06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3093 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Hv. 2. þm. Reykv. hefur rætt ýmis atriði varðandi vinnubrögð í sambandi við þetta mál og aðbúnað sjávarútvegsins í sambandi við lánveitingar, eins og nú standa sakir, og skal ég ekki fara frekar út í þau atriði, en vildi þó aðeins með nokkrum orðum minnast á þetta mál.

Þetta er eitt af þremur frv., tvö þeirra eru þegar komin fyrir Alþ., um Fiskveiðasjóð Íslands og Iðnlánasjóð, og það þriðja væntanlegt eftir helgi, um stofnlánadeild landbúnaðarins, sem eiga að miða að því að bæta fjárhagsaðstöðu þessara þriggja stofnsjóða. Út af fyrir sig er ekki nema gott um það að segja að styrkja þessa sjóði, því að ég get efnislega verið sammála því, að það er ljóst, að það horfir í fullkomið óefni með uppbyggingu þeirra, ef á að byggja jafnmikið og í vaxandi mæli á lántökum til að mæta þörfum þeirra og nú verður að gera, enda málum þannig háttað, að það er illmögulegt að sjá, hvernig á að láta enda ná þar saman. Hitt er auðvitað annað mál, að ýmislegt varðandi einstök vinnubrögð í þessu sambandi getur verið athugunarvert, ekki sízt það, sem hér var vakin athygli á áðan, að varðandi alla þessa sjóði er um svo mikið mál að ræða og grundvallarstefnumörkunaratriði varðandi uppbyggingu þeirra, að það er auðvitað með öllu fráleitt að Alþ. fái ekki svigrúm til þess að íhuga þetta stóra vandamál í heild og gera sér grein fyrir því, hvernig á að mæta því. Ég vil ekkert um það segja, nema það gæti orðið grundvöllur til þess að ná samkomulagi um uppbyggingu sjóðanna og skapa þeim sterkari undirstöðu, eins og ég tel nauðsynlegt og ég hygg að ríkisstj. stefni að með þessum frv. En það hefur ekkert verið reynt til slíks, og það hefði auðvitað mátt gera það hér á þingi og hefði ekki verið óeðlilegt, hvað sem líður undirbúningi málanna. En það gefst ekkert tóm til þess, svo sem málum er háttað.

Það er ýmislegt í þessum frv., sem vekur athygli og mun kannske verða vikið nánar að í sambandi við framkvæmdaáætlun ríkisstj. Þá meina ég ekki hvað sízt það, að hér er gert ráð fyrir að leggja allverulega aukinn bagga á ríkissjóðinn nú þegar á þessu ári, samtímis því sem gert hefur verið ráð fyrir, að þyrfti að skera niður stórlega ríkisútgjöld að öðru leyti. Á ég þar ekki eingöngu við þetta frv., heldur iðnlánasjóðsfrv., sem hér liggur einnig fyrir til meðferðar.

Mál þetta, varðandi alla þessa sjóði er í heild sinni stórkostlegt vandamál, eins og ég sagði, og sívaxandi vandamál. Ég get fúslega fallizt á það meginsjónarmið, að þetta þurfi að takast til heildarathugunar, og vitanlega hefði verið æskilegast allra hluta vegna, að það hefði getað gerzt með sem allra víðtækustu samkomulagi. Því ber að harma það, að þessi vinnubrögð eru höfð og menn fá ekki svigrúm til þess að gera sér grein fyrir því, hverjar hefðu verið æskilegustu leiðirnar til að ná þessu mikilvæga takmarki.

Fiskveiðasjóður er e.t.v. ekki stærsta vandamálið í þessu sambandi. Hann er það hvað upphæðir snertir, en ekki varðandi afkomulega hlið vegna þess að fiskveiðasjóður hefur verið byggður upp mjög mikið með eigin framlögum sjávarútvegsins, þannig að það er ekki fyrr en nú á síðustu árum, sem reynir verulega á það, að ráðstöfunarfé hans fer hlutfallslega minnkandi og hann er meira og minna háður lántökum. Þess vegna er vandi hans að verða svo mikill sem raun ber vitni. En það eru aðrir sjóðir, sem raunverulega eru þó meira vandamál að þessu leyti, því að það verður að fjármagna þá að svo til öllu leyti með lánsfé, svo sem á sér stað með stofnlánadeild landbúnaðarins, sem ég ætla ekki að öðru leyti að ræða hér, en nefni aðeins vegna þess að öll þessi mál eru nátengd hvert öðru og um sams konar vanda að ræða í öllum tilfellum. Þetta vildi ég aðeins efnislega láta koma fram.

