06.04.1973
Neðri deild: 79. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3132 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðuson):

Herra forseti. Þegar frv. þetta var til 2. umr. hér í hv. d., urðu um það allmiklar umr., bæði um einstaka þætti þess og almennar umr. um efnahagsmál. Ég tel mig ekki geta komizt hjá því að víkja nokkuð að þessum atriðum nú við 3. umr. frv., fyrst ég gerði það ekki við 2. umr. En að sjálfsögðu gerði ég grein fyrir frv. við 1. umr. þess, þegar það var flutt fyrir áramótin.

Ég vil byrja á því að taka undir það, sem fram kom í ræðum hv. þm., þeirra sem þá töluðu, er þeir gagnrýndu, hve málið væri seint á ferðinni, og létu í ljós þá skoðun, að eðlilegt væri, að framkvæmdaáætlun væri afgreidd með fjárlögum. Ég hef áður látið þessa skoðun í ljós og bið mig ekki undan gagnrýni í sambandi við það. Ég er alltaf að sannfærast um það betur og betur, að þessi háttur, sem upp var tekinn fyrir nokkrum árum eða nærri áratug, að slíta fjárlögin þannig í sundur, eins og gert er með framkvæmdaáætlun og fjárlagaafgreiðslu, er afskaplega hæpinn og hlýtur að hafa þau áhrif, að minni festa verður í meðferð ríkisfjármála og efnahagsmála yfirleitt.

Afgreiðsla eignahreyfingar hjá ríkinu eða það, sem er fjármagnað með lánsfé, var á 20. gr. fjárlaga, eins og þau voru hér áður fyrr, og þá kom ekki neitt sérstaklega til afgreiðslu á framkvæmdaáætlun, eins og verið hefur á síðari árum. Ég hafði hugsað mér, að hægt væri að afgreiða framkvæmdaáætlunina með fjárlögunum fyrir áramótin í vetur, en því miður var það ekki gert, og er ég ekki að biðja mig undan gagnrýni í sambandi við það. En ég endurtek, að ég tel, að raunverulega orki það mjög tvímælis, hvort þessi þáttur á ekki beinlínis að vera einn af þáttum fjárlagafrv., en ekki sérstakt lagafrv., eins og hér er. Auk þess, sem ég hef talið fram sem galla í því sambandi, vil ég einnig vekja athygli á því, að eins og meðferð fjárlaga er hér á hv. Alþ., eru það Sþ. og fjvn., sem kosin er af því, sem fjalla um fjárlagafrv., en fjhn. og deildir aftur um þetta frv. Þess vegna getur fjvn. sem slík ekki haft nein áhrif á meðferð framkvæmdaáætlunar, og er það að minni hyggju mjög fráleitt. Hitt er svo ekki rétt, sem fram kom í umr., og það hefur komið í blöðum síðar, að fjárlagaafgreiðsla og afgreiðsla á framkvæmdaáætlun hafi farið saman. Það hefur aldrei komið fyrir hér á hv. Alþ., að það hafi skeð, og í þessu tilfelli ekki um meiri breyskleika að ræða en áður hefur verið. Ég hef athugað afgreiðslu á framkvæmdaáætlun frá 1966, sem ég hygg að sé sú fyrsta, sem var afgreidd í slíku formi, og eru afgreiðsludagar þeir, sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta: 1966 27. apríl, 1967 18. apríl, 1968 19. apríl, 1969 16. maí, 1970 27. maí, 1971 6. apríl, 1972 17. maí.

Þetta yfirlit sannar, að hér er ekkert nýtt á ferðinni í sambandi við afgreiðslu framkvæmdaáætlunarinnar. En það breytir ekki því, að nauðsyn ber til að tengja þetta tvennt saman, framkvæmdaáætlun og fjárlög. Hitt finnst mér meira orka tvímælis, hvort sjóðamálin eigi að vera samhliða þessari afgreiðslu, það finnst mér geti verið annar þáttur, ekki sízt ef framkvæmdaáætl. væri betur tengd fjárl.afgr. en verið hefur.

Ég vil í sambandi við þetta mál geta þess, að það kom fram í umr. við 2. umr. málsins, að hv. þm. voru undrandi á því, hvað hefði tafið afgreiðslu þessa máls frá áramótum til þessa tíma. Mér finnst í raun og veru, ef á það mál er litið í heild, að engum hv. þm. ætti að vera það neitt undrunarefni, þó að nokkur töf hafi orðið á þessari afgreiðslu, fyrst henni var ekki lokið fyrir jólin. Það var fyrstu daga framhaldsþings eftir áramótin, sem hamfarirnar í Vestmannaeyjum byrjuðu, og þær hafa sett sinn svip á afgreiðslu þjóðmála síðan. Þarf engan að undra, þótt nokkurn tíma hafi tekið að vinna að öðrum málum, sem Alþ. fjallar um nú, vegna þess óhapps, sem þar varð. Ég vil vekja athygli á því, að í sambandi við þá afgreiðslu, sem gerð var á Vestmannaeyjamálunum, voru lagðar á þjóðina nýir skattar, sem nema um 2.000 millj. kr., eða álíka fjárhæð og ætluð er til allra fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna. Það þarf því engan að undra, þó að þetta mál hafi haft veruleg áhrif í sambandi við afgreiðslu á framkvæmdaáætlun og fjárútvegun í stofnlánasjóðina.

Það eru fleiri atriði, sem koma til greina í sambandi við Vestmannaeyjamálin, en fjármálin ein, því að vegna þess óhapps hlýtur að verða veruleg tilfærsla á framkvæmdum í þjóðfélaginu frá því sem hugsað var. Þær framkvæmdir, sem verða vegna Vestmannaeyja, munu a.m.k. að verulegu leyti verða á því svæði, sem vegna byggðajafnvægis var hugsað, að ekki mætti auka framkvæmdir á frá því, sem áður hefur verið. Það veldur því tvöföldu álagi og áhyggjum, einmitt það verkefni, sem er í sambandi við þessar náttúruhamfarir. Ef ætti svo að stilla inn á það að skera niður framkvæmdir á öðrum byggðasvæðum landsins en hér á suðvesturhorninu, mundi það að sjálfsögðu ganga þveröfugt í þá átt, sem allir flokkar vilja kenna sig við, sem er byggðajafnvægismálið. Þess vegna er það svo. að sá þáttur þessa mikla vandamáls hefur að sjálfsögðu haft mikil áhrif í sambandi við allar þær ákvarðanir, sem hefur orðið að taka við endanlega ákvörðun framkvæmdaáætlunarinnar.

