12.02.1973
Neðri deild: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

150. mál, ítala

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það fer ekkert á milli mála, að hér er hreyft mjög þýðingarmiklu máli og á athyglisverðan hátt. Í sambandi við það langar mig til að rifja það upp, að fyrir rúmu ári skipaði hæstv. landbrh. 7 manna mþn. til þess að vinna að landgræðslu- og landnýtingaráætlun fyrir landið og þá helzt þannig, að hægt væri að hafa drög að henni tilbúin fyrir hátíðarárið 1974, og þá með það í huga, að á því ári væri hægt að taka ákvarðanir í þessu máli, sem gætu valdið verulegum straumhvörfum til bóta.

Þessi n. tók upp samstarf við samtök bænda, samtök áhugamanna um landgræðslumál, og einnig. beitti hún sér fyrir því, að fram færi úttekt á þessum málum í öllum héruðum landsins, sem gerð væri sameiginlega af búnaðarsamtökum héraðanna og gróðurverndarnefndum í héruðunum, og lagði nefndin áherzlu á, að sú úttekt yrði gerð sameiginlega af þessum aðilum, en ekki sitt í hvoru lagi. N. hefur sem sé unnið frá því sjónarmiði, að það sé ekki hægt að skilja í sundur landgræslu og gróðurnýtingu, þetta verði að fara saman, því aðeins verði góður árangur af landgræðslu, að skynsamleg gróðurnýting eigi sér einnig stað.

Það er skemmst frá því að segja, að málaleitun n. um, að þetta væri skoðað heima fyrir í héruðunum, hefur verið tekið með afbrigðum vel, enda sýnilegt, að það, sem þar var farið fram á, var eins og talað út úr hjarta þeirra manna, sem um þessi mál fjalla í héruðunum. Hefur n. fengið mjög athyglisverðar skýrslur um þessi efni úr nálega öllum héruðum landsins, og hafa þær verið að koma fram undir þetta, og er nú tekið til að vinna úr þeim og enn fremur þeim álitsgerðum, sem lágu fyrir frá heildarsamtökum landbúnaðarins og samtökum áhugamanna í þessu efni, og þeim álitsgerðum, sem lágu fyrir frá þeim sérfræðingum, sem sérstaklega höfðu skoðað þessi mál, svo sem álitsgerð Ingva Þorsteinssonar.

Þessi mþn. um landgræðslu og landnýtingu hefur skipt sér niður í undirnefndir nú eins og stendur til þess að vinna að ýmsum þáttum þessa máls, og við höfum starfandi í henni undirnefnd, sem vinnur að því að skoða sérstaklega gróðurnýtingarhliðina eða kannske réttara sagt hina félagslegu hlið þessara mála, þ. á. m. meginstefnuna í gróðurnýtingunni eða meginstefnuna varðandi beitarafnot af landinu. Þ. á. m. hefur sú undirnefnd til skoðunar þau lög, sem gilda um þessi efni, lög um ítölu og um fjallskila- og afréttamálefni og önnur lög, sem snerta sérstaklega þennan þátt. Í þessari undirnefnd eru Jónas Jónsson aðstoðarmaður landbrh., Pálmi Jónsson alþm. og Þorvaldur Jónsson.

Þannig er unnið á vegum þessarar n. núna í vetur, og ég taldi rétt að segja hér frá þessu. Ég vil skjóta því fram, að mér sýnist það vera skynsamlegt og eðlilegt, að þetta frv. yrði sent til þessarar landgræðslu- og landnýtingarnefndar til skoðunar, og gæti það þá fengið athugun í þessari undirnefnd, sem einmitt vinnur að því með öðru fleiru að skoða þessa löggjöf.

Ég er fyrir mitt leyti alveg sannfærður um, að það verður að taka upp nýja stefnu í gróðurverndar- og beitarmálum. Ég er alveg sammála flm. um, að lögin um ítölu hafa nálega ekkert verið notuð. Það verður að breyta talsvert stefnunni í beitarmálum, og það kemur fram úr nálega öllum byggðarlögum landsins, að menn eru ákveðnir í að breyta til í þessu, hólfa landið meira niður og nota það skipulegar en áður til beitar, hafa góða gát á afréttunum og nota þær á ýmsum svæðum öðruvísi en gert hefur verið og varlegar. Hafa ýmsar samþykktir verið gerðar í þessa átt, sem hv. flm. minntist á í sumar, en aðrar, sem ekki komu fram í hans máli. Það gengur allt í þessa átt, að endurskoða stefnuna í beitarmálunum, og þá hafa menn rekið sig á það, að lög um ítölu eru alveg ófullnægjandi og þarf að endurbæta þau. Ég þori ekki að segja um, hvort það á að gera það nákvæmlega á þennan hátt, sem hv. flm. stingur upp á. Þetta er sem sé í skoðun á vegum n., sem ég gat um. Ég stóð upp til að segja frá þeirri vinnu, sem þar hefur verið unnin í þessu efni, og að þar liggur fyrir mikið af ágætum upplýsingum, sem verið er að vinna úr, og að þar er starfandi undirnefnd, sem með öðru fleiru hefur þessi efni til skoðunar.