22.03.1973
Neðri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2737 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Heilbr.-og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Þetta frv. var á sínum tíma afgreitt einróma af hæstv. heilbr.- og trn., og vil ég nota tækifærið og þakka henni góð og greið störf. Síðan var það samþ. einróma við 2. umr. hér á hinu háa Alþ. En við 3. umr. hefur komið fram alllöng röð af brtt. frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni og Sverri Hermannssyni.

Þegar þetta mál var til umr. síðast, gerði hv. þm. Pétur Sigurðsson grein fyrir þessum brtt. og rökum sínum fyrir þeim. Ég sagði þá, að ég teldi flestar þeirra fremur til spjalla á frv., en hefði ekki ráðrúm þá til að rökstyðja þá skoðun frekar og vildi því fara um það nokkrum orðum nú.

1. brtt. á þskj. 347 er við 2. gr. frv. Þar er fyrri setningin á þessa leið: „Enginn má setja á stofn eða reka dvalarheimili fyrir aldraða nema með leyfi ráðherra.“ En hv. þm. Pétur Sigurðsson og félagi hans leggja til, að þarna bætist við setningin: „enda sé dvalarheimilið byggt með styrk úr ríkissjóði.“ Þeir leggja til, að ef dvalarheimili fyrir aldraða sé ekki byggt með styrk úr ríkissjóði, megi setja það á stofn og reka það, án þess að nokkurt leyfi heilbrrn. komi til. Svo er að sjá sem hv. flm. telji, að leyfi ráðh. sé einvörðungu bundið við fjárhagslegar hliðar þessa máls. En það er að sjálfsögðu alger misskilningur. Það, sem fyrst og fremst er kannað í sambandi við útgáfu slíks leyfis, er, hvort heimilið uppfylli nútímakröfur um aðbúnað, um heilbrigðishætti og annað slíkt. Slíkt eftirlit er að sjálfsögðu algerlega óhjákvæmilegt, enda þótt ríkið leggi ekki fram neina fjármuni til slíkrar stofnunar. Hér er um að ræða ákvæði, sem eru í samræmi við sjúkrahúsalög og eru algerlega eðlileg. Það er nauðsynlegt að stjórnarvöld hafi þannig eftirlit með því, að ekki sé verið að setja á stofn eða reka dvalarheimili fyrir aldraða, sem standast ekki nútímakröfur. Ég skal ekkert um það segja, hvort á því kynni að vera hætta hér á Íslandi. Hins vegar væri hægt að rekja það með æðimörgum dæmum frá öðrum löndum, að einkaaðilar starfræki slíkar stofnanir á þann hátt, að það samrýmist engan veginn nútímaviðhorfum manna um það, hvernig búa eigi að öldruðu fólki. Ég tel sem sé, að hér sé um að ræða algerlega sjálfsagt ákvæði. Í því felst á engan hátt, að ríkisvaldið sé að draga úr framkvæmdum á þessu sviði. Ég hygg, að það hljóti að vera afstaða heilbr.- og trmrn, hverju sinni að ýta frekar undir frumkvæði, en þarna verður að sjálfsögðu að koma til virkt eftirlit.

2. brtt., sem er við 3. gr., felur í sér alveg sams konar takmörkun. Þar er greint frá því, hvernig beiðni til ráðh. um rekstrarleyfi skuli hagað, og talið upp hvað skuli fylgja slíkri beiðni. Flm. leggja til, að þar verði felld niður þessi atriði: skýrsla um „starfsfólk og rekstrarfyrirkomulag og hve mörgum vistmönnum stofnuninni er ætlað að sinna og með hvaða kjörum“. Hv. flm, telja sem sé, að það sé engin ástæða til þess, að slíkri umsókn fylgi skýrsla um þessi atriði, um starfsfólk og rekstrarfyrirkomulag og hve mörgum vistmönnum stofnuninni er ætlað að sinna og með hvaða kjörum. Auðvitað er hér um að ræða algert grundvallaratriði, þegar sótt er um rekstrarleyfi, og mér er algerlega óskiljanlegt, hvers vegna till. er flutt til að breyta þessum ákvæðum. Á það má einnig benda, að óskir um slíkar upplýsingar eru í fyllsta samræmi við lög um opinberar framkvæmdir, og ég skil engan veginn rökin fyrir þessu.

