15.02.1973
Sameinað þing: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

107. mál, íbúðarlán úr Byggingarsjóði ríkisins

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti. Mér finnst hlutur hæstv. félmrh. farinn að verða heldur slakur í þessu máli. Ég veit ekki hvar þetta endar, ef hann ætlar að halda margar ræður með sama áframhaldi. Það fyrsta, sem hæstv. ráðh. sagði, var að ég hefði vitnað lauslega og eftir minni í ummæli hans. Nei, ég vitnaði ekki lauslega og ekki eftir minni. Þau ummæli, sem ég hafði eftir ráðh. áðan, eru hér skrifuð fyrir framan mig, og þau voru viðhöfð í Sþ. 16. maí 1972. Ég hef hér enn fremur önnur ummæli hæstv. ráðh., en nokkur orð fyrst.

Hvert var aðalefni ræðu hæstv. félmrh.? Það var, að það hefði verið haldið uppi hrakspám á s. l. ári um getu veðlánakerfisins, og hann eignaði mér þetta, — ég tók það þannig, — eða stjórnarandstæðingum. Hverjir voru það, sem komu með upplýsingar inn á Alþ. á s. l. ári um, að það væri svo hörmulega komið fyrir veðlánakerfinu, að það vantaði um þess fjármagns, sem þyrfti, til þess að það gæti gengt hlutverki sínu, þ. e. a. s. vantaði um 500 millj.? Hver var það, sem kom með þetta, ég segi: fyrstur manna inn á Alþ.? Það var hæstv, félmrh. Og ég vitna nú ekki frekar en áðan í ummæli hans eftir minni. Nei, það er líklega betra að gera það ekki, ef það er verið að væna mann um að fara ekki með réttar tilvitnanir. 24. febr. 1972, fyrir svo að segja ári, segir hæstv. ráðh. hér í Sþ., með leyfi hæstv. forseta, „að niðurstaðan sé sú, að til þess að fullnægja skyldum Byggingarsjóðs ríkisins gagnvart byggjendum á árinu 1972 með slíku sniði og áður, þ. e. a. s. að afgreiða lögmæltar umsóknir fram til 1. nóv., skulum við segja, þá muni vanta til þess 520 millj, kr., sem þurfi að útvega sem nýtt fjármagn til stofnunarinnar, sem annars hefur sem fastar tekjur milli 900 og 1000 millj. kr. sem eigið ráðstöfunarfé. En það hrekkur ekki til og þarf þarna um að bæta um allt að því þriðjung.“ Þannig hljóða orð hæstv. félmrh. nákvæmlega.