Þá hefur jafnframt, fyrst ekki var hægt að ljúka afgreiðslu framkvæmdaáætlunarinnar fyrir jólin í vetur, verið talið eðlilegt að gera grein fyrir því, hvernig hægt væri að mæta fjárþörf fjárfestingarlánasjóða til þeirra verkefna, sem þeir eiga að inna af hendi á yfirstandandi ári. Það er í þeirri skýrslu, sem lögð hefur verið á borð hv. þm. og samin er af áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, gerð grein fyrir því, hvernig ríkisstj.till. Framkvæmdastofnunarinnar hugsar sér að fjármagna fjárfestingarlánasjóðina og hvernig því fjármagni er skipt á milli þeirra. Áður en ég vík að því frekar, vil ég vekja athygli á skýrslu í þessari grg. Framkvæmdastofnunarinnar um það, hvernig áætlunin hefur staðizt á s.l. ári, þ.e. fjármunamyndunin í landinu miðað við þær áætlanir, sem gerðar voru hér á s.l. vori.

Í heild hefur þessi fjármunamyndun farið 390 millj. kr. fram úr áætlun þeirri, sem þá var byggt á. Þeir liðir, sem fram úr hafa farið, eru landbúnaður með 200 millj. kr., iðnaður með 80 millj. kr., þar er þó álverksmiðjan ekki með talin, flutningatæki 220 millj. kr., verzlunar- og veitingastarfsemi 70 millj. kr., ýmsar vélar og tæki um 20 millj. kr., íbúðarhúsabyggingar um 450 millj. kr. og rafvirkjanir og rafveitur um 70 millj. kr. Hins vegar hafa aðrir liðir orðið undir þessum áætlunum, og er þar álverksmiðjan með hæsta tölu eða 370 millj. kr. og byggingar hins opinbera um 240 millj. kr.

Þessi skýrsla sýnir þau tilvik, sem hafa orðið frá þeirri áætlun, sem gerð var á s.l. ári og framkvæmdir samkv. framkvæmdaáætlun þá, og þeim spám, sem þá voru birtar.

Þá er einnig í töflu 5 í þessari sömu skýrslu uppgjör á framkvæmdaáætlun um opinberar framkvæmdir á s.l. ári, og sé ég ekki ástæðu til að fara að lesa það upp, þar sem skýrslan skýrir sig sjálf og er í höndum allra hv. þm.

Frá 2. til 3. umr. hafa ekki verið gerðar till. um breyt. á framkvæmdaáætlunarfrv., en hins vegar eru tvö mál eftir, sem ekki hefur endanlega verið tekin ákvörðun um, hvort verða tekin inn nú við 3. umr. eða sérstaklega um fjallað, það kom fram við 1. umr. málsins, að nauðsyn bæri til að hefja framkvæmdir í Þorlákshöfn þegar á þessu ári. En eins og frv. bar með sér, þegar það var lagt fram hér á hv. Alþ., var ekki gert ráð fyrir því, að annað yrði unnið í Þorlákshöfn á yfirstandandi ári en undirbúningur að framkvæmdum á næsta ári. Með náttúruhamförunum í Vestmannaeyjum hefur það hins vegar orðið ljóst, að hjá því yrði ekki komizt að gera þarna stórt átak á þessu ári og meira en menn höfðu hugsað sér fyrir áramótin. Nú hafa farið fram viðræður milli íslenzkra stjórnvalda og fulltrúa frá Alþj.bankanum um hugsanlegar lánveitingar Alþj.b. í sambandi við þessa hafnargerð. Ekki er lokið þeim viðræðum eða séð, hvernig málinu reiðir af. Þó má nokkurn veginn ljóst verða af því, sem þegar er kunnugt, að fjármagn fæst þarna til framkvæmda í Þorlákshöfn í stórum stíl, þó að ekki sé endanlega frá því gengið. Verða menn að gera það upp við sig, áður en þingi lýkur, hvort afgreiða á málið með brtt. við þetta frv. eða flytja um það sérstakt frv., til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir í sumar. Þetta er ekki alveg ljóst eins og er, og þess vegna skýri ég frá þessu núna út frá því, sem fyrir liggur, en mun fá endanlega niðurstöðu um það, áður en málið fer héðan úr hv. deild.

Þá er og annað mál, sem var til meðferðar hér fyrir áramótin, sem var þörungaverksmiðja á Reykhólum. Það hefur ekki ennþá verið endanlega frá því gengið, hvernig að því verki skuli staðið. En vegna þeirra samninga, sem gerðir hafa verið við væntanlega kaupendur ber nauðsyn til að hraða því verki það mikið, að til framkvæmda komi á þessu ári. Hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um, hvort það verður tengt þessu frv. eða flutt sem sérstakt mál á hv. Alþ.

