07.03.1973
Efri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2391 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

190. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt af sjútvn. þessarar hv. d. í fullu samráði við sjútvrn.

Hinn 12. febr. s. l. flutti hæstv. sjútvrh. framsögu fyrir stjfrv. á þskj. 287 um breytingar á gildandi l. um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Því frv. var þá vísað til sjútvn. að lokinni 1. umr. Þegar sjútvn. fór að ræða það frv., komu strax fram ábendingar um, að full þörf væri á að taka saman í ein lög gildandi ákvæði um útflutningsgjaldið. Var hæstv. sjútvrh. tjáð, að n. hefði hug á að vinna þetta verk og þá, ef svo yrði talið rétt að flytja nýtt frv. um þetta efni, þar sem þær breytingar, sem gera þyrfti nú varðandi útflutningsgjaldið, yrðu felldar inn í hið nýja frv. Enda þótt ráðh. óskaði eindregið eftir því að máli þessu yrði hraðað eins og kostur væri, varð fullt samkomulag við hann um, að málið yrði athugað í n. með samningu nýs frv í huga. Var haft fullt samráð við ráðuneytisstjórann, Jón Arnalds, og veitti hann n, fúslega aðstoð og upplýsingar, eftir því sem óskað var.

Þegar sjútvn, fékk frv. til meðferðar sendi hún það til umsagnar, bæði til Landssambands ísl. útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sambands ísl. samvinnufélaga. Þegar þær umsagnir lágu fyrir, var farið í það að taka saman þetta frv., sem hér liggur fyrir. Í frv. eiga að felast öll gildandi ákvæði eldri l. um útflutningsgjald af sjávarafurðum, jafnframt því sem tekin eru inn í frv. þau ákvæði, sem samkomulag er nú um að breyta. Í frv. eru engin ákvæði nema þau, sem fullt samkomulag er um milli aðila, þ. e. milli samtaka sjómanna, útvegsmanna og fiskframleiðenda, svo og verðlagsráðs sjávarútvegsins í einu tilfelli, enda er hér um að ræða brúttógjald framleiðslu, og það felur í sér jöfnum höndum gjaldskyldu á sjómenn og útgerðarmenn.

Jafnhliða því að nú eru sameinuð í ein lög gildandi ákvæði úr ýmsum l. í þessu efni, eru eldri lög um útflutningsgjaldið felld úr gildi. Þau lög, sem úr gildi falla, eða viss ákvæði eldri l., eru lög nr. 4 frá 28. febr. 1966, um útflutningsgjald af sjávarafurðum, lög nr. 4 1971 og lög nr. 17 1972, sem bæði varða útflutningsgjaldið, svo og II. kafli l. nr. 79 frá 1968, en það eru lög um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu frá 31. des. 1968, en II. kafli þeirra l. fjallar um útflutningsgjaldið, þ. e. 10. gr. þeirra l. Enda þótt lög um útflutningsgjald af sjávarafurðum taki vafalítið hér eftir sem hingað til nokkuð oft breytingum eðli málsins samkv., þykir þó til bóta að taka rögg á sig öðru hverju og fella gildandi ákvæði úr ýmsum eldri l. í eina röð til að auðvelda málið.

Í frv. þessu felast töluverðar breytingar á útflutningsgjöldum af sjávarafurðum. Þau hækka allverulega, og hækkunin er við það miðuð að auka tekjur Tryggingasjóðs fiskiskipa, en verulegur halli hefur verið á rekstri hans bæði árin 1971 og 1972. Tryggingasjóður fiskiskipa greiðir iðgjöld fiskiskipanna að verulegu leyti af tekjum af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum eftir tilteknum reglum, sem sjútvrn. setur. Gera má ráð fyrir, að tekna til tryggingakerfisins verði áfram aflað á sama hátt eða með svipuðum hætti og verið hefur undanfarandi ár, þ. e. með útflutningsgjaldi af sjávarafurðum. Halli tryggingasjóðs á undanförnum árum hefur verið allverulegur, og þrátt fyrir hækkun útflutningsgjalda nú verður halli á rekstri tryggingasjóðs á árinu 1973, ef miðað er við óbreyttar áætlanir um greiðslu úr sjóðnum. Þær breytingar á útflutningsgjöldum eru, eins og ég tók fram hér í upphafi, gerðar í fullu samráði við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, og er aðallega eftirfarandi:

1. Að magngjald, sem verið hefur, er hækkað til samræmis við verðhækkanir, þannig að greiðsluhlutfall af þeim vörum, sem magngjald er greitt af, breytist ekki miðað við aðrar vörur. Á undanförnum árum hafa afurðir, sem háðar eru magngjaldi, dregizt nokkuð aftur úr, og er hví eðlilegt, að breyting á útflutningsgjaldi felist í hækkun magngjaldanna, því að þau útflutningsgjöld hafa lækkað verulega í hlutfalli við útflutningsverðmætið.

2. Þá hækkar gjaldaprósentan af fiskmjöli og loðnuafurðum, en verðlag á þessum vörum hefur, sem kunnugt er, hækkað mjög mikið, og því þykir rétt að hækka þetta gjald verulega til samræmis við það, sem er á öðrum vörum.

3. Lækkað magngjald af ufsa- og karfaafurðum, en verðlag á þessum afurðum er nú mjög óhagstætt. Magngjaldið af þessum vörum lækkar úr 2300 kr. á tonn í 1700 kr. Magngjald af saltfiski og vörum, sem taldar eru í 2. tölul. 2. gr. þessa frv., hækkar hins vegar úr 2300 kr. í 3000 kr. á tonn. Magngjald af freðfiski og öðrum vörum í 3. tölul. 2. gr. þessa frv. hækkar úr 2300 kr. á tonn í 3400 kr., en nemi magngjaldið meiru en sem svarar 4½% af fob-verði verðmæta útfluttrar sjávarvöru, er heimilt að fella niður þann hluta gjaldsins, sem er umfram þetta mark. Þá hækkar gjald af loðnumjöli og loðnulýsi úr 4% í 8% af fob-verði. Gjald af fiskimjöli, karfamjöli, humarmjöli, rækjumjöli og lifrarmjöli hækkar úr 6% í 7% af fob-verði. Í gildandi l. er magngjald af skelfiski. Í því frv., sem sjútvrh. lagði fyrir þessa hv. d. og mælti fyrir hinn 12. febr., var lagt til, að það gjald breyttist í 6% af fob-verði. Í frv., sem hér liggur fyrir, er hins vegar gert ráð fyrir, að gjaldið verði 4% af fob-verði. Er þar m. a. farið að tilmælum Landssambands ísl. útvegsmanna, en það kom fram í umsögn þess, að eðlilegt mætti teljast, að þetta gjald yrði fækkað frá því, sem var. Einnig kom það fram í umsögn Farmanna- og fiskimannasambandsins, og hefur n. orðið ásátt um að taka þær aths. til greina. Hér er um mjög smávægilega breytingu að ræða, nánast það, að gjaldið verði óbreytt frá því, sem er nú í gildandi l. Gjald af frystri loðnu hækkar úr 4% í 6% af fob-verði, og er þar um hækkun að ræða af sömu ástæðu og ég hef áður tilgreint vegna hækkandi útflutningsverðs.

Ég hef hér stuttlega rakið þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir, en breytingar þessar munu auka tekjur af útflutningsgjaldi um 177 millj., miðað við spá um útflutningsframleiðslu ársins 1973. Breyting á skiptingu teknanna samkv. þessu frv. miðar að því, að nær öll hækkunin renni í Tryggingasjóð fiskiskipa. Samkv. gildandi l. renna nú 82% af tekjum útflutningsgjaldsins í tryggingasjóð, en samkv. því frv., er hér liggur fyrir, er ætlað, að 85% af útflutningsgjaldinu renni í tryggingasjóðinn. Þetta nægir þó ekki, eftir því sem fróðir menn telja, til að tryggja hallalausan rekstur sjóðsins, þó sennilega rekstur sjóðsins á árinu 1973, en alls ekki til að greiða halla, sem eftir er skilinn frá fyrri árum.

