11.04.1973
Efri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3328 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Frsm. 2. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls sagði ég aðeins örfá orð, en tók þá fram, að ekki bæri að skilja það svo, að ég væri ásáttur um allt í sambandi við þetta frv. eða réttara sagt ýmis atriði, sem það varðar, heldur vegna þess, að ég vildi ekki við þá umr. tefja, að málið gæti farið til n., þar sem svo var orðið ástatt með fundartímann. Með skírskotun til þessara orða vonast ég til, að hæstv. forseti leggi mér það ekki illa út, þó að ég haldi mig e.t.v. ekki nákvæmlega við fyrirmæli þingskapa um, hvernig beri að ræða mál við 1. og 2. umr., þar sem ég lít svo á, að ég hafi geymt mér þennan rétt. Það er þó ekki ætlun mín að orðlengja um málið meir en þörf er á, en ég kemst ekki hjá því að ræða viss grundvallaratriði, sem ég tel þýðingarmikið, að menn geri sér grein fyrir í sambandi við efnahags— og fjárfestingarmálin almennt.

Vissulega er framkvæmdaáætlun ríkisins og skýrsla fjmrh. um það efni einn höfuð vettvangurinn til þess að gera þau mál að umtalsefni á Alþ. hverju sinni. Áður en ég vík þó að frv., og hinum almennu hugleiðingum mínum um undirbúning þess og efnahagsmálin almennt, vil ég leyfa mér að mæla örfáum orðum fyrir tveimur brtt., sem ég hef leyft mér að flytja við frv.

Annars vegar er brtt. um að taka upp 8 millj. kr. fjárveitingu eða fjáröflun vegna Ólafsfjarðarhafnar. Það sannast sagna hlýtur að vekja allmikla undrun, að þannig skuli hafa verið að málum staðið varðandi Ólafsfjarðarhöfn, sem er ein höfnin í Norðurlandsáætlun, að hún er eina höfnin, sem skilin er eftir af þeim höfnum, sem átti að veita fé til á þessu ári. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í haust hér í þingi, að Ólafsfjörður fengi fjárveitingu á þessu ári. Á þessu varð hins vegar breyting að því leyti, að þessi fyrrihugaða fjárveiting var skorin niður, og þá varð Ólafsfjörður fyrir öxinni, af hvaða ástæðu veit ég ekki, en það eru tvær hafnir á Norðurl. v., sem fá að lifa. Menn geta ímyndað sér, af hvaða ástæðum það er. Ég hef ekki á móti því, að það voru teknar inn 4 millj. kr. til Siglufjarðar, sem var búið að ákveða að fella einnig út, en mér finnst það nánast gegna furðu, miðað við það, hvernig aðstæður allar eru, að það skuli ekki hafa verið fallizt á að taka þessar 8 millj. til Ólafsfjarðarhafnar, sem hefði verið í fullu samræmi við það, sem upphaflega var gert ráð fyrir í sambandi við hafnarmálaáætlunina á þessu ári. Þetta þykir mér furðulegt á allan hátt og vænti þess, að það kunni að gerast hér í þessari hv. d., sem stundum hefur gerzt áður, að þau mistök verði lagfærð, sem kunna að hafa verið gerð í hinni d., eins og það er orðað í brezka þinginu.

Hin till. er varðandi undirbúning að orkumálum fyrir Norðurland. Það er á engan hátt fengin niðurstaða um það, hvernig beri að haga rafvæðingarmálum Norðurlands. Ég skal ekki fara að ræða þau mál í einstökum atriðum, það er allt of langt mál, en það er gert ráð fyrir því í frv., að verja í tvennu lagi fé til rafvæðingar á Norðurlandi. Annars vegar er lagt til að heimila 50 millj. kr. lántöku til framkvæmda, og hins vegar er gert ráð fyrir beinni fjárveitingu, 13 millj. kr., til stofnlínu Norðurland—Suðurland. Það er mín skoðun og margra annarra þm. á Norðurl., að það þurfi að rannsaka þetta mál miklu nánar varðandi rafvæðingarmál Norðurlands. Það var því lagt til í Nd., þótt þar væri ekki á allt fallizt, en er einnig lagt til í brtt. minni hér, að þessum 13 millj. í frv. verði varið til rannsókna á orkuöflunarleiðum fyrir Norðurland, en þetta er nákvæmlega það, sem samtök á Norðurlandi óska eftir, að heildarrannsókn fari fram á því, hvernig rafvæðingunni skuli hagað. Það er gert ráð fyrir að byrja á þessari línu norður 1974. Þá verða orðin rafmagnsþrot á Norðurlandi og mikill uggur í Norðlendingum varðandi það, hvað taki við. Það er alveg ljóst mál, hvað sem líður tengingu norður, sem ég út af fyrir sig er ekkert andvígur, að það verður að vera til staðar á Norðurlandi orka heima fyrir, sem er þess umkomin að bjarga við, ef línan norður skyldi bila. Það er óverjandi með öllu að byggja rafvæðingu Norðurlands á því að leiða línu yfir hálendið norður, auk þess sem má telja ákaflega hæpið að byggja orkuöflun á Íslandi upp á því, miðað við það ástand, sem orðið hefur nú á allt of fárra ára millibili, þegar eldgos hafa brotizt út, að hafa orkuna framleidda á einu aðaleldgosasvæði landsins. Ég tel það með öllu móti óvarlegt, ef allar virkjanir, sem nokkru máli skipta, eiga að vera þar og landið á að vera háð því að verulegu leyti. Það liggur ljóst fyrir, að efling norðlenzkra byggða er undir því komin, að þangað verði ekki aðeins leidd orka að sunnan, heldur verði til nægilega traust orka heima í héruðum, sem grípa má til, ef til bilunar kemur á þessari línu norður. Þetta er hin almenna ósk samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi, og það hlýtur að valda allverulegri undrun, að það skuli ekki hafa fengizt fram hjá hæstv. ríkisstj. Ekki sízt hefur það mætt andstöðu, að það var ekki einu sinni talað við menn á Norðurlandi um það, hvernig ætti að afla orku fyrir þennan fjórðung. Ég vildi því einnig mega vonast til þess, að hv. þd. gæti fallizt á þessa breytingu, sem ekki felur í sér nein aukin útgjöld, heldur aðeins breytingu á orðalagi.

