10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3297 í B-deild Alþingistíðinda. (2775)

56. mál, rækju- og skelfiskleit fyrir Norðurlandi

Frsm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Atvmn. sendi till. til umsagnar til Fiskifélags Íslands og Hafrannsóknastofnunarinnar. Fiskifélagið mælti með henni, en Hafrannsóknastofnunin taldi hana ástæðulausa. Í umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar segir, að það hafi verið framkvæmd mikil skelfiskleit fyrir Norðurlandi, en fjárveiting til þeirra hluta hafi verið felld niður, svo að það hefur orðið minna úr framkvæmdum s.l. ár. Nú er búið að gera ráðstafanir til þess, að stofnunin fái bát til að inna þessar rannsóknir af hendi, þannig að í raun og veru er forsenda fallin niður fyrir því að samþ. þessa till. N. leggur því til, að henni verði vísað til ríkisstj.

Nál. er svo hljóðandi: „N. hefur rætt till. og sent til umsagnar til Fiskifélags Íslands og Hafrannsóknarstofnunarinnar. Svar Fiskifélagsins er jákvætt, en Hafrannsóknastofnunin bendir á, að það sé rangt, að eigi hafi verið leitað að rækju- og skelfiskmiðum fyrir Norðurlandi, fjárveiting til rækju- og skelfiskleitar hafi hins vegar verið felld niður á fjárl. í vetur, en úr því muni verða bætt með fjárveitingu til að leigja eða kaupa hæfilega stóran bát. — N. leggur því til, að till. verði vísað til ríkisstj.

Ég álit að þetta mál sé í þann veginn að leysast og þess vegna sé ástæðulaust að haga tillöguflutningi n. á annan hátt en þennan. Og ég held, að það sé einnig um þetta mál.

Ég vil taka það fram, þótt það sé orðað svona, að staðhæfing flm. um vanrækslu í þessu efni hafi ekki að öllu leyti verið rétt, þá dettur mér ekki í hug, að flm. hafi sagt vísvitandi ósatt, heldur hitt, að þeir hafi ekki verið viðbúnir að kynna sér málið nógu rækilega, áður en þeir fluttu till. Vitanlega hefur þeim ekki gengið nema gott til með tillöguflutningnum. Ég vil taka það fram, að það eru alls ekki mín orð, að þeir hafi farið rangt með, heldur er það Hafrannsóknastofnunin, sem segir það. Ég væni þá heiðursmenn a.m.k. ekki um að hafa sagt vísvitandi ósatt.