Sams konar takmörkun kemur fram í 3. till. Þar leggja flm. til, að heilbrigðisyfirvöld eigi greiðan aðgang að reikningum viðkomandi stofnana og öðrum nauðsynlegum upplýsingum frá stjórnendum þeirra. Þetta á að koma í staðinn fyrir, að heilbrigðisyfirvöld eigi greiðan aðgang að stofnunum, sem um getur í þessum lögum. Á þessu er auðvitað gagnger munur, að eiga aðgang að reikningum eða eiga aðgang að stofnunum. Auðvitað er það grundvallaratriði, að eftirlit er miklu meira en að fylgjast einvörðungu með fjármálum. Í virku eftirliti er fólgin könnun á fyrirkomulagi, hvernig búið er að sjúklingum o. s. frv. Þessi ákvæði um eftirlit eru einnig í samræmi við sjúkrahúsalög, og ég sé ekki, hvaða ástæða á að vera til þess að takmarka það, að heilbr.- og trmrn. eða heilbrigðisyfirvöld geti á staðnum kannað starfshætti slíkra stofnana, t. a. m. ef þau fá einhverjar rökstuddar kvartanir um það.

Í 4, till.. sem er við 6. gr. frv., er fjallað um það, að ráðh. setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, m. a. um búnað húsa, aðbúnað og þjónustu við vistmenn svo og um starfslið dvalarheimilisins. Flm. leggja til, að niður falli orðin „svo og um starfslið dvalarheimilis.“ Er svo að sjá sem hv. flm. vilji ekki nein ákvæði um lágmarksfjölda starfsfólks, en auðvitað er fjöldi starfsfólks ein af forsendum fyrir því, að vistfólk njóti þeirrar þjónustu og umönnunar, sem veita ber á slíkum stofnunum. Það er því algert grundvallaratriði, að í reglugerð séu ákvæði um vissan lágmarksfjölda starfsfólks til þess að tryggja slíka óhjákvæmilega þjónustu.

5. till. er brtt. við 6. gr. frv., en í henni er það nýmæli, að vistmönnum skuli heimilt að tilnefna einn mann af sinni hálfu til setu á fundum stjórnarinnar og hafi hann þar málfrelsi og tillögurétt. Í brtt. er þessi réttur vistmannanna takmarkaður. Er lagt til, að vistmönnum sé einvörðungu heimilt að hafa mann af sinni hálfu til setu á fundum stjórnarinnar, þegar rædd eru mál, sem varða vistfólkið sérstaklega. Með þessu er stjórnum slíkra stofnana sett það í sjálfsvald, hvenær þessi fulltrúi vitmannanna er kallaður á fundi. Þetta tel ég vera algerlega fráleitt. Ég er þeirrar skoðunar, að vistmenn eigi að hafa þennan rétt algerlega ótakmarkaðan og það sé gjörsamlega ástæðulaust að vera nokkuð hræddur við slíkt. Ég held, að það sé forsenda fyrir eðlilegu andrúmslofti og eðlilegri samvinnu í slíkum stofnunum, og vistmennirnir fái rétt eins og þennan og þeir hafi aðstöðu til að fjalla um þau mál, sem snerta enga eins mikið og vistmennina.

Við þetta bæta svo hv. flm. till. um starfsfólk stofnunarinnar, það eigi einnig rétt til setu á fundum stjórnar með málfrelsi og tillögurétti, og ég get algerlega fallizt á þá till. Ég er sammála því, að þar verði sami háttur á hafður. Hins vegar finnst mér, að það ætti að breyta um orðalag á till. Hún er þannig orðuð af hv. flm. „Sama gildir um starfsfólk stofnunar, ef ekki er til staðar samningur um samstarfsnefnd“. Ég hef þá sérvizku, að mér finnst þetta dálítið vandræðalegt orðalag og mundi t. a. m. telja eðlilegra, að stæði: Sama á við um starfsfólk stofnunar, hafi ekki verið gerður samningur um samstarfsnefnd, eða eitt hvað þess háttar. En sem sé, efnislega get ég mjög vel fallizt á þessa till.