Hitt atriðið, varðandi 8 millj. til Ólafsfjarðarhafnar, er aðeins til þess að koma í veg fyrir óþarfa leiðindi og rangindi, vil ég segja, og skiptir heldur engu máli fjárhagslega, enda hefur fjmrh. sjálfur flutt till, um það, að fá heimild til að taka 150 millj. kr. lán til athugunar á hafnarstæði hér á suðurlandi. Auðvitað er ekki nema sjálfsagt að veita þá heimild, ég er á engan hátt því andvígur, en það sýnir, að mönnum ofbýður ekkert, þótt um stærri upphæðir sé að ræða en þessar 8 millj., sem ég hef minnzt á.

Ég vík þá að málinu sjálfu og vil leyfa mér að ræða fyrst og fremst um undirbúning þess. Hv. frsm. meiri hl. fjvn. flutti næsta einkennilega ræðu og vandræðalega um það, hvernig stæði á þessari furðulegu meðhöndlun, undirbúningi og meðferð þessa máls hér í þinginu. Í fjárlagaræðu sinni í haust lýsti hæstv. fjmrh. yfir, að nú yrðu önnur tök á framkvæmdaáætlun en áður hefðu verið, þar sem stofnunin mikla væri nú tekin til starfa. Því væri lagt fram til þess að verða tekið til meðferðar samtímis fjárl. fullbúið frv. um framkvæmdaáætlun ríkisins, þ.e.a.s. ríkissjóðskaflann. Vitanlega hefur hann gert ráð fyrir því, að þessi stofnun mundi valda þeirri byltingu í þjóðfélaginu, sem virðist hafa verið draumur ríkisstj. Ég var aldrei trúaður á það, þótt ég eigi þar sæti, enda ráða þar aðrir en ég. Sannast sagna hefur ekki orðið vart við þá miklu byltingu í átt til betri vinnubragða og skjótari en áður var, nema síður sé. Vafalaust hefur hæstv. fjmrh. trúað á þetta, þegar hann lagði frv. fram, enda er sagt í grg. frv., í upphafi hennar, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og boðað var í grg. fjárlagafrv. fyrir árið 1973, er framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisstj. fyrir það ár nú lögð fram, meðan fjárlagafrumvarpið er enn til meðferðar, þannig að unnt verður að líta á heildarframkvæmdir ríkisins á sama tíma við ákvarðanatöku á Alþ. Er þetta í fyrsta sinn, sem frv. þessi eru til meðferðar samtímis í þinginu, og er að því augljóst hagræði.“

Já, það var ekki lítið hagræði. Það er að vísu svo, að meginatriði í sambandi við fáröflun til ríkisframkvæmda fylgdu fjárlagafrv. tvö síðustu árin í tíð fyrrv. ríkisstj., þótt það hafi e.t.v. ekki verið sundurliðað á allan hátt. Þar var lýst þeim viðfangsefnum, sem við var að fást, þannig að fjvn. stæði andspænis því að taka afstöðu til þess, hvort auðið væri að taka þær í fjárl. og veita fé til framkvæmdanna. Hér er því ekki heldur um neina byltingu að ræða.

En verst af öllu er þó það, hvernig þetta allt hefur svo farið og þróazt. Í málinu hefur sannast sagna ekkert gerzt síðan. Það hefur legið í salti í n. í Alþ. og hvorki stuna né hósti heyrzt frá hæstv. ríkisstj. um það, hvernig bæri að meðhöndla vandann. Það er að sjá ýmsar bollaleggingar í inngangi að skýrslu fjmrh. um það, hvernig á þessu standi. Hv. formaður n. vék að einu atriði, sem er líka drepið á í þessum formála, og það var vandamál Vestmanneyinga. Það merkilega er út af fyrir sig, að frv. skyldi ekki hafa verið afgreitt, áður en nokkur Vestmannaeyjavandi kom til sögunnar, og ég hygg, að það hafi verið ætlun hæstv. fjmrh. í upphafi að frv. yrði afgreitt áður. Einu rökin í rauninni fyrir því að afgreiða það gætu verið þau, að það var all geigvænlegt gat á fjárl., þ.e.a.s. 500—600 millj. kr., og fjmrh. hafi viljað bíða, þangað til búið var að fylla þetta gat, eða réttara sagt lækka fjárlög til þess að ná saman endum, áður en hann réðist í að leggja til þau viðbótarútgjöld, sem gert er ráð fyrir í framkvæmdaáætluninni, og þær lántökur, sem þar er um að ræða. En það gæti verið skynsamleg stefna, ef um stefnu á yfirleitt að tala hjá hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, að skoða málið í þessu ljósi. En ég mun síðar koma að því, að því fer víðs fjarri, að frv. hafi verið látið bíða af þessari ástæðu, því að það eru stöðugt að gerast atvik hér í þingi, sem sýna, að enn er ekki nein heil brú í fjárl. og engin ákvörðun tekin enn í dag varðandi það, hvernig á að leysa þann vanda. Vestmannaeyjamálin hafa auðvitað engin áhrif á þetta, enda kemur það á daginn og er tekið fram í skýrslunni, að þegar allt hafi komið til alls, hafi verið ákveðið að láta Vestmannaeyjavandann ekki hafa nokkur áhrif hér. Og það er ósköp greinilegt, af hverju það var, vegna þess að hér í Alþ. var samþ. sérstök fjáröflun vegna Vestmannaeyjavandans og ákveðið að aðskilja hann frá öðrum vandamálum. Ég sé ekki, að það séu nokkur atriði í þessu frv., sem líklegt er, að Vestmannaeyja atvikin gætu hafa haft áhrif á, þannig að í þessu efni er auðvitað einnig um fyrirslátt að ræða.

