20.12.1972
Neðri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

95. mál, almannatryggingar

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh, fyrir það svar, sem hann gaf hér áðan, þó að ég verði að láta í ljós vonbrigði mín yfir því, að það skuli hafa komið fram í ræðu hans, að afgreiðslu málsins mundi verða frestað og það tekið upp að nýju, þegar þing kemur saman aftur. Ég held, að hæstv. ráðh. geri sér ekki grein fyrir aðstöðunni, eins og hún er í þessu máli. Ég benti á það hér áðan, að það liggur fyrir samþykkt frá Landssambandi ísl. útvegsmanna um, að útgerðin muni ekki fara í gang eftir áramót, nema lausu verði fengin áður á þessu tiltekna máli, þannig að það verður ekki um neina sérstaka áhættutryggingu fyrir útgerðarmenn að ræða eftir áramótin, þangað til lögin verða afgreidd, vegna þess að útgerðin fer alls ekki í gang, þannig að flotinn liggur allur bundinn og verður ekki með neina sjómenn eða aðra tryggða hjá sér. Þetta er sú staðreynd, sem liggur fyrir, og ég hélt satt að segja, að hæstv. forsrh. væri kunnugt um.

Ég skal ekki verða til þess að lengja þessar umr. mikið. En ég hef aðeins talað hér einu sinni áður, þannig að ég á rétt, eins og ég benti hæstv. forseta á, meira en gera aths. Ég skal þó ekki fara að tefja þessar umr. neitt úr hófi.

Hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að útgerðarmenn hefðu vaknað seint í þessu máli í sambandi við þá aðstöðu, sem þeir komust í við þá breytingu, sem gerð var á siglingal. á s.l. vori. Þetta er alveg rétt. En það voru fleiri en útgerðarmenn, sem vöknuðu seint við þetta. Ég er alveg sannfærður um, að hefðu þær upplýsingar, sem síðar komu í ljós, eftir að búið var að samþykkja frv., legið fyrir þeirri n., sem með þetta mál hafði að gera, þá hefði þetta frv. aldrei verið samþ. í því formi, sem það fór héðan frá þinginu. N. hafði að vísu álit ýmissa tryggingafræðinga.. Það kom þar margt fram, en það höfuðatriði, sem síðar kom fram og útgerðarmenn telja, að þeir séu við þessa breytingu komnir í það mikla áhættu, að þeir telja sig ekki færa um það að setja flotann í gang aftur, ef þessi kvöð á að hvíla á þeim. Ég skal að sjálfsögðu ekki fara í neinar umr. við hæstv. forsrh., sem er prófessor í lögum, um, hvernig dómstólar mundu túlka þetta. En þetta er það, sem liggur fyrir hjá Landssamband ísl. útvegsmanna í áliti, sem þeirra tryggingafræðingur hefur gefið þeim. Og ég hef ekki heyrt því haldið fram neins staðar, að þetta álit fengi ekki staðizt. Það kann að vera ágreiningur um það, hvernig málið kynni að verða túlkað fyrir dómstólum, en ég hef ekki heyrt niðurstöðum tryggingafræðings Landssambands ísl. útvegsmanna neins staðar mótmælt.

Hér kom fram hjá hæstv. forsrh., að sú bráðabirgðaendurtrygging, sem tekin var í haust hjá Brunabótafélagi Íslands o.fl., gæti staðið áfram. En telja verður, að þar sé um það dýra tryggingu að ræða, að útvegurinn treysti sér ekki til að halda henni áfram, þó að hann hafi gert það til að stöðva ekki flotann fram að áramótum í trausti þess, að búið yrði að ná samkomulagi við samtök sjómanna og koma þessu máli í það horf, að allir gætu vel við unað.

Hæstv. trmrh. taldi hér áðan, að hann hefði staðið við öll fyrirheit, sem hann hefði gefið aðilum í sambandi við lausn málsins. En þá hlýtur að vakna sú spurning: Hvers vegna dregur hann þá sína till. til baka? Hvers vegna lætur hann ekki d. skera úr um það, hvort hún vill fallast á þau fyrirheit, sem hann gefur, eða ekki? Ég tel, að hann megi ekki meta málið þannig, að ef sjónarmið hans eins ná ekki fram að ganga, þá verði málið stöðvað. Er það virkilega svo, eins og ég sagði áðan, — er ekki d. enn þá þess umkomin að gera sínar samþykktir, þó að það fari í bága við till. einhverra hæstv. ráðh? Ég held, að það væru eðlileg vinnubrögð, að hæstv. ráðh. léti á það reyna hér, hvort sú lausn, sem hann telur, að fullnægi þeim loforðum, sem hann hefur gefið og hann hefur lagt hér fram í formi brtt., nái samþykki d. eða ekki. Og ég tel, að hann yrði að sætta sig við það, þó að einhverjar breytingar yrðu gerðar á hans hugmyndum um lausn málsins.

