30.03.1973
Sameinað þing: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2914 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

179. mál, sjónvarp á sveitabæi

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að blanda mér í deilur hv. 4. þm. Vesturl. og 5. þm. Vesturl. varðandi niðurfellingu endurvarpsstöðvarinnar á Ingjaldshóli. Ég tel, að hv. 4. þm. Vesturl. hafi ekkert sagt óeðlilegt í þeim fáu orðum; sem hann beindi til hv. 5. þm. Vesturl. Ég vildi mega vænta þess, að eins og hv. 5. þm. Vesturl. ætlar að fylgja hv. 4. þm. Vesturl. við að koma þessu sérstaka máli í höfn, þá fylgi hann líka hv. 4. þm. Vesturl. með því að greiða atkv. með þessari till., sem hér er á dagskrá og hv. 4. þm. Vesturl. er meðflm. að ásamt mér og fleirum.

Ég skil annars ekki, hvernig stendur á, að það geti komið upp slíkt vandamál sem hér hefur verið greint frá varðandi endurvarpsstöð á Ingjaldshóli. Ég veit ekki nein dæmi þess fyrr en þá þetta, að það hafi orðið til hins verra, þegar sjónvarpið hefur leitazt við að bæta dreifingarkerfið. Mér er ekki kunnugt, að það séu neinar framkvæmdir gerðar í þessum málum nema í þeim tilgangi að bæta ástandið. En nú virðist þessi athafnasemi hafa leitt til annars. Hv. 5. þm. Vesturl. hefur hér bent okkur á eitt dæmi þess, að oft getur íhaldssemin orðið til hinna mestu nytsemda. Það hefði sennilega verið betra að gera ekki neitt í þessu efni.

Ég vík þá aðeins nokkrum orðum að því, sem hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði, hv. 10. þm. Reykv. Í raun og veru get ég tekið undir allt, sem þessi hv. þm. sagði um nauðsyn þess að sinna þeim verkefnum varðandi dreifikerfi sjónvarps og hljóðvarps, sem hann ræddi um. Það voru auk þess nákvæmlega sömu verkefni og ég lagði mikla áherzlu á í minni fyrri ræðu. Ég tek líka undir það, sem hv. 10. þm. Reykv. sagði, að við framkvæmd slíka sem að bæta sjónvarpsskilyrðin er sjálfsagt og nauðsynlegt að raða verkefnunum niður. Ég er honum sammála um það. Þetta getum við gert og eigum að gera. En við þurfum að gera nokkurn greinarmun á hinum almennu verkefnum Ríkisútvarpsins í þessu efni, þar sem við verður komið venjulegum arðsemissjónarmiðum og eðlilegt er, að sé staðið undir með venjulegum tekjustofnum, — við verðum að gera greinarmun á þessu annars vegar og svo því verkefni, sem þessi þáltill., sem hér liggur frammi, fjallar um. Þar verður ekki komið við neinum venjulegum arðsemissjónarmiðum og þess vegna er ekki eðlilegt að leggja þetta verkefni á Ríkisútvarpið eða sjónvarpið. Þetta er annars eðlis. Þetta er verkefni, sem snertir beinlínis þá viðleitni okkar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og leysa verður það eftir þeim leiðum og með sérstöku fjármagni í því skyni.

Hv. 10. þm. Reykv. taldi, að það væri nokkuð of í gert að gera ráð fyrir því, að því yrði lokið á næstu tveimur árum að sjónvarpsvæða þá sveitabæi, sem ekki hafa sjónvarpsskilyrði í dag. Við flm. tiltökum 2 ár til þess að undirstrika nauðsyn þessara framkvæmda, að þær þoli ekki bið. En ég vil fullyrða það, að miðað við þann framkvæmdahraða, sem var á sjónvarpsdreifingunni, þá er þetta hægt af tæknilegum ástæðum og ekki nokkur vandi. Ég held því, að þetta sé ekki óraunhæft. Það er ekkert að mínu viti óraunhæft í sambandi við þá till., sem við flm. flytjum hér.

Hv. 10. þm. Reykv. vék aðeins að því, hvort það væri gert ráð fyrir, að öll býli, sem nú eru í byggð, væru sjónvarpsvædd eða væru í þessari áætlun. Mér skildist, að hans hugsun væri sú, að það gæti verið, að sum þessara býla færu í eyði og það væri ekkert óeðlilegt við það. Það kann allt að vera. Ég sagði, að þessi skýrsla, sem gerð var, hafi verið gerð í febr. 1972 af Landssímanum. Ég get upplýst, að það eru nokkur býli, þó örugglega innan við 10, sem eru komin í eyði, en voru upphaflega í skýrslunni. Auðvitað verður ekki farið að sjónvarpsvæða slíka staði. En ég vil í þessu sambandi benda á, að það þurfa ekki að vera lélegustu bújarðirnar, sem eru út undan. Það fer ekkert eftir því, hvað jörðin er góð eða slæm, hvort það eru sjónvarpsskilyrði. Það eru önnur lögmál, sem ráða því. Það getur verið vildisjörð, stórbýli á bezta stað í sveitinni og í næsta nágrenni við kauptún, þar sem markaðurinn er, en býlið stendur þannig undir fjalli, að það getur ekki notið sjónvarpsskilyrða. Þannig mega menn ekki halda, að með samþykkt þeirrar till., sem hér liggur fyrir, sé sérstaklega verið að hygla þeim býlum í landinu, sem eru verstar bújarðir. Það er ekkert slíkt. Þessar jarðir og þessi býli, sem njóta ekki sjónvarps, eru upp og ofan eins og öll önnur býli í landinu.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða um þetta. Ég hef raunar ekki undan neinu að kvarta um undirtektir við þessa till. Mér sýnist af því, sem hér hefur komið fram, að það sé almennur skilningur á mikilvægi þessa máls. Ég vil mega vænta þess, að hann komi fram í verki með því, að menn greiði þessari till. atkv. og samþykki hana.