27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

290. mál, gufuaflsvirkjun til rafmagnsframleiðslu

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þessi fsp. var eins og sú, sem síðast var rædd, flutt af hv. varaþm., Inga Tryggvasyni, og er grg., sem hann hefur látið mér í té með fsp., svo hljóðandi:

„Fyrir nokkrum árum var reist 3 þús. kw. gufuaflsvirkjun í Bjarnarflagi í Mývatnssveit. Ekki er almenningi kunnugt um annað en sú virkjun hafi verið ódýr í stofnkostnaði og reynzt vel. Þá mun virkjun þessi hafa verið fljót í uppsetningu. Vitað er, að mjög mikil orka býr í jörðu á háhitasvæðum í Suður-Þingeyjarsýslu. Á þessu svæði er og bráð þörf aukinnar raforku til iðnaðar, húsahitunar og annarra almennra nota. Athygli almennings hlýtur að beinast að því, hvort ekki sé unnt að leysa orkuþörfina um alllangt skeið með byggingu gufuaflsvirkjunar, t. d. í Bjarnarflagi eða við Kröflu. Þess er því vænzt, að hæstv. iðnrh. geri grein fyrir því, hvort þessir möguleikar hafi verið kannaðir og hver hafi orðið niðurstaða þeirrar könnunar, ef gerð hefur verið.“