02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2982 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil víkja örfáum orðum að málflutningi þeirra frsm. 1. og 2. minni hl. fjh.- og viðskn.

Hv. 7. þm. Reykv., sem talaði fyrir áliti 2. minni hl., lauk ræðu sinni með því að gera samanburð á vísitöluhækkunum í tíð núv. og fyrrv. ríkisstj. Ég vil í því sambandi rétt minna á hvað gerðist árið 1967. Nokkru fyrir kosningarnar var gerð verðstöðvun, sem menn hafa svo seinna kallað kosningaverðstöðvun, því að fyrirbrigðið endurtók sig 1971. Þessi verðstöðvun stóð fram á haustið 1967. Þm., sem þá voru á þingi, er það að sjálfsögðu minnistætt, hvernig þá var málum komið. Stjórnarliðið vissi ekki sitt rjúkandi ráð, fyrr en svo lánlega vildi til fyrir það, að Bretar felldu gengi sterlingspundsins, og þá leystu þeir sín mál að nokkru með stórfelldri gengislækkun, miklu meiri en sem svaraði lækkun pundsins. Sami leikur var svo endurtekinn aftur fyrir kosningarnar 1971, þ. e. a. s. þá var aftur byggð svikul stífla fyrir verðbólguflóðið, kosningaverðstöðvun var framkvæmd aftur, en ekki með sama árangri gagnvart kjósendum, því að þeir létu ekki blekkjast þriðja sinnið af þessu bragði, en auðvitað með sömu afleiðingum að öðru leyti. Það hefur víst enginn reiknað það út í prósentum, hvað það kostaði í hækkun vísitölu, þegar sú stífla sprakk og allur dammurinn, eins og hann var þá líka þokkalegur, flæddi yfir þjóðina. Það væri kannske ekkert úr vegi að taka það inn í samanburð líkan þeim, sem hv. 7. þm. Reykv. var að gera. En annars er þessi prósentureikningur hv. 7. þm. Reykv. eitt hið allra kunnasta og þekktasta fyrirbrigði í íslenzkum stjórnmálum, sem þjóðin öll gerþekkir og ástæðulaust er að ræða margt um hér.

Það mætti halda af málflutningi bæði í nál. og í ræðum frsm. minni hl. fjh.- og viðskn., að það væri gífurlegur ágreiningur um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og þeir væru ákveðnir í því að einbeita sér og öllu stjórnarandstöðuliðinu til þess að fella þennan djöfuls óskapnað og koma frv. fyrir kattarnef. Það eru komin ítarleg nál., og það er búið að flytja æðilangar og vel uppbyggðar ræður um þetta mál. En þegar menn lesa með athygli nál. og hlýða á þessar ræður, þá verður allt annað upp á teningnum. Þar er næstum engin gagnrýni á frv., heldur er rætt í löngu máli um vinnubrögð ríkisstj. og hvað hún hafi verið sein að afgreiða sjóðamálin. Eiginlega hefðu þessir hv. þm. getað komið þessu öllu saman fyrir í einni setningu með því að hafa yfir gamla vísuorðið: „Illa gengur að afgreiða póstinn.“

Ég sagði það í minni framsögu og er ekkert að draga fjöður yfir það, að það er auðvitað æskilegt, að samferða verði allt í senn: fjárlög, framkvæmdaáætlun og yfirlit um þarfir sjóðanna. Að þessu hefur verið stefnt. Fyrrv. ríkisstj. stefndi að þessu, þótt henni tækist það aldrei. Og að þessu er stefnt og það verður stefnt að þessu, enda þótt þetta hafi mistekizt núna. Viðreisnarstjórninni tókst aldrei að láta þetta verða samferða, því að framkvæmdaáætlunin hefur aldrei fylgt fjárlögunum. Frv. um lántöku vegna hennar var á þeim árum aldrei lagt fram fyrr en á útmánuðum og fylgdi aldrei fjárlögunum og var oft mjög seint á ferðinni. Eins var með afgreiðslu sjóðanna. Hún var oft seint á ferðinni. Á öllum tímum eru vandkvæði á því að ráða til lykta þessum vandasömu málum, þó að ekki bættist við það, sem nú hefur gerzt, voðaatburðir af völdum náttúruhamfara, sem auðvitað gera strik í reikninginn á þessum sviðum eins og á öðrum, þó að flokkar þeir, sem þessir frsm. hafa talað hér fyrir, hafi heimskað sig á því að halda því fram, að slíkt snerti ekki efnahagsmál þjóðarinnar í heild. Það er kapítuli út af fyrir sig.

