06.04.1973
Neðri deild: 79. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3144 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Eins og fram kom í lok ræðu hæstv. fjmrh., fór ég fram á það, að umr. um þetta mál yrði frestað, og það var í raun og veru í beinu framhaldi af því, hversu okkur hefur fundizt, þm. Sjálfstfl. og reyndar fleirum, ábótavant um meðferð þessa máls og litlar upplýsingar legið fyrir um það, þegar það var hér til meðferðar við 2. umr. Það var ekki ætlun mín að lengja neitt umr. eða tefja fyrir málinu með þessum hætti, en í dag hefur það tvennt gerzt, að stjórn framkvæmdasjóðs hefur á fundi í morgun fengið einhverjar upplýsingar, sem mér er ókunnugt um, um fjármögnun fjárfestingarsjóðanna, og mér finnast alveg sjálfsagt, að fjh: og viðskn. þessarar hv. d. fái þessar upplýsingar, sem hún innti eftir, þegar n. hafði málið til meðferðar fyrir 2. umr., en fékk ekki. hversu fullkomnar eða ófullkomnar sem þær kunna að vera, en á það get ég engan dóm lagt. Í öðru lagi var útbýtt hér á borð okkar þm. skýrslu fjmrh. um framkvæmda- og fjáröflunaráætlun fyrir árið 1973, og hún er dagsett í dag, 6. apríl. Með því að fá einhvern frest á málinu gefst einnig tóm til að huga að þessari skýrslu.

Að vísu er það svo, að hæstv. fjmrh. hélt hér mjög langa ræðu, ég held allt að því í 11/2 klst., a.m.k. í 1 klst. og 20 mínútur eða eitthvað þar um bil, og hefði kannske mátt búast við meiri skýringum eða upplýsingum í þeirri ræðu en raun bar vitni, vegna þess að hæstv. ráðh. vék mikið að öðrum málum, sem eru þessum málum ekki skyld, og skal ég leiða það allt hjá mér. Ég mun þess vegna í þeim fáu orðum, sem ég segi hér, einkum binda mig við meðferð þessa máls. sem snertir einnig meðferð annarra mála, sem þingið hefur haft til meðferðar, og í hvaða stöðu við erum að því leyti, eins og nú standa sakir.

Ef ég vík fyrst að nokkrum efnisatriðum varðandi þetta mál í ræðu hæstv. fjmrh., þá er ég honum alveg sammála um, að það skapar auðvitað meiri festu í meðferð fjármála og efnahagsmála. ef hægt er að afgreiða framkvæmdaáætlunina samtímis fjárlögunum, eins og hann sjálfur lét í ljós óskir um í fyrra, en ekki hefur reynzt mögulegt að standa við núna, og það er ekki nema gott um það að segja, ef meðferð á þessu máli stendur til bóta í framtíðinni. En þá skiptir auðvitað höfuðmáli, að það verði ekki aðeins orðin tóm. eins og reynslan er nú, miðað við loforð og fyrirætlanir frá því í fyrra.

Mér finnst hæstv. fjmrh. gera allt of mikið úr því, að hamfarirnar í Vestmannaeyjum hafi sett sinn svip á afgreiðslu þingmála, síðan gosið hófst. Alþ. tók rösklega á þeim málum og afgreiddi þau mál á vikutíma. Mér finnst ekki, að hamfarirnar í Vestmannaeyjum hafi þurft að setja þann svip á afgreiðslu mála og það sé þess vegna nokkuð furðulegt, að þessari framkvæmdaætlun, sem var útbýtt og fór til n. fyrir jólin, skuli ekki hafa skilað betur áfram en raun ber vitni.

Hæstv. ráðherra sagði einnig: Hvað á að bíða og hvað á að skera niður af því, sem ákveðið er í framkvæmdaáætluninni? Þegar komið er að einstökum liðum, þá vefst mönnum kannske tunga um tönn. Ég get líka fallizt á, að það getur verið ákaflega erfitt að fá tilreidda framkvæmdaáætlun og eiga svo að skera niður einstaka liði hennar. En við hefðum gjarnan viljað fá að heyra einmitt í sambandi við framkvæmdaáætlunina, hvað af henni ætti að standa og ætti ekki að standa, og m. a., hvað á að standa af því, sem ráðgert er í fjárlögum, og hvað á ekki að standa. Hvernig gengur niðurskurðurinn á þessum ca. 500 millj. af framkvæmdum, sem þar er ráðgert að skera niður? Hæstv. fjmrh. hefur marglýst yfir, að stjórnin muni nota þá heimild, sem hún hefur aflað sér til þessa niðurskurðar. En mér heyrðist á hæstv. ráðh. áðan, að það væru aðeins rekstrarfjárliðir, sem væru skornir niður nú um 15% og lengra væri niðurskurðinum ekki komið. Það er auðvitað eitt út af fyrir sig að fjármagna vissar opinberar framkvæmdir með lánum og vita þá ekki á sama tíma, hvernig þær verða fjármagnaðar í fjárlögum. Verða þær fjármagnaðar eins og þar er, eða verða þær skornar þar niður að verulegu leyti? Þetta er eitt af því, sem við höfum fundið að eða ekki hafa fengizt upplýsingar um og ekki hafa enn fengizt upplýsingar um eftir þessa löngu ræðu hæstv. ráðh.

