07.04.1973
Neðri deild: 81. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3183 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson) : Herra forseti. Ég vil þakka hv. heilbr.- og trn. fyrir mjög mikla og góða vinnu, sem hún hefur lagt í þetta frv., og fyrir ágæta samvinnu, sem tekizt hefur á milli nm. og rn. Það hefur verið samvinna á milli nm. og rn. m.a. um þær brtt., sem fluttar eru af n. á þskj. 557, og því aðeins hefur orðið slík samstaða, að menn hafa vikið frá skoðunum sínum á ýmsan hátt sumir hverjir. Ég vil t.d. gjarnan að það komi hér fram, að þó að ég muni styðja þá till. n., að II. kafli komi ekki til framkvæmda, fyrr en Alþ. ákveður það sérstaklega, hefði ég heldur kosið, að sá kafli hefði komið til framkvæmda nú þegar. Það er mikill misskilningur, þegar hv. þm. Matthías Bjarnason segir, að í II. kaflanum um héraðslækna felist það, að setja eigi á laggirnar 5 ný kontorembætti. Tvö af þessum störfum eru nú þegar í landinu. Borgarlæknirinn í Reykjavík hefur starfað hér um langt skeið, og ég hygg, að það sé allra manna mál, að sú starfsemi, sem undir hann heyrir, sé ákaflega mikilvæg og vilji enginn án hennar vera. Sama máli gegnir um héraðslækninn á Akureyri. Hann hefur fyrst og fremst sinnt embættislækningum nú um langt skeið, og ég hygg, að það sé einnig mál manna á Norðurlandi, að þeir vilji fyrir enga muni vera án slíkrar starfsemi. Í II. kafla frv. fólst ekki annað en það, að reynt yrði að taka þessa starfsemi, sem verið hefur í Reykjavík og á Akureyri, upp í fleiri landshlutum. Þegar þetta frv. var lagt fram í fyrra, voru till. um, að þessir embættislæknar yrðu 8, en það kom fram gagnrýni á, að það væri of mikill fjöldi, og þess vegna var reynt að hafa þá færri, aðeins 5. Út úr því kemur afar einkennilegt umdæmi, eins og menn hafa bent á, Suðurland og Vesturland. En ég vil minna menn á, að það er ekki ætlunin, að almenningur þurfi að sækja þessa menn heim, heldur eiga þessir menn að vera á ferðalögum um sín héruð og hafa þar á hendi forustu og stjórn á ýmsum veigamiklum atriðum heilsugæzlunnar. Ég hefði sem sé kosið, að þessi kafli hefði náð fram að ganga, en ég hef fallizt á það, að honum verði frestað, og mun að sjálfsögðu styðja það.

Ég vil einnig þakka öllum þeim, sem hér hafa tekið þátt í umr., fyrir ákaflega jákvæða afstöðu til frv. í heild. Ég held, að það hafi komið fram hjá öllum þeim, sem hér hafa talað, að þeir telja meginatriði frv. mjög veigamikla framför og að ástæða sé til þess að binda við það miklar vonir og það geti leyst úr mörgum vandkvæðum heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Þessa almennu samstöðu um meginatriði frv. tel ég ákaflega mikilvæga, og ég vona, að það takist að afgreiða frv. sem lög frá Alþ. einmitt í þessum anda, að þm. standi vel saman um þetta mál, því að það skiptir ákaflega miklu, að hægt sé að ráðast í framkvæmdir á grundvelli þessara laga í góðu andrúmslofti um land allt.

Það er ekki ýkjamargt, sem ég þarf að gera aths. við, af því, sem fram hefur komið. Þó langar mig til að víkja hér að örfáum atriðum.

