10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3296 í B-deild Alþingistíðinda. (2771)

12. mál, samkeppnisaðstaða íslensks skipasmíðaiðnaðar

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Af því að ég á sæti í þeirri n., sem um þetta mál fjallaði, finnst mér, þótt hv. frsm. sé ekki viðstaddur, ekki rétt, að það fari alveg umræðulaust hér í gegn, því ég álít, að hér sé um mjög þýðingarmikið mál að ræða, könnun á samkeppnisaðstöðu íslenzks skipasmíðaiðnaðar við erlendan. Ég satt að segja álít, að hér sé um mál að ræða, sem þurfi að fjalla um á mjög rækilegan hátt. Atvmn. var sammála um afgreiðslu þessa máls, að samþ. till. Hér mundi vafalaust verða gerð nokkuð umfangsmikil könnun á þessari samkeppniaðstöðu, og ég sé ekki, að með öðrum hætti sé hægt að komast að því betur, hvort íslenzkur skipasmíðaiðnaður geti í raun og veru staðið erlendum skipasmíðaiðnaði á sporði. Sjálfur álit ég, að það sé hægt. Ég get ekki meint annað en að ef þekking og fjármagn í sambandi við þennan iðnað væru flutt inn í landið, — og þessi könnun mundi vafalaust skera úr um það, þá yrði hér komin umtalsverð iðngrein. Og er það ekki það, sem við erum að leita eftir, til að fullkomna þá iðabyltingu, sem hæstv. iðnrh. hefur tilkynnt og ég hef margoft sagt honum, að ég styðji hann fullkomlega í. En þá verðum við líka að taka einhvers staðar á. Og hér held ég, að sé verkefni, sem er mjög þýðingarmikið, að tekið sé á sterklega, og fyrst allir hv. nm. eru sammála, ætla ég líka eins og fleiri að leggja traust mitt á hæstv. ríkisstj. um það, að hér verði vel að unnið.