Mér finnst ámælisvert, að stjórnin skuli hafa valið þann kost að láta þetta mál dankast þangað til nú síðustu daga þingsins, vegna þess að þetta mál var auðvitað ljóst löngu fyrr, þannig að það hefði verið hægt að taka það til athugunar með alveg nægilegu svigrúmi. Það var ljóst fyrir áramót, að þessi vandi sjóðanna væri af einhverri svipaðri stærðargráðu og hér er talað um. Auk þess er vandi þeirra í rauninni alls ekki leystur með þessu frv. nema að sáralitlu leyti, þannig að það er aðeins gert ráð fyrir að brúa bil, sem þó er stórkostlega vafasamt, að sé verið að brúa eða takist að brúa. Mér er nær að halda, að það fari eins og einhvern tíma, að það var veitt fé í hálfa brú. Það eru eitthvað svipuð þau átök, sem hér er verið að gera. Málið er alls ekki krufið til mergjar og því ekki gerð glögg skil, þannig að verið sé að leysa vandann til frambúðar, heldur er aðeins verið að reyna að bjarga málinu, eins og sakir standa nú, en ekki með langtímasjónarmið í huga.

Mig langar til að spyrja hæstv. sjútvrh. að því, hvort það sé skoðun hans, að Fiskveiðasjóði Íslands nægi það fé, sem honum er ætlað í þeim lokatill. um fjárveitingar til sjóða atvinnuveganna, sem voru til meðferðar í Framkvæmdastofnun ríkisins nú síðast í morgun, — þetta hefur allt saman verið með þeim ósköpum og endemum, það eru nokkrar klukkustundir eða jafnvel mínútur, sem menn hafa til þess að ganga á milli funda, þar sem málin eru flutt sitt á hvað. Þess vegna er það svo, að það er dálítið erfitt fyrir mann að vera reiðubúinn með allar tölur í þessu sambandi. En hér er auðvitað um mjög mikilvægt atriði að ræða, gögn, sem voru lögð fram í framkvæmdasjóði fyrir nokkru. Þar var óskað eftir því frá fiskveiðasjóði eða talið nauðsynlegt, að hann gæti lánað 1.730 millj. kr. Það er gert ráð fyrir því, að með því fé, sem honum er ætlað nú, geti hann aðeins lánað tæpar 1.600 millj., ef ég skil það rétt, þannig að þarna vantar um 150 millj. kr. Nú kann að vera, að segja megi, að þetta sé ekki stórfelld upphæð miðað við þessa heildarupphæð. En mér er nær að halda, að svo standi á með fiskveiðasjóðinn, að meginhlutinn af hans fjárveitingum sé bundinn og lofað fyrirfram, þannig að spurningin er sú, hvort sjóðurinn geti leyst vanda sinn með þessum hætti. Þetta er annað atriðið, sem ég vildi spyrjast fyrir um. Og svo er hitt atriðið, sem má segja, að sé að vísu sameiginlegt mál hæstv. sjútvrh. og hæstv. iðnrh., en þó ekki síður sjútvrh., en það er spurningin um viðbótarlánveitingar til byggingar fiskiskipa innanlands, sem ég vil spyrja hæstv. sjútvrh., hvort ákvarðanir hafi verið teknar um. Svo sem öllum hv. þdm. er kunnugt, hefur til eflingar skipasmíða innanlands verið undanfarin ár veitt 10% aukalán á þau skip, sem smíðuð hafa verið innanlands. Framkvæmdastofnun ríkisins hefur haft með þessar lánveitingar að gera. Að vísu hefur þar verið vandræðaástand, vegna þess að byggðasjóði og atvinnujöfnunarsjóði hefur verið ætlað að annast þessar lánveitingar, en það er fjarri öllu lagi, að þessir sjóðir annist slíkar sjálfvirkar lánveitingar. Þess vegna var ríkisstj. tilkynnt nú eftir