Að því var vikið af hv. þm. Bjarna Guðnasyni og hv. þm. Stefáni Gunnlaugssyni einnig, að það vantaði kostnaðaráætlun með þessu frv. Þegar ég lagði þetta frv. fram á síðasta þingi, gerði ég grein fyrir kostnaðarhlið þessa máls. Ég skýrði þá frá því, hvaða áætlanir hefðu verið gerðar um kostnað við byggingu heilsugæzlustöðvanna utan Reykjavíkur. Sú áætlun var þá 800 millj., en hún hefur ekki verið framreiknuð til verðlagsins núna. Ég gerði einnig grein fyrir kostnaði við sjúkrahúsabyggingar, sjúkrahús, sem væru í byggingu, og þær byggingar, sem fram undan væru, og rakti þetta í allítarlegu máli á síðasta þingi, þannig að þessu hafa vissulega verið gerð nokkur skil. En það hefur ekki verið endurmetið út frá ástandinu núna, það er alveg rétt. Hins vegar vil ég benda á það, sem ég tel ákaflega mikilvægt, að í 36. gr. er gert ráð fyrir því, að gera skuli áætlun til 10 ára í senn og endurskoða hana á tveggja ára fresti og síðan skuli framkvæmdaáætlun. sem byggð sé á heildaráætluninni, árlega lögð fyrir Alþ. við gerð fjárl. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði, og slík heildaráætlunargerð hefur raunar verið undirbúin á vegum rn. Rn. mun fá í hendur eftir nokkra daga áætlun um sjúkrahúsaþörfina sérstaklega, sjúkrahús og hliðstæðar stofnanir, fram til ársins 1990. Sá undirbúningur mun gera það kleift, að hægt verði að gera þá áætlun, sem þarna er talað um, án allt of mikillar vinnu, ef þessi lög ná fram að ganga. Þá verður hægt að gera sér miklu gaumgæfilegri hugmyndir um það, hvað þessar breytingar muni kosta. Fyrir utan þann stofnkostnað, sem auðvitað er hægt að meta, leiðir þessi skipan að sjálfsögðu til aukins rekstrarkostnaðar, það liggur í hlutarins eðli. En þetta eru vandamál, sem Alþ. mun þurfa að fjalla um í sambandi við gerð fjárl. og meta það að sjálfsögðu eftir aðstæðum og árferði hverju sinni, hversu miklu fé verður hægt að verja til þessara þarfa.

Hv. þm. Bjarni Guðnason vék nokkuð að því, að það virtist vera eitthvert bitbein, verkaskipting á milli ráðuneytisstjóra og landlæknis, og svo virtist sem hlutur landlæknis hafi átt að vera mjög rýr í upphafi, eins og ég held, að hann hafi komizt að orði. Það er rétt, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði, að sú n., sem gerði hin upphaflegu frv: drög, gerði ráð fyrir því, að störf landlæknis og ráðuneytisstjóra yrðu sameinuð. Sú skipan er víða um lönd, t.d. í Noregi, þar er sami maður, sem gegnir starfi ráðuneytisstjóra í heilbrmrn. og starfar jafnframt sem landlæknir. Þetta var till. þessarar n. Þegar við sendum út þessi frv. drög til fjölmargra aðila, heilbrigðisstétta og annarra, kom fram mjög eindregin ósk frá læknasamtökunum og öðrum heilbrigðisstéttum um, að landlæknisembættinu yrði haldið á hliðstæðan hátt og það hefði verið, að landlæknir starfaði sem æðsti maður heilbrigðisstéttanna og sem faglegur ráðunautur heilbrmrh. og ríkisstj. Af hálfu rn. var ákveðið að fallast á þessi tilmæli lækna og annarra heilbrigðisstétta, og í þessu frv., eins og það liggur fyrir, felst engin breyting á stöðu landlæknis frá því, sem verið hefur. Það er tekið fram í 3. gr., að landlæknir sé ráðunautur ráðh. og ríkisstj. um allt, sem varðar heilbrigðismál, og annist framkvæmdir tiltekinna málaflokka fyrir hönd ráðh. samkv. lögum, reglum og venjum, er þar um gilda. Frv. kveður sem sé þannig á, að sú skipan, sem þarna hefur verið, skuli haldast óbreytt. Hitt er svo alveg rétt, að það hefur orðið breyting á stöðu landlæknis, ekki með þessu frv., heldur þegar stofnað var sérstakt heilbrigðisráðuneyti. Þá breyttist staða landlæknis að sjálfsögðu stórlega. Það hefði verið hægt að hafa þann hátt á þá að fela landlækni að annast þann málaflokk, sem þetta rn. fékk, tryggja honum aukið starfslið og fela honum þessi verkefni. En það var ákveðið að stofna sérstakt rn., og um það held ég, að hafi ekki verið neinn ágreiningur á þeim tíma. En auðvitað breyttist staða landlæknis við þetta, og ég er þeirrar skoðunar, að það sé ástæða til þess að skilgreina á nýjan leik stöðu landlæknis. Ég vil lýsa því yfir skýrt og skilmerkilega, að ég hef síður en svo nokkurn áhuga á því, að staða landlæknis verði minni en hún hefur verið. Ég tel brtt. n. um, að ráðh. setji reglugerð um starf og stöðu landlæknis og embætti hans í samráði við þá aðila, sem þar eru taldir upp, vera mjög skynsamlega, og ég efast ekki um, að í því starfi muni nást samstaða um skynsamlega skipan þeirra mála.