Það er að vísu sagt hér, að áætlun til opinberra framkvæmda hafi verið tekin til endurskoðunar, en síðan hafi verið ákveðið að gera engar breytingar, og þær breytingar einar, sem gerðar voru, voru til hækkunar, en ekki lækkunar. Þetta er staðreynd málsins. Það kann að vera, að það hafi verið talið rétt að bíða með afgreiðslu frv. af annarri ástæðu, sem alls ekki er getið um hér, en ég er að reyna af velvilja að finna út einhverja afsökun fyrir hæstv. ríkisstj. að hafa látið þetta mál bíða, en hún er sú, að ekki hafi verið tilbúinn hinn kafli málsins, sem að vísu snertir ekki þetta frv., en er venja að gera grein fyrir um svipað leyti og það mál er afgreitt, þ.e.a.s. fjáröflunarvandamál stofnsjóðanna. Það væri hugsanlegt, að það væri hægt með góðum vilja að skilja það, að frv. hafi verið látið bíða þess tíma. En hvernig á því stendur, að fjáröflunarvandamál stofnsjóðanna þarf endilega að vera svona síðbúið, er mér líka óskiljanlegt. Einnig það átti að taka algerri byltingu, þegar Framkvæmdastofnunin væri komin á laggirnar og komin í fullan gang með allt sitt skipulag og kerfið sem er ekkert smáræði. Það allt átti að vera tilbúið, a.m.k. um áramót, og auðvitað hefði það getað verið það. Það hefur ekkert verið tilbúið fyrr en venjulega, nema síður sé, vegna þess að jafnvel enn í dag eru óleyst vandamál í þessu sambandi og það stórvandamál. Ég hef leyft mér að segja í grg. minni, að skýrsla fjmrh. sé í þetta skipti harla snubbótt, ég hef notað það orðalag. Ég er ekki að lasta það út að fyrir sig kannske, það er alltaf gott að fá stuttar skýrslur. En þegar betur er að gáð, þá er vitnað í alls konar aðrar skýrslur, þannig að manni er ætlað að afla sér fróðleiks úr ýmsum áttum, því að það segir á fyrstu síðu, að skýrslan hafi á undanförnum árum verið mjög umfangsmikil, en hins vegar hafi önnur skýrslugerð nú þróazt mjög og þar beri einkum að nefna skýrslu hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar um almenn efnahagsmál vor og haust. Síðast mun það hafa verið Gráskinna í haust, sem var ágætisbók, það er alveg rétt, og ekki þurfti að bíða eftir henni. Hún er komin fyrir löngu. Betur að ríkisstj. hefði tekið mark á því, sem í henni er sagt, en því miður hefur það ekki verið gert. Svo er ársskýrsla Seðlabankans, hún er ekki komin út enn, og í þriðja lagi mun ársskýrsla Framkvæmdastofnunarinnar brátt bætast við, og fellur í hlut forsrh. að gera grein fyrir henni á Alþ. Mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið gerð grein fyrir henni, þannig að á þessu stigi verður að geta sér til um það, hvað er í þeirri skýrslu. Það vill að vísu svo til, að ég veit hvað verður í henni, en það er önnur saga. En það er aðeins mín persónulega vitneskja, en ekki annarra, og við skulum láta það liggja á milli hluta. Alla vega hafa alþm. ekki séð þessa skýrslu Loks má nefna sérstakar skýrslur eins og skýrslu valkostanefndar. En það er vissulega til ýmiss konar fróðleikur, sem út hefur verið gefinn þ.á.m. skýrsla valkostanefndar, en hæstv. ríkisstj. ákvað að hafa að engu þær aðvaranir, sem snerta efnahagsmál og settar eru fram í þeirri skýrslu. Allar eru þessar skýrslur, að svo miklu leyti sem maður hefur séð þær, fróðleikur, en sumar þeirra hafa hv. þm. alls ekki séð. Mér er því óskiljanlegt, að þessi málatilbúnaður skuli vera með þessum hætti og þetta skuli, eftir að menn hafa sett á stofn dýrustu skipulagsstofnun, sem nokkurn tíma hefur séð dagsins ljós hér á Íslandi, vera enn þá aumara en nokkru sinni áður, meðan þessar stofnanir voru þó allar í minni mæli og óskipulagðari en ætti að vera, miðað við þessa nýju, miklu stofnun. Menn verða sem sagt ýmist að gizka á þessi mörgu atriði, sem hafa grundvallarþýðingu um þróun efnahagsmálanna eða þá að byggja á skýrslu fjmrh., sem er í rauninni ekkert annað en nánari skýringar á frv. og með nokkrum setningum getið um það, hver fjárfesting og fjármunamyndun hafi orðið á árinu 1972, og ágizkun fyrir árið 1973. Allt er þetta góðra gjalda vert, og ég dreg ekki í efa, að það sé rétt, sem þar stendur. Enn það gagnar lítt að vitna í skýrslur að öðru leyti, sem hafa ekki enn séð dagsins ljós, og ætla þm. að taka afstöðu til þessa frv. og fjármögnunaráætlunar stofnsjóða á grundvelli þeirra gagna.