Ég skal ekki að öðru leyti eyða mörgum orðum í þessa ræðu, annað en það, þar sem hæstv. fjmrh. vék að erlendu skuldunum. Hér er gert ráð fyrir, eins og hann sagði, í sambandi við fjármögnun sjóðanna að taka erlend lán að upphæð 800 millj. kr. Ég held, að það sé full ástæða til þess að hugleiða nánar, hversu miklar erlendu lántökurnar eru. Það má rekja einstaka liði, sem erlendar lántökur hafa verið notaðar til að fjármagna, eins og hæstv. ráðh. gerði, og spyrja: Vilja menn ekki taka erlend lán í raforkuvirkjanir og í skip o.s.frv.? En þetta er ekkert nema blekkingar og hálfsögð saga. Við skulum fá allan listann, í hverju hallinn á viðskiptum við útlönd er fólginn, en ekki bara einstaka liði, sem hafa farið til skipakaupa og annars slíks. Það var ekki verið að gera grein fyrir því af hæstv. ráðh., og ég hygg, að það sé rétt, enda þótt eitthvað hafi dregið úr hallanum á s.l. ári, miðað við það, sem áætlað var, að þá sé hallinn alveg geigvænlegur á síðustu 2 árum. Hvort hann er yfir 12 þús. millj. kr. eða ekki, það skal ég ekki segja um, miðað við þær breytingar, sem orðið hafa á s.l. ári. En miðað við þær spár, sem fyrir lágu hjá sérfræðingum ríkisstj. í desembermánuði, — það var nú ekki fyrr en um mánaðamótin nóvember og desember, — þá mátti búast við því. að hallinn á árunum 1971 og 1972 og áætlunum,. sem þar voru um 1973, yrði a.m.k. 12—14 þús. millj. kr. Nú er gott, ef þetta hefur lækkað eitthvað, eins og það virðist hafa, hallinn á árinu 1972, miðað við það, sem ráðgert var. Hins vegar held ég. að engum sé kunnugt um neinar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. til þess að minnka þennan halla. hvorki í sambandi við minnkandi; innflutning né heldur í sambandi við hækkandi verðlag á erlendum mörkuðum. Ég held, að stjórnin hafi ekki neitt ráðið um það, að verðlag er nú betra og hagstæðara á erlendum mörkuðum en nokkru sinni fyrr og þar af leiðandi verður hallinn minni, m.a. af þeim sökum. Það hefur nefnilega verið gott að hafa góðæri og stöðugt hækkandi verðlag á erlendum mörkuðum. Samt sem áður eru menn að deila um það. hvort vöxturinn á dýrtíðinni sé meiri nú en hann hefur áður verið. í tíð fyrrv. stjórnar. og skal ég ekki fara langt út í það. auðvitað jókst verðbólguvöxturinn á árunum 1968 og 1969 vegna þess erfiða árferðis. sem við höfðum þá við að glíma. Núv. ríkisstj. þarf ekki að glíma við þá erfiðleika að útflutningsverðmæti þjóðarinnar falli á tveggja ára tímabili um allt að 50%. Þvert á móti hafa útflutningsverðmæti stöðugt verið að hækka. Samt sem áður vex dýrtíðin, samt sem áður vex óvissan í þjóðfélaginu og samt sem áður versnar afkoma atvinnuveganna, svo að það þurfti að gera ráðstafanir til þess að styrkja þá með sérstökum útflutningsuppbótum á s.l. hausti, með gengisfellingu í desember og með sérstökum ráðstöfunum. sem nú er að koma fram, að lofað hefur verið á milli jóla og nýárs í sambandi við fiskverðsákvörðun. Það er dálítið annað að mæta þeim örðugleikum, sem áföllin eins og á árunum 1967 og 1968 voru fyrir íslenzka þjóð, eða þegar góðæri er til lands og sjávar og útflutningsverðmæti fer stöðugt vaxandi.

