22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

107. mál, íbúðarlán úr Byggingarsjóði ríkisins

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég er mjög ánægður með þær umr., sem hér hafa farið fram. Ég vil aðeins leiðrétta misskilning hjá hæstv. ráðh. Ég minntist ekki á þjónustuna í sambandi við verkamannabústaðina hjá stofnuninni, heldur var ég aðeins að benda á, að það væri æskilegt, að þeir, sem ráða þessari stofnun, væru daglega til viðtals.

Ég kom hér aðeins inn á það, sem ég tel vandamál fyrir landsbyggðina. Það er á tvennan hátt aðallega. Það er í fyrsta lagi það í sambandi við verkamannabústaðalöggjöfina, sem við erum allir sammála um, að sé mjög merk löggjöf og raunverulega sá þáttur húsnæðismálakerfisins, sem helzt getur komið til góða fyrir efnaminna fólkið, sem er víða um landið, að sá galli er á þessari löggjöf, sem margoft er búið að tala um, að minni staðirnir með fáa íbúa geta ekki notað sér löggjöfina til þess að byggja hratt fyrir þetta fólk. Þetta er aðalgallinn á þessari löggjöf. Og þetta er einmitt það, sem var helzt til umr. á þeirri ráðstefnu, sem húsnæðismálastjórn efndi til á s. l. hausti og ég minntist hér á áðan, að það þyrfti að finna flöt á því, hvernig þetta mætti koma að gagni fyrir minni sveitarfélögin, sem þurfa að byggja hratt yfir það fólk, sem nauðsynlega þarf að notfæra sér þessa löggjöf. Þarna erum við þá í brennipunkti, sem þarf að finna flöt á. Það hefur verið talað um, að Húsnæðismálastofnunin gæti veitt framkvæmdalán í þessu skyni, en því miður hefur það ekki komið að þeim notum, sem við, sem sækjum fastast á þetta, hefðum kosið. Ég get sagt frá því hér, að mitt sveitarfélag, sem rúmlega þúsund manns er búsett í, býr við gífurlegan húsnæðisskort og fjöldi af fólki, fjölskyldum, bíður eftir byggingum á vegum húsnæðismálakerfisins hvað varðar verkamannabústaði. En við höfum ekki talið okkur hafa efni á því að leggja fram frá sveitarfélaginu það fjármagn, sem nægja mundi til að ljúka við nægjanlega margar byggingar á 1–2 árum til þess að leysa úr mestu þörfinni. Þó höfum við lagt fram tæplega 1 millj. kr. í byggingarsjóð á síðasta ári. Ég held þess vegna, að það sé ekki alveg út í bláinn, það sem kom fram hjá forustumönnum framkvæmdanefndar byggingaáætlunar í Breiðholti einmitt á þessari ráðstefnu, að það væri ekkert því til fyrirstöðu að kanna til hlítar, hvort ekki væri hægt á vegum þeirrar stofnunar að færa kerfið út á vissa staði á landinu, sem gætu tekið við slíkum byggingaráfanga eins og hæstv. ráðh. nefndi hér áðan, t. d. 50 íbúðum. Ég efast ekki um, að á Hellissandi, í Ólafsvík og í Grundarfirði og jafnvel Stykkishólmi væri hægt að taka við slíku kerfi og byggja á 1–2 árum 50–100 íbúðir. Þörfin er fyrir það. Ég held nefnilega, að það þurfi í þessu máli að nota sér þá þekkingu og þá tækni, sem vissulega hefur fengizt við Breiðholtsframkvæmdir, og ég tel það miður farið í þessu máli, ef ekki er hægt að finna einhvern neista út úr þeirri reynslu, sem þar hefur komið fram, sem gæti komið að gagni almennt við uppbyggingu húsnæðis um landið. Ég vil þess vegna vænta þess, að einmitt í sambandi við svona opnar umr. um þessi mál verði fyrir atbeina hæstv. ráðh. reynt að finna á því flöt að leysa þetta verkefni fyrir okkur, þessa mörgu, sem þurfum að berjast fyrir því að byggja upp þessa þýðingarmiklu staði.

Ég get endað mál mitt með því, að við gátum ekki tekið á móti 5 fjölskyldum frá Vestmannaeyjakaupstað, sem vildu flytja til okkar með 100 lesta bát og hefja útgerð frá þeim útgerðarbæ, sem ég er frá, vegna þess að við gátum ekki einu sinni komið skipstjóranum inn, það er svo þröngt um hjá okkur. Við þurfum einnig hvað varðar sveitarfélagið að sjá um húsnæði fyrir 7 kennara. Við gátum ekki útvegað nema eina íbúð. Þannig er nú ástandið hjá okkur. Og það er ekki að ástæðulitlu, að ég hef áhuga á því, að hægt væri að finna varanlega lausn, sem geri þessum minni sveitarfélögum kleift að notfæra sér fjármagn til að leysa þessi mál á ekki þýðingarminni stöðum en um er að ræða.