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um vinnubrögðin í þessu sambandi og tel, að þau séu nægileg rök fyrir því, að við sjálfstæðismenn höfum ekki viljað taka þátt í afgreiðslu þessa máls. Hin ástæðan, meginástæðan, er efnahagsþróunin og það skipulagsleysi, sem ríkir þar í öllum greinum af hálfu hæstv. ríkisstj. Það liggja fyrir viss gögn í því sambandi, eins og ég gat um, þótt ég láti hjá líða að vitna beint í skýrslur, sem ekki hafa verið birtar. Annars vegar er skýrsla Efnahagsstofnunarinnar í haust, þar sem varað var mjög alvarlega við þróun í fjárfestingarmálum, sem væru meira og minna að komast úr böndum vegna þeirrar miklu þenslu, sem væri í efnahagskerfinu. Þá var varað mjög alvarlega við hinni geigvænlegu skuldasöfnun erlendis, sem nemur nú lítt viðráðanlegum upphæðum, og má í því sambandi vitna til þeirra talna, sem þar er getið um, að erlendar skuldir þjóðarinnar hafi á tveimur árum hækkað um hvorki meira né minna en 7 milljarða kr., sem er stórkostlegri skuldasöfnun en nokkru sinni hefur áður átt sér stað á jafnskömmum tíma. Jafnframt er bent á hina geigvænlegu þenslu, sem orðið hafi í efnahagslífinu yfir höfuð, og á það hefur verið bent af Framkvæmdastofnuninni, að þar sé um að ræða fjárfestingarstefnu, sem leiði vegna ástands í þjóðfélaginu til mjög geigvænlegrar þenslu. Við þekkjum öll jafnvægisleysið í búskapnum gagnvart útlöndum, sem er hið alvarlegasta. Að vísu er gjaldeyrisvarasjóður mikill og hefur ekki verið meiri áður, en gjaldeyrisvarasjóðurinn, eins og ég hef áður sagt, er byggður fyrst og fremst upp með erlendum lántökum. Ríkisútgjöld hafa vaxið með stjarnfræðilegum hætti, þannig að áframhaldandi þróun í þeim efnum, ef hún á að vera með sama hætti, hlýtur að leiða til þess, að álögur vaxi svo gífurlega ár frá ári á landsmenn, að naumast verði undir því risið. Framkvæmdastofnunin telur, að 1971 hafi fjármunamyndunin vaxið allt of mikið og orðið þá um 39%. Ég er ekki með þessu að saka hæstv. núv. ríkisstj. um það. Þróunin stefndi í þessa átt. Það er ekki allt fjárfesting á vegum ríkisins, enda má á það benda, að útgjaldaáform á vegum ríkisins voru þá miklum mun lægri en varð bæði á árinu 1972 og lagt er til að verði á árinu 1973. Það má geta þess í þessu sambandi, að þó að fjármunamyndunin hafi vaxið svo gífurlega, er það ekki ríkisþátturinn, sem átti hlut að þessu árið 1971, því að heildarfjárhæð áætlunarinnar þá var, eins og ég áðan sagði, miklum mun lægri eða aðeins 778 millj. á móti 2,3 milljörðum á árinu 1972. Þetta gerist á þessu ári þrátt fyrir það, að árið 1971 hafi verið talið svona stórhættulegt fyrir efnahagskerfið. Engu að síður gerir ríkisstj. þetta 1972. Enda kemst Framkvæmdastofnunin að þeirri niðurstöðu, að fjárfestingin 1972 hafi síður en svo stefnt í þá átt að skapa betra jafnvægi í fjárfestingarmálum á því ári. Þetta ástand er enn fullkoml. í samr. við það, sem var skoðun Efnah.stofnunar eða hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunarinnar eftir atvikum þessi ár, og mætti ætla, að það hefði þurft að hafa mið af þessu ástandi, þegar framkvæmdir á árinu 1973 voru ákvarðaðar. En hvað gerist í því efni? Það liggur nú fyrir í skýrslu fjmrh., að það er síður en svo, að þar sé um samdrátt að ræða. Það er að vísu ekki um verulega aukningu að ræða frá árinu 1972, en miðað við ástandið og þá miklu þenslu, sem er, og hina stórfelldu hættu, sem hagrannsóknadeildin hefur bent á, að væri til staðar varðandi gjaldeyrisjöfnuðinn gagnvart útlöndum á árinu 1973, og aðvaranirnar um, að nú væri spornað við fótum í sambandi við erlendar lántökur, gegnir mikilli furðu, að ekki skuli hafa verið haft mið af þessu ástandi og reynt að spyrna hér fótum við.