Nei, þetta er gömul og ný saga. Ég skal ekki segja, að viðreisnarstjórnin hafi bisað við það í 12 ár að tengja saman fjárlög, framkvæmdaáætlun og fjáröflun vegna lánasjóða, en í síðasta skiptið, þegar Magnús Jónsson, fyrrv. hæstv. fjmrh., talaði fyrir framkvæmdaáætluninni, þá harmaði hann það. að þetta hefði ekki enn tekizt, en að þessu bæri að stefna. Ég segi ekki, að hann hafi bisað við þetta í 12 ár, en mörg ár, og það tókst ekki. Og það var auðvitað fleira af svona málum, ekki sízt á efnahagssviðinu, sem verið var að glíma við, t. d. leiðréttingar í skattamálum. Mér er minnisstæð lýsing þáv. hæstv. fjmrh. á því, hvernig tekju- og eignarskattalögin væru í reynd, þegar hann talaði síðast fyrir breytingu á þeim lögum. Hún var ekki falleg. Nei, það er engin ástæða til þess að vera með þennan glumrugang, þó að þessi mál séu ekki samferða nú fremur en oft áður.

Ég er nú ekki alveg viss um, að það sé eins mikil alvara á bak við kröfurnar um það að fá þessar upplýsingar — vissulega æskilegar upplýsingar — um málefni lánasjóðanna og um niðurskurð á fjárlögum, eins og hv. frsm. minni hl. vilja vera láta. Þetta frv. var fyrst tekið fyrir í fjh.- og viðskn. 16. des. og þá aðeins rætt. Svo var ekki meira um það fjallað fyrir áramótin, og var þá samkomulag um að láta það bíða. En þegar þetta var tekið fyrir í annað sinn í n. 22. marz, þá satt að segja boðaði ég þann fund m. a. til þess, að menn gætu áttað sig á því, hvaða upplýsingum þeir óskuðu eftir, en það hefur verið venja að biðja um ýmsar upplýsingar í sambandi við þetta mál. En þá komu engar sérstakar óskir fram á þeim fundi, og ég skyldi það svo, að menn væru tilbúnir að afgreiða málið á þriðjudag næstan á eftir þessum, sem við og gerðum raunar. Það er ekki fyrr en á mánudag, að það koma fram ákveðnar óskir um tilteknar upplýsingar, þ. e. 26. marz, en á fundinum, sem við héldum 22. marz, kom ekki þessi beiðni fram. Mér finnst þetta benda til þess. að það sé ekki eins mikil alvara á bak við þetta og hv. frsm. vilja vera láta, á bak við þessa kröfu, þó að þeir virðist nú telja það alveg ófrávíkjanlegt og óhjákvæmilegt atriði, að þessar upplýsingar liggi fyrir hér við meðferð málsins. Nálega öll gagnrýni hv. ræðumanna, frsm. minni hl., snerist um vinnubrögð ríkisstj. Þó er það nú svo, að 1. minni hl. kemur inn á efnisatriði þessa frv. í niðurlagi í nál. sínu, og segir þar, að það ætti að hugsa alvarlega um að draga úr framkvæmdum hins opinbera, einkum þar sem þær hafa verið mestar, o. s. frv. Hvað meina svo hv. þm. með þessu, þeir sem standa að þessu áliti? Hafa þeir lagt fram einhverjar tillögur um það að hægja á í sambandi við þetta mál, sem hér er til meðferðar, — þetta mál sérstaklega? Það fylgdi ekki með. Og það er ástæða til þess í sambandi við bollaleggingar þeirra, að líta aðeins á frv. eins og það liggur fyrir og hvað þar er um að tefla. Og ef við lítum á frv. eins og það liggur hér fyrir í heild, með þeim brtt., sem fluttar voru á þskj. 444 og ég lýsti, þá kemur í ljós, að allur obbinn af því fjármagni, sem um er að ræða í þessu frv., gengur til tveggja meginþátta, annars vegar til rafmagnsmála og þá fyrst og fremst í dreifbýli, því að þar starfa Rafmagnsveitur ríkisins, og hins vegar til samgöngumála — langsamlega mestur hlutinn, hitt eru hreinir smámunir miðað við heildina.