Það, sem þarna virðist allt stranda á, er það, að komið hefur till. um að gefa öðrum tryggingafélögum kost á því að taka þessar tryggingar að sér auk Tryggingastofnunar ríkisins, sem sé að bjóða þær út á frjálsum markaði. Og það hefur verið fullyrt hér, að annaðhvort vildi Tryggingastofnunin taka allar tryggingarnar að sér eða ekkert af þeim. Nú hlýtur að vakna sú spurning í sambandi við þetta: Er ekki Tryggingastofnun ríkisins þess umkomin að taka þátt í tryggingum á frjálsum markaði? Ég hélt satt að segja, að Tryggingastofnunin væri svo sterkt tryggingafyrirtæki, að hún gæti vel orðið þar þátttakandi í, ef henni sýndist svo. Sú brtt., sem hér var boðuð af hv. 2. þm. Reykn., skuldbatt ekki Tryggingastofnunina til að taka að sér þessa tryggingu, veitti henni aðeins heimild til þess, og það veltur á mati tryggingaráðs á hverjum tíma hvort það vill taka þessar tryggingar að sér eða ekki. Ég vænti þess, að Tryggingastofnunin sé þess umkomin að taka eftir frjálsri leið þátt í þeim tryggingum, sem hér er um að ræða, eins og önnur tryggingafélög.

Það, sem hæstv. forsrh. sagði hér, þegar hann rakti málið, hvernig það hefði borið að, þegar það kom í hans hendur, er alveg rétt með farið. Ég var einn af aðilum í þeirri n., sem Landssambandið kaus til að eiga viðræður við stjórnvöld um þessi mál. Ég held, að ég hafi gert grein fyrir þessu hér við annað tækifæri áður. N. fór í góðri trú upp í trmrn. Hún fékk þau svör þar, að hjá trmrn. væri engar upplýsingar um þetta mál að fá, þó að hæstv. trmrh. segði nú, að þær hafi legið fyrir. En okkur var synjað um þær. Af þeirri ástæðu fór n. rakleiðis til hæstv. forsrh, og fór fram á það við hann, að hann kallaði saman þá aðila, sem þarna ættu hagsmuna að gæta, til þess að reyna á það, hvort ekki væri hægt að ná samkomulagi eftir frjálsri leið. Hann varð vissulega mjög snarlega við þeim tilmælum og sá um, að þessir aðilar voru kallaðir saman, og upp úr því komu þær hugmyndir og þær niðurstöður, sem hér hafa verið lagðar fram, þó að menn, sem þar hafa unnið að, greini á, hverjar niðurstöðurnar raunverulega hafi verið. Það skal ég alveg láta ósagt um, því að það mál þekki ég ekki. En hæstv. forsrh. gerði það, sem þessi n. fór fram á við hann, að þessum umr. var komið á.

En ég vil aðeins að lokum segja það, að ég harma mjög, að þetta mál skuli þurfa að stranda á þeim forsendum, sem það virðist ætla að stranda á nú, að það er hlaupin einhver stífni í málið, kannske á milli ráðh. eða á milli stuðningsmanna ríkisstj. og trmrh., því að málið er mikilvægt, ekki bara fyrir útgerðarmenn, heldur þjóðfélagið í heild. Ég tel það næstum því vansa fyrir hv. Alþ. að láta þetta mál stranda á ekki stærra atriði en alveg augljóst er, að hér er um að ræða. Og ég tel næstum skyldu Alþ. að leysa málið, því að það er vitað, að ef það verður ekki gert og ef málið verður dregið þangað til þing kemur saman aftur, þá skapast sú aðstaða hjá atvinnuvegunum, að um stöðvun verður að ræða, ef útgerðarmenn eru sama sinnis og þeir voru á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, þegar hann var haldinn og sú samþykkt, sem ég hef hér vitnað til, var gerð.