30.03.1973
Sameinað þing: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2901 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

177. mál, löggjöf um sjómannastofur

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Flm. þessarar þáltill. eru auk mín þeir Geir Gunnarsson og Karvel Pálmason. Tillgr. er þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um þátttöku ríkissjóðs í stofnun og rekstri sjómannstofa. Sjútvrh. skipar til þess starfa 3 menn, einn eftir tilnefningu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, einn samkv. tilnefningu Sjómannasambandsins og einn á n tilnefningar, og skal hann vera formaður. Kostnaður greiðist úr ríkissjóði:“

Um árabil hafa þó nokkrar sjómannastofur starfað hér á landi. Ef miðað er við styrkveitingar á síðasta ári, eru núna starfandi 6 sjómannastofur: á Bolungarvík, Ísafirði, Seyðisfirði, Neskaupstað, ein var í Vestmannaeyjum og svo í Keflavík. Á Fáskrúðsfirði er nýlega hafinn rekstur sjómannastofu. Á fjárl. fyrir 1973 eru fjárhæðir til styrktar þessari starfsemi, annars vegar til stofnkostnaðar gegn 2/3 annars staðar frá 800 þús. kr. og hins vegar til rekstrarstyrks 150 þús. kr. Og þannig mun þetta hafa verið um nokkuð langt árabil, að veitt hefur verið á fjárl. smáupphæð til þessarar starfsemi.

Af hálfu ríkisvaldsins, löggjafans, hefur töluvert mikið verið gert til þess að örva og greiða fyrir ýmiss konar félagsstarfsemi og þá í mörgum greinum. Það má minna á löggjöf um þátttöku ríkisins í stofnun og rekstrarkostnaði félagsheimila, svo að eitthvert dæmi sé nefnt. En hér er um margþætta starfsemi aðra að ræða, sem sett hefur verið löggjöf um og styrks hefur notið úr ríkissjóði á undanförnum árum.

Með þessari till. er lagt til, að þörf sjómanna, sem dveljast við land utan heimahafnar, þörf þeirra fyrir tiltekna félagslega aðstöðu verði metin og leitað verði ráða til þess að verða við henni í ríkara mæli en nú á sér stað, eða að því marki, sem íslenzkar aðstæður og fámenni ýmissa hafnarstaða frekast leyfa.

Ég skal ekki fjölyrða um það, í hverju þessar sérlegu þarfir eru fólgnar. Ég minni aðeins á það, sem segir í grg. með till., að „sæmilega vel búin sjómannastofa geti veitt töluvert fjölbreytta fyrirgreiðslu, svo sem aðgang að blöðum og sjónvarpi, afdrep til bréfaskrifta, þægilegri bið eftir símtali en fæst á símstöðinni ,dægradvöl við spil, tafl eða billjard og veitingar.“ Mér finnst þetta gefa alveg nægilega bendingu um það, hvað fyrir okkur flm. þessarar till. vakir að því er varðar þörfina fyrir sjómannastofurnar. Þessi upptalning, þó að hún sé hvorki tæmandi né ítarleg á nokkurn hátt, sýnir, að sú fyrirgreiðsla, sem hér er um að ræða, er nokkuð sérstaks eðlis. Hún fellur t. d. alls ekki undir það, sem við gætum kallað almenna greiðasölu eða venjulega fyrirgreiðslu við ferðamenn, og hún fellur ekki heldur að venjulegum rekstri félagsheimila, þó að e. t. v. mætti tengja rekstur sjómannastofa rekstri sem þessum, er ég nú nefndi. Þetta er ofur skiljanlegt og þarf raunar ekki skýringar við. Sjómenn, sem um skamman tíma dveljast á hafnarstað í þessu eða hinu kauptúninu eða kaupstaðnum, þeirra félagslega aðstaða og félagslega þörf er allt önnur heldur en staðarins innbyggjara ellegar þá þeirra, sem koma og fara á bifreiðum sínum eða öðrum slíkum farartækjum, sem ætluð eru fyrir farþega.

Ég gat þess í upphafi, að 6–7 sjómannastofur hafi hlotið styrkveitingu ríkissjóðs á síðasta ári.

Þessar stofur eru ákaflega mismunandi vel búnar. Rekstur þeirra er líka misjafnlega stöðugur. Sumar hafa starfað árum saman og af mikilli festu og þá meiri myndarskap heldur en aðrar, þar sem reksturinn hefur verið stopulli. Það er enginn vafi á því, það þori ég hiklaust að fullyrða, að þessi starfsemi, þar sem hún er í lagi, er mjög vel séð af sjómönnum og hennar er áreiðanlega saknað á fjölmörgum stöðum í kringum landið, stöðum, sem ætla mætti, að gætu rekið hana rétt eins og hinir, sem þegar eru komnir af stað og hafa staðið að þessu leyti vel í ístaðinu um árabil. Þessari till. er ætlað annars vegar að styðja og koma meiri festu á það áhugastarf, sem þegar er í gangi, hins vegar að hvetja aðra til aðgerða, sem ekki hafa farið af stað enn þá.

Við flm. teljum það eðlilegt, að fulltrúar sjómanna sjálfra eða samtaka þeirra verði kvaddir til undirbúnings, og höfum við því lagt til, að tveir fulltrúar frá samtökum sjómanna ásamt einum fulltrúa frá sjútvrh. verði falið að fjalla um málið og undirbúa till. um úrbætur. Það er skoðun okkar flm., að það sé skynsamlegt og blátt áfram hagkvæmt að leggja meira af mörkum til fyrirgreiðslu á því sviði, sem till. fjallar um, og að það sé tímabært að forma löggjöf um þetta efni.

Ég legg til, að þessari till. verði vísað til allshn. Ég held, að það sé eðlilegt, þar sem hér er um að ræða athugun og þá undirbúning að löggjöf, ef svo vildi verkast. Ég vil nú leyfa mér að fara þess vinsamlegast á leit við hv. allshn., að hún leitist við að hraða afgreiðslu þessa máls, eftir því sem hún telur unnt. Þetta er ekki flókið mál og því kannske ekki nauðsynlegt að senda það víða til umsagnar. En mér er þó ljóst, að það er nú liðið mjög á þingtímann, og ég geri vitanlega engar kröfur til n. í þessu efni, þó að ég beini þessum vinsamlegu tilmælum til hennar.

Hins vegar vil ég leyfa mér að nota þetta tækifæri til þess að láta í ljósi óánægju mína og meðflm. minna yfir því, að till. okkar á þskj. 76, sem vísað var til hv. allshn. fyrir löngu, till. um afnám vínveitinga á vegum ríkisins, hefur ekki enn þá fengið afgreiðslu frá þessari n. Ég satt að segja skil ekkert í þessu. Ég get ekki betur séð en það mál sé ákaflega einfalt, og ég vil skora á hv. allshn. að sýna nú þá rögg, sem þarf til þess að þessi till. geti fengið afgreiðslu á þessu þingi. Ég held, að það sé til þess ætlazt og allir möguleikar á því.

En að því er þetta mál varðar, sem hér er til umr., vil ég að lokum aðeins segja það, að þótt svo færi nú, að tími ynnist ekki til þess að afgreiða þessa till. á Alþ. því, sem nú situr, þá hefði ég nú viljað mega vænta þess, að hæstv. ríkisstj. og sérstaklega hæstv. sjútvrh. léti skoða þetta mál á milli þinga, léti athuga það, þangað til Alþ. kemur saman í haust, hvað sem liði afgreiðslu málsins í þinginu. En ég held þó, að hægt væri að afgreiða það, ef ekki kemur til ágreinings um efni þess.