Að öðru leyti er viðhorfið þetta hjá okkur núna, og að því vil ég víkja með örfáum orðum, að hæstv. forsrh. ræddi við mig fyrir nokkru um þann möguleika að ljúka þinginu fyrir páska, og á því tók ég í fyrstu vel. Eftir viðræður í okkar flokki vakti ég athygli á því, að það væri mjög mikið af málum, sem væru vandasöm mál, ef þau ættu fram að ganga á svo skömmum tíma, og óskaði þá eftir lista yfir þau mál, sem ríkisstj. legði áherzlu á, að afgreidd yrðu fyrir páska. Fékk ég lista frá hæstv. forsrh. næsta dag þar á eftir, og þó vantaði lista frá einum ráðherranum, en þessi listi var óskalisti ráðherranna um þau stjórnarfrv., sem þeir vildu að yrðu afgreidd, áður en þingi yrði lokið. Þá innti ég eftir því, hvort við gætum ekki fengið til þess að átta okkur á og greiða fyrir fljótlegri afgreiðslu mála og þingslitum, lista yfir þau mál, sem ríkisstj. í heild legði áherzlu á að yrðu afgreidd fyrir páska, en þann lista hef ég aldrei fengið og hann mun ekki vera til eða sameiginleg ákvörðun hæstv. ríkisstj. um þetta. Þetta gerir það að verkum, að aðstaðan er ákaflega erfið við að ljúka þingi á jafnskömmum tíma og stefnt hefur verið að, og verðum við í stjórnarandstöðunni að reyna að hafa á því allan fyrirvara og þann auðvitað fyrst og fremst, að við fáum einhverja möguleika til efnislegrar meðferðar veigamikilla mála. En þegar ég fékk þennan óskalista, þá var á honum mikið af málum, sem alls ekki voru komin fram. Síðan hafa þau svo verið að koma fram hér í þinginu. Og það eru mál, sem að mörgu leyti tengjast einmitt fjármálunum, eins og það mál, sem við nú erum hér um að ræða. Það eru frv. um fiskveiðasjóð, iðnlánasjóð og iðnrekstrarsjóð, og það er frv. um launaskatt, og öll eru þessi mál þannig, að þau leggja ýmist nýjar byrðar á atvinnuvegina og/eða jafnframt á ríkissjóðinn. Vegna fiskveiðasjóðs koma á þessu ári, 1973 og þá er ekki gert ráð fyrir nema á hálfu árinu — um 60 millj. kr. á ríkissjóðinn. Iðnlánasjóður er með 35 millj. til viðbótar á ríkissjóðinn. Það hefur legið fyrir frá því í byrjun þings frv. frá okkur sjálfstæðismönnum um að hækka framlagið til iðnlánasjóðs úr ríkissjóði upp í 35 millj. kr. Það var auðvitað ekki litið við því og ekkert hugsað um það þegar fjárlög voru afgreidd. Um iðnrekstrarsjóðinn var lagt fram frv. fyrir nokkrum dögum, og segir í grg. fyrir því frv., þegar það kemur fram: „Ekki er gert ráð fyrir framlagi ríkisins til sjóðsins í þetta sinn“ — enda er það ekkert í frv. Svo kemur brtt. núna, að það skuli á þessu ári, árinu 1973, koma ríkissjóðsframlag til þessa sjóðs, 50 millj. kr. Það er afnuminn launaskattur, greiðslur frá sjávarútveginum í vissum tilfellum, eins og frv., sem lagt hefur verið fram, ber með sér. Sumir segja, að þetta muni útveginn um 160 millj. kr. í minnkandi tekjum og nýjum framlögum frá ríkinu. Þessar hækkanir eru þá kannske eitthvað svipaðar og ríkissjóður eða fiskveiðasjóður mundi fá á heils árs grundvelli við þá hækkun, sem ráðgerð er á útflutningsgjaldinu, sem mun kannske næsta ár verða 160, 170 eða 180 millj. kr. En það er undarlegt að gefa fyrirheit fyrir áramótin um 160 millj. kr., sem virðist vera til hagsbóta fyrir útgerðina, og leggja svo ný útflutningsgjöld á núna, sem á ársgrundvelli mundu nema þessari upphæð.