5. till. c. er einnig brtt. við 6. gr., síðustu setninguna í 6. gr. Þar stendur: „ Stjórnin ræður forstöðumann heimilisins og heimilislækni, og tillögurétt og málfrelsi.“ Í staðinn leggja hv. flm. til, að komi: „ Stjórnin ræður stjórnendur heimilisins og síðan aðra í samráði við forstöðumann eða -konu, enn fremur lækna, ef fastráðnir eru. Forstöðumanni eða -konu er heimilt að sitja stjórnarfundi með tillögurétti og málfrelsi. Ég er sammála hv. þm. Pétri Sigurðssyni, þegar hann benti á það sjálfur í ræðu sinni, að þessi undarlega þula: forstöðumaður eða -kona, er algerlega óþörf. Ég held, að það sé alkunna, að bæði karlar og konur eru menn hér á Íslandi og ástæðulaust að vera að orðlengja það frekar. En hin raunverulega breyting, sem felst í þessari till., er sú, að valdsvið stjórnarinnar er aukið. Það er tiltekið, að stjórnin ráði ekki aðeins stjórnendur heimilisins, heldur einnig aðra, og ég sé satt að segja ekki ástæðu til að setja þetta í lög. Ég hygg, að það tíðkist yfirleitt hjá slíkum stofnunum, að forstöðumenn eða stjórnendur fái vald til þess að ráða starfsfólk sitt, og ég hygg, að það sé yfirleitt langskynsamlegasta aðferðin við að reka slík fyrirtæki.

6. brtt. er feiknamikið efnisatriði. Hún er við 7. gr., en í 7. gr. er svo ákveðið, að nú byggir sveitarfélag dvalarheimili eða hefur rekstur þess samkv. lögum þessum, og skal þá ríkissjóður greiða 1/3 hluta kostnaðar við bygginguna og kaup nauðsynlegra tækja og búnaðar. Ef aðrir aðilar en sveitarfélög byggja eða hefja rekstur dvalarheimilis, er ríkissjóði heimilt að greiða allt að 1/3 kostnaðar við byggingu og kaup nauðsynlegra tækja og búnaðar.

Brtt. er sú, að hv. flm. leggja til: „Nú byggir sveitarfélag eða annar viðurkenndur aðili dvalarheimili,“ þá skal skylt að greiða 1/3. Síðari hluta þessarar gr., sem er heimildarákvæði, er með þessu breytt í skyldu. Sú breyting, sem felst í frv., að hér sé um skylduframlag að ræða, þegar sveitarfélög eiga í hlut, er ákaflega mikil og gagnger breyting frá þeirri skipan, sem verið hefur. Ég hygg, að það sé ekki ráðlegt að ganga lengra, ekki á þessu stigi a. m. k. Við vitum, að það er mjög erfitt að fullnægja slíku sjálfvirku kerfi, og ég held, að við eigum ekki að stíga lengra en við gerum með þessu móti, að það sé skylda í sambandi við sveitarfélög, en heimilt í sambandi við aðra. Hitt liggur í hlutarins eðli, að það er ekki á valdi ríkisstj. að ákveða fjárframlög í því skyni. Það gerist hér á hinu háa Alþingi. Það fer með þennan rétt og ákveður sjálft, hvenær þessi heimild er notuð og hvenær ekki.