Hæstv. félmrh. lagði auðvitað út af þessu. Hvað var það, sem hann lagði út af þessu? Það var það, að fyrrv. ríkisstj. hefði skilið við veðlánakerfi íbúðarhúsabygginga í rúst. Auðvitað var það svo, ef þetta var rétt, sem hæstv. félmrh. sagðist vera að upplýsa. Þá var húsnæðismálakerfið gersamlega ófært um að fullnægja sínum verkefnum. Og þetta skrifaði hæstv, ráðh. á reikning fyrrv. ríkisstj. Ég átti mörg og mikil orðaskipti við hæstv. ráðh. á síðasta þingi, bæði í þessum umr., sem ég er nú að vitna í, og í öðrum umr., bæði hér í Sþ. og í Ed. Ég hélt því ekki fram, að viðskilnaður viðreisnarstjórnarinnar í þessum málum hefði verið með þessum hætti. Ég hélt því aldrei fram. Ég gerði ráð fyrir, að miðað við óbreytt lán mundu nægja nokkurn veginn þeir tekjustofnar, sem settir voru í löggjöfina 1970. Það var mín skoðun. En ef átti að taka mark á ummælum hæstv. félmrh., þegar hann segist vera önnum kafinn við að útvega nýtt fé, þá hefði mátt ætla, að það væri óhætt að bera fram þáltill. um hækkun íbúðalána til samræmis við hækkun á byggingarvísitölu án þess að grípa fram fyrir hendurnar á ráðh. til þess að benda á, hvar fé skyldi taka. Og ég vil enn fremur taka það fram, að undir meginhluta þessarar hækkunar úr 600 upp í 900 þús. er hægt að standa með óbreyttum tekjustofnum, vegna þess að með aukinni veltu í þjóðfélaginu gefa þeir hærri upphæðir. Það sést á þessum hringsnúningi hæstv. félmrh., að það er ekkert að marka það, sem hann segir um svo þýðingarmikil mál sem þessi. Hann segir á síðasta þingi, að allt sé í kaldakoli í húsnæðismálunum, en núna er hann að hæla sér yfir því, eins og hann orðaði það í ræðu sinni hér á undan, að húsnæðismálastjórn hafi staðið við allar skuldbindingar sínar 1972. Þetta gerði húsnæðismálastjórn að óbreyttum tekjustofnum. Hvers konar málflutningur er þetta? (Félmrh.: Var það nú alveg?) Var það nú alveg? Ráðh. þarf ekki að óttast það, ég kem að lífeyrissjóðunum.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að vegna þess að veðlánakerfið hefði staðið sig svona vel árið 1972, hefðu hrakspárnar sprungið á mér. Nei, þetta er ekki hægt, hæstv. félmrh. Ég held, að hrakspárnar hafi ekki verið mínar. Ég held, að þær hafi sprungið í föðurhúsunum. Ég held það, að það sé enginn vafi á því. Allt, sem hæstv. félmrh. er búinn að segja um það, að hann ætli að efla tekjustofna tryggingarsjóðs ríkisins og veðlánakerfisins, er skrum og markleysa fram til þessa. Og ég nota þessi orð: skrum og markleysa, því að alþm. hafa leyfi til þess að ætla, að það sé eitthvað komið út úr starfi hæstv. félmrh. í þessu efni, frá því að núv. ríkisstj. var mynduð, en síðan hefur hann verið að tala um þessi mál og lofa. Það hefur ekkert komið.

En hæstv. félmrh. ætlar, að það komi honum að haldi, hálmstráið, sem hann var að nefna, lífeyrissjóðir. Ég segi: hálmstráið, eins og hann er búinn að leika það mál. En á því máli hefði mátt halda að sjálfsögðu með allt öðrum hætti. Hæstv. ráðh. lofaði eða sagði í umr. á síðasta þingi, að hann ætlaði að útvega Byggingarsjóði ríkisins frá lífeyrissjóðunum 200–250 millj. á s. l. ári. Auðvitað stóðst það ekki frekar en annað, sem hæstv. ráðh. hefur verið að segja og bera hér á borð. En hann hefur komið því til leiðar, að lífeyrissjóðirnir létu á árinu 1972 110 millj., og það mun vera von til þess, að það geti komið 40–60 millj. í viðbót, en þó ekkert víst, og alls ekki meira, eins og málin standa nú. Og hvað um þetta? Björgulegt fyrir veðlánakerfið? Hvernig eru þeir samningar, sem hér hafa verið gerðir um þessa hungurlús, þegar miðað er við, að veðlánakerfið þurfi 1500 millj., eins og hæstv. ráðh. gekk út frá í umr. um þessi mál á síðasta þingi. Það er samið um það, að lífeyrissjóðirnir láni þetta til 10 ára með 5% vöxtum, en féð á að lána til 25 ára með 4% vöxtum. Nú heldur hæstv. ráðh., að þetta geti bjargað honum, svo að hann missi ekki andlitið í þessu máli, að hann hafi gert eitthvert afrek í sambandi við lífeyrissjóðina, sem hafi mikla þýðingu fyrir veðlánakerfið. Sannleikurinn er sá, að það er furðulegt, að hæstv. félmrh. skuli ekki hafa önnur ráð en að gera slíka samninga, sem er ekki öðru líkara en séu nauðungarsamningar frá sjónarmiði Byggingarsjóðs ríkisins og veðlánakerfisins. Hér er þessi hæstv. ráðh. að fara inn á nýja braut, — algerlega nýja braut, sem aldrei hefur verið farin áður, ekki einu sinni af þessum hæstv. félmrh., þegar hann var áður ráðh., og var þó helzt að vænta þess, — það er verið að taka lán fyrir hönd byggingarsjóðsins og verja þeim til útlána með miklu lakari og óhagstæðari kjörum. Ef verður haldið áfram á þessari leið hæstv. félmrh., er greinilegt, að verið er að grafa undan þeim þýðingarmikla sjóði, sem Byggingarsjóður ríkisins er. Það er greinilegt, að það getur farið á sama veg og fór fyrr á árum fyrir stofnlánasjóðum landbúnaðarins, þegar gripið var til áþekkra og hliðstæðra ráðstafana til að krafla sig fram úr málunum í bráð.

