02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2935 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

220. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. 220. mál þessarar hv. d. er frv. til l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Hinn 7. marz 1972 var skipuð n. á vegum fjmrn. til þess að endurskoða gildandi lög nr. 38 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breyt. og lög nr. 55 1962, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, með síðari breyt. og l. frá 1915 um verkfall opinberra starfsmanna. Í n. áttu sæti Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari, sem var formaður n., Arnmundur Bachmann lögfræðingur, Björgvin Vilmundarson bankastjóri, dr. Gunnar Thoroddsen prófessor og alþm., Ingólfur A. Þorsteinsson kennari, Vilhjálmur Hjálmarsson alþm., Kristján Thorlacíus deildarstjóri, sem var tilnefndur af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Albert Kristinsson deildarstjóri, sem einnig var tilnefndur af bandalaginu, og dr. Ragnar Ingimarsson dósent, sem var tilnefndur af Bandalagi háskólamanna. Þá voru skipaðir sem varamenn í þessa n. Ingi Kristinsson skólastjóri eftir tilnefningu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Þór Vilhjálmsson prófessor, sem var tilnefndur af Bandalagi háskólamanna. Varamenn þessir tóku þátt í störfum n. Á starfstíma n. hætti Ragnar Ingimarsson störfum, en við starfi hans tók Hrafn Bragason borgardómari, sem var tilnefndur af Bandalagi háskólamanna.

Í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur n. gert svo hljóðandi grein fyrir sinni afstöðu:

N. hóf þegar störf og hefur haldið marga fundi. Kom í ljós að skoðanir manna voru mjög skiptar um, hvernig skyldi haga heildarlausn þessara mála. Gildandi kjarasamningar renna út 31. des. 1973. Er kom fram á árið 1973, var ljóst, að útilokað var að ljúka þeirri heildarendurskoðun, sem fyrirhuguð var, það snemma, að nýjum reglum yrði beitt um samninga þá, sem taka eiga gildi 1. jan. 1974. Var því horfið að því ráði að taka fyrir einn þátt málsins til bráðabirgða, lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, í því trausti, að breyt. á þeim l. fengjust samþ. á því þingi, sem nú situr, og unnt yrði að beita hinum nýju reglum við samningagerð þá, sem hefjast skal á þessu ári.

Allir nm. eru samþykkir meginstefnu frv., en samkomulag náðist þó ekki um tvær greinar 3. og 4. gr.

Meginbreytingarnar frá gildandi lögum, sem allir nm. styðja, eru þessar: 1) Lagt er til, að l. taki einnig til þeirra opinberra starfsmanna, sem ráðnir eru með skemmri en þriggja mánaða uppsagnarfresti: — Eins og kunnugt er, hefur það ekki verið, að lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna hafi tekið til þeirra aðila, sem hafa verið kallaðir lausráðnir starfsmenn ríkisins. En með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að l. nái einnig til þeirra starfsmanna, sem þannig eru ráðnir.

Annað atriði er það, að „heildarsamtök opinberra starfsmanna, sem hlotið hafa viðurkenningu fjmrh., hafi samningsaðild og geri aðalkjarasamning: Það sem hér er um að ræða er í raun og veru viðurkenning á því, að fleiri en einn aðili skuli fara með gerð aðalkjarasamnings fyrir hönd starfsmanna ríkis og bæja.

Áður hefur það verið svo, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur eitt verið í forsvari fyrir ríkisstarfsmennina. En það var orðið álit þeirra, sem að þeim málum hafa unnið og bezt til þekkja, að breytingar væru óumflýjanlegar í sambandi við samninga þá, sem nú eru fram undan milli ríkisstarfsmanna og ríkisins.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Bandalag háskólamanna hefur ekki á síðari árum verið í samtökunum Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Það hefur í raun og veru sagt sig úr þeim samtökum og myndað ný samtök. Þess vegna er gert ráð fyrir því í þessu frv., að hægt sé að veita fleiri en einum heildarsamtökum aðild að þeim kjarasamningum, sem gerðir verða á vegum ríkisins. Það er í raun og veru viðurkenning á því, sem þegar er orðið. Ég leitaði álits um þetta hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og einnig þeim aðilum, sem farið hafa með þessi mál á vegum fjmrn., og það var þeirra mat, að fram hjá þessu yrði ekki komizt, hvort sem mönnum líkaði betur eða verr. Þess vegna er þessi skipan upp tekin, að fjmrh. geti veitt fleiri en einum heildarsamtökum viðurkenningu sem samningsaðila.