Það kom hvort tveggja mjög fram við 2. umr. þessa máls, að hv. þm. fannst of mikið að gert í fr.kv. og í hinu tilfellinu, að þeim þætti of lítið að gert í framkv. Því er ekki að neita, að hér er, eins og í fleiru, vandi að sigla á milli skers og báru, og ekki hefur sá vandi minnkað við þær framkvæmdir, sem bætast á atvinnumarkaðinn vegna Vestmannaeyjaáfallsins. En eins og ég gat um áðan, er vandinn kannske fyrst og fremst fólginn í því, að þær framkvæmdir, sem leiðir af því óhappi, verða mestar á því svæði hér suðvestanlands, þar sem þm. álíta yfirleitt að ekki sé æskilegt að fólk safnast meira saman en orðið er, og þurfi heldur að draga úr framkvæmdum hér og auka þær aftur annars staðar. Það kom t.d. fram í ræðu hv. 2. þm. Vestf., að hann taldi, að nauðsyn bæri til að draga úr framkvæmdum víðs vegar um landið vegna þess, að of mikið vinnuafl væri bundið í þeim framkvæmdum, sem hér er lagt til að fjármagna. Nú er það að segja um þær framkvæmdir, sem lagt er til að fjármagna samkvæmt framkvæmdaáætluninni, að hér er fyrst og fremst um það að ræða að halda áfram við verk, sem eru þegar í framkvæmd. Svo má segja um rafvæðinguna, eins og t.d. Lagarfossvirkjun og Mjólkárvirkjun, sem eru stærstu framkvæmdaaðilarnir í ríkisframkvæmdum. Að öðru leyti er um að ræða endurnýjun á kerfi, sem þegar er úr sér gengið eða álagið hefur aukizt svo mikið, að ekki verður hægt að komast hjá því að endurnýja það. Það mun vera svo m.a. í mínu kjördæmi, að línan vestur á Snæfellsnes er orðin þannig, að þær fjárveitingar, sem ætlaðar eru til þess að endurnýja hana, munu fremur þykja of litlar en of miklar. Sama er að segja um mál eins og Laxárvirkjunarmálið. Nógu erfitt er það mál í skauti, þó að reynt sé að ljúka því, sem þar hefur verið unnið að á síðustu árum. Til þess að það megi verða, er sú tala, sem nú er í frv. eftir 2. umr., nauðsynleg í alla staði. Mun vera þar eins og víðar, að menn telja heldur of naumt skammtað en um of. Um sveitarafvæðinguna er það að segja, að það hefur verið sett upp ákveðin áætlun um að ljúka því verki á næsta ári, og þær tölur, sem hér eru, eru miðaðar við það. Það má svo sem segja, að það megi draga slíkar framkvæmdir eitthvað, en þó mun vera svo, a.m.k. meðal hv. alþm., að yfirleitt hafa þeir sótt á að hraða þessum framkvæmdum heldur en hitt. Hafa mörg sveitarfélög og byggðarlög lagt á sig veruleg útgjöld til þess að hraða framkvæmdum á þessu sviði. Hér er reynt að keppa að því að halda þessum áætlunum.

Um aðra þætti, sem hér er lagt til, að fé sé útvegað til, eins og t.d. til Skeiðarársandsvegar, er það að segja, að það væri hægara sagt en gert að draga úr þeirri framkvæmd, m.a. vegna þess, að búið er að panta mikið af efni til þessa verks. Það er í raun og veru búið að leggja í það allt of mikið til þess að hægt sé að reikna með því að fara með miklum hægagangi í framkvæmdina, og það væri afskaplega erfitt að spara til þess fé á þessu ári vegna þeirrar útborgunar, sem nauðsynleg er vegna efniskaupa. Enn fremur er það mat þeirra, sem þekkja og má byggja á, að hér sé um að ræða verk, sem bezt sé að vinna að á veturna, og þetta verk er bundið sérstakri tekjuöflun, sem er sala á happdrættisskuldabréfum og verður fjáröflunin og framkvæmdin að fara saman. Hitt er ljóst, að nauðsyn ber til að halda þessu verki áfram með eðlilegum hraða.

Það kom fram í ræðu hv. 2. þm. Vestf., að það mætti draga úr framkvæmdum, og nefndi hann til nokkur dæmi þar um. Þar var fyrst um að ræða Sigölduvirkjunina, sem nú þegar er búið að leggja verulega fjármuni í, og hún er, alveg eins og Búrfellsvirkjunin, miðuð við það, að við getum gert okkar atvinnuvegi fjölbreyttari og farið meira inn á svið iðnaðar. Þar mun nú verða um að ræða fjáröflun, sem mundi ekki verða fengin að láni til annars verks, þar sem það er Alþjóðabankinn, sem lánar féð. Þar verður náttúrlega að hafa það sjónarmið í huga í sambandi við framkvæmdir, hvort eðlilegt er að draga úr þeim vegna mannfæðar. Aðrar uppástungur, sem hv. 2. þm. Vestf. hafði til að draga úr framkvæmdum, var að draga úr vegaframkvæmdum á Norður- og Austurlandi og í hraðbrautum. Nú er reynsla okkar hv. þm. sú, að yfirleitt sækja þm. á um vegaframkvæmdir. Ég minnist þess, að þegar verið var að fjalla um vegamál í fjvn. hér áður fyrr og það féll í hlut fjvn. að skipta fénu, m.a. til þess að greiða niður lán, sem tekin höfðu verið til vegaframkvæmda á Vestfjörðum, samþykktu þm. það, en þá var m.a. gert ráð fyrir, að það hlyti að leiða til þess, að slíkum vinnuaðferðum yrði beitt í fleiri landshlutum. Ég held því, að það sé hægt út af fyrir sig að gera till. um það að spara framkvæmdafé hjá nágrönnum sínum, ef menn vilja leggja sig í það, en sneiða fram hjá sjálfum sér. En ég held, að það verði nú svo, að aðrir þm. geti fundið önnur svæði, sem heldur ættu að bíða en þau, sem þessi hv. þm. benti á. Sama er að segja um hraðbrautaframkvæmdir. Það vita allir, að þetta eru hin mestu nauðsynjamál, og það er alveg geysilegur munur fyrir þá, sem hraðbrautanna njóta, m.a. vegna atvinnuvega. Einn af þeim vegum, sem á að leggja nú, er vegurinn frá Keflavíkurvegi til Grindavíkur. Þarna fer fram geysilegur flutningur á fiski. Ég er ekki búinn að sjá, að það sé rétt og skynsamlegt frá fjárhagslegu sjónarmiði að fresta þessari framkv.