Það er í sjálfu sér rétt, sem hv. þm. Bjarni Guðnason sagði. að ráðh. hefur vald til þess að gefa út reglugerð um deildaskiptingu í rn. En ráðh. hefur ekki vald til þess að ná í þá fjármuni, sem þarf til þess að koma slíkri deildaskiptingu á. (Gripið fram í.) Það má vera, að svo sé, sem betur fer. En ástæðan til þess, að þetta er tekið upp í frv., er sú, að ef Alþ. kemst að þeirri niðurstöðu, að þarna þurfi að vera þessi deildaskipting og fyrir því held ég að séu mikil rök, þá hlýtur Alþ. einnig að hljóta að fjalla um það verkefni að tryggja rn. þá fjármuni, sem til þess þarf, að hægt sé að koma þessari deildaskiptingu á. Slík deildaskipting er í öðrum rn., eins og menn vita, og það eru mörg rn., sem eru miklu fjölmennari en heilbr-: og trmrn. Ég hygg, að þarna sé skynsamlega að verki staðið, og ef Alþ. telur, að það þurfi á þessari deildaskiptingu að halda, muni Alþ. einnig þurfa að leysa fjárhagshlið þess máls. Að áætlanadeild sé óþörf í slíku rn., finnst mér vera alger misskilningur. Ég vék áðan einmitt að því, að samkv. frv. er til þess ætlazt, að rn. geri 10 ára áætlun um heilbrigðisstofnanir, sem sé endurskoðuð á tveggja ára fresti. Ég held, að þetta sé grundvöllur þess, að hægt sé að ráðast í framkvæmdir á þessu sviði á skipulegan og skynsamlegan hátt og nýta sem bezt þá fjármuni, sem til falla.

Hv. þm. Bjarni Guðnason gat þess, að þau héruð, sem erfiðast hefur verið að fá lækna til þess að gegna, þyrftu að hafa forgang við allar framkvæmdir á þessu sviði. Um þetta er ég algjörlega sammála hv. þm. Það liggur í hlutarins eðli, að röð framkvæmda verður að vera við það miðuð að leysa fyrst vanda þeirra, sem búa við erfiðastar aðstæður á þessu sviði. En það er að sjálfsögðu ákvörðunaratriði Alþ. hverju sinni, hvernig þessi röð verkefna verður. Ég held, að það sé mjög erfitt að binda það í lög, hver þessi röð verður. En ég hygg, að það hljóti að vera sameiginlegt mat alþm. yfirleitt, að þessa reglu verði að hafa til hliðsjónar og byrja á því að leysa vanda þeirra, sem verst eru settir. Það finnst mér liggja í hlutarins eðli.

Hv. þm. Stefán Gunnlaugsson tók mjög eindregið undir þetta frv., en hann sagði einnig, að skattborgararnir væru illa kvaldir á Íslandi um þessar mundir, og vissulega er það rétt. Þessar framkvæmdir munu kosta mikla fjármuni, og þá fjármuni verður að taka af skattborgurunum. En við skulum ekki gleyma því, að heilsugæzla er hluti af lífskjörum manna. Lífskjörin eru ekki bara peningarnir, sem menn telja upp úr launaumslaginu. Lífskjörin eru einnig hvers konar félagsleg þjónusta, sem látin er í té, bæði á sviði heilbrigðismála, skólamála og öllum mögulegum öðrum sviðum. Við erum að bæta kjör manna, ef við komum á betra heilbrigðiskerfi en verið hefur í landinu. Þeir peningar, sem teknir eru í sköttum til slíkra hluta, skila sér aftur til manna á annan hátt og þá sérstaklega til þeirra, sem þurfa á slíkri félagslegri aðstoð að halda.