Þriðja atriðið er svo, að einstök félög „semji um skipan manna og starfsheita í launaflokka og nokkur önnur atriði: Hér er einnig um nýmæli að ræða. Það er hugsunin, að í aðalsamningi sé um að ræða nokkurs konar rammasamning, sem þó er takmarkaður, og því settar skorður, um að semja skuli í þeim rammasamningi. En þegar honum er lokið, hafa einstök aðildarfélög rétt til þess að semja um skipan manna og starfsheita í launaflokka og önnur atriði, er þar koma til. Hér er einnig um nýmæli að ræða, sem ekki hefur áður verið, og á að gera það að verkum, að þegar frá samningum hefur verið endanlega gengið, verði þeir bindandi fyrir alla þá aðila, sem að samningunum standa. Á þetta að tryggja betur grundvöll samninga en hefur verið með þeim heildarsamtökum, sem að samningsgerð við ríkið hafa staðið.

Það atriði, sem ekki er einróma álit um, er að finna í 3. gr. frv., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði í 1., 2. og 3. mgr. er fjmrh. heimilt að veita læknafélagi Íslands, að beiðni hlutaðeigandi heildarsamtaka, rétt til að fara með kjarasamninga fyrir þá félagsmenn sína, sem ráðnir eru með skemmri uppsagnarfresti en þriggja mánaða. Tekur þetta bæði til aðalsamnings og sérkjarasamninga:

Um þetta atriði urðu skiptar skoðanir. Raunar var það stefnan, sem átti að marka við gerð þessa samnings, að ef fleiri en einum heildarsamtökum væri veitt aðild að samningsgerðinni, yrði ekki um fleiri aðila að ræða. Ljóst var, að ekki mundi með neinu móti nást samstaða um þetta eða málið í heild, ef þessu yrði haldið til streitu. Þetta mál var því mjög athugað, og niðurstaðan varð sú, að þrátt fyrir það, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja væri þessu atriði mótfallið, lýstu fulltrúar þess því yfir, að þeir mundu heldur una því en að láta málið stranda á þessu atriði. Enn fremur hefur það komið fram í viðræðum við læknasamtökin, að þrátt fyrir það, að þau hafi kosið að hafa þetta svona nú, stefndu þau að því, að um heildarsamtök gæti orðið að ræða síðar meir, og vildu vinna að því, að svo yrði, þó að þau vildu ekki tapa þeim rétti, sem þau hefðu raunverulega verið búin að ná þrátt fyrir ákvæði eldri laga. Það varð því úr, að á það var fallizt að bera frv. fram með þessum hætti, enda voru þeir aðilar, sem fyrst og fremst voru viðsemjendur í þessari frumvarpsgerð, búnir að gera grein fyrir því með þeim hætti, að þeir vildu una því, jafnvel þótt þeir hefðu ekki kosið að hafa það svo.

Þá er einnig gert ráð fyrir því, að ríkisstarfsmaður, sem eigi er innan vébanda heildarsamtaka þeirra, sem viðurkenningu hafa hlotið samkv. 1. mgr., skuli greiða til þeirra heildarsamtaka, sem hann á að vera í, gjald eins og hann væri félagsmaður. Þykir þetta réttmætt með tilliti til þess, að þessir aðilar njóta þeirra réttinda og þess, sem að samningsgerðinni lýtur, ekkert síður en hinir, sem borga sín félagsgjöld til að kosta þau félagssamtök, sem að samningum standa.

Þá er og ákvæði í frv. um það, að félagsmönnum, sem eru fyrir utan þessi samtök, sem hér hafa verið greind, hefur ráðh. rétt til þess að ákveða laun í samræmi við heildarsamninga þá, sem gerðir verða samkv. þessu frv., ef að lögum verður.