En það er svo með allar þessar framkvæmdir, að þær kosta sína fjármuni, og verður að afla fjár til þeirra. Og svo mun vera um allt, sem við hér erum að ræða um, að nauðsyn ber til að afla þess fjár. Vandi okkar er meiri núna en nokkru sinni fyrr vegna þeirra óhappa, sem við höfum orðið fyrir á fyrstu mánuðum ársins. Sá vandi er náttúrlega tengdur fjárútvegun, framkv: röskun og mannaflsskorti. Ég hygg, að það mundi fara svo, ef ætti að fara að gera grein fyrir því, hvað af þessum framkvæmdum ætti að bíða, að sitt sýnist hverjum þar um, eins og oft vill verða, þegar um slíkt er að ræða í sambandi við framkvæmdir í þjóðfélaginu.

Í framhaldi af þessu vil ég víkja að sjóðamálunum og þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið varðandi fjáröflun og framkvæmdir í sambandi við sjóðina.

Í fyrsta lagi vil ég geta þess, að jafnhliða því, sem verið er að afgreiða þetta mál, verða lögð fyrir þingið frv. til tekjuöflunar í sambandi við fiskveiðasjóð, stofnlánadeild landbúnaðarins og iðnlánasjóð. Sú áætlun, sem hér er gerð, er miðuð við það, að eigin tekjur þessara sjóða vaxi frá því, sem gert var ráð fyrir, þegar Framkvæmdastofnunin fjallaði um þessi sjóðamál upphaflega. Niðurstöðutölur af fjáröfluninni í sambandi við framkvæmdasjóðinn eru 1.910 millj. kr., og skiptingin er einnig í þeirri skýrslu, sem lögð var fyrir Alþingi í dag. Er gert ráð fyrir því, að framkvæmdasjóður eigi um 130 millj. kr., eftirstöðvar af samkomulagi við bankana, frá í fyrra séu um 66 millj. kr. og að samkomulag verði gert við bankana núna um áframhaldandi 10% af sparifjársöfnun, sem áætluð eru 284 millj. kr., hluti af spariskírteinaláni verði 150 millj. kr. og lán frá iðnþróunarsjóði vegna iðnlánasjóðs 40 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir því að aukin lán hjá lífeyrissjóðum. Fundur hefur verið haldinn með forráðamönnum lífeyrissjóðanna, og hefur þar verið rætt um að komast að samkomulagi við þá um að kaupa á þessu ári allt að 300 millj. kr. a.m.k. af skuldabréfum með verðtryggingu. Hér er um tvíþættan tilgang að ræða. Í fyrsta lagi er hér um að ræða frá hendi ríkisstj. fjáröflunarleið vegna framkvæmdasjóðs til að fjármagna þær framkvæmdir, sem sjóðurinn þarf að fjármagna, og í öðru lagi er verið að stefna að því með þessu, að aðstoða lífeyrissjóðina með því að gera fjármuni þeirra verðtryggða, þegar þeir koma til útborgunar sem eftirlaun handa lífeyrisþegunum. Það er ekki vafi á því, að það er mikill áhugi orðin á því hjá lífeyrissjóðamönnum að verðtryggja lífeyrissjóði sína, og er þetta heppilegasta leiðin til þess. Það hefur orðið með samkomulagi við þá skipuð n. til að vinna að þessu máli, sem þeir hafa tilnefnt sína fulltrúa í og ríkisvaldið og Seðlabankinn hafa svo aftur tilnefnt sína fulltrúa. Er þessi n. að byrja að vinna þetta verk, sem hér er stefnt að árangri af. En jafnhliða því á það svo að vera hlutverk þessarar n. að vinna sameiginlega að lausn þessara mála eða finna leiðir til þess, að í framtíðinni megi takast samstarf um ráðstöfun á hluta af lífeyrissjóðafénu með þessum hætti. Það er von ríkisstj., að það takist að ná samkomulagi við forustumenn lífeyrissjóðanna, til þess að ekki þurfi að grípa til neinna annarra ráða í sambandi við þá löngun, sem stjórnvöld hafa til að fá þarna fé að láni, og jafnframt til þess að mæta óskum þeirra sjóðfélaga, sem eru í óverðtryggðum lífeyrissjóðum, um að verðtryggja hluta af sínu fé.

Þá er gert ráð fyrir því að taka erlend lán vegna sjóðanna upp á 800 millj. kr., og ef fjárþörfin verður sú, sem hér er gert ráð fyrir, mundi Seðlabankinn lána 160 millj. kr. til að brúa þetta bil, ef ekki yrði hægt að mæta því með öðrum hætti.

Um útlánin er það að segja, að gert er ráð fyrir því, að framkvæmdasjóðurinn láni stofnlánadeild landbúnaðarins um 300 millj. kr., og mundi þá deildin með því fé, sem hún hefur til ráðstöfunar, og þeim tekjuauka, sem gert er ráð fyrir, að hún hafi á næsta ári, hafa um 430—450 millj. kr. til útlána. Hér er um allverulega lægri fjárhæð að ræða en deildin sjálf gerir ráð fyrir, að hún þurfi að lána eða um var sótt. Að athuguðu máli er nú talið, að lækka megi umsóknir vegna vinnslustöðva landbúnaðarins um 70—80 millj. kr., og ef þeir fjármunir, sem hér er gert ráð fyrir, nægja ekki til, yrði þessi lánaþörf deildarinnar að færast á milli ára. Með frv., sem mun verða lagt fram annað hvort í dag eða á morgun á hv. Alþ., er gert ráð fyrir því að breyta nokkuð um útlánastarfsemi deildarinnar á þann veg, að það verði meira á mati stjórnar og það megi frekar skipta lánum í stærri verk en gert hefur verið. En eins og kunnugt er, hefur útlánaþörf stofnlánadeildar landbúnaðarins aukizt geysilega á tveimur síðustu árum eða sérstaklega s.l. ár, og reyndar hitt árið líka, en eftir áætluninni var þó þörfin lang mest nú. Eitt af þeim atriðum, sem koma þar mjög við sögu, eru vinnslustöðvar landbúnaðarins, en eins og kunnugt er, hafa framkvæmdir í þeim verið mjög litlar á s.l. árum, en þörfin aukizt geysilega, og kröfur um gerð sláturhúsa og mjólkurbúa hafa vaxið gífurlega, eins og kunnugt er. Hefur löggjafinn átt sinn þátt í því að gera þær kröfur mjög strangar og allur útflutningur, t.d. á kjöti, er vonlaus frá okkar landbúnaði, nema vinnslustöðvar og sláturhús séu eftir fyllstu kröfum. Kaupendurnir hafa haft með því strangt eftirlit, og um tíma hafði ekkert sláturhús á Íslandi leyfi til útflutnings á kjöti, og nú síðustu árin hafa þau verið 2—3, — ég man ekki nákvæmlega, hve mörg, — einu sinni var það eitt. En eins og nú er, er kjötútflutningur hagstæður og mjög nærri því að ná framleiðsluverði. Þess vegna ber brýna nauðsyn til þess að styðja að því, að svo verði, enda er vitað mál, að kröfur innlendra neytenda verða alveg þær sömu og erlendra og ekkert nema eðlilegt um það að segja.

