07.03.1973
Efri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það er sjálfsagt að taka ábendingar hv. þm. Þorvalds Garðars Kristjánssonar til athugunar og kanna þetta mál nánar. Það er nauðsynlegt, að sem mest jafnræði ríki á milli d., þannig að verkefnum sé skipt nokkurn veginn jafnt milli þeirra. Ég mun láta fara fram athugun á því, hvernig mál hafa verið af stjórnarinnar hálfu lögð fyrir deildir. En þá vil ég taka fram, að ég tel að sjálfsögðu allt þingið í heild, og ekki aðeins tímabilið frá jólaleyfi. Ef þetta á að meta réttilega, verður að líta á allan þingtímann í heild og athuga hvaða stjfrv. hafa verið lögð fram á þessu Alþ. og hvernig þeim hefur verið skipt á d. Ég hef einmitt lagt á það áherzlu við ráðh., að þeir skiptu málum, sem þeir flyttu, nokkurn veginn jafnt á d. Það má vel vera, að þetta hafi farið öðruvísi en gert var ráð fyrir og það hafi orðið hlutfallslega meira af málum í Nd., og til þess getur það óneitanlega bent, sem hv. þm. sagði áðan, hve mislöng dagskráin er hjá d. að þessu sinni. En sjálfsagt er að athuga og ganga úr skugga um þetta, og ég skal með ánægju ítreka það, sem ég hef áður lagt áherzlu á við ráðh., að þeir skipti málefnum sínum jafnt á deildir.

Ég held, hvað sjálfan mig varðar, að ég hafi gætt þessa mjög nákvæmlega. Ég vona, að sú verði útkoman. Að vísu er ekki hægt að mæla frv. alveg að gildi, en ég hygg, að að tölu til skakki ekki miklu á þeim frv., sem ég hef lagt fyrir Ed., og þeim frv., sem ég hef lagt fyrir Nd. Ég held t. d., að það hafi verið misminni hjá hv. þm., að frv. um eignarnám hafi verið lagt fyrir Nd. Ég held, að ég hafi lagt það fyrir hv. Ed. Ég held líka, að það hafi verið rangt talið, en þó kann það að hafa verið misheyrn hjá mér, en ég tók ekki eftir því, að hann minntist á það, að ég lagði nú fyrir nokkrum dögum fram í þessari hv. d. frv. um lögreglustjóra á Höfn í Hornafirði. En þetta er sem sagt sjálfsagt að athuga, og ég tek þessum ábendingum þm. mjög vel og skal reyna að gera mitt til, að úr verði bætt, ef hér hefur orðið misbrestur á. En ég hygg, að skýringin sé að nokkru leyti sú, að Ed. virðist vera miklu skjótvirkari en Nd. og miklu röskari að skila af sér málum. Þess vegna er það t. d., að listinn í hv. Nd. núna verður langur, að það eru a. m. k. 3 mál á dagskránni, sem eru komin héðan frá hv. Ed. Þannig hefur það verið yfirleitt eða með litlum undantekningum um þau mál, sem ég hef lagt fyrir hv. Ed., að þeim hefur hún skilað af sér, þau eru komin til Nd. Að vísu á það ekki við um alveg öll, það eru enn í n. hér mál, sem ég hef lagt fram. Á hinn bóginn er það svo um þau mál, sem ég hef lagt fram í Nd., — ég man ekki í svipinn, hver þau eru, en t. d. frv. um málflytjendur og fleiri mál, sem eru til meðferðar í Nd., að þau hafa ekki komizt hingað til hv. Ed. Ég hygg, að skýringin á því sé sú að einhverju leyti, að hv. Ed. þm. séu leiknari í meðferð mála og fljótari að afgreiða þau. Enda væri ekki eðlilegt ef svo væri ekki, þar sem það er venjulegt, að menn komist ekki upp í Ed., fyrr en þeir hafa verið einhvern tíma í Nd. og fengið þar æfingu, þó að þar séu að vísu undantekningar, eins og um þann, sem hér stendur, sem hefur orðið að hrapa niður í Nd. á eftir.

Ég ætla ekki að fara að hafa neitt framhald af þeim eldhúsdagsumr., sem fram fóru í gær og ætla þess vegna ekki að fara neitt að þræta út af hugleiðingum hv. þm. um það, að nafngreindur þm. væri harður dómari í Nd. yfir okkar verkum. Mér sýnist raunar, að sú ályktun, sem hann dró þar af, ætti ekki að vera rétt. Ég held, að það hlyti að verka öfugt. Ef þetta væri svo, hylltumst við frekar til að leggja málin fyrir Ed., þar sem væri fyrir fram vitað, að þau ættu greiðari framgang. En ef það stendur á því og er eitthvað í veginum fyrir því, að mál séu lögð fyrir hv. Ed., að hér sitja ekki menn, sem hafa jafnsérstakar skoðanir á hlutunum og þessi nafngreindi þm., sem hann minntist á, þá væri náttúrlega hægt að bæta úr því, ef t. d. einhver úr stjórnarandstöðuliðinu vildi gerast hér alveg sérstaklega uppvöðslusamur. Þá gæti vel verið, að það yrði farið að óttast þann dómara með einhverjum slíkum hætti. En ég held nú, að það sé ekki ástæða til að eyða orður að þessum hugleiðingum hv. þm., enda geri ég ekki ráð fyrir, að hann hafi ætlazt til þess, að þau væru tekin mjög alvarlega. En ég skal endurtaka það, sem ég hef sagt nú þegar, að ég skal láta athuga þetta nánar og skil vel það sjónarmið, sem hér hefur komið fram, að Ed. sé óánægð yfir því, ef svo er sem virðist vera, að hún fái ekki verkefni til jafns við Nd.

Til viðbótar því, sem ég hef sagt, verður að hafa í huga, að það eru helmingi fleiri menn í Nd., þeir tala kannske helmingi meira, og þess vegna gengur málaafgreiðslan þar dálítið seinna. En ég hygg, að þetta sé nokkuð í samræmi við þá starfshætti, sem tíðkast í þingum, að það eru minni ræðuhöld, sem fara fram í efri deild en í þeirri neðri. En þegar gerð hefur verið skýrsla um það, hvernig málum hefur verið skipt af hálfu stjórnarinnar á milli d., er fyrst hægt að gera sér glögga grein fyrir þessu. Auðvitað getur ekki annað beinzt að stjórninni í því efni en það atriði, hvernig hún skiptir sínum málum, því að það fer svo eftir frumkvæði, atorku og dugnaði þm., hve mörg mál þeir flytja. Ég býst ekki við því, að það sé út af fyrir sig munur á því milli Ed. og Nd., nema að því leyti sem svarar til tölunnar á þm.

Ég skal svo, herra forseti, ekki hafa þessi orð fleiri. Ég er sem sagt ekki viðbúinn því að svara þessu nánar og get í rauninni á þessu augnabliki ekki svarað fyrir aðra en sjálfan mig, en um það tel ég mig alveg geta svarað án þess að fara yfir þau frv., sem ég hef lagt fram, að ég hef skipt þeim mjög jafnt á milli deilda.