31.01.1973
Neðri deild: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

2. mál, Fósturskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Megininntak þess frv., sem hér kemur til meðferðar hv. d., er það, að Fóstruskóli Íslands, sem rekinn hefur verið af Barnavinafélaginu Sumargjöf síðan 1946 með stuðningi ríkisins og Reykjavíkurborgar, verði gerður að ríkisskóla og skólaskipan færð í það horf, sem talið er, að þarfir þjóðfélagsins fyrir það sérmenntaða fólk, sem frá skólanum kemur, krefjast. Þar á meðal er ráð fyrir því gert, að tekið sé fram í l., að skólinn sé jafnt fyrir karla sem konur, og því hefur orðið að ráði að breyta nafni hans úr Fóstruskóla. N., sem frv, samdi, vildi nefna hann Fóstrunarskóla. Því var breytt í Fósturskóla í meðförum í menntmrn., og það nafn er enn á stofnuninni, eftir að frv. hefur hlotið afgreiðslu frá Ed.

Hlutverk þessa skóla er skilgreint svo í frv., að hann eigi að mennta til uppeldisstarfa fólk, sem rækir uppeldishlutverk á hvers konar uppeldisstofnunum, sem annast börn allt frá fæðingu til 7 ára aldurs, t.a.m. á vöggustofum, dagheimilum, vistheimilum, leikskólum og forskólabekkjum. Er kveðið á um það, að skólinn veiti nemendum sínum ekki aðeins fræðilega þekkingu, heldur sjái hann einnig um starfsþjálfun nemenda, og því er kveðið á um, að að því skuli stefnt, að starfa skuli í tengslum við Fósturskólann og undir hans yfirstjórn æfinga- og tilraunastofnun, þar sem nemendum Fósturskólans séu búin skilyrði til að hljóta starfsþjálfun í umönnun og uppeldi barna á því aldursskeiði, sem um er að ræða, þ.e.a.s. fram til 7 ára aldurs.

Kveðið er á um það í 6. gr., að Fósturskólinn hafi náið samband við Kennaraháskóla Íslands og nánar verði ákveðið í reglugerð, hvernig því sambandi skuli háttað. Gert er ráð fyrir, að við skólann starfi skólanefnd þriggja manna af hálfu stjórnvalda, einn tilnefndur af menntmrn., annar samkv. tilnefningu Fóstrufélags Íslands og þriðji samkv. tilnefningu Barnavinafélagsins Sumargjafar eða Reykjavíkurborgar, ef sá háttur breytist, að Barnavinafélagið Sumargjöf færi ekki lengur með stjórn stofnana í Reykjavík, sem annast um börn innan 7 ára aldurs. Þá skal starfa við skólann skólaráð skipað skólastjóra, tveimur kennurum og tveim fulltrúum nemenda.

Gert er ráð fyrir, að inntökuskilyrði verði öllu strangari en tíðkazt hefur. Til að hljóta skólavist kemur í fyrsta lagi til greina, að væntanlegir nemendur hafi lokið stúdentsprófi eða kennaraprófi. Í öðru lagi skulu þeir hafa lokið gagnfræðanámi að viðbættu tveggja ára námi í framhaldsdeild gagnfræðaskóla eða tveggja ára námi í öðrum skólum, sem metnir eru og veita hliðstæða framhaldsmenntun, svo sem verzlunarskóla, lýðháskóla eða húsmæðraskóla. Í þriðja lagi skal heimilt að veita umsækjendum skólavist, þó að þeir fullnægi ekki menntunarkröfunum, sem settar eru í tölul. á undan, með hliðsjón af hæfniprófum eða öðrum tiltækum matsaðferðum á skilyrðum nemenda til að tileinka sér kennsluna, sem í boði er, og að nokkru með tilliti til starfsreynslu á stofnunum, sem skólinn menntar starfslið til. Nemandi skal eigi tekinn til náms yngri en 18 ára, og heimildarákvæði er um að kveða svo á í reglugerð, að nemendur skuli allir ganga undir hæfni- eða persónuleikapróf, og lýtur það að því, að aðsókn að Fóstruskólanum hefur a.m.k. hin síðari ár verið meiri en hægt hefur verið að anna.

Kveðið er á um, að námstími í skólanum skuli vera 3 ár, og er það ekki mikil breyting frá því, sem tíðkazt hefur síðustu árin. Í upphafi var Fóstruskóli Sumargjafar tveggja ára skóli, en 1966 hófst starfsemi undirbúningsdeildar, þar sem átti sér stað nokkurt bóklegt nám og 7 mánaða verklegt nám, svo að segja má, að undanfarin ár hafi hér verið þriggja ára skólaganga.

Síðan eru í frv. ýmis ákvæði um starf skólans og hversu með skuli fara breytinguna frá Fóstruskóla Sumargjafar til Fósturskóla, sem sé að öllu ríkisstofnun. Rökin til þess að gera Fóstruskólann að ríkisskóla eru fyrst og fremst þau, að þar sem svo var ástatt, þegar fóstrumenntun var hafin, að þörfin á starfsliði var að mjög miklu leyti bundin við Reykjavík, er nú orðin sú breyting á, að þörfin á sérmenntuðu fólki til umönnunar barna og uppeldis á uppeldisstofnunum sniðnum fyrir aldursskeiðið undir 7 ára aldri er til staðar um land allt á hinum fjölmennari stöðum. Þar að auki hefur aðsókn að skólanum á undanförnum árum verið sízt minni utan af landsbyggðinni heldur en af þéttbýlissvæðinu hér í Reykjavík og nágrenni. Þá er ekki síðri röksemd fyrir nauðsyninni á að gera Fóstruskólann að ríkisskóla og að efla hann, að fyrir hv. Alþ. liggur frv. um framlag ríkisins til rekstrar og stofnunar dagvistunarstofnana fyrir börn innan 7 ára aldurs, og eigi það frv. að ná tilgangi sínum, er, jafnframt því sem framfög ríkisins til þessara stofnana verði aukin, þörf á að efla þann skóla, sem á að sjá þessum uppeldisstofnunum fyrir hæfu og vel menntuðu starfsliði.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði eftir þessa umr, vísað til hv. menntmn.