Sá sjóðurinn, sem fyrirferðamestur er í útlánastarfseminni, er Fiskveiðasjóður Íslands. Það er gert ráð fyrir því, að til hans verði lánaðar úr framkvæmdasjóðnum um 1.000 millj. kr., og hann fái svo um 150 millj. kr. tekjur umfram það, sem sjóðurinn gerði ráð fyrir. Það er alveg sama um fiskveiðasjóðinn að segja og lánasjóð landbúnaðarins, það er langt frá því, að hér sé fullnægt því, sem sjóðsstjórnin telur sig þurfa til lánveitinga, því að hún mun eftir þessu hafa um 1.500 millj., en þeirra till. voru upp á 1.730 millj. kr. En það verður að vera þarna eins og í hinum sjóðnum, að það verður að færast á milli ára, sem ekki næst til í þessu sambandi. Það þarf ekki orðum að því að eyða að skipabyggingarnar, skipakaupin og endurbygging hraðfrystihúsanna eru stærstu verkefni fiskveiðasjóðs. Það er um það fyrra að segja, að bæði er búið að kaupa mikið af skipum, sem koma til greiðslu á þessu ári og svo áfram hjá fiskveiðasjóði, og þar koma einnig inn í innlendar skipasmíðar. En auk þess er það svo, að endurnýjun í frystihúsunum er eitt af stóru verkefnunum, sem fiskveiðasjóður verður að fást við. Þar er um að ræða, eins og í sláturhúsunum, mjög auknar kröfur erlendra neytenda til frystihúsanna. Er ljóst, að ef ekki tekst að leysa þau verkefni, áður en þær kröfur ganga í gildi, t.d. í Bandaríkjunum, lokast sá markaður fyrir Íslendinga að öðru leyti en frá þeim húsum, sem þá yrðu komin í lag. Þetta er verkefni, sem hefur beðið framkvæmda á síðari árum og kostar mikið og gerir það að verkum, að fjárútvegunin er geysilega mikil í sambandi við þetta.

Um aðra þætti í þessari skýrslu skal ég ekki eyða mörgum fleiri orðum, vegna þess að þeir skýra sig sjálfir. En hér er nokkur fjárhækkun til byggðasjóðs. Er það m.a. vegna fyrirheita sjóðsins um lánsloforð, sem hann verður að inna af hendi á þessu ári og að sumu leyti voru sjálfvirk. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því að lána til viðbótar 75% lánum fiskveiðasjóðs vegna innlendra skipasmíða 10%, og er áætlað hér 15 millj. kr. Smærri liðir í þessu eru lánasjóður sveitarfélaga, sem þó er þarna með yfir 100 millj. kr., en stærstu verkefnin hjá Lánasjóði sveitarfélaga verða á næsta ári, eins og á s.l. ári, hitaveituframkvæmdir, en þá var mjög aukið til þeirra. Svo eru verkefni iðnlánasjóðs, sem að vísu eru ekki fyrirferðarmikil hér, en það er einnig gert ráð fyrir því, að hann fái auknar tekjur til starfsemi sinnar samkv. þeim frv., sem fyrir hafa verið lögð.

Þetta er það, sem ég hef í stórum dráttum að segja um þá þætti, sem að framkvæmdaáætluninni og fjáröflun til sjóðanna snýr. Nú efast ég ekkert um það, eins og kom fram hér við 2. umr., að um þetta má að sjálfsögðu deila. Það er nú svo með þetta eins og fleiri atriði, að það er hægt að deila um málið í heild, en þegar á að fara að velja og hafna, reynist það oft miklu erfiðara.

Ég vil svo segja út frá því, sem kom fram í sambandi við heimild ríkisstj. til 15% niðurskurðar á fjárl. yfirstandandi árs, að það hefur ekki verið gert í því annað en það, að afgreiðsla allra rekstrarfjárliða er með 15% lækkun, og ekki hafa neinar heimildir verið gefnar um það að nota fjárveitingar að fullu. Hins vegar hef ég rætt um það við fjvn., og ég geri ráð fyrir, að það verði hlutverk undirnefndar fjvn. að taka þau mál til athugunar, hvort tilfærslur geti átt sér stað innan málaflokka, þegar tími vinnst til þess. Ég get endurtekið það, sem ég hef áður sagt, að ég tel mig hafa heimild Alþ. til 15% niðurskurðarins, en frávik frá henni tel ég mig ekki hafa án samráðs við fjvn., hvort sem það er undirnefnd eða n. öll. Það hefur venjulega verið undirn., sem hefur fjallað um það.

Að því, sem fram kom í ræðu hv. 7. þm. Reykv. hér við 2. umr. fjárl. þessa frv., tel ég mig verða að víkja. Það var nú svo, með þá ræðu þessa hv. þm., eins og hefur verið með að ég held flestallar, ef ekki allar ræður, sem hann hefur flutt hér á hv. Alþ. síðan hann kom úr endurhæfingunni í Kaupmannahöfn í fyrra, að hún var um efnahagsmál og aftur efnahagsmál og byrjaði á þessu sama, að ríkisstj. væri óhæf til að móta stefnu í efnahagsmálum. Allar ræðurnar hafa haft eina niðurstöðu, og hún hefur verið sú, að það væri ekki samboðið Alþýðuflokksmönnum að taka þátt í afgreiðslu á málum sem þessum og þeir ætluðu því að fara að ráðum strútsins og stinga höfðinu í sandinn og ekki vera með. Þannig hefur þeirra háttur verið við fjárlagaafgreiðslu, og þannig var yfirlýsingin um framkvæmdaáætlun hér við 2. umr. Vil ég hans vegna vona, að það breytist, en um það skal engu spáð.

