15 slíkum skipum, þegar ríkisstj. settist í valdastólana. En það er önnur hlið þessa máls og gefst kannske tækifæri til að ræða það síðar. En hefur það verið reiknað út, hver áhrif þetta frv. muni hafa á kaup þeirra um það bil 30 nýrra togara, sem búið er að semja um kaup á af fyrrv. og núv. ríkisstj.? Það er þegar vitað, að fyrir þessa gengislækkun kostuðu þessi skip frá 85–90 millj. upp í 140–150 millj. kr. hvert um sig. Augljós er því sá skellur, sem hlutaðeigandi aðilar hljóta að verða fyrir, ef ekki verður neitt úr bætt, því að skip þessi eru keypt að mestu með lánum erlendis frá. Og hver ber gengishallann af þessum skipakaupum?

Það hefur komið þegar fram í umr., að sumum þætti það ekki óeðlilegt, að út úr vísitölugrundvellinum skyldi nú tekið tóbak og áfengi, og margir gruna hæstv. ríkisstj. um, að þetta sé fyrirhugað að gera. Hvað sem um tóbak og áfengi má segja, þá er sala þess innanlands augljós vottur um, að hér er um almenna neyzluvöru að ræða. Við getum deilt um hollustuhætti þessara lyfja, en um hitt verður ekki deilt, að hér er um alvarlega, stóra útgjaldaliði að ræða fyrir almenning í landinu. Fram hjá þeirri staðreynd verður ekki gengið. Úrtaka þeirra úr vísitölugrundvellinum þýðir óhjákvæmilega, að um beina vísítölufölsun verður að ræða.

Vilja hæstv. viðstaddir ráðh. einnig skrifa hjá sér fjórðu spurninguna, svo er spurningalestrinum lokið, þannig að hæstv. forsrh. fái hana, þó að hann þurfi að hverfa frá. Og það er kannske veigamesta spurningin, sem ég tel nauðsynlegt, að svarað sé: Telur ríkisstj., að hún geti þrátt fyrir lögfestingu þessa frv. staðið við það loforð í stjórnarsáttmála sinum, að 20% kaupmáttaraukning eigi sér stað á gildandi samningstímabili núverandi kjarasamninga?

Við þessum spurningum vildi ég gjarnan fá sem greiðust svör, ekki einungis mín vegna, heldur vegna þess, að mér er kunnugt um, að þetta befur komið fram í umr. áður og ljós svör hafa ekki komið við þessum veigamiklu atriðum. Hér er um atriði að ræða, sem ekki þarf í hóp hv. þdm. að útlista, hve veigamikil eru, annars vegar um að ræða grundvöllinn að atvinnulífi í landinu og hins vegar grundvöllinn að þeim kjörum, sem verkalýðsfélögunum var lofað, að þeim mundu búin í tíð núv. ríkisstj.

Ég mun svo, eins og ég lofaði í upphafi, ekki teygja lopann frekar um þetta mál við þessa umr., nema sérstök þörf gerist á, en óska þess, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að svara þessum spurningum.