15.02.1973
Sameinað þing: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

107. mál, íbúðarlán úr Byggingarsjóði ríkisins

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti. Það eru nokkrar aths., sem ég finn mig tilknúinn að gera við ræðu hæstv. félmrh. Hann upplýsti nú, að hann hefði eða ætlaði að skrifa viðkomandi þn. um að gera brtt. við frv. um breytingar á húsnæðislöggjöfinni, sem liggur nú fyrir þinginu, um það, að heimilt væri að breyta upphæð íbúðarlánanna árlega. Það er ágætt, að hæstv. ráðh. hefur komizt í skilning um nauðsyn þessa. Ég held, að þetta sé rétt stefna. En hvort það er vegna þess, að þessi þáltill. kom fram, eða ekki, þá er allt gott, sem miðar í rétta átt hjá hæstv. félmrh.

Hæstv. félmrh. sagði, að ég hefði verið óánægður með, að það skyldi verið búið að taka ákvörðun um hækkun íbúðarlánanna. Hér snýr hann hlutunum algerlega við. Ég lýsti einmitt ánægju minni yfir því, sem gert hefði verið. Ég lýsti því yfir, að það væri ekki neitt nema gott um það að segja. Ég held, að þetta séu harla fátækleg rök í málinu, enda var ræða hæstv. félmrh. ekki þess eðlis, að hann virtist taka svo þýðingarmikið mál sem hér er um að ræða alvarlegum tökum. Um það báru ekki síst vott síðustu orðin, sem hann lét falla í ræðu sinni og gefa mér tilefni til nokkurra frekari hugleiðinga um þessi mál.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði farið betur á því, ef í þáltill. minni hefði verið ein setning um það, hvar ætti að taka fjármagnið. Það er hægt að líta á það mál frá ýmsum sjónarmiðum. Ég geri ráð fyrir því, að það sé eðlilegt að setja inn í slíka þáltill. till. um nýja tekjustofna fyrir veðlánakerfið til íbúðarhúsabygginga. Auðvitað hugleiddi ég þetta mál. En það virðist vera komið í ljós, að ég hef tekið of mikið mark á orðum hæstv. félmrh., og mátti ég kannske vita, að það væri ekki mjög mikið mark á þeim orðum hans takandi. En hæstv. félmrh. hefur sí og æ, þegar húsnæðismálin hefur borið á góma, síðan hann kom í þetta embætti sitt, verið að lofa því, að tekjustofnar veðlánakerfisins yrðu auknir og styrktir. Og hæstv. félmrh. tók margoft fram, að hann væri að vinna að þessu, — hann tók það margoft fram í umr., sem urðu hér í Sþ. fyrir ári um till. til þál. um aðstoð við leiguhúsnæði sveitarfélaga. Þessi ráðh. lagði mikla áherzlu á þetta sama efni í umr. um frv. um breyt. á húsnæðislöggjöfinni, sem hann lagði fram undir þinglok á síðasta þingi. Bæði ég og aðrir inntu hæstv. félmrh, eftir því, hvað liði aðgerðum hans til að efla og styrkja tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins. Hvað sagði hæstv. ráðh.? Hann lét drýgindalega og sagði: Hafið engar áhyggjur af þessu, ég er að vinna að því. — Og í umr hér á Alþ. í maí s. l. sagði þessi hæstv. ráðh., þegar hann var að svara mér, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég held, að það verði bezt að láta mig hafa áhyggjurnar af því og að hv. þm. bogni ekkert í baki undan þeim áhyggjum. Ég hugsa, að það verði ekki hann, sem útvegi það fé.“

Svo mörg eru þau orð, sem hæstv. félmrh. sagði. Hvað á maður að halda? Ef hæstv. ráðh. er á annað borð tekinn alvarlega, hvað á þá að halda? Eftir að hæstv. ráðh. hefur sagt þetta með þessum orðum og marglýst yfir í þinginu að efni til, hvað hann ætli að gera í þessu efni, þá ætlar hann að gera það að einhverri ádeilu á mig, að ég skuli ekki hnýta aftan í þáltill. mína till. um tekjuöflun fyrir Byggingarsjóð ríkisins. Þetta tel ég hámark ósvífni og ábyrgðarleysis. Það væri ekkert við þessu að segja, ef það varðaði einungis þennan hæstv. ráðh. En þetta varðar eitt af mestu framfaramálum, nauðsynjamálum og hagsmunamálum fyrir þjóðfélagið í heild.

En þó að hæstv. félmrh. talaði ekki af meiri ábyrgðartilfinningu um þessi mál en raun bar vitni um, viðurkenni ég, að það er nokkur framför hjá hæstv. ráðh. að leggja til, að það verði hægt að ákveða árlega upphæð húsnæðislánanna. En það breytir ekki því, að það er fullkomin ástæða og rök fyrir því að hækka nú þegar á þessu ári lánin upp í 900 þús. kr., eins og till. mín gerir ráð fyrir. Hæstv. ráðh. færði engin efnisrök gegn till. minni. Hann gaf þessar upplýsingar um tilmæli sín til þn. um að breyta löggjöfinni í afsökunarskyni. En það er ekki full afsökun og engin afsökun í þessu máli. Till. mín fjallar um það, að nú þegar verði lánin hækkuð upp í 900 þús., og ef hugmynd hæstv. ráðh. um, að hægt sé að breyta þessu árlega, verður samþ. og verður að lögum, þá getum við haldið áfram og hækkað lánin á næsta ári úr 900 þús. Og eins og nú stefnir í efnahags- og dýrtíðarmálum, þykir mér ekki ólíklegt, að það sé full þörf á slíku.