Ég skal ekki fara að ræða hér fjárl. fyrir árið 1972. Ég gerði nokkra grein fyrir þeim við umr. um vantraust á ríkisstj. fyrr í vetur, og ég geri mér enn þá vonir um, að það takist að sýna Alþ. reikningsniðurstöðu A-hluta ríkisreikningsins fyrir árið 1972, áður en þessu þingi lýkur, þó að reiknað sé með, að skammt sé þangað til þinglok verða. En að því er samt stefnt að reyna að koma þessu hér fram, svo að þm. geti a.m.k. fengið reikninginn með sér, áður en þeir fara af þingi. Þess vegna er ekki ástæða til að fara að ræða um þann þátt efnahagsmálanna að sinni.

Það, sem hv. þm. gerði mjög að umtalsefni, var afkoma þjóðarinnar út á við og vinnumátinn í sambandi við afgreiðslu á framkvæmdaáætluninni. Nú hef ég sjálfur sagt, hvers ég mundi óska í því efni, og tel mig einnig hafa gert grein fyrir því, að veruleg ástæða var til, að málið dróst, fyrst því var ekki lokið fyrir áramót, vegna þeirra óhappa, sem orðið hafa síðan, eins og kunnugt er. Hins vegar sá ég nýlega í Alþýðublaðinu, að alltaf hefði farið saman hér á Alþ. afgreiðsla fjárl. og framkvæmdaáætlunar. Töldu þeir sig hafa það eftir hv. 7. þm. Reykv. Ég veit, að það er ekki rétt eftir honum haft, því að það hefur aldrei farið saman. Mun þetta hafa skolazt eitthvað til hjá þeim blaðamönnum, og færði ég það undir hugspeki þeirra, sem talað er um að séu sauðglöggir. Ég get vel skilið, að það sé ekkert undarlegt, þótt það fjölgi hægt í þeim flokki, ef þar er aðeins sauði að finna, því að þá er ekki framleiðslunnar von. En hvað sem því líður, langar mig til þess að víkja að þessum þætti viðskipta okkar víð útlönd, sem hv. 7. þm. Reykv. talaði svo mikið um og taldi, að sannaði, hvað vanhæf núv. ríkisstj. væri til að fást við efnahagsmál og stjórna þjóðfélaginu. Í því sambandi vitnaði hann í spádóm um niðurstöður á viðskiptum þjóðarinnar út á við, sem fram kom í skýrslu þeirri, sem efnahagsmálanefndin vann fyrir jólin, og áður hafði komið fram í skýrslum. En spádómur er alltaf spádómur og alltaf reynt að gæta þess, að hann sé byggður á því, að hið góða skaði mann ekki og þess vegna þurfi alltaf að vera heldur með vaðið fyrir neðan sig í þessum spádómum. Og það er nú orðið lýðum ljóst, hvernig þessar staðreyndir eru í sambandi við viðskiptin við útlönd á s.l. ári. Viðskiptajöfnuðurinn var óhagstæður um 1.770 millj. kr. Hann var óhagstæður árið áður um 3.860 millj., og í spádómum var gert ráð fyrir, að hann gæti orðið óhagstæður um 4.300 millj. árið 1972, en reynslan varð þessi. Ástæðan fyrir því, að þetta reyndist svona, var sú, að hvort tveggja kom til, að innflutningurinn var minni en gert var ráð fyrir og útflutningurinn meiri. Þá var fjármagnsjöfnuður hagstæður á árinu um 2.437 millj. Þar af voru löng lán 2.652 millj., og innkomin lán voru 4.692 millj., en afborganir af lánum voru 2.040 millj. kr. og breyting á gjaldeyrisstöðunni tæpar 700 millj. kr. til batnaðar. Niðurstaðan af þessu er því sú, að raunveruleg skuldaaukning var á árinu við útlönd um 2.000 millj. kr. eða tæplega það.

Nú er um þetta að segja, að hér skiptir verulegu máli, hver er ástæðan fyrir því, að svo var. Er þetta eyðsla ein, eða er þetta arðgæft í framtíðinni? Ef teknir eru saman opinberir aðilar í þessu tilfelli, þá voru lán, sem þeir tóku á árinu, um 2.845 millj. kr., og þar af ríkissjóður og ríkisstofnanir, eins og það er kallað, um 2.088 millj. kr. Og hvað var svo gert við þessa fjármuni? Landsvirkjun fékk lán upp á 1 milljarð 451 millj. kr. Ég held, að það muni ekki orka tvímælis, að menn telji þetta ekki undir eyðslu, heldur til þess að undirbyggja atvinnurekstur í landinu, og þess vegna sýni þetta lán ekki neina vanhæfni eða stjórnleysi. Lán til Straumsvíkurhafnar var 367 millj. kr. Ég held, að það verði einnig talið, að ekki sé hægt að færa þetta lán undir stjórnleysi. Lán vegna hraðbrautaframkvæmda var 132 millj. kr. Þessi lánaákvörðun var einn liður í hraðbrautaframkvæmdum. Ég las það í blaði í morgun, að menn teldu, að það skorti nú á, ef þessu væri haldið áfram, og eitt af því, sem var verið að reyna að koma í veg fyrir með tekjuöfluninni fyrir áramót, var að reyna að draga úr lánum til vegagerðar. Hins vegar held ég, að það muni ekki vera hægt að komast hjá því og það verði að halda þeim áfram. Mín skoðun er sú. að hraðbrautaframkvæmdir séu hagkvæmleg framkvæmd fjárhagslega séð. Þá koma Laxárvirkjun með 288 millj. kr. og Áburðarverksmiðjan með 99 millj. Ég held. að um Áburðarverksmiðjuna verði a.m.k. ekki sagt, að það sé nein óráðsía eða stjórnleysi að taka það lán. Um Laxárvirkjun ætla ég ekki að eyða orðum. Að vísu mundi ég vilja segja það, að ljóst er, að það hefði verið hægt að framkvæma það verk hagkvæmar en gert hefur verið, en það er búið sem búið er um þá hluti. Bæjar– og sveitarfélög fengu erlend lán samtals 357 millj. kr. Þarna var fyrst og fremst um að ræða hitaveituframkvæmdir, eins og ég hef áður sagt, og mun almennt talið, að það muni verða gjaldeyrissparandi lán, en ekki hið gagnstæða. Landsbankinn fékk 256 millj. og fjárfestingarlánasjóðir vegna sinna framkvæmda 792 millj. Þar voru framkvæmdasjóður og fiskveiðasjóður stærstu aðilarnir. Þá voru tekin lán vegna togarakaupa frá fiskveiðasjóði upp á 176 millj. kr. Einkaaðilar voru samtals með um 802 millj. kr. Það voru lán vegna skipakaupa 472 millj. og flugvélakaupa og önnur smærri atriði.

