27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

290. mál, gufuaflsvirkjun til rafmagnsframleiðslu

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta þann furðulega misskilning hv. þm., að Sigölduvirkjunin muni endast ekki aðeins um ár, heldur áratugi. Staðreyndin er sú, að Sigölduvirkjun mun ekki endast okkur nema í tiltölulega fá ár, vegna þess að í tengslum við hana verður komið upp orkufrekum iðnaði, sem mun nýta verulegan hluta af þessari orku, og það er alveg öruggt mál, að við verðum að taka ákvarðanir um næstu stórvirkjun um svipað leyti og Sigölduvirkjun er komin í gagnið. En eins og ég hef margoft lagt áherzlu á hér og ég held að allir skilji, er forsenda þess, að hægt sé að dreifa stórvirkjunum um landið, að raforkukerfin séu samtengd. Vissulega eru því samfara ýmis vandkvæði.

Hv. þm. benti á það, að hér hefði orðið orkuskortur vegna þess, að flutningslínur hafi bilað í óveðrum. Þetta er vandamál, sem við verðum að ná tökum á út frá þeim aðstæðum, sem við búum við í okkar landi. En það er að sjálfsögðu engin ástæða til þess að ætla, að við getum ekki náð tökum á þessu verkefni. Ýmsar þjóðir, sem búa við mjög erfið skilyrði, t. d. Norðmenn í norðurhluta landsins, Kanadamenn, Rússar og aðrir slíkir, hafa leyst það vandamál að koma upp nægilega sterkum orkuflutningslínum, til þess að þar sé um mjög viðunandi öryggi að ræða, og slíkt hið sama mun okkur án efa takast. Í því sambandi er vert að minna á það, að einmitt þessa dagana er að taka til starfa n., sem á að kanna orsakir þeirra bilana, sem orðið hafa hér að undanförnu, einmitt í því skyni að hagnýta þá reynslu, þegar lögð verða á ráðin um fyrirkomulag á slíkum orkuflutningslínum eftirleiðis. — En fyrst og fremst kom ég hingað til að leiðrétta þann hrapallega misskilning, að Sigölduvirkjun mundi endast áratugum saman.