Nei, hæstv. félmrh. vex ekki af þessum aðgerðum. Og það er sama, þó að hann hafi minnt mig á að koma að þessum þætti málanna.

Ég hef gert ráð fyrir því og það er kannske yfirsjón mín, að það mætti taka eitthvert mark á því, sem hæstv. félmrh. hefur sagt um þessi mál, að það mætti gera ráð fyrir því, að það kæmi eitthvað, það fæddist einhver hugmynd, það kæmi fram einhver till. um það að efla tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins. Og það er lífsspursmál, að eitthvað gerist í þessum málum. Þegar ég gerði þáltill., sem hér liggur fyrir, eins og ég vék aðeins að áðan, gerði ég ráð fyrir, að í meginatriðum væri hægt að standa undir henni, undir hækkuninni, með óbreyttum tekjustofnum, ég segi: að meginhluta. En við þurfum að gera meira. Við þurfum að efla og bæta kerfið, þannig að lánin hækki ekki einungis í hlutfalli við byggingarvísitölu, þau hækki meira en byggingarvísitalan, til þess að við getum haldið áfram á þeirri braut að gera meira fyrir húsbyggjendur, að útlánakerfið veiti hlutfallslega hærri lán, það sé hægt að standa undir hærra hlutfalli af byggingarkostnaðinum með lánsfé úr Byggingarsjóði ríkisins en áður. Þetta er það markmið, sem þarf að vinna að, og þetta er það, sem hefur verið unnið að á undanförnum árum, frá því að hæstv. félmrh. lét af embætti, sællar minningar, þegar vinstri stjórnin lét af völdum 1958, og þar til hæstv. félmrh. tekur nú aftur við þessum málum. Hvers vegna þarf þetta svo að vera, að alltaf þegar þessi maður fær æðstu stjórn í húsnæðismálunum, þá skuli þurfa að verða stöðvun? Hvers vegna getum við ekki haldið áfram að efla kerfið, eins og við höfum gert? Og ef við ætlum að gera myndarlegt átak í því efni, hefðum við þurft að hækka lánin verulega meira en upp í 900 þús. En ég er ekki að gera meiri kröfur til hæstv. ráðh. en það sé nokkurn veginn reynt að halda í horfinu. Það sýnist honum fjarstæða. Hvað haldið þið þá, að hæstv. ráðh. finnist um að stíga eitt skref áfram í þessum málum, eins og hefur verið gert?

Til upplýsinga um það, hvað hefur verið gert í þessum efnum, má t. d. rifja það upp, að þegar viðreisnarstjórnin tók við völdum 1959, var vísitala byggingarkostnaðar 132 stig. En þegar stjórnin lét af völdum, var vísitalan 535 stig eða hafði hækkað um 305.3%. Þetta eru staðreyndir. Þetta er um vísitöluna. En tökum svo lánin, hina hliðina. Þegar viðreisnarstjórnin tók við völdum árið 1959, var hámarksupphæð íbúðarlána 100 þús. kr. En þegar stjórnin lét af völdum, var upphæð lánanna 600 þús. kr. Lánin höfðu hækkað um 500%, sexfaldazt, á sama tíma sem byggingarvísitalan hækkaði einungis um 305.3%. Sjá allir, hvað hefur áunnizt á þessu tímabili, og það hefur áunnizt í þessu efni vegna þess, að það var stefnan að bæta ástand þessara mála. Það var ekki misst sjónar á því markmiði að hækka íbúðarlánin hlutfallslega meira en sem nam hækkun byggingarvísitölunnar. Þegar húsnæðislöggjöfin var sett 1970, voru tekjustofnarnir miðaðir við það, og stöðugt á viðreisnartímabilinu, þegar breytingar voru gerðar í þeim efnum, var miðað við það, að þetta væri hægt að gera. Og það var hægt.