Ég ætla ekki að fara að eyða tíma í að rifja þetta upp í einstökum liðum. Menn hafa þetta fyrir framan sig á borðunum. Og þá er það spurningin, eftir að hafa lesið þessi niðurstöðuorð í nál. 1. minni hl.: Treystir hv. frsm. 1. minni hl. sér til þess að lækka einhvern af þessum liðum og þá að marki? En eins og ég sagði áðan: Um það fylgdi engin tillaga. Auðvitað eru rafmagnsmál og samgöngumál í eðli sinu alltaf mál þjóðarinnar allrar. En það, sem hér er um að tefla, er þó jafnframt alveg sérstaklega dreifbýlismál. Langstærsti liðurinn, Rafmagnsveitur ríkisins, eru mál, sem heyrir dreifbýlinu til alveg sérstaklega. Laxárvirkjunin á að mata stóran landshluta utan aðal þéttbýlissvæðisins. Sveitarafvæðingin, stofnlínan norður, þetta allt saman er nátengt hagsmunum landsbyggðarinnar. Sama gildir um samgönguþáttinn í stórum dráttum, þó að hann snerti líka þéttbýlið. Og auðvitað eru öll samgöngumál samanslungin og snerta þjóðfélagið í heild. En þarna eru stórir hlutir, sem snerta þéttbýlið líka, eins og t. d. Hafnarfjarðarvegurinn, sem er mjög mikið og dýrt verk, sem ég vil segja, að verði að ljúka. Það er afskaplega lítil hagsýni í því að leggja stórfé í verk á borð við þetta og ljúka þeim ekki, þannig að þau komizt í gagnið.

Þetta er það, sem við blasir, ef menn rýna í einstaka þætti þessarar áætlunar, að málin eru svona vaxin, og svo segir hv. 1. minni hl. þetta, sem ég vitnaði til áðan, að það ætti að hugsa alvarlega um að draga úr framkvæmdum hins opinbera, þar sem þær hafa verið mestar, án þess að flytja till. um eitt einasta atriði og án þess að víkja að einstökum liðum í nál. hv. minni hl., sem er undirskrifað af tveimur hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni og Matthíasi Á. Mathiesen. Það er ástæða til að spyrja: Er þetta hægt, Matthías? Þannig var einhvern tíma spurt áður. Þá var svarið já — eftir nánari athugun! En ég held, að hér gildi ekki það sama. Ég held, að ef þeir gefi sér tíma til að hugsa sinn gang, að þeir mundu komast að því, að það er ekki hægt að taka mikið mark á svona málflutningi, nema beinar till. fylgi. Annars er það ekki hægt.

