01.03.1973
Neðri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2250 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Mál þetta á sér alllangan aðdraganda, eins og gerð hefur verið grein fyrir hér á undan. Frv. um þetta efni var lagt fram á síðasta þingi, og urðu um það nokkrar umr. Nú er sagt, að á frv. hafi verið gerðar veigamiklar breytingar, enda var því lýst yfir í fyrra, að nota ætti s. l. sumar til að skoða þetta allt saman nánar, þannig að mönnum gæfist kostur á að gera aths. við einstaka liði frv.

Á síðasta þingi var þetta frv, nokkuð rætt. Ég bar m. a. fram brtt. ásamt hv. 8. landsk þm. um eitt atriði frv. Mér sýnist, að sú brtt. hafi verið tekin til greina, a. m. k. segir í inngangi að grg. frv., að heilsugæzlustöðvar hafi verið ákveðnar, víða, þar sem áður var talað um læknissetur, eða eins og nánar segir, að þetta þýði í raun og veru, að einstök læknissetur samkv. eldri till. verði nú heilsugæzlustöðvar og verði varanlegur liður í kerfi heilbrigðisþjónustunnar. Þá er einnig bætt inn stöðvum á staði, sem ekki voru taldir í fyrri gerð frv. Fyrir þetta vil ég þakka.

Í grg. eru rakin veigamestu nýmæli frv. ásamt þeirri ágætu stefnuyfirlýsingu, að allir landsmenn skuli eiga kost á eins fullkominni heilbrigðisþjónustu og tök eru á að veita hverju sinni. Ég efast ekki um, að þarna fylgir vilji máli og þarna er horft í rétta átt.

Ég verð að játa, þó að skömm sé frá að segja, að ég hef ekki kynnt mér þetta frv. nógu rækilega né heldur borið það nákvæmlega saman við frv. í þeirri mynd, sem það var á síðasta þingi á s. l. vori. Mun ég því ekki vera fjölorður um það að þessu sinni. Ég geri ráð fyrir því, að a. m. k. við fyrstu athugun líti hver þm. þetta frv. af eigin sjónarhóli, þ. e. a. s. virði fyrst og fremst fyrir sér, hvernig málum eigi að skipa í sínu kjördæmi. Sé ég, að á Vesturlandi er gert ráð fyrir heilsugæzlustöðvum á Akranesi, í Borgarnesi, Ólafsvík, Stykkishólmi og Búðardal. Þetta sýnist mér harla gott. Ef eining getur náðst um þetta heima fyrir, sem ég á fulla von á, þá virðist mér þetta fullnægja nokkurn veginn þeim óskum, sem menn hafa borið fram. En það er eitt atriði í frv., sem er raunar búið að minnast á af hv. 1. þm. Sunnl., sem mér finnst dálítið kynlegt. Það er svo hljóðandi ákvæði í 2. tölul. 7. gr.: „Suður- og Vesturlandshérað tekur yfir svæði frá Skeiðará að Kollafirði á Barðaströnd. Aðsetur héraðslæknis í Hafnarfirði: Með fullri virðingu fyrir þeim hv. þm., sem hér lauk máli sínu á undan mér, kemur mér það býsna spánskt fyrir sjónir, að héraðslæknir Vesturlandsumdæmis á að sitja í Hafnarfirði. Hér tef ég, að betur fari á að skoða þá tilhögun, sem sett var fram í fyrra frv. frá s. l. vori, þar sem var, ef ég man rétt, miðað að því, að hvert kjördæmi yrði læknishérað að þessu leyti. Ég satt að segja furða mig dálítið á því, hvað umdæmi þessa héraðslæknis er ákveðið stórt. Það liggur við, að það minni á fyrri aldir, þegar læknar voru fáir á Íslandi og höfðu mjög víðáttumikil svæði til að þjónusta. Við þetta ákvæði vil ég gera aths. þegar á þessu stigi málsins.

En svo er hin almenna spurning: Leysir þetta frv. allan vanda? Ég geri alls ekki ráð fyrir því. En mér finnst, að það miði eindregið í rétta átt. Það þarf án efa mikið fjármagn til að hrinda þessu máli fram og koma því í viðunandi horf og margt sérmenntað fólk, eins og hér hefur verið vikið að. En við skulum vona, að þetta leysist allt saman. Þá sé ég ekki betur við fyrstu yfirsýn en stefnt sé í rétta átt og frv. borið fram af góðum vilja. Og þá verður að vona hið bezta.