Svo sem ég gat um áðan, hafa skuldir þjóðarinnar gagnvart útlöndum vaxið svo geigvænlega, að þær eru nú í árslok 1972 orðnar 65% af útfluttum vörum og þjónustu. Það er hlutfall skulda af heildartekjum eins árs. Árlegar greiðslur afborgana og vaxta eru orðnar 12% og talið ljóst, að þær muni hækka upp í 14% árið 1974, og er þá miðað við stórkostlegt tekjuár, sem verið hafa bæði þessi ár. Ég minnist þess, þegar bakslagið mikla var og útflutningstekjurnar minnkuðu um allt að 50%, að þá var haft á orði hér á Alþ. af þeim mönnum sumum, sem nú eru hæstv. ráðh., að það væri dæmalaust, að greiðslubyrðin gagnvart útlöndum væri þá komin upp í 15—16%. En auðvitað gaf auga leið, að hún hlaut að vaxa ár frá ári og greiðslubyrðin vex einnig ár frá ári. Hér er að sjálfsögðu um svo geigvænlega þróun að ræða og trausti þjóðarinnar erlendis varðandi erlendar lántökur í framtíðinni stefnt í slíka hættu, að það er mikið áhyggjuefni, sem hlýtur að vekja athygli stjórnvalda, ef þau hafa ekki þegar veitt því eftirtekt. Það gerðist einnig nú við gengisbreytinguna fyrir jólin, að engar af þeim hliðarráðstöfunum, sem lýst var yfir af sérfræðinganefnd þeirri, sem ríkisstj. skipaði, voru gerðar til þess að hindra, að þessar hækkanir, sem leiddi af gengisbreytingunni, færu allar út í verðlagið, og sumir hæstv. ráðh. hafa hælt sér af, ég vil ekki segja hæstv. fjmrh., — að það sé kosturinn við þá gengisfellingu, að engar hliðarráðstafanir hafi verið gerðar og þess vegna hafi hún verið miklu betri en aðrar gengisfellingar. Enda kom það á daginn í janúar, þegar gengi dollarans féll sem gull af himni ofan yfir hæstv. ríkisstj., þannig að hún gat lækkað gengið aftur. Bent var á, að það væri einkennilegt, að þessa gengisfellingu þyrfti, þegar hæstv. viðskrh. lýsti því yfir, sama dag og hún var framkvæmd, að gengislækkunin fyrir jólin hefði ekki verið framkvæmd, ef hann hefði vitað um þá verðhækkun. Af hverju mátti þá ekki fresta þessari gengisfellingu eða hafa hana minni? Þá var svar hans mjög eftirtektarvert, því að hann sagði, að öll sú gengislækkun, sem varð fyrir jólin, væri komin út í verðlagið og búið að éta hana upp á einum mánuði. Enda fór það svo, eins og menn vita, að milli jóla og nýárs varð að taka upp nýtt styrkjakerfi, þannig að allt er þetta með nokkrum ólíkindum. Mönnum finnst kannske, að þetta skipti ekki máli í sambandi við það frv., sem hér er til umr., en ég held þó, að það skipti miklu máli. Enda geri ég ekki ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. mótmæli því, því að framkvæmdaáætlunin er vissulega þáttur í efnahagskerfi þjóðarinnar og hún verður að vera í samræmi við það ástand, sem er í þjóðfélaginu hverju sinni. Það verður að taka mið af efnahagsþróuninni, framkvæmdamöguleikum, hvað framkvæmdir einstaklinga eru miklar, og jafnframt, hvað er líklegt að orki í jákvæða eða neikvæða átt í sambandi við efnahags- og verðlagsþróun í landinu. Allt þetta hlýtur því að vera sama dæmið. Inn í þetta dæmi blandast auðvitað ríkisbúskapurinn, sem er þáttur í þessu vandamáli og verður hér ekki aðgreindur. Það hafa gerzt margir kynlegir hlutir, sem sannast sagna er dálitið erfitt að átta sig á. Í fyrsta lagi gerðist það milli jóla og nýárs, sem ég veit að hefur ekki glatt huga hæstv. fjmrh., en hann varð þó að kyngja, jafnvel án þess að það væri borið undir hann, að útgjöld ríkissjóðs hækkuðu um verulega fjárhæð, vegna samninga þeirra, sem hæstv. sjútvrh. gerði við útgerðarmenn og sjómenn. Það er að vísu dálítið erfitt að meta, hver upphæðin verður á þessu ári, en líklegt þó, að á þessu ári verði hún á annað hundrað millj., og getur farið hátt í 200 millj., eða sennilega tvennar 90 millj. á ársgrundvelli. Ég þori ekki að fara með töluna, vegna þess að hún er mjög óljós, en það mun alla vega verða annars vegar tekjumissir og hins vegar bein útgjöld til uppbóta við tekjumissi stofnsjóðs fiskiskipa, sem nema mjög verulegum fjárhæðum. Þetta er fyrsta áfallið, sem hæstv. fjmrh. varð fyrir, eftir að hann fékk afgreidd fjárlög með 500—600 millj. kr. greiðsluhalla og heimild til þess að lækka útgjöld fjárl. um 15%. En sagan er ekki öll sögð. Síðan hafa gerzt enn frekari undur. Ég skal taka fram, að það eru ekki undur að því leyti til að ég tel það góðra gjalda vert, ef með eðlilegum hætti væri að þeim vinnubrögðum staðið. En það hlýtur að hljóma mjög kynduglega, þegar menn hafa í huga, að það var greiðsluhalli á fjárl. og átti að ná upp þeim greiðsluhalla með niðurskurði á útgjöldum ríkissjóðs. Það er eins og einhver stífla hafi gersamlega brostið núna síðustu dagana, þannig að nú er kappkostað, svo sem verða má, að bæta við nýjum ríkisútgjöldum, samtímis því sem trúnaðarmönnum ríkisstj., fjvn. og fleirum, og þar hafa tekið þátt í stjórnarandstæðingar jafnt sem aðrir, er falið það verkefni að skera niður útgjöld fjárl. Þetta grípur auðvitað mjög inn í það mál, sem hér er um að ræða, fjárveitingu til framkvæmdaáætlunar, og annað þess konar, vegna þess að það, sem má gera ráð fyrir, að helzt verði skorið niður, eru ýmsir fjárfestingarliðir fjárl. En ofan á þessar á annað hundrað millj., — ég hygg, að mjög hóflegt sé að segja 130 millj. eða eitthvað nálægt því, eftir því sem ég veit bezt, — sem samþ. voru af hæstv. fjmrh. milli jóla og nýárs, liggur hér fyrir frv. um að auka ríkisútgjöld á árinu 1973 um 126 millj. Þannig voru þessi frv. lögð fram af hæstv. ríkisstj. Einn hæstv. ráðh. taldi sig vera eitthvað utanveltu í þessu sambandi, hæstv. iðnrh., þannig að hann flytur hér brtt. um það, að enn einn sjóður, iðnrekstrarsjóður, fái á þessu ári 50 millj. kr. Það eru því um 180 millj. kr., sem eiga að falla á ríkissjóðinn sem aukin útgjöld með frv., sem hér liggja fyrir nú og er sagt að eigi öll að afgreiða. Ég tek það fram, að ég er ekki andvígur þessum frv. og mun sennilega greiða atkv. með flestum þeirra. Ef fjmrh. metur svo, að hann hafi efni á þessari lausn, þá verður hann að standa ábyrgur fyrir því. En ég get ekki komizt hjá því að vekja athygli á, hversu furðulegt það er, að hér eru komnar sennilega um .300 millj. kr., sem lagðar eru með nýjum álögum á ríkissjóð, samtímis því sem verið er að vinna að því að skera niður ríkisútgjöldin um 500 millj. Vandamálið skilst mér þá annað hvort vera 800 millj. eða gefa það upp á bátinn, að ríkissjóður geti verið hallalaus á þessu ári. Að vísu varð ríkissjóður fyrir happi á s.l. ári, sérstaklega vegna hinnar dæmalausu skattalöggjafar, sem fól í sér 1.000 millj. kr. hærri skattaálagningu á árinu en áætlað hafði verið í fjárl. Ríkisreikningur fyrir árið 1972 er hallalaus, að því er manni skilst, jafnvel um 60 millj. kr. afgangur, þó að engan furði það að vísu, að hæstv. fjmrh. geti haldið í 60 millj. kr. í afgang af ríkistekjum, sem sennilega nema milli 17 og 18 milljörðum á því ári. Alla vega hefur þetta þó lukkazt með þeim skattaálögum, sem þá voru á lagðar og áttu að vera til þess að lækka alla skatta, að því er manni skildist. Það virðist eins og hæstv. ráðh. hafi ekki fengið lánaðan kvarðann, sem hv. þm. Björn Pálsson notast oft við eða hann hefur ekki kunnað nógu vel á hann, þegar hann reiknaði út skattadæmið sitt í fyrra, þannig að honum áskotnaðist þetta í stað þess að vera að gera þau ósköp fyrir þjóðina, sem hann taldi sig vera að gera.

