12.04.1973
Sameinað þing: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3451 í B-deild Alþingistíðinda. (2990)

Almennar stjórnmálaumræður

Bjarni Guðnason:

Herra forseti, Góðir hlustendur. Að þessu sinni mun ég gera að umtalsefni orð og athafnir stjórnmálamanna og vanda og verkefni vinstri hreyfingar í landinu.

Þegar hin heimatilbúna gengisfelling um 10,7% var kunngjörð í des. s.l., létu stjórnmálaforingjar í ljós álit sitt á henni. Forsvarsmenn núv. ríkisstj. voru þeirrar skoðunar, að gengisfellingin væri góð, en gengisfellingar viðreisnarstjórnarinnar hefðu verið vondar. Aftur á móti töldu málsvarar stjórnarandstöðunnar, að þessi gengisfelling í des. væri vond, en gengisfellingarnar á tímum viðreisnar hefðu verið góðar.

Þessi viðtöl í sjónvarpinu mega heita spegilmynd af íslenzkum stjórnmálaumr., þar sem hlutirnir eru annaðhvort málaðir svörtum eða hvitum litum. Millilitir eru vart til. Málflutningur af þessu tagi hentar án efa þeim mönnum, sem trúa á ákveðna stjórnmálaflokka, en hlýtur að vera fráhrindandi fyrir hugsandi og leitandi menn, sem vilja eftir megni reyna að mynda sér sjálfstæðar skoðanir eftir málefnum hverju sinni.

En samfara þessu láta stjórnmálamenn sig oft og tíðum litlu varða stefnuskrá, markmið og kosningaloforð. Því skal sízt neita, að þegar menn vinna saman, verða þeir oft að hnika til skoðunum sínum til samkomulags. En það eru til, hljóta að vera til og eiga að vera til viss háleit baráttumál, sem ekki er leyfilegt að verzla með. Ef ekkert mál er lengur heilagt stjórnmálaflokki, á hann ekki lengur neinn tilverurétt. Og þetta á líka við stjórnmálamanninn sem einstakling. Þá er ekki lengur um að ræða þjóðmálabaráttu til farsældar fyrir land og lýð, heldur persónulega hagsmunabaráttu til að reyna að tryggja sér aðstöðu og forréttindi. Og því miður er helzti veikleiki vinstri hreyfingarinnar, að um þessar mundir eru meðal hennar liðsoddar, sem skeyta lítið um fyrirheitin. Þeir heita á vinstri menn að sameinast, en kljúfa hvern flokkinn á fætur öðrum. Þeir heita að grípa ekki til gengisfellinga, en krefjast síðan gengisfellingar. Þeir heita að rjúfa hið staðnaða flokkakerfi, en kappkosta nú að koma því í fyrri skorður. Þeir heita að útrýma flokksræði, en beita því á svo skefjalausan hátt, að þeir hafa kallað yfir sig lögbann. Þeir heita á þjóðina að standa saman í fiskveiðideilunni, þar sem útfærsla lögsögunnar sé mál Íslendinga einna, en rjúfa síðan einingu þjóðarinnar í málinu.

Vandi vinstri hreyfingarinnar er vissulega mikill og ekki nema von, að sitthvað fari úrskeiðis. Það hlýtur að vera skýlaus krafa, að íslenzkir stjórnmálamenn reyni að tala um hlutina eins og þeir eru í reynd og standi við þau fögru fyrirheit, sem þeir gáfu, þegar þeir voru að biðla til kjósenda um stuðning til setu á Alþ.

Af þessu er Ijóst, hvers vegna ég tala ekki um núv. ríkisstj. sem algóða eða alvonda, eins og öðrum þm. er nokkuð tamt, en leitast við í þess stað að Ijá liðsinni því, sem vel er gert, en gagnrýna það, sem miður fer. Í umr. hér á Alþ. fyrir röskum mánuði um vantraust á ríkisstj. gerði ég grein fyrir afstöðu minni til hennar. Sú afstaða hefur ekki breytzt. Þar lét ég m.a. svo um mælt, að með hinum háu fjárl. og gengisfellingunni í des. s.l. hefði ríkisstj. sjálf stuðlað að nokkru leyti að þeirri háskalegu verðlagsþróun, sem nú á sér stað í landinu. Að sönnu er vandkvæðum bundið að hafa hemil á verðbólgunni, en skylt er að reyna það eftir mætti. Koma þá upp í hugann tvö atriði: að fara ekki of geyst í framkvæmdir og beita sparnaði og aðhaldi í ríkisbúskapnum.

Niðurstöðutölur núgildandi í fjárl. eru 22 milljarðar kr. Menn voru á því, að hér væri stefnt í ógöngur, og var því ríkisstj. veitt heimild til að lækka fjárl. um 15% til að draga úr þenslunni. En nú brá svo við, að Alþ. samþ. framkvæmda- og fjáröflunaráætlun fyrir árið 1973, og þar er gert ráð fyrir framkvæmdum, er kosta um 13–14 hundruð millj. kr. Við afgreiðslu málsins sat ég hjá og gerði eftirfarandi grein fyrir atkvæði mínu: „Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti þessum framkvæmdum, sem hét eru ráðgerðar, síður en svo. Samt virðist mér framkvæmdaáætlun þessi vera í mótsögu við þá stefnu að lækka útgjöld fjárl. um 15%, enda liggur ekki fyrir neitt heildaryfirlit yfir stöðu fjárfestingarsjóða, hvorki fyrir útlánafyrirætlunum þeirra né fjáröflun. Mikil atvinna er í landinu og jafnvel skortur á vinnuafli. Því væri ástæða til að koma á nokkru jafnvægi á vinnumarkaðinum með því að efna ekki til verulegra framkvæmda, eins og sakir standa, og þannig óbeint hamla á móti vaxandi verðbólgu og þenslu í þjóðfélaginu“.

Mikill vinnuaflsskortur hefur verið í landinu, einkum við sjávarsíðuna. Hætt er við, að þessar miklu í fjárfestingarframkvæmdir laði til sín vinnuafl úr framleiðslugreinum, og hvernig förum við að því að manna fiskiskip okkar, ef sjómenn streyma í land? Hér þarf bersýnilega að gera tvennt: að búa svo vel að sjómönnum, að þeir uni við störf sín, og stofna ekki til of mikilla framkvæmda, þegar hörgull er á vinnuafli.

Fleiri þjóðir en við eiga við sjúkdómseinkenni verðbólgunnar að stríða, svo sem Danir. Hvernig fara þeir að? Nýlega samþykkti danska þingið að skera niður ríkisútgjöld á næstu tveim árum og fresta um skeið gildistöku kostnaðarsamra laga og spara þannig rúmar 4000 millj. danskra kr. Þessi sparnaður kemur niður á framkvæmdum og félagsmálum engu síður en öðrum málaflokkum. Og ég vil minna á, að að þessum niðurskurði stóðu jafnaðarmenn og sósíliski þjóðarflokkurinn, þ.e. vinstri