27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

290. mál, gufuaflsvirkjun til rafmagnsframleiðslu

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Fyrri hluti þessarar fsp. er sá, hvort gerð hafi verið könnun á hagkvæmni nýrrar gufuaflsvirkjunar á háhitasvæðinu í Suður-Þingeyjarsýslu. Slík könnun hefur farið fram eða öllu heldur fyrsti hluti hennar, og henni er ekki lokið. Var í fyrstu gerð áætlun um 8, 12 og 16 megawatta gufuaflsstöð af svonefndri þéttigerð, er hugsuð var á Kröflu eða Námafjallssvæðinu. Þessi gerð rafstöðva er að því leyti frábrugðin þeirri tilraunarafstöð, sem nú er í gangi við Námafjall, að í þéttistöð er gufa þétt í eimsvala, eftir að hafa farið í gegnum gufukerfi stöðvarinnar, í stað þess að vera blásið beint út í andrúmsloftið, eins og nú er gert á stöðinni í Bjarnarflagi. Með þéttingu fæst mun meiri raforka úr hverju tonni af gufu, en á hinn bóginn hækkar eimsvalinn stofnkostnað stöðvarinnar. Athuganir sýna þó, að þessi gerð er hagkvæmari við aðstæður á Námafjalls- eða Kröflusvæðinu. Nú er unnið að könnun á mun stærri jarðgufurafstöð á sama stað eða 55 megawatta. Er vonazt til, að niðurstöður þeirrar könnunar liggi fyrir nú með vorinu.

Í annan stað er spurt, hver hafi orðið niðurstaða þeirrar könnunar, sem gerð hafi verið. Sú athugun leiðir greinilega í ljós meiri hagkvæmni jarðgufurafstöðva með vaxandi stöðvarstærð á því stærðarbili, sem hér um ræðir. Þannig er 16 megawatta stöð til muna hagkvæmari en 8 megawatta stöð. Svo virðist sem 16 megawatta jarðgufustöð sé vel sambærileg um hagkvæmni við miðlungsstórar vatnsaflsstöðvar, þ. e. a. s. stöðvar, sem eru nokkrir tugir megawatta, en standist ekki samanburð við hagkvæmar stórvirkjanir. Það er ekki hvað sízt vegna þessarar niðurstöðu, að ákveðið var að athuga einnig mun stærri jarðgufustöð eða 55 megawatta, og verður fróðlegt að sjá, hvort slík stöð getur keppt við hagkvæmustu vatnsaflsvirkjanir.

Það, sem hér var sagt um hagkvæmni, miðast í öllum tilvikum við, að unnt sé að nýta vinnslugetu orkuversins sem allra fyrst, eftir að það tekur til starfa, en samtenging orkuvera um sem stærst svæði er forsenda þess, að slíkt sé unnt. Annað kemur og til álita, þegar rætt er um jarðgufuaflsstöðvar. Reynslan sýnir, að gufuaflsstöðvar almennt eru ekki eins öruggar í rekstri og vatnsaflsstöðvar, ef ekki koma til ístruflanir og þess háttar. Tillit er tekið til þessa í löndum, sem byggja raforkuvinnsluna á gufuafli, með því að hafa vélasamstæður fleiri en beinlínis er nauðsynlegt vegna eftirspurnar eftir raforku, þannig að viss hluti þeirra megi ávallt vera úr rekstri, án þess að til rafmagnsskorts komi. Jarðgufustöðvar eru undir sömu sök seldar og aðrar gufustöðvar að þessu leyti. Auk þess kemur svo til það atriði, að jarðgufustöðvar yrðu staðsettar á svonefndum háhitasvæðum hér á landi, en reynsla er enn þá mjög takmörkuð af vinnslu orku af slíkum svæðum, einkum að því er tekur til endingar borhola og viðhaldskostnaðar þeirra, svo og til öryggis slíkra mannvirkja gagnvart truflunum. Háhitasvæðin eru á gosbelti landsins, þar sem búast má við margháttuðum jarðhræringum, sem enn þá er ekki fengin reynsla um, hvernig verka á mannvirki eins og borholur. Þetta táknar ekki, að jarðgufustöðvar séu dæmdar úr leik til raforkuvinnslu hér á landi, heldur einungis það, að rétt er að fara hér með nokkurri gát.

Í þessu sambandi verður að hafa í huga, að raforkuvinnsla gerir miklu strangari kröfur til öryggis orkugjafans en einstök iðjufyrirtæki t. d. Uns meiri reynsla er fengin af vinnslu raforku á hérlendum háhitasvæðum, er það að dómi Orkustofnunar eðlileg varfærni að ætla einu og sama háhitasvæði aðeins tiltölulega lítinn hlut í heildarvinnslu raforku í tilteknu raforkusvæði, t. d. 10–15% eða svo. Með raforkusvæði er hér átt við svæði, er samtengt flutningskerfi fyrir raforku nær um, t. d. Suðvesturland eða Norðurland eftir lagningu línunnar yfir Öxnadalsheiði eða Norðurland og Suðurland eftir lagningu tengilinu þar á milli.

Eðlilegt er að ætla jarðgufuvirkjunum hlut í raforkuvinnslunni í framtíðinni, eftir því sem hagkvæmni þeirra segir til um, borið saman við vatnsaflsstöðvar. En fyrst um sinn er eðlilegt að skipuleggja uppbyggingu raforkukerfisins, tímasetningu einstakra jarðgufustöðva og röð þeirra þannig, að framangreindu skilyrði sé fullnægt. Þetta þýðir m. a. að jarðgufustöð á Norðurlandi er eðlilegt, að komi eftir tengingu Norður- og Suðurlands. 16 megawatta stöð á Norðurlandi næmi hátt í 40% af öllu rafafli í fjórðungnum, eftir að slík stöð kæmi í rekstur, og það hlutfall verður að teljast hærra en varlegt gæti talizt, miðað við þá takmörkuðu reynslu, sem enn er tiltæk. Á hinn bóginn næmi 55 megawatta stöð á Norðurlandi, sem byggð væri eftir virkjun Sigöldu og eftir samtengingu, ekki nema um 10% af rafafli Norður- og Suðurlands. Hér ber því að sama brunni og áður um gagnsemi samtengingar, að öll skipulagning raforkuvinnslunnar verður mun auðveldari með henni en áður. Eftir því sem okkur er bezt kunnugt, senda jarðgufustöðvar erlendis orku sína alls staðar inn á öflug raforkukerfi, þar sem aðrir orkugjafar eru í miklum meiri hluta.