04.04.1973
Efri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3035 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

69. mál, Hæstiréttur Íslands

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er ósköp einföld yfirlýsing, sem ég óska eftir frá hæstv. fjmrh. eða hæstv. dómsmrh. vafningalaust. Hún er einfaldlega sú, að þessi nýi dómari verði ekki ráðinn, eða skipaður í embætti, fyrr en þessar breytingar hafa verið gerðar. Ef sú yfirlýsing liggur fyrir, er ég reiðubúinn til að styðja þetta mál. Ef hún liggur ekki fyrir, greiði ég atkv. gegn frv. Ég mundi telja eðlilegast, ef ekki er hægt að fá þessa yfirlýsingu nú, að þá verði frv. tekið út af dagskrá og því frestað, þannig að það væri ekki verið að tefla því í óefni. En mér finnst ósköp einfalt að fá yfirlýsingu á þennan hátt.