Þetta sá líka frsm. 1. minni hl., þótt seint væri. Hann sá það ekki fyrr en hann fór að tala hér áðan. Þá svall honum móður. Og hann var þangað til að mjálma í sig móðinn, að hann setti fram ákveðna tillögu. Og það var virðingarvert út af fyrir sig, að láta sig hafa það. Hann sló því fram í fyrsta lagi, hvort ekki væri rétt að láta Sigölduvirkjun bíða í eitt ár. Nú er Sigölduv. að vísu ekki í þessu frv., en hún er náttúrlega einn liður í þeim verkefnum, sem þarf að fjármagna. Nú skal ég ekki gera mig að dómara í þessu, hvort hægt er að láta Sigölduvirkjun bíða í eitt ár. En allur málflutningur, sem ég hef heyrt í sambandi við þetta mál, er á þá leið, að hér á mesta þéttbýlissvæði landsins vofi yfir orkuskortur, ef ekki er haldið áfram skv. áætlun við þessa virkjun. Ef þetta er rétt, þá gæti það orðið þjóðinni dýrt að láta slíkar framkvæmdir bíða, fresta þeim um eitt ár. Og það þarf þá raunar ekki að líta eingöngu til yfirvofandi orkuskorts, heldur sér hver maður hvað það kostar í óhagkvæmni og í vöxtum, að stöðva slík verk eða hægja á þeim í miðjum klíðum, svo að ég efast um, að þetta sé raunhæft, þó að það sé virðingarvert að manna sig upp í það að nefna ákveðið atriði. Og hann nefndi líka annað atriði og það snertir þetta frv. Hann nefndi einnig hraðbrautarframkvæmdir hér syðra. Nú er það svo, að í vegáætlun fyrir 1973 er gert ráð fyrir aðalhraðbrautarframkvæmdunum hér suður á Reykjanesskaga eða fyrir eitthvað um 90 millj. kr. Og þá fer það kannske að verða skiljanlegt, að þeir nafnar. hv. 2. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Reykn., hikuðu við að gera um þetta sameiginlega tillögu, enda hugsa ég, að hv. 2. þm. Vestf. hafi bara dottið þetta í hug, þegar hann var kominn í „stuð“ hérna í ræðustólnum. Hér til viðbótar eru líka ráðgerðar framkvæmdir við Hafnarfjarðarveg, þar sem hann kemur beint inn í sundurliðun í 10. gr., eins og vikið hefur verið að. En hvað sem því líður, hvers vegna ekki var nú gerð um þetta tillaga af hálfu þeirra í 1. minni hl., hvað væri þá efnislega séð um það að segja að fresta þessum verkum? Nú hef ég ekki haft tíma til þess að setja mig inn í það að nýju, eða rifja upp þau fræði, sem okkur voru þulin, þegar vegáætlunin var gerð. En það má mikið vera, ef þessar vegaframkvæmdir eru ekki taldar einhverjar þær arðbærustu, sem hægt er að gera. Þarna er um að ræða að leggja varanlegt slitlag á og byggja upp vegi, sem liggja undir mjög mikilli umferð og mér þykir líklegt að séu ekki stórum betri yfirferðar heldur en Keflavíkurvegurinn sjálfur var orðinn, áður en hann var lagður varanlegu slitlagi. Og þá gefur það auga leið, að þessi framkvæmd hlýtur að vera, miðað við vegaframkvæmdir á Íslandi, mjög arðbær og beinlínis gjaldeyrissparandi, vegna þess gífurlega sparnaðar, sem leiðir af varanlega slitlaginu, í rekstri bifreiðanna. Þetta þarf sjálfsagt vel að skoða, áður en út í það væri farið, og frá mörgum hliðum.

Í nál. 1. minni hl. er vikið að manneklunni og alveg sérstaklega manneklu í sjávarútvegi. Og frsm. þess nefndarhluta kom inn á þetta í sinni ræðu. Þar er vissulega mikið vandamál á ferðinni, sem út af fyrir sig þarf að vega og meta, þegar ákvörðun er tekin um opinberar framkvæmdir. En það er þó, ef ekki villandi, þá a. m. k. ekki nægilegt að líta fyrst og fremst á þann þátt út frá því ástandi, sem ríkir á vetrarvertíð. Það er vegna þess, í fyrsta lagi, að það mun vera ein mannfrekasta árstíðin í sjávarútveginum, og svo hins vegar, að þá er fæst fólk á vinnumarkaðinum vegna þess fjölda, sem þá er í skólum landsins. En svo vill hins vegar til, að opinberar framkvæmdir margar eru að miklum hluta unnar á sumrin, þegar skólafólkið hópast út úr skólunum og leitar á vinnumarkaðinn. En enda þótt þetta sé þannig vaxið, þá er hér auðvitað aðgæzlu þörf. Og að sjálfsögðu er leitazt við á hverjum tíma af hálfu stjórnarvalda, að taka fullt tillit til þessa atriðis. En það kemur engin ákveðin ábending fram um þetta í tillöguformi, ekki frekar en annað varðandi þetta frv., frá talsmönnum minni hl.