Við ákvörðun fiskverðs í ársbyrjun 1973 var gert ráð fyrir þeim breytingum á útflutningsgjöldunum, sem þetta frv. felur í sér, enda er hér ekki vikið frá þeim grundvelli, sem undanfarið hefur gilt í þessum efnum, en hækkanir, sem eiga sér stað, eiga rót sína að rekja til hækkandi útflutningsverðs.

Í ákvæðum til bráðabirgða í þessu frv. er heimild til að fella niður útflutningsgjald af frystum karfaflökum framleiddum á tímabilinu 1. júní til 30. sept. 1972. Þetta er gert vegna lélegrar afkomu karfafrystingar, og var í sambandi við fiskverðsákvörðun á s. l. sumri gefið fyrirheit um að fella þetta gjald niður.

Í ákvæðum til bráðabirgða í hinu fyrra frv. var heimild til þess að greiða kostnað af framkvæmd l. um skipulag á loðnulöndun af þeim tekjum, sem hér um ræðir. Í þessu frv. er þessi heimild felld niður. Þessu ákvæði var skotið inn í hið fyrra frv., en snertir ekki þessa löggjöf. Þess vegna þótti ekki ástæða til að rýra tekjur tryggingasjóðs, heldur verði flutningasjóði gert að greiða þennan kostnað. Það var haft samráð við ráðuneytisstjórann í sjútvrn., Jón Arnalds, svo og Svein Finnsson hjá Verðlagsráði sjávarútvegsins í sambandi við þetta atriði, og höfðu þeir enga aths. við það að gera þótt þetta yrði fellt niður.

Hins vegar kemur inn í nýtt ákvæði til bráðabirgða, heimild sjútvrh. til að ráðstafa útflutningsgjaldi af saltaðri síld og flökum úr saltaðri síld til síldarútvegsnefndar. Heimild þessi er veitt til þess að auðvelda heimflutning síldar af Hjaltlandseyja- og Norðursjávarmiðum og til þess að afla sölumarkaða fyrir þá síld.

Þá er loks að geta smábreytingar í ákvæðum til bráðabirgða, en sú breyting er gerð eftir ósk sjútvrn. í bréfi til sjútvn., dags. 23. febr. s. l. Þessi breyting er í því fólgin, að heimilt er að endurgreiða útflutningsgjald af frystri síld framleiddri á árinu 1972. Hér er um að ræða, að til þess að tryggja beitufrystingu á s. l. sumri og hausti var ríkisábyrgð veitt þannig að ríkissjóði ber að greiða mismun á fáanlegu söluverði erlendis fyrir þessa framleiðslu og auglýstu verði beitunefndar sem var 24 kr. á kg. Ríkissjóður verður að greiða með þessum útflutningi, þar sem ekki fæst nógu hátt verð fyrir útflutning á þessari síld. Verið er að kanna sölumöguleika á þessari síld og sennilegt, að takist að selja hana, er verðið er ekki nógu hagstætt til þess að ná hinni tilskildu upphæð, 24 kr. á kg. Þess vegna er lagt til, að heimilt sé að fella niður útflutningsgjaldið eða endurgreiða það, og lækkar þar með sú upphæð, sem ríkissjóður þarf að greiða með þessum útflutningi.

Herra forseti. Ég hef stuttlega gert grein fyrir frv. því, sem hér liggur fyrir, og þeim breytingum, sem gerðar hafa verið frá fyrra frv. á þskj. 287. Þar sem n. flytur þetta frv. eftir að hafa fjallað um það á fundum sínum, sé ég ekki ástæðu til að gera till. um, að það fari aftur til n. Hins vegar var í upphafi sú ósk borin fram af hæstv. sjútvrh., að frv. þetta mætti fá greiðan gang í gegnum þessa hv. d., og leyfi ég mér að flytja þá ósk nú, að d. sjái sér fært að hraða afgreiðslu þessa máls.

Ég legg svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.