En það sem skiptir máli, er, hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að afla fjár til þess að mæta þessu af ríkissjóði. Annars vegar eru álögur á iðnaðinn, því að iðnlánasjóðsgjaldið er hækkað um fjórðung frá því, sem áður hefur verið, um leið og ríkissjóður á að hækka sig upp í 50 millj. á ári úr 15 millj., og eins eru lagðir þessir bögglar á fiskveiðasjóð, og ríkissjóður á að leggja á móti. Svo er talað um, að eftir sé að koma enn eitt frv., um stofnlánadeild landbúnaðarins. Við höfum ekki séð það, og ég veit ekki hvort það kemur fram og hvað það er mikið, sem þar er lagt á ríkissjóð. Bara þetta, sem þarna er um að ræða og ég taldi upp, er á árinu 1973 um 300 millj. kr. Hvernig ætlar hæstv. fjmrh. að afla rekstrarfjárins, eða ætlar hann ekki að gera einhverjar ráðstafanir til þess? Þegar þm. sjá frv., sem fela í sér hundruð millj. kr. nýjar álögur, spyrja þeir náttúrlega, ef það felst ekki í frv.: Hvar á að taka þetta? Þeir vita, hvað búið er að leggja á Rauðku eða Skjónu eða hvað við eigum nú að kalla hann, blessaðan ríkissjóðinn. Og við vitum, að þegar við vorum að vinna að frv. til laga um neyðarráðstafanir vegna eldgossins í Vestmannaeyjum, sagði hæstv. fjmrh. okkur, að það væri ekki hægt að taka neitt úr ríkissjóði í þær neyðarráðstafanir, og um það stóð slagurinn langa lengi. Það var ekki heldur hægt að taka af framkvæmdaáætluninni. Niðurstaðan varð sú, að 160 millj. var samt sem áður áætlað að fá í viðlagasjóðinn. En þá var staða ríkissjóðs talin af hæstv. fjmrh. þannig, að hann yrði ekki aflögufær og þyrfti sennilega að skera niður minnst um 500 millj. kr., sem við vitum ekki neitt um enn þá, og kannske hærri upphæðir, sem voru þá nefndar, eins og 6 og 7 hundruð millj. kr. Þá var einmitt á orði haft af mönnum, sem að þessum málum unnu og að frv. til framkvæmdaáætlunar, að fjáröflun til framkvæmdaáætlunar mætti ekki skera niður, eins og hún lá þá fyrir, því að það mundu vera þegar raddir uppi um það og hugleiðingar um niðurskurð á því. En þegar frv. kemur aftur frá n., kemur um 250 millj. kr. tekjuöflun, í staðinn fyrir, að það var látið í veðri vaka við okkur, að aldrei mundi verða eins mikil fjáröflun og var í frv. fyrir jól, þegar við vorum að glíma við neyðarráðstafanirnar í sambandi við Vestmannaeyjar.

Ég vil segja það, að á sama tíma og hægt er að henda inn í þingið dag eftir dag nýjum frv., sem fela í sér álögur á ríkissjóð, viðbótarálögur um hundruð millj. kr., þá getum við ekki afgreitt hér í þinginu 75 millj. kr. til olnbogabarns núverandi stjórnarflokka, þ.e.a.s. landhelgissjóðsins. Það er nú loksins komið nál. frá meiri hl. um að vísa því frv. frá afgreiðslu Alþ., en hæstv. forsrh. hafði tekið því mjög vel og lagt mikla áherzlu á, að það mundi enginn telja eftir sér framlög til landhelgissjóðsins og það væri mjög mikils virði fyrir landhelgissjóðinn að fá vissar árstekjur til þess að byggja framtíð sína á. Það mál á nú eftir að koma til umr. hér í hv. d., og ég vil leyfa mér að bera þá von í brjósti, að ekki séu allir stjórnarliðar svo heillum horfir, að þeir láti teyma sig í einni keðju óslitinni til þess að vísa frá ákvörðun um 75 millj. kr. árlegt framlag til landhelgissjóðsins, á meðan þeir eru að samþykkja hundruð millj. kr. nýjar álögur á ríkissjóðinn á þessu ári og enginn veit, hvað í raun og veru búið er að samþykkja í löggjöf og á kannske eftir að samþykkja í löggjöf af nýjum álögum á ríkissjóðinn á næsta ári í sambandi við þau frv., sem nú eru til meðferðar. Við skulum taka frv. eins og um heilbrigðisþjónustuna, — ef það á eftir fram að ganga — sem eflaust felur í sér mörg ágæt nýmæli, þó að menn hafi margar athugasemdir við sitthvað í því, og ég skal ekki tjá mig um núna, þá er þarna um að ræða milljarða í auknum útgjöldum fyrir hið opinbera, þegar tekin er saman sú mikla aukna fjárfestingarþörf, sem þarna verður fyrir hendi til nýbygginga á þessu sviði, sem út af fyrir sig er ekki nema gott eitt um að segja, ef fé er fyrir hendi til þess, og líka stórkostlega aukin rekstrarútgjöld.