Í 6. till. c kemur mjög löng þula um frágang lóðar og girðingar og skreytingar listaverka á lóð og húsakynnum, það teljist til byggingarkostnaðar, síðastnefnda framkvæmdin skuli þó háð sérstöku samþykki rn. „Ríkisframlag skal greitt, sem 1/3 hluti eftirtalinna áfanga, þegar þeir eru tilbúnir: a. grunnur, b. 1. hæð er fokheld, c. 2. hæð er fokheld o. s. frv. Enn fremur við lok annarra byggingaráfanga og frágang lóðar, svo sem segir um í reglugerð ráðh“. Ég sé ekki betur en þessi till, sé gersamlega út í hött. Það er alkunna, að framkvæmdir af þessu tagi verða að vera í samræmi við lög um opinberar framkvæmdir, og þegar gengið er frá framkvæmdum í samræmi við þau lög, er einnig gengið frá alveg ákveðnum reglum um greiðsluáætlanir, og það er alveg fráleitt að hrófla við framkvæmd þeirra laga einmitt nú Þegar þau eru að fá á sig nokkra festu. Ég tel líka nokkuð undarlegt að fara að setja það í lög, að dvalarheimili aldraðra skuli vera a. m. k. tvær hæðir. Það er enginn, sem segir, að þarna þurfi að vera kjallari, 1. hæð og 2. hæð. Það er hægt að hafa allan hátt á því. En sem sagt, þessi hlið málsins er algerlega mörkuð með lögum um opinberar framkvæmdir, og ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að fara að búa til einhverja öðruvísi reglu í sambandi við þessar byggingar heldur en aðrar opinberar framkvæmdir.

7. till. er við 8. gr., að aftan við fyrri mgr. bætist nýr málsl. 8. gr. er þannig: „Daggjaldanefnd“ o. s. frv. ákveður upphæð vistgjalda á dvalarheimilum aldraðra“. Lagt er til, að við það bætist: „Vistgjöld og sjúkragjöld, sem greidd eru af Tryggingastofnun ríkisins, skulu greiðast a. m. k. fjórum sinnum á ári“. Einnig þetta ákvæði tel ég vera óþarft með öllu. Greiðslur frá Tryggingastofnuninni í slíkum tilvikum hafa verið með þeim hætti, sem stofnanirnar hafa óskað eftir. Mér er ekki kunnugt um neinar slíkar kvartanir, a. m. k. hef ég ekki fengið neinar kvartanir um slíkt, að greiðslur frá Tryggingastofnuninni til slíkra aðila hafi ekki komið á þeim tíma, sem stofnanirnar hafa óskað eftir. Ég held, að það séu ekki nokkur vandkvæði á því að leysa þau mál án þess að fara að setja um það sérstök lagafyrirmæli.

Í frv. stendur, að ársreikningar dvalarheimila skuli ætíð sendir rn. Hv. flm. leggja til í 7. till b, að það verði orðað svo: „Ársreikningar dvalarheimila skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og ætíð sendir rn.“. Þetta er tilhögun, sem ég hef ekkert við að athuga. Ég hef ekkert við það að athuga, að reikningarnir séu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum, ef menn telja það nauðsynlegt, að það standi í þessum lögum.

8. till. er við 9. gr., þar sem segir, að stjórn dvalarheimilis ákveði vistun fólks á heimilinu að fengnum till. forstöðumanns. Er lagt til, að bætt sé við: „eða inntökunefndar“. Þar sem um slíkar nefndir er að ræða, hef ég að sjálfsögðu ekkert á móti því, að þær fari með þetta vald, og get því vel fallizt á þessa till.

Sem sé, meginatriðin í þessum till. finnst mér vera til skerðingar á eftirliti heilbrigðisyfirvalda, því eftirliti, sem á að tryggja það, að slíkar stofnanir séu þannig starfræktar, að þær veiti öldruðu fólki þá umönnun og þá þjónustu, sem það á rétt á. Ég tel það vera hættulegt að fara að setja í lög ákvæði, sem skerða þetta eftirlit. Það býður heim hættum, og við höfum ekki neina ástæðu til að gera slíkar breytingar á löggjöf okkar. Af þessum ástæðum er ég andvígur meginþorranum af þessum brtt., en get sem sé, eins og ég hef sagt, fallizt á einar þrjár þeirra.