27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

291. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Á síðasta þingi kom fram, að það var einróma álit og ósk alþm., að hafin væri endurskoðun stjórnarskrárinnar. Í þeirri till., sem samþ. var 18. maí og n. kosin daginn eftir, var hæstv. forsrh. falið að kalla n. saman til fyrsta fundar. Það dróst frá 19. maí, þegar n. var kosin, til 12. sept. Sú skýring hæstv. forsrh., að það hafi verið svo torvelt að ná mönnum saman, er ekki fullnægjandi (Gripið fram í.) Ég skoraðist aldrei undan að mæta. Sú afsökun er ekki frambærileg á þingi, að í 4 mánuði hafi ekki verið hægt að ná stjórnarskrárnefndinni, nefnd 7 manna, til fundar. Það má vera, að einhverjar aðrar ástæður, e. t. v. einhverjir erfiðleikar innan stjórnarflokkanna um að ákveða, hver skyldi verða formaður, hafi þarna einhverju ráðið. En hver sem ástæðan hefur verið, er óafsakanlegt að draga í fjóra mánuði að kalla n. saman til fyrsta fundar til þess að skipta með sér verkum. Það gerðist svo loks 12. sept., og þá var hæstv. félmrh., Hannibal Valdimarsson, kosinn formaður. Á þeim fundi var ákveðið að afla gagna og ritara n. falið að skrifa til útlanda eftir stjórnarskrám, og einhverjar slíkar hafa borizt. En fyrst og fremst var lögð á það áherzla á þessum fundi, að nokkrir fundir yrðu haldnir í n., áður en þing kæmi saman innan nærri mánaðar, til þess að þm. hefðu tíma og tækifæri til þess að sinna nokkuð þessum undirbúningi, og þessir fundir yrðu notaðir til að skipuleggja störfin og skipta verkum með mönnum. Síðan er liðinn 5½ mánuður og ekki einn einasti fundur hefur verið haldinn.

Ég skal ekki segja, hvernig á að skipta ábyrgðinni af þessu milli hæstv, forsrh, og félmrh., en ég vil aðeins segja það, að hér hefur verið af beggja hálfu um ámælisverðan seinagang að ræða.