Þegar ég heyri þetta umtal um skattpíningu, sem er orðið daglegt umtal hér á hinu háa Alþ., kemur mér oft í hug sú einfald staðreynda, sem ég veit ekki, hvort allir gera sér ljósa, að hér á Íslandi taka ríki og sveitarfélög um það bil 1/3 af þjóðartekjunum til sín í sköttum og gjöldum, en þjóðfélög eins og Danmörk og Svíþjóð taka yfir 50% þau taka meira en helminginn af þjóðartekjunum. Við leggjum þannig mun minni skatta á en lagðir eru á annars staðar á Norðurlöndum. En þessi þjóðfélög, Svíþjóð og Danmörk. standa einnig framar en við á ýmsum sviðum félagsmála, vegna þess að þar er litið svo á, að félagsmálin séu mjög veigamikill þáttur í lífskjörum manna og beri að meta slíka félagslega þjónustu fullkomlega til jafns við útgreidd laun. Ég held því, að við þurfum ekki að kveina svo mjög undan skattabyrðinni, a.m.k. ekki í samanburði við Svía og Dani.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson taldi, að það þyrfti að hafa nægilega rúman tíma til þess að ljúka afgreiðslu þessa frv., það mætti ekki vera nein fljótaskrift á því. Nú er það svo, eins og hann viðurkenndi raunar, að þetta frv. hefur legið hér fyrir Alþ. áður og hv. alþm. hafa haft mjög langan tíma til þess að fjalla um það. Ég veit, að það hefur verið fjallað um það í öllum héruðum landsins, og ég hygg, að það séu fá mál, sem hafa verið öllu betur undirbúin en þetta. Hins vegar vill það verða svo, að á síðasta sprettinum þurfa menn að vinna hraðar en gert er í upphafi þingstarfanna. Þannig hefur það verið á hverju þingi, sem ég hef setið á, hvort sem þinghaldið hefur staðið nokkrum vikum lengur eða skemur, að síðustu tvær vikurnar hafa verið óhemjulegur annatími. Þetta fer ekki endilega eftir því á hvaða degi þinginu lýkur, heldur er þetta vinnulag, sem ég tel vera hálfgerðan ósið. Ég held, að við getum skipulagt vinnubrögð okkar betur en við gerum. Mér finnst við slá fullslöku við á fyrri hluta þingsins, en reynum svo að vinna af miklu ofurkappi undir lokin. En hvað sem mönnum finnast um það, hvort Alþ. eigi að ljúka störfum vikunni fyrr eða síðar, vona ég, að menn standi saman um það að reyna að tryggja framgang þessa máls, sem hefur eins og ég sagði áðan, fengið mjög góðar undirtektir.

Ég gat þess í upphafi, að till. n. eru samkomulag margra aðila, og mér skilst, að n. ætli að starfa áfram á þeim sömu forsendum, að fjalla um till., sem ýmist eru komnar fram eða vitað er um, að muni koma fram. og reyna að ná samkomul. um þær einnig. Ég vildi beina þeirri ósk til hv. þm., sem hugsa sér að flytja brtt. við 3. umr.. að þeir komi til n. þessum hugmyndum sínum, svo að hægt sé að fjalla um málið þar. (JSk: Það er fundur kl. 10 á mánudaginn.) Það er fundur fyrir hádegi á mánudag, og það er mjög eindregin ósk mín, að unnt verði að afgreiða málið út úr Nd. á mánudaginn, svo að Ed. fái ráðrúm til þess að fjalla um það eins fljótt og hægt er.

Ég ítreka svo þakkir mínar til n. og til hv. alþm., sem hér hafa talað, fyrir mjög jákvæðar undirtektir og vona, að sú samstaða. sem fram hefur komið í máli manna, megi haldast.