Það er einnig galli á þessu, að þegar við nú erum að samþykkja vissa hluti til ýmissa greina atvinnulífsins, þá er spurningin um það, að hve miklu leyti aðrar atvinnugreinar eru þá afskiptar. Ég nefni t.d. eina atvinnugrein, innlendar stálskipasmíðar eða skipabyggingar í landinu, sem ég því miður tel, að hafi verið mjög óvarlega eða illa hugað að, bæði hvað snertir fjáröflun í sambandi við framkvæmdaáætlun og annað, og væri vissulega ástæða til þess að hyggja betur að, áður en málin eru endanlega afgreidd. Því miður er það svo, að ekki horfir betur en það, að um mikinn verkefnaskort hjá þessum skipasmíðastöðvum verði að ræða á næsta ári vegna þess, hvernig að þessum málum hefur verið staðið.

Ég vil endurtaka spurningu mína og vonast til þess í framhaldi umræðnanna, að við fáum svör við því, hvernig hæstv. fjmrh. ætlar að afla tekna til þeirra margvíslegu nýju útgjalda, sem felast í þeim frv., sem verið er að ætlast til, að við afgreiðum nú fyrir páskana og koma til útgjalda á þessu ári. Hitt er svo aftur mjög fróðlegt, en það er seinni tíma spursmál, hvernig á að afla tekna til þessa á. næstu árum. Það er engu líkara en þeir menn, sem eru að leggja þessi frv. fram núna — burt séð frá því, þótt þörf sé á því fyrir sjóðina, — séu eiginlega búnir að gera það upp við sig, að þeir ætli ekki að semja fjárlög fyrir árið 1974. Ég spurði einn ráðherrann að því í gær, hvort þeir væru með þessum frv. um ný útgjöld, löngu eftir að fjárlög væru afgreidd á árinu 1973, að undirbúa brottför sína úr stjórnarráðinu. Hann brosti bara og taldi, að það gæti að vissu leyti verið gott að losna við það. En hvernig á að skýra þetta, að það sé allt í einu hægt fyrir ríkissjóð að sinna hinum og þessum verkefnum, en hæstv. fjmrh. sjálfur hefur talið hann vera fjárvana og þurfi að skera verulega niður útgjöld hans. Það dæmi ætti hæstv. fjmrh. að skýra fyrir okkur. Við höfum fengið vissa skýringu á þessu undraverða fyrirbrigði í fallegri grein um hæstv. fjmrh., sem birtist í Nordisk kontakt. Þar er ásamt mörgu öðru fögru, sem um hæstv. fjmrh. er sagt og hann sjálfsagt verðskuldar, sagt, að hann, Halldór E. Sigurðsson, hafi lengi verið talsmaður sparnaðar í ríkiskerfinu, og þar segir svo enn fremur: „Þetta virðist stríða gegn höfuðgagnrýninni á Halldór E. Sigurðsson sem fjmrh. að fjárlög ríkisins hafi tvöfaldazt á 2 árum.“ En svo heldur þessi ágæti greinarhöfundur áfram : „Aðdáendur Halldórs E. Sigurðssonar segja, að ekki megi blanda saman því, sem hann sjálfur vill gera í ríkisrekstrinum, og því, sem hann neyðist til að gera, vegna stjórnarsamstarfsins.“ Þetta er kannske skýringin á því, að það er allt í einu, löngu eftir að fjárlög eru afgreidd, komið fram með frv. hér, sem fela í sér miklar greiðslur þegar á þessu ári.

Ég vil að lokum segja það, að ég vil leyfa mér að hafa allan fyrirvara um það, að hve miklu leyti við getum lagt okkar lið og hjálpsemi til þess, að þingi ljúki fyrir páska, ef svo heldur fram sem verið hefur, að ný frv. eru stöðugt að koma fram, og meðan óvissa ríkir um það, hvaða einstök mál er lögð áherzla á að afgreiða fyrir páskana. Við erum reiðubúnir til samstarfs með eðlilegum hætti, en við viljum ekki standa að því að vera ábyrgir fyrir afgreiðslu stórkostlega þýðingarmikilla mála hér á Alþ., sem við ekki fáum tóm til þess að athuga og grandskoða og ekki er hægt að ætlast til, að við tökum afstöðu til á svo að segja engum tíma og með engum upplýsingum. Ef það á að gerast, er það mín skoðun, að hér sé bæði um að ræða stjórnleysi og fullkomið ábyrgðarleysi, að ætlast til þess að þingið standi þannig að afgreiðslu mála.