19.03.1973
Efri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2582 í B-deild Alþingistíðinda. (1968)

30. mál, leigunám hvalveiðiskipa

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Mér skilst, að það hafi verið skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, en ekki skilað séráliti.

Í sambandi við þetta mál, vil ég koma því á framfæri, að eins og hv. allshn.-mönnum er kunnugt, er umsaminn leigutími fyrir Tý til 1. maí 1973, en ef leigutaki óskar að framlengja leigusamninginn fram yfir þann tíma, þá á að endurmeta leiguna. Samkv. samningnum, sem legið hefur fyrir hv. allshn., ber að tilkynna fyrir 1. marz 1973, hvort óskað verður eftir að framlengja samningstímann. Að beiðni rn. hefur þessi frestur verið framlengdur til mánaðarloka.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefur verið fengin heimild fyrir að kaupa, taka á leigu eða láta smíða skip til gæzlustarfa, og ég hef skipað n. til að athuga það mál. Í þeirri n. eru Pétur Sigurðsson forstjóri Landhelgisgæzlunnar, Egill Sigurgeirsson hrl. og Óttar Karlsson skipaverkfræðingur. Það fer fram athugun á því nú, hvort muni verða möguleikar að fá skip annaðhvort keypt eða leigt, fyrir þann tíma, sem leigusali þarf á þessu skipi að halda til hvalveiða, en hvalveiðar munu að jafnaði byrja fyrir maílok, og það er fullur vilji til að leysa það mál þannig, að skipið geti orðið nothæft við hvalveiðar. Það er þó ekki alveg séð fyrir um það nú. En sá frestur, sem þarna er og hefur orðið samkomulag um, að framlengdur sé til mánaðamóta, er líka talinn nægilegur fyrir leigusala, sem væntanlega yrði að taka á leigu skip til hvalveiðanna, ef svo færi, að ekki fyndist jafnhentugt skip til gæzlunnar eins og Týr hefur reynzt og yrði vegna þeirra aðstæðna, sem þá væru fyrir hendi, óhjákvæmilegt að halda honum áfram við þau störf. En ég hygg, að það sé út af fyrir sig möguleiki á því, eins og nú stendur, að fá leigð hvalveiðiskip. En sem sagt, ég endurtek, að það er vilji minn og rn., að það verði hægt að skila þessu skipi, svo að það geti verið við hvalveiðar, ef mögulegt verður.

Ég vildi láta þetta koma fram hér, en hvort sem verður, er auðvitað jafnsjálfsagt, að brbl. verður að staðfesta, af því að það er ekki gert ráð fyrir tímatakmörkunum í lögunum að öðru leyti en því, sem ég hef greint.