20.12.1972
Efri deild: 40. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

95. mál, almannatryggingar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. n. sagði áðan, erum við öll sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Nd. En vegna þess að ég er einn af þeim nm., sem voru með í því að útbúa þessar lagabreytingar, langar mig til að fara örfáum orðum þar um.

Að mestu leyti er hér um atriði að ræða, sem í raun og veru var búið að lögfesta sem bráðabirgðaákvæði eða þurfti að breyta fyrir árslok vegna laga, sem áður höfðu verið sett. Þó voru tvær veigamiklar efnisbreytingar í þessu frv., sem fram kom.

Önnur þeirra var um að breyta 2. gr., sem mikið hefur verið um rætt hér, þ.e.a.s., að breyta því ákvæði tryggingalaganna, að sýslumenn og bæjarfógetar skyldu fara með umboð Tryggingastofnunar ríkisins úti á landi. Sýslumenn og bæjarfógetar hafa haft tryggingaumboðin frá upphafi og lögum samkv. skyldir til að gegna þessum störfum frá 1950. Nú hefur orðið veigamikil breyting á starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins, ekki sízt þegar á að fara að breyta sjúkrasamlögunum, stækka þau mjög, fækka þeim, breyta þeim í svonefnd sýslusamlög, og að ýmsu öðru leyti hefur starfsemin breytzt og aukizt mjög mikið. Okkur fannst því í þessari n., að það væri ekki óeðlilegt, þótt á báða bóga gæti komið upp það sjónarmið, að æskilegt væri að hafa þetta ekki Íagaskyldu, að Tryggingastofnunin gæti beinlínis skyldað sýslumenn og bæjarfógeta til að taka þetta að sér, heldur yrði það að vera hagkvæmnisatriði og sem sagt, að það væri eitthvað lausara á báða bóga. Hins vegar var hv. Alþ. ekki ánægt með 2. gr. í þessu frv., eins og hún kom frá okkur, og á henni hefur orðið veigamikil breyting, þannig að valdið er lagt í hendur tryggingaráðs að ákveða, hvar umboðin skuli vera úti á landi. Nú er ekki nokkur vafi á því, að víða úti um land mun vera hagkvæmast fyrir Tryggingastofnunina að hafa umboðin hjá sýslumönnum og bæjarfógetum. Í öðru lagi er mjög líklegt, að ýmis embætti hafi beinlínis búið sig undir að hafa þessi umboð framvegis, enda tel ég nokkuð öruggt, að á bak við þetta liggi ekki það, að algerlega verði skipt um og stofnuð sérstök tryggingaumboð, heldur að möguleiki sé til þess, ef annar hvor aðili er óánægður, að þá sé hægt að breyta þarna um. Nú er þessi 2. gr. orðin þannig, að allir hafa getað orðið sammála um, að þetta væri vel orðað, og má fagna því, að þetta deilumál er úr sögunni.

Í öðru lagi er hér um nokkrar réttarbætur fyrir karlmenn að ræða, að þeir geta nú hlotið mæðralaun, eins og segja má.

Ég vildi líka geta þess, að þetta frv. er ekkert endanlegt frá þessari n. Hún hefur ekki starfað lengi og hafði rætt ótalmörg önnur atriði tryggingal., og ætlazt er til þess, að frá henni komi, jafnvel á þessu þingi, frekari breytingar á almannatryggingal. Svo viðamikill lagabálkur sem hér um ræðir þarf í rauninni stöðugt að vera í endurskoðun, enda hefur það sýnt sig, að l. hefur mjög oft verið breytt, og enn þá er þó margt eftir, sem við þurfum að lagfæra.

Ég vildi aðeins minnast hér á örfá atriði, sem komið hafa til orða hjá okkur, verið rædd nokkuð í n., án þess að þau séu enn komin fram, og er þar þá fyrst hið víðfræga tryggingarákvæði, sem valdið hefur miklum umr. Þetta ákvæði um tekjutryggingu var sett inn í frv., af fyrrv. ríkisstj., en kom ekki til framkvæmda fyrr en núv. ríkisstj. tók til starfa. Við framkvæmd þessa ákvæðis hafa komið ýmsir annmarkar í ljós, m.a. sú leiðindastaðreynd, að þótt öryrkjar og gamalmenni vinni 4 tíma á dag, við skulum segja allt upp í hálfan vinnudag, þá er ekki þar með sagt, að þeir beri neitt úr býtum, heldur fari vinnulaun þeirra beint til Tryggingastofnunar ríkisins, vegna þess að þá fellur tekjutryggingarákvæðið niður, og er þá oft, að hinar venjulegu örorkubætur að viðbættum vinnulaunum rétt aðeins ná tekjutryggingunni. Þar með sýnir það sig, að þeir hafa aðeins unnið til þess að greiða sitt kaup til baka í Tryggingastofnuninni eða ríkissjóði. Það er auðsjáanlegt, að lagfæringar þurfa að fást á þessu, en þó er hér um mikið vandamál að ræða, því að tekjutryggingin er mjög mikil nauðsyn í einhverju formi, meðan við getum ekki gert okkur þær háu hugmyndir, að við getum haft venjuleg ellilaun og örorkubætur sem fullnægjandi framfærslulífeyri.

Í öðru lagi er það staðreynd, að þrátt fyrir okkar fullkomnu sjúkrasamlög og góðu þjónustu þar, verða vissir sjúklingar að greiða mjög háar upphæðir í lyfjakostnað árlega, og þetta getur oltið á mörgum tugum þúsunda. Hér er um að ræða lyf, sem af einhverjum ástæðum hafa ekki verið tekin inn í kerfið, þannig að sjúkrasamlögin greiða ekki þessi lyf, enda þótt þau séu talin vissum sjúklingum nauðsynleg. Þarna er t.d. um að ræða bæði asmasjúklinga og exemsjúklinga, þar sem mörg ný lyf koma árlega, en aftur á móti tekur oft langan tíma að koma þeim hér á lyfjaskrá, þannig að þau séu greidd niður af sjúkrasamlögum. Við höfum rætt þetta allmikið og komumst að þeirri niðurstöðu, að líklega væri skynsamlegast, að hver sjúklingur greiddi aldrei hærra en einhverja vissa upphæð á ári. En um þetta voru ekki komnar fullar upplýsingar, þannig að þetta var ekki tekið með inn. í frv. okkar nú.

Enn fremur hefur verið rætt um, að bætur yrðu í framtíðinni miðaðar við einhverja ákveðna prósenutölu af ákveðnum launaflokki eða ákveðnum daglaunataxta. Þetta er mál, sem ég hreyfði hér í upphafi fyrra þings og öryrkjafélög hafa mikinn áhuga á, en þetta er enn á undirbúningsstigi. Enn fremur er fleira, sem varðar fatlaða, þar sem við erum enn þá alllangt á eftir okkar nágrönnum, en ætlunin er að lagfæra nú og reyna að bæta, svo sem möguleikar eru á.