Það er ekki rétt í nál. 1. minni hl., þar sem sagt er, að ríkisstj. leggi áherzlu á að hækka opinberar framkvæmdir um 150 millj. kr., frá því, sem var í frv., þegar það var lagt fram. Þessi hækkun er um 200 millj. kr., eins og ég hélt, að við hefðum verið búnir að rifja upp í n. og ætti að vera alveg augljóst af brtt. Það er nú mál út af fyrir sig. Þessi hækkun er sem sagt gagnrýnd, án þess að nokkrar formaðar till. fylgi og engar till. utan þessarar, sem ég gat um, hjá frsm. 1. minni hl. Út af þessu vil ég til viðbótar því, sem ég hef áður sagt um þetta atriði, minna á tvennt. Í fyrsta lagi það, að þegar þetta mál var til 1. umr. hér um jólin, kom fram nokkur gagnrýni, og við 1. umr. töluðu sex hv. þm. þar af fimm úr hópi stjórnarandstöðunnar. En þeir töluðu ekki um að draga úr framkvæmdum, heldur þvert á móti. Tveir þeirra óskuðu eftir hækkunum á lántökum vegna vega og tveir eða jafnvel þrír vegna vega og hafna. En það orðaði enginn samdrátt af þeim, sem töluðu hér af hálfu stjórnarandstæðinganna. Þannig var tónninn þá. Ég vil einnig minna á ummæli hæstv. fjmrh., sem hann viðhafði við 1. umr., þar sem hann lagði áherzlu á, að það, sem hefði verið lagt til grundvallar við gerð þessa frv., væri í fyrsta lagi að halda áfram þeim verkefnum, sem hafin eru og ógerlegt er að stöðva. Virkjanirnar tvær eru dæmigerðar um það. Og reyndar fleiri verk en þær. Ýmis rannsóknarstörf, sem unnið er að ár frá ári er t. d. ómögulegt, án stórtjóns, að fella út eitt ár. Hins vegar er það, sagði hæstv. ráðh., að ráðast í ýmis verk, sem nánast væru óhjákvæmileg, eins og að styrkja flutningalínur rafmagns, treysta vararafstöðvar og fleira af slíku tagi, sem alveg væri óhjákvæmilegt að ráðast í, ef ekki ætti að hljótast tjón af.

Ég skal nú ekki hafa þessi orð miklu fleiri. En þannig hefur þessi málflutningur hjá hv. minni hl. komið mér fyrir sjónir, að auk þess að tvístíga sí svona yfir lækkun eða ekki lækkun á einstökum liðum þessa frv., þá er fyrst og fremst kaldhamrað á því, að hér verði að liggja fyrir upplýsingar um lánasjóðina og upplýsingar um niðurskurð á fjárl. Ég vil bara árétta það, að þó að þetta sé æskilegt, þá hefur sú raunin orðið á, að menn hafa þurft æ ofan í æ að afgreiða þessi mál hvert í sínu lagi eins og nú, en ekki í samhengi. Það er t. d. alls ekki rétt, sem segir í áliti 2. minni hl., — það er alrangt, og ég skil ekkert í því satt að segja, — þar segir:

Fyrrv. ríkisstj. tók upp þann sið að semja framkvæmdaáætlun um opinberar framkvæmdir utan fjárl. fyrir komandi ár og gera Alþ. grein fyrir þeim samtímis fjárlagafrv. Var þetta gert í sambandi við öflun lánsheimilda til þessara framkvæmda. Það er og efni þessa frv: Þetta er alls ekki rétt. Frv. um lántökuheimildir voru ekki lögð fram á sama tíma og fjárl. Ég hef ekki gáð að dagsetningum nema fyrir síðustu tvö árin hjá fyrrv. ríkisstj. Frv. um lán vegna framkvæmdaáætlunar var útbýtt 2. apríl 1970 og 16. marz 1971. Ég er alveg hissa á þessari fullyrðingu hjá hv. 7. þm. Reykv., sem var ráðh. í fyrrv. stjórn.

Það er álit okkar í meiri hl., að það sé ekkert hér annað að gera en leitast við að meta efni þessa frv. sjálfstætt, eins og það liggur fyrir og eins og menn hafa áður metið fjárlög sér í lagi. Þetta verður að gera. Við megum vel við una í meiri hl., hvað snertir mat minni hl. á þessu frv. Það hafa varla og ekki í nál. verið bornar brigður á eitt eða neitt atriði í þessu frv., ekkert einstakt atriði. Meiri hl. má vel við það una. Önnur efni, bæði skyld og óskyld, sem hér hefur borið á góma í ræðum hv. þm., skal ég ekki ræða að sinni.