Herra forseti. Engar upplýsingar hafa fengizt um niðurskurð útgjalda ríkissjóðs, og þess vegna er allt þetta dæmi gersamlega botnlaust.

Ég sé enga ástæðu til þess að vera að fetta fingur út í einstakar till. í þessu frv. Eins og ég sagði áðan, er ekkert út á þau útgjöld að setja, þar er allt með svipuðum hætti og hefur verið undanfarin ár. Það var að vísu oft gagarýnt, að verið væri að taka inn í framkvæmdaáætlunina ýmsa liði, sem unnt væri að fjármagna með fjárveitingum á fjárl. Einhvern veginn hefur það nú samt orðið svo, eins og á mörgum öðrum sviðum, að hér hefur hæstv. ríkisstj. orðið að feta dyggilega í fótspor fyrrv. ríkisstj. og ganga þó enn lengra, eins og hún gerir á flestum eða öllum sviðum í þeim efnum. En manni skildist þá, að það ætti frekar að skipta um stefnu en að halda lengra og lengra eftir þeirri braut. En hún virðist nú vera orðin harla góð. Ég sé ekki ástæðu til að vera að gagnrýna það út af fyrir sig, en heildarmyndin er ekki til, af því að við vitum ekkert, hvaða fjárfestingarframkvæmdir eiga að fá fé eftir fjárlagaleiðinni á þessu ári. Það veit enginn í dag. Ég held, að það hafi verið spurt um það og ekki fengizt neinar upplýsingar um það atriði í n. Ég hygg, að reyndin sé sú, að það sé ekki búið að skera neitt niður. Til bráðabirgða hafa rn. fengið 15% minni fárveitingu mánaðarlega en verið hefur undanfarin ár. Þetta endar auðvitað með ósköpum síðar á árinu, ef ekki er gripið í taumana undir eins, og útkoman verður nákvæmlega eins og á s.l. ári. Þá var ekki um neinn umtalsverðan sparnað að ræða á móts við það, sem átti að vera. Auk þess vil ég benda á, að það er gert ráð fyrir því í frv. um viðlagasjóð, að ríkissjóður geti með sparnaði lagt þar af mörkum 160 millj. kr., annað hvort með því að spara á framkvæmdaáætlun eða spara enn frekar ríkisútgjöldin. Þannig að sparnaðardæmið er í rauninni ekki orðið 800 millj. kr., heldur nærri 1.000 millj. kr., og ég veit ekki, hvernig í ósköpunum hæstv. fjmrh. ætlar sér að ná þarna endum saman. Ég segi a.m.k. fyrir mitt leyti, að ég mundi ekki hafa treyst mér til þess. En það náttúrlega sannar lítið, því að hann er meiri afreksmaður en ég. Það getur því vel verið, að hann geti sparað þessar 1.000 millj. kr. En ég held, að hann ætti þá að fara að byrja á því, áður en búið verður að eyða öllu fénu í framkvæmdir og festa það, eins og við vitum báðir að gerist, þess vegna er ekki hægt að geyma það fram eftir öllu vori, að taka ákvarðanir varðandi þá liði, sem niður eiga að falla. En sem sagt, það eina, sem gerist nú, er það, að dag eftir dag er varpað inn í Alþ. frv., sem gera ráð fyrir nýjum og nýjum útgjöldum úr ríkissjóði á árinu 1973, án þess að nokkur tekjuöflun sé fyrir hendi. Kannske ætlar hæstv. ríkisstj. að bera fram till. um tekjuöflun, þegar Alþ. er farið heim, — ég veit það ekki, — eða á að leggja það frv. fram daginn fyrir páska? Ég skal ekkert segja um það, margt einkennilegt getur gerzt. En sennilegra þykir mér, að ekkert gerist og þetta verði látið danka.