Heldur nú hæstv. félmrh., að viðreisnarstjórnin hafi gert svo vel í þessu efni, að það þurfi ekki að halda áfram, gera enn þá betur? Ég er ekki sammála hæstv. félmrh., ef hann er þeirrar skoðunar. Viðreisnarstjórnin gerði ekki nógu mikið. Hún gerði, að ég ætla, mjög virðingarverða og heiðarlega tilraun til þess að bæta ástand þessara mála og gerði það með árangri. En við erum ekki komnir á leiðarenda í þessu efni, hæstv. félmrh. Þó að viðreisnarstjórnin hafi gert vel, er enn verk að vinna. Og sannleikurinn er sá, og það er alvörumál, að við búum við alls kostar ófullnægjandi ástand í þessu efni, þó að það hafi verið að batna. Og það þolir engan samanburð við þau lönd, sem eru sambærileg eða ættu að vera í þessu efni, eins og t. d. Norðurlöndin og aðrar nálægar þjóðir, þar sem það er algeng regla og hið almenna, að lánað sé 80–90% af byggingakostnaði eða jafnvel meira. Hvað skyldi vera lánað mikið hér hjá okkur? Það er allt of lítið. Það mætti orða það svo, að það væru um 40% af byggingarkostnaði, þegar miðað væri við tveggja, þriggja herbergja íbúð, að sjálfsögðu miklu minna, þegar um stærri íbúðir er að ræða, og kemur það ekki sízt niður á barnmörgum fjölskyldum. Nei, við þurfum að hækka íbúðarlánin mikið, og við megum ekki slaka á í því efni.

Við þurfum að hækka upphæð lánanna. Við þurfum að gera meira. Við þurfum líka að lengja lánstímann. Í því efni var að vísu nokkur framþróun í tíð viðreisnarstjórnarinnar. Þegar viðreisnarstjórnin tekur við völdum 1959, eru látin tvenns konar, svokölluð A-lán og svokölluð B-lán, sem voru vísitölulán. A-lánin voru til 25 ára, B-lánin til 15 ára. Í tíð viðreisnarstjórnarinnar var skref stigið fram á við, að allt lánið er til 25 ára. Auðvitað þurfum við að halda áfram á þessari braut, veita lánin til lengri tíma.

Þá er þriðja atriðið, sem varðar lánskjörin og er að sjálfsögðu ekki þýðingarminnst. Það eru vextirnir, fjármagnskostnaðurinn fyrir þá, sem eru að byggja. Það mál er stórt, og við þurfum á næstu árum, ef vel á að vera, að taka þau mál til gagngerðar athugunar. En ég skal ekki lengja mál mitt með því að fara út í það veigamikla atriði. (Forseti: Ég vildi leyfa mér að spyrja hv. þm., hve langt hann eigi eftir af ræðunni). Ég er um það bil að ljúka henni hæstv. forseti.

Ég held, að ég hafi með því, sem ég hef sagt, sýnt fram á, að það var rík ástæða til þess að bera fram þá þáltill., sem hér er til umr. Ég tel, að hér sé um svo sjálfsagt mál að ræða, að það sé naumast hugsanlegt, að það sé meiri hl. fyrir því á hv. Alþ. að fella svo mikið nauðsynjamál og augljóst sem hér er um að ræða og viðkomandi stjórnvöld hafa viðurkennt að nokkru leyti. Í þessum umr. hefur svo komið fram, að hæstv, félmrh. hefur gert sig að fullkomnu viðundri á því, sem hann hefur mælt í þessum umr. og þegar tekið er mið af því, sem hann sagði um sama efni á síðasta þingi. Þá var það ádeiluefni þessa hæstv. ráðh., að allt væri í kaldakoli í húsnæðismálunum eftir viðskilnað viðreisnarstjórnarinnar, veðlánakerfið væri í rúst. Nú í þessum umr. hælir hann sér af því, að veðlánakerfið hafi getað staðið við allar skuldbindingar sínar 1972. Þetta sýnir, að í þessum efnum byggjum við á tryggum grunni, sem viðreisnarstjórnin lagði, en viðfangsefnið er að byggja ofan á, og till, mín miðar í þá átt.