áramótin, að þetta yrði ekki lengur gert sem almenn regla. Nú spyr ég hæstv. sjútvrh.: Hefur ríkisstj. tekið ákvörðun um, hvort með einhverjum öðrum hætti verður séð fyrir lánum af þessu tagi, til þess að hægt sé að veita sambærilega aðstoð þeim, sem smíða skip innanlands, og veitt hefur verið til þessa? Það kann vel að vera, að hægt sé að hugsa sér einhverjar breytingar á þessum lánaprósentum yfir höfuð. Það virðist ljóst, að gera þurfi sérstakt átak, eins og viðurkennt hefur verið undanfarin ár, til þess að styrkja innlendar skipasmíðastöðvar. Þær hafa að vísu, að því er ég hygg, nokkuð nægileg verkefni nú, þó er það nokkurt vafamál um sumar þeirra. Þessi vandi verður e.t.v. ekki mjög áberandi á þessu ári, en það er auðvitað grundvallarnauðsyn að taka ákvörðun um það, hver eigi að annast þessi lán eða hvort yfirleitt sé hugsanlegt, að þau séu veitt áfram, til þess að þeir, sem eru að hugsa til skipakaupa, geti gert sér grein fyrir því, hverrar fyrirgreiðslu er að vænta, ef þeir semja við innlendar skipasmíðastöðvar, miðað við það, sem áður var. Þetta hygg ég, að hæstv. ráðh. hljóti að vera mætavel ljóst. Menn hafa verið að velta þessum vanda á milli sín, og ég held, að hann verði alls ekki leystur, nema ríkisstj. skeri á hnútinn og geri ákveðnar ráðstafanir. Ég tel eðlilegast, að það væri gert með viðbótarlánum frá fiskveiðasjóði, e.t.v. 2. veðréttar lánum eða með slíkum hætti, til þess að mæta þessum vanda, svo að menn þurfi ekki að vera í vafa um það, hvernig á þessu verði tekið og hvers verði að vænta, ef þeir ákveða að fela innlendum skipasmíðastöðvum að smíða slík skip.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fara að hefja umr. almennt um sjávarútveginn og aðbúnað hans. Hér er að sjálfsögðu verið að auka á hann kvaðir með þessu gjaldi, sem hér er gert ráð fyrir að leggja á. Hvort hann er þess umkominn að rísa undir því, veit ég ekki, en það kemur vafalaust í ljós, og þess er að vænta, að hæstv. ríkisstj. hafi gert sér einhverja grein fyrir því, áður en hún lagði til, að þessi leið yrði farin.

Vanda ríkissjóðs er, eins og ég sagði, rétt að ræða á öðrum vettvangi, þegar hæstv. fjmrh. mætir hér í d. til þess að gera grein fyrir sínu máli, en ofboð finnst manni þetta nú ankannalegt og kynlegt, ef hægt er að leggja á ríkissjóðinn stórfelldar nýjar álögur, samtímis því sem unnið er að því að skera niður stórlega, — e.t.v. ekki stórlega miðað við fjárlög eins og þau eru nú, en þó það mikið, að það er kveinað undan því, að það sé erfiður niðurskurður. Það eru, að því er manni sýnist, nokkuð mikil handarbakavinnubrögð. En látum það liggja á milli hluta, þangað til að því kemur, að hæstv. fjmrh. gerir grein fyrir sínu máli.

Það, sem ég spurði um, var þetta tvennt, sem ég vona, að hæstv. sjútvrh. vilji upplýsa okkur um, hvort hann telur, að í framkvæmdaáætluninni í ár sé gerð viðhlítandi úrlausn Fiskveiðasjóði Íslands, miðað við þær skuldbindingar, sem sjóðurinn hefur á sig tekið og getur naumast komizt undan að uppfylla á þessu starfsári og í annan stað, hvort ákvarðanir hafi verið teknar um 10% lán vegna innlendra skipasmíða.