03.04.1973
Sameinað þing: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2996 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

9. mál, lánsfé til hitaveituframkvæmda

Frsm. (Geir Gunnarsson) :

Herra forseti. Fjvn. hefur fjallað um þá till. til þál., sem hér er til umr. þ. e. a. s. till. til þál. um lánsfé til hitaveituframkvæmda. N. hefur fengið umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um till., og leggja samtökin til, að ráðstafanir verði gerðar til að útvega Lánasjóði sveitarfélaga nægilegt lánsfé til að lána sveitarfélögum til framkvæmda sinna, þ. á m. hitaveituframkvæmda. Þá fékk fjvn. umsögn Framkvæmdastofnunar ríkisins um þáltill. Í bréfi Framkvæmdastofnunar segir m. a. með leyfi hæstv. forseta:

„Af þessu tilefni skal upplýst, að ár hvert er að því unnið á vegum framkvæmdasjóðs að afla Lánasjóði sveitarfélaga nauðsynlegs lánsfjár til brýnna framkvæmda. Hafa hitaveituframkvæmdir að öllum jafnaði haft þar algeran forgang, svo sem sést á því, að árið 1972 var ráðstafað 100 millj. kr. frá framkvæmdasjóði til Lánasjóðs sveitarfélaga, en af útlánum hins síðarnefnda gengu 66 millj. kr. til hitaveituframkvæmda.“

Og í skýrslu frá Lánasjóði sveitarfélaga, sem fylgir umsögu Framkvæmdastofnunar, kemur fram, að útlán sjóðsins á 6 árum, frá upphafi til þessa dags, nema 368 millj. kr., þar af lán til hitaveituframkvæmda um 120 millj. kr. Á árinu 1972 voru lánveitingar 144 millj., þar af lán til hitaveituframkvæmda 66 millj. kr. Af útlánafénu hafa 195 millj. kr. verið teknar að láni hjá Framkvæmdasjóði Íslands, svo sem hér segir: 1967 5 millj., 1968 15 millj., 1969 10 millj.. 1970 25 millj., 1971 40 millj. og 1972 100 milli. kr. Þá kemur fram, að lán úr Lánasjóði sveitarfélaga til hitaveituframkvæmda hafa verið aukin mjög og hafa numið eftirgreindum upphæðum: 1967 350 þús., 1968 300 þús., 1969 2 millj., 1970 31 millj., 1971 20 millj. og 1972 66 millj. kr., eða samtals 119 millj. 650 þús.

Fjvn. óskaði einnig umsagnar Orkustofnunar um þáltill. Orkustofnun leggst gegn þeirri hugmynd, sem fram kemur í grg. till., að stofna sérstakan sjóð til að fjármagna hitaveituframkvæmdir, en telur, að miklu eðlilegra væri að efla orkusjóð og auka verkefni hans með því að heimila honum að fjármagna framkvæmdir jafnt sem rannsóknir á jarðvarmasviðinu.

Afstaða fjvn. til þess, að stuðlað verði að því að auka fjármagn til hitaveituframkvæmda, er jákvæð. Fjármögnun til hinna nauðsynlegustu framkvæmda í þjóðfélaginu, hvort sem um er að ræða hafnarframkvæmdir, hitaveituframkvæmdir, vegaframkvæmdir, framkvæmdir í flugsamgöngum og öðru, sem einnig mætti telja, hljóta að verða að skoðast í samhengi. Jafnan verður að velja og hafna, þar sem seint verður unnt að verða við ítrustu óskum á öllum sviðum.

Að þessu öllu athuguðu er það till. fjvn., að þáltill. á þskj. 9 verði vísað til ríkisstj.