Ég held, að miðað við það, sem ég þegar hef sagt, og ótal margt fleira, sem ég gæti sagt, en ég skal ekki vera að þreyta menn með lengra máli, ætti að liggja ljóst fyrir öllum, að það er eðlileg afstaða hjá stjórnarandstöðunni að vilja ekki bera ábyrgð á meðferð þessa máls. Ekki vegna frv. út af fyrir sig, heldur vegna þess, að það er engin heildarstefna til í efnahags— og fjármálum ríkisins, það sýna ljóslega öll þau dæmi, sem ég hef hér talið upp. Það er að vísu til nóg lesning um eitt og annað, en það er yfirleitt lesning, sem er ágæt út af fyrir sig og sannar enn betur þá skoðun okkar, að engin markviss stefna er til. Í öllum þeim skýrslum, sem lagðar hafa verið fram, aðvaranir og aftur aðvaranir, og í reyndinni hefur ríkisstj. þessar aðvaranir sinna ágætu sérfræðinga að engu. Ég veit ekki, hvað verður, þegar kemur að hinni væntanlegu stórmerku skýrslu um Framkvæmdastofnun ríkisins, hvort hjá þeirri voldugu stofnun verður að finna boðskap, sem ríkisstj. fer eftir. Það skal ég ekki um segja. Það kemur á daginn, þegar hæstv. forsrh. flytur þá skýrslu, hvort sem það verður nú eða í haust. En það er ekki hægt að spá í það nú, og það mætti segja mér, að skýrsla Seðlabankans yrði ekkert uppörvandi fyrir hæstv. ríkisstj. án þess að ég viti, hvað þar stendur. En mér þykir ekki líklegt, að hún verði til þess að breyta stefnu ríkisstj. heldur, að svo miklu leyti sem hægt er að tala um stefnu.