Þegar á þetta er litið, held ég. að ljóst sé, að þó að skuldaaukningin við útlönd hafi orðið um 2.000 millj. kr. á árinu 1972 vegna þeirra framkvæmda, sem ég hef hér talið, sé ekki hægt að færa rök að því, að hér sé um óráðsíu eða vanstjórn að ræða. Ég tel, að hér sé um það að ræða að undirbyggja atvinnureksturinn í landinu og fjárhagslega afkomu þjóðarinnar út á við einmitt samkv. þessum leiðum, sem hér hafa verið farnar. Ég hef fengið upplýsingar um það, hvað þau skip, sem keypt voru á s.l. ári og eru nú að veiðum, eru búin að fiska fyrir mikla fjárhæð í gjaldeyri á þeim stutta tíma, sem þau hafa verið í rekstri. Börkur á Norfirði er búinn að fiska fyrir 35 millj. kr., Guðmundur RE fyrir 125 millj. kr., Jón Finnsson GK fyrir 35 millj., eða samtals 195 millj. kr., Sólbakur á Akureyri fyrir 75 millj., Karlsefni 6 millj. og Gullver 60 millj. Þessi skip, sem ég hef hér talið, eru búin að fiska fyrir 336 millj. kr. í gjaldeyri, frá því að þau komu til landsins, seinni hluta ársins í fyrra flest þeirra.

Þegar þetta er haft í huga, held ég, að hv. þm. sé það ljóst, að hér er ekki um neina vanstjórn eða skammsýni að ræða í sambandi við lánsútvegun til þessara verkefna. Ég álít, að öllum hv. þm. verði ljóst, þegar þeir hugsa málið kalt og rólega, að hér er rétt að farið, þó að það sé afskaplega auðvelt að blása upp í sambandi við tölur um aukningu á skuldum við útlönd, eins og gert hefur verið í þessum umr.

Ég vil einnig í sambandi við þennan þátt máls míns geta þess, að það var langt frá því, að árið 1972 væri sérstaklega hagstætt, var t.d. mun óhagstæðara ár en árið 1971. Raunveruleg þjóðarframleiðsla jókst um 6%, en raunveruleg aukning þjóðartekna um 5%. Sérstaklega var það þorskaflinn. sem brást mjög verulega á s.l. ári, og gerði það að verkum, að útkoman á þjóðartekjunum varð ekki eins góð og hefði verið, ef hann hefði haldizt óbreyttur. Auk þess versnuðu viðskiptakjörin verulega vegna verðhækkana erlendis. Framleiðsla sjávarafla minnkaði um 7% frá árinu áður. árinu 1971. sem var annað árið í röð. því að 1971 minnkaði hún um 4%. Hins vegar varð verðmætaaukning um 9—10%, og í krónutali er aukningin um 21/2%. Landbúnaðarframleiðslan jókst nokkuð á árinu eða um 4% í mjólkurframleiðslu, um 6% í sauðfjárframleiðslu. en dróst saman í öðrum liðum, svo að heildarframleiðsluaukningin varð um 3%. Útflutningsaukningin var um 27%, en ef ál er undanskilið, er aukningin um 14%. Í því sambandi er rétt að hafa í huga. að á birgðir gekk á árinu, svo að heildarminnkun útflutningsafurða var um 2%.Á útflutningi iðnaðarvara varð nokkur aukning, eða um 17%.

Innflutningurinn reyndist hins vegar, eins og ég gat um áðan, að magni minni en gert hafði verið ráð fyrir, að magni til var aukningin um 10—11% og að verðmæti nálægt 171/2% meiri en árið áður, en það hafði verið gert ráð fyrir verulega meiri aukningu innflutningsins.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum að þessu í sambandi við það, sem hv. 7. þm. Reykv.. Gy1fi Þ. Gíslason, sagði, en vil víkja að tveim atriðum öðrum, sem hann gerði sérstaklega að umtalsefni og lagði ríka áherzlu á, að blöð og fjölmiðlar segðu satt og rétt frá.

