27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

189. mál, endurbætur á talsímasambandi milli Reykjavíkur og Vesturlands

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. 1. varaþm. Framsfl. í Vesturl., Alexander Stefánsson, hefur lagt fram fsp. á þskj. 350. Fyrri fsp. hljóðar þannig:

„Hvenær má vænta endurbóta á talsímasambandi milli Reykjavíkur og Vesturlands, t. d. með fjölgun talrása?“

Ástæðan fyrir fsp. þessari er sú m. a., að sjálfvirka símasambandið við Vesturland er mjög ásett eða ofhlaðið, oft engin leið að ná símasambandi nema í gegnum hlutaðeigandi símstöðvar, og þá leggst einnig sérstakt gjald á símtölin, auk þess sem þá nýtist ekki aðalkostur sjálfvirkra símakerfisins.

Síðari fsp. er:

„Hvað eru margir símnotendur í Vesturlandskjördæmi utan sjálfvirka kerfisins, og eru til áætlanir um, hvenær allir símnotendur á Vesturlandi komast í sjálfvirka símakerfið?“

Fsp. þessi þarf ekki skýringa við, og ég vænti þess, að hæstv. samgrh. geti svarað spurningum þessum.