Eins og ég tók fram þegar í upphafi, var hlutverk þeirrar n., sem skipuð var 7. marz 1972, að vinna að því, að sett yrðu heildarlög, þar sem stefnt væri að því, að opinberir starfsmenn fengju verkfallsrétt. Þrátt fyrir það að þetta frv. er komið fram nú, mun n. sú, sem að þessum málum hefur unnið, halda áfram að vinna og vita, hvort hægt er að ná samstöðu eða hver endanleg niðurstaða verður um þetta meginatriði málsins. Á það hefur ekki endanlega reynt enn þá, en það mun verða gert við framhaldsvinnu þessarar n. Það hefur komið fram í þeim umr., sem farið hafa fram um slíka samningsgerð, þar sem opinberir starfsmenn fengju fullan samningsrétt og fullan verkfallsrétt, að þá þyrfti að fara inn á hið almenna svið, þannig að ráðningarkjör þeirra yrðu með sama hætti og annarra manna, er til starfs yrðu ráðnir. Æviráðning, eins og það er kallað, þegar maður getur setið í embætti fram til sjötugs, gæti þá ekki átt við. ef til slíks kæmi. Enn fremur hefur í þeim umr. komið fram, að einhverjar takmarkanir yrðu að vera á verkfallsrétti, vegna þess að þjóðféfagið yrði að geta haldið uppi ýmsum störfum, en mönnum, sem þeim sinntu, væri erfitt að veita verkfallsrétt. En umr. um þessa þætti málsins eru ekki orðnar það víðtækar, að hægt sé að segja, á hverju kynni að stranda, ef það strandar, eða með hvaða hætti það kynni að leysast, ef leyst verður. Hitt vil ég taka fram, að að þessu verki verður unnið áfram til þess að reyna til þrautar að ná því takmarki, sem stefnt var að með skipun n.

Þá er ekki í þessu frv. gert ráð fyrir starfsfólki ríkisbankanna eða lánastofnana ríkisins. Það hafa einnig orðið um það nokkrar umr., hvort ekki væri rétt, að starfsfólk þessara stofnana félli alveg undir lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Meðal þessa fólks munu vera eitthvað skiptar skoðanir um það, en á síðara stigi málsins mun verða athugað betur, hvort það er hugsanlegt eða ekki.

Enn fremur var það mjög rætt í n., hvort starfsfólk Alþ. ætti ekki að njóta þeirra réttinda og skyldna, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Nefndarformaður og aðrir nm. ræddu þetta nokkuð við mig, og niðurstaða mín varð sú, að bezt væri, að frv, færi til Alþ., án þess að mælt væri fyrir um það. En ég gat þess, að ég mundi hins vegar við framsögu minnast á það hér á hv. Alþ., að þetta hefði verið mjög til umr. í n. Ég tel mig fara þar með rétt mál, að a. m. k. þó nokkur hluti nm. taldi eðlilegt, að starfsfólk Alþ. tilheyrði þessum hópi og nyti þeirra réttinda og skyldna, sem opinberir starfsmenn njóta.

Ég vil því leyfa mér að biðja þá n. hér í hv. d., sem fær þetta mál til meðferðar, að kynna sér þetta bæði hjá forsetum Alþ. og skrifstofustjóra svo og starfsfólkinu. Frá minni hendi væri það með góðu samþykki, ef þessi breyting yrði gerð hér.

Fyrir meginbreytingum í þessu frv. er gerð grein í upphafi grg., þar sem m. a. stendur, að einstök félög fái vissan rétt til þess að ganga endanlega frá sínum samningum, eftir að heildarsamningar hafa verið gerðir. Gildistími aðalsamnings er 2 ár. Einnig eru tímamörk, eftir að aðalsamningur hefur verið gerður, þar til frá sérsamningum á að vera búið að ganga, og gildistakan miðuð við það.

Mér er ljóst, að hér eru ekki á ferðinni nein stórkostleg nýmæli frá því, sem áður hefur verið. Hins vegar held ég, að ekki orki tvímælis, að frv. er til verulegra bóta við væntanlega samningsgerð frá því, sem er í gildandi lögum. Það er flutt að ráði þeirra, sem bezt þekkja og mesta vinnu hafa lagt fram í sambandi við slíka samningsgerð. Um það var samstaða í n. svo góð, að ekki var hægt að gera ráð fyrir á þessu stigi málsins að ná betri samstöðu um frv. en þegar er orðin.

Eins og ég gat um áðan, er það von mín og þeirra samningsaðila, sem koma til með að taka þátt í næstu kjarasamningum, að þetta frv. nái fram að ganga hér á hv. Alþ. nú. Ég veit, að hv. alþm. meta þá sameiginlegu afstöðu þeirra, sem að þessu unnu, á þann veg, að þeir greiði fyrir framgangi málsins.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara út í fleiri atriði að þessu sinni, því að þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, mun verða gerð grein fyrir þeim sérsjónarmiðum, sem fram komu hjá nm. og ég hef þegar skýrt frá, þó að niðurstaðan væri á einn veg. Ég legg því til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.