29.01.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

141. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda í Vestmannaeyjum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að lýsa samúð með Vestmanneyingum, sem orðið hafa fyrir hinum ægilegu náttúruhamförum við eldgosið í Heimaey, sem hefur svipt þá heimilum og öðrum eignum og slitið þá frá heimabyggð og ættarslóðum að sinni.

Ég vil einnig láta í ljós þakklæti og virðingu í garð þeirra, sem innt hafa af höndum frjáls framlög og veitt hafa aðstoð til bjargar á margan hátt og boðið fram aðstoð til þess að græða sár, sem neyðarástand eldgossins hefur skapað.

Sjálfstfl. heitir á Íslendinga alla að mæta þeirri ógn, sem að höndum hefur borið í Vestmannaeyjum, með þegnskap og samhjálp. Ég hef áður lýst yfir og lýsi því enn yfir, að Sjálfstfl. er reiðubúinn til samstarfs um ráðstafanir til aðstoðar Vestmanneyingum í neyðarástandi þeirra.

Það er rétt, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að hann kvaddi okkur formenn stjórnarandstöðunnar til samráðs strax fyrsta dag þessa eldgoss í Vestmannaeyjum og næsta dag þar á eftir einnig og að við vorum kvaddir á fund ríkisstj. að morgni laugardags s.l. Þar voru lögð fram frumdrög að frv., sem þó var sagt, að ríkisstj. stæði ekki enn að sjálf, heldur væru till., sem hefðu verið mótaðar í samráði við hana af embættismönnum, og ætlazt til þess,, að þingflokkar fjölluðu um þessar till. síðar um daginn, eins og þeir munu hafa gert. Að loknum þeim fundi þingflokks Sjálfstfl. átti ég tal við forsrh. og gerði honum efnislega grein fyrir því, sem við vildum á þessu stigi málsins segja, og til þess að það fari ekki neitt á milli mála, vil ég — með leyfi hæstv. forseta — mega lesa hér upp það, sem þar var um bókað í þingflokki Sjálfstfl.:

„Þingflokkur sjálfstæðismanna er einhuga um, að veita beri Vestmanneyingum allan nauðsynlegan stuðning vegna eldgossins þar.

Varðandi frumdrög að frv. til l. um neyðarráðstafanir vegna eldgoss í Heimaey, sem formanni flokksins voru afhent á fundi með ríkisstj. í dag, vill þingflokkurinn taka fram eftirfarandi:

1) Það er skoðun þingflokks sjálfstæðismanna, að tillögur um neyðarráðstafanir vegna eldgoss í Heimaey eigi ekki að leggja fram í þinginu, fyrr en fullreynt er um samkomulag milli allra þingflokka.

2) Eðlilegast væri, að frv. um ráðstafanir væri flutt sem þingmannafrv. allra flokka.

3) Takmarka ber aðgerðir við aðstoð til Vestmanneyinga og úrbætur í tengslum við náttúruhamfarirnar.

4) Ýmis ákvæði frv, liggja utan við þann tilgang, og kanna ber fjáröflunarleiðir betur.

5) Leggja ber áherzlu á hið sérstæða tjón og atriði nátengd því.

6) Meta ber framboðna erlenda aðstoð og kanna möguleika bæði varðandi framlög og lán.

7) Jafnhliða ítarlegum tilraunum til samstöðu þingflokka ber að hafa samráð við bæjarstjórn Vestmannaeyja um aðgerðir.

Ef einhverjir hafa e.t.v. skilið orð hæstv. forsrh. áðan á þann veg, að það strandi á stjórnarandstöðunni, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki borið fram frv. það, sem hann sagði, að hún hefði tilbúið, þá verð ég að segja, að þá yrði ég að leiðrétta það. Í því væri nokkur misskilningur. Það er rétt, að í þessum punktum, sem ég las hér, felast ýmsar athugasemdir, og hæstv. forsrh. sagði einmitt í viðræðunum, við mig á laugardaginn, að við mundum þá setja fram okkar tillögur eftir helgina. Við höfum verið að vinna að því og mundum hafa gert það, ekki hér í þinginu, heldur í viðræðum á milli allra flokkanna. Við höfum lagt, — og ég hef gert það sjálfur á fundi með ríkisstj., — áherslu á það, að við reyndum fyrst og fremst í öndverðu að ná samstöðu, fullri samstöðu í þinginu, áður en nokkrar tillögur yrðu lagðar fram.

Ég tel nú, að ríkisstj. hafi með flutningi þessarar þáltill. fallizt á þau sjónarmið, að rétt væri að gefa vissar viljayfirlýsingar við fyrsta tækifæri, en gefa sér síðan tóm til þess að freista þess að ná samstöðu um efnishlið þeirra úrræða, sem síðar verður sjálfsagt fjallað um í þinginu. Ég hefði hins vegar vænzt þess, að stjórnarandstöðunni hefði verið gert aðvart um flutning þessarar þáltill. og jafnvel leitað samráðs um meðflutning af henni, og það er í raun og veru í samræmi við þær viljayfirlýsingar okkar, sem fram hafa komið í því efni, og það hefði verið útlátalaust að mínu áliti og ekki skapað nein vandkvæði.

Við sjálfstæðismenn erum samþykkir þessari málsmeðferð, og hún er í samræmi við þann vilja, sem við höfum áður lýst yfir, að láta nú koma fram vilja Alþingis og undirbúa síðan frekari aðgerðir. Við erum sammála því að kjósa þessa nefnd, sem þáltill. fjallar um, og einnig þá fjáröflun, sem þar er getið um. Við erum þess vegna efnislega samþykkir þessari tillögu. Þó vil ég mælast til þess, að till. fái skoðun í n., sem ég hins vegar tel ekki þurfa að taka nema mjög stuttan tíma, því að það kynnu að vera frekari heimildir en í henni felast, sem menn yrðu sammála um, að ríkisstj. fengi þegar í stað, En að sjálfsögðu er þetta ekki mælt til að tefja framgang málsins, og ég tel ekki, að þetta þurfi að tefja málið neitt, og við erum reiðubúnir til þess að afgreiða málið með öðrum nú þegar á þessum degi.

Ég tel ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta mál. Ég vil mega vona, að ég hafi í þessum fáu orðum gert nægjanlega grein fyrir afstöðu sjálfstæðismanna. Við höfum verið að vinna að því að móta tillögu í málinu yfir helgina, en eins og ég sagði áðan, er það allt miðað við það að freista þess í samráði og viðræðum milli flokkanna að fella saman þær hugmyndir, sem fram koma hjá fleiri aðilum, og ná að endingu samstöðu í málinu, áður en það kemur inn í þingið, þannig að um það þurfi ekki á þeim vettvangi neinn ágreiningur að vera. Þetta er okkar afstaða.