Varðandi fjárfestingarsjóðina vil ég aðeins segja það, að þar er um að ræða stórfellt vandamál, sem hefði þurft að taka miklu ákveðnari tökum og með meiri fyrirvara og íhugun en nú hefur verið gert. Það er varpað hér inn frv. um stofnlánasjóðina, sem eiga að undirbyggja eiginfjárstöðu þeirra. Það er auðvitað óhæfa að gera þetta án þess að ræða við þau samtök, sem hér eiga hlut að máli, nema þá á hlaupum, og leggja þetta fyrir þingið á síðustu dögum þess. Ég orðaði það svo hér um daginn, er fiskveiðasjóðsfrv. var til meðferðar, að skynsamlegra hefði verið að taka þetta vandamál, sem allir hv. þm., jafnt í stjórnarandstöðu sem stjórn, viðurkenndu að væri mikið vandamál, og gefa sér tíma til að íhuga það. Hæstv. sjútvrh. lét sér sæma að svara því með skætingi, það væri ekkert nýtt, að mál væru lögð fram með þessum hætti og þm. ætlaður stuttur tími til að afgreiða þau, það hefði fyrrv. stjórn gert. Það kann vel að vera, að fyrrv. stjórn hafi lagt fram frv. seint á þingi og hægt sé að vitna til þess, að frv. hafi verið afgreidd með skjótum hætti. En ég var hér að tala um veigamikið efnahagsvandamál í þjóðfélaginu, sem við erum vafalaust öll sammála um. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að svara með skætingi tilboði um að íhuga málið í félagi, vegna þess að þetta er allt of stórt mál og yfirgripsmikið og hefur grundvallarþýðingu fyrir efnahagskerfið, til þess að menn séu að kasta til þess höndunum og henda inn í þingið án þess einu sinni að ræða við þá menn og þau samtök, sem það varðar mest. Þetta tel ég vítavert. Ég er hins vegar sammála um það, að þessi mál eru öll með þeim hætti, að það er eðlilegt, að stjórnin gefi þeim einhvern gaum, en hún hefði átt að gefa gaum með raunhæfari hætti. Miðað við allt þetta skipulagskerfi og hina ágætu Framkvæmdastofnun ríkisins hefði mátt ætla, að þetta hefði allt borið að með eðlilegu móti og menn verið við því búnir að gera þm. nægilega ljósa grein fyrir eðli mála og stærð, sem alls ekki hefur verið gert, nema á blaði án nokkurra skýringa. Þá vekur það í rauninni undrun, að svona vinnubrögð í hinum vandasömustu málum, sem allir viðurkenna að eru vandamál, skuli viðgangast. Ég álít, að hér sé unnið með fullu ábyrgðarleysi. Nú það er svo mál út af fyrir sig, að þrátt fyrir það að menn væru með fjármögnun sjóðanna í deiglunni allan þennan tíma, hefur ekki einu sinni unnizt tími til þess að ræða við bankakerfið, áður en málið var lagt fyrir Alþ., um að leggja fram 10% af sparifjáraukningunni til sjóðanna. Annað hvort hefur það ekki þótt ómaksins vert og verið talið, að það væri hægt að gefa fyrirskipanir, eða einhver hefur gleymt, hver ætti að vinna að málinu, því að það eru orðin svo mörg höfuð á þessu öllu saman, þrátt fyrir alla sameininguna, að menn vita varla, hver á að gera þetta og hver hitt. Þetta eru kannske minni háttar atriði, bankarnir munu ábyggilega ekki bregða fæti fyrir þetta, en ég hefi ekki fengið neina staðfestingu á því, að lífeyrissjóðirnir hefðu fallizt á að láta í framkvæmdaáætlunina þá stóru upphæð, sem gert er ráð fyrir, að þeir leggi þar af mörkum. Ég held, að það sé rétt, að það fé sé ekki enn fengið. Þetta er hvorki meira né minna en 280 millj. kr., og ég er ekki alveg viss um, að þeir taki eins mildilega á mistökum hæstv. ríkisstj. og Framkvæmdastofnunarinnar og bankarnir. Þeir hafa ekki hingað til verið svo mildir viðureignar, að þeir uni því að láta birta í þskj., að þeir hafi lofað að láta fram ákveðið fé, án þess að við þá hafi verið talað eða við þá talað, en engin niðurstaða fengizt.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. meir. Ég veit, að það er orðinn naumur tími. Það eru vissulega mörg einstök atriði, sem hefði verið fróðlegt að gera að umtalsefni. Ég hef nú rætt þetta mál hér út frá almennum upplýsingum og staðreyndum, sem fyrir liggja frá sérfræðingum ríkisstj., í skýrslum, sem birtar hafa verið og skýrslum, sem mér er kunnugt um, þó að þær hafi ekki verið birtar. Ég hef rætt þetta mál án þess að blanda inn í þær neinum pólitískum ásökunum öðrum en þeim, sem má kannske segja að sé nokkuð þung ásökun, að ríkisstj. hafi brostið þol eða geta til þess að taka á efnahagsvandanum og hafa þau tök á efnahagskerfinu, sem hún boðaði í upphafi, að hún vildi hafa, m.a. með því, að halda í hemilinn á verðbólguþróuninni, þannig að hún yxi ekki meir en væri í öðrum löndum. Nú liggur ljóst fyrir, að hún hefur vaxið tvöfalt meira en er í öðrum OECD-löndum, það liggja fyrir upplýsingar um það efni. Jafnframt hefur ekki tekizt að halda í við verðbólguþróunina, þrátt fyrir boðskapinn um það, að með svokallaðri röðun framkvæmda og með því að koma á laggirnar stofnun, sem spannaði yfir efnahagskerfið og gæti þar af leiðandi komið við þessari röðun, væri hægt að halda í hemilinn á dýrtíðarþróuninni og efnahagsspennunni. Hvorugt þetta hefur tekizt, ég segi því miður, og við stöndum andspænis þeirri alvarlegu staðreynd, að efnahagsþróunin í heild er á mjög hættulegu stigi. Það eru ekki mín orð eingöngu, heldur allra þeirra efnahagssérfræðinga, sem látið hafa í ljós álit sitt í þeim efnum. Hér þarf rækilega að spyrna við fótum. Ríkisstj. fékk rækilegar aðvaranir á s.l. hausti frá sérfræðingum sínum, frá hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar, og þó er allt látið reka á reiðanum. Fjárl. eru enn með stórfelldum halla, og sá halli vex stöðugt, miðað við þær nýju útgjaldatill., sem ég gat hér um áðan.

Það er sannarlega ekki auðvelt verk, sem bíður hæstv. fjmrh., ef hann ætlar að geta komið því fyrir að skera niður útgjöld fjárl. um þús. millj. kr. til þess að ná hér saman endum. Ég vildi vona, að honum tækist það. En ég get ekki með nokkru móti séð, að það sé auðið. Við stefnum því út í stórfelldan hallarekstur hjá ríkissjóði, nema því aðeins að ríkisstj. geri ráðstafanir til að afla ríkissjóði nýrra tekna. Þensluþróunin virðist því vera í algleymingi.

Með hliðsjón af öllum þessum aðstæðum, sem ekki hefur verið mætt á þann hátt, sem eðlilegast má teljast, munum við sjálfstæðismenn hér í hv. d. ekki taka ábyrgð á afgreiðslu þessa máls og því sitja hjá við atkvgr. um frv.