Fyrra atriðið, sem hann nefndi til, var vöxtur verðbólgunnar. og tók hann þar 12 ára dæmi. Það voru viðreisnarárin. en þá taldi hann, að vöxtur verðbólgunnar hefði verið 9.7%. Þetta sannaði. að þeir hefðu búið betur en núv. ríkisstj., því að á l1/2 ári hjá henni hefði vöxtur verðbólgunnar verið 10.8%. Hann vitnaði í hagstofuna, og ég sagði í sæti mínu, að ég væri viss um. að rétt væri það, sem frá hagstofunni kæmi. En við athugun þá, sem ég hef gert á þessu, kemur fram, til þess að hv. þm. Gylfi h. Gíslason fái út þennan vöxt verðbólgunnar, tekur hann með árið 1959, þ.e.a.s. árið, sem stjórn Alþfl. sat og lækkaði kaupgjald í landinu, eins og allir muna. Ef það er tekið með og tekið 13 ára tímabil annars vegar og l1/2 árs tímabil hins vegar, getur hv. þm. fengið þessa útkomu. En ef við tökum tímabilið frá 1960, frá og með tilveru viðreisnarstjórnarinnar, til og með dauðadags hennar í júlí 1971, er meðaltal á ári á öllu þessu tímabili 11.1 %. Þegar allt þetta tímabil er tekið með, er ekki einu sinni verið að velta því fyrir sér, að frá haustnóttum 1970 fram til þess tíma, sem ríkisstj. fór frá, voru bannaðar með lögum allar verðhækkanir í landinu, og þær verðhækkanir voru geymdar og varð að taka í ársbyrjun 1972, eftir að verðstöðvunarlögin gengu þá úr gildi. Ef við tökum þetta allt tímabilið, er meðaltalið 11.1%. En ef við tökum svo aftur t.d. tveggja ára tímabil, eins og árin 1968 og 1969, sem eru þó í heild 2 ár, og mætti gera með sama rétti og hv. 7. þm. Reykv. gerði, er vöxtur verðbólgunnar 21.9%. Ég held því, að hv. þm., sem lagði mikla áherzlu á það, að menn héldu sig við staðreyndir, verði að gera sér grein fyrir því, að honum er nauðsynlegt eins og öðrum að gera samanburð með þeim hætti, að það sé hægt að segja, að það sé verið að halda sig við staðreyndir. Það var óeðlilegt að fara að nota í þessu sambandi árið 1959, sem var sérstakt ár, eins og hv. þm. man.

Þá vitnaði hv. þm. í kaupmáttaraukninguna eða ráðstöfunartekjur, eins og hann orðaði það, og taldi, að ég hefði farið rangt með. Að vísu sagði hann það rétt vera, að ráðstöfunartekjur væru nú meiri hjá launþegum en nokkru sinni fyrr, það væri rétt, hins vegar hefði bilið á milli ára orðið meira en á milli áranna 1971—1972. Til þess að fá þann samanburð vitnaði hv. þm. í árin 1969 og 1970. Árin 1968 og 1969 voru ár atvinnuleysis, og þurfti engan að undra, þó að nokkur prósenthækkun væri á því, þegar farið var úr atvinnuleysi yfir í aukna atvinnu. eins og var 1970—1971, en þá var verulegur vöxtur í atvinnu og hefur verið síðan. Kaupmáttur ráðstöfunarteknanna lækkaði 1968 um 7.4% og 1969 um 7.3%. Það er ekkert undarlegt, þó að hækkunin yrði veruleg, þegar horfið var frá þessu tímabili. Og mér finnst þetta kannske bezta sönnun þess, hvað vel er að þessum málum staðið, að hv. 7. þm. Reykv., jafnsnjall og hann er, skyldi þurfa að vitna í þetta tímabil til þess að fá sér hagstæðan samanburð. Hitt er staðreynd. að kaupmáttaraukning er meiri en hún hefur áður verið, þó að það sé hins vegar rétt. að milli þessara tveggja ára er vöxturinn meiri en var á milli áranna 1971—1972.

Ég skal nú, herra forseti, fara að stytta mál mitt. Ég hef vikið að því, sem fram kom við 2. umr. þessa máls hér í hv. d. og ég taldi nauðsynlegt að upplýsa. vegna þess að mér fannst það ekki falla saman við staðreyndir og væri rétt að vekja athygli á þeim. Ég hef í ræðu minni hér að framan skýrt frá staðreyndum einum um afkomu ársins 1972. og ég hef sýnt fram á það, að afkoman út á við varð betri en spáð var. Þá var unnið með þeim gjaldeyrislánum, sem tekin voru að framkvæmdum, sem munu spara gjaldeyri eða auka gjaldeyristekjur í verulegum mæli. Ég vil þessu til viðbótar geta þess. að vörukaupalán voru mjög svipuð og þau höfðu verið árið áður og breyting á þeim á milli ára var þá minni en hún hafði verið næstu tvö árin á undan. Ég hef líka sýnt fram á það, að gjaldeyrisstaðan batnaði á s.l. ári og afkoma launþega og kjör þeirra eru nú betri en áður hefur verið. Atvinnulíf í landinu er nú með miklum blóma, því að áhyggjur manna beinast að því, hvort við höfum nógu margar hendur til þess að vinna þau verk, sem vinna þarf. Þegar þannig er, verður, eins og var t.d. á síldarárunum, mikill framkvæmdavilji hjá þjóðinni, og það gerir að verkum, að meira fjármagn þarf til framkvæmda en þegar lægð er í atvinnumálum þjóðarinnar. Vöxtur verðbólgunnar er ekki meiri en hann hefur verið, nema síður sé. Hitt er jafnljóst, að hann er þó of mikill, og það er ekki innanlandsmál eitt, því að verðhækkanir á erlendum vörum hafa farið mjög vaxandi á s.l. ári og þessu, sem kunnugt er, m.a. vegna óróleika í gjaldeyrismálum erlendra þjóða og verðhækkunum á mörgum sviðum. Ég hef líka bent á, að það mikla áfall, sem þjóðin hefur orðið fyrir á fyrstu mánuðum þessa árs, setur sinn svip á afgreiðslu mála nú, og ber að hafa það í huga, þegar mál eru afgreidd. En ég er sannfærður um. að með manndómi, samheldni og hæfilegri bjartsýni kemst þjóðin út úr þeim vandamálum, sem við er að fást. Og það er engin ástæða til að vera með kvíða eða reyna að ala upp í mönnum volæði, þó að til nokkurra átaka þurfi að koma við þau verkefni, sem nú þarf að fást við.

Ég vil svo, herra forseti, geta þess, að vegna þess að skýrsla sú. sem fram var lögð hér í dag. var ekki lögð fram fyrr, hefur verið óskað eftir því, að umr. yrði ekki lokið að sinni. Ég vil verða við því, og ég veit og treysti því .jafnframt, að það eigi ekki að tefja málið nema um stundarsakir, þannig að við getum lokið þessari umr. með litlum umr., þegar hv. þm. hafa fengið að kynna sér þessa skýrslu. Ég held, að hún muni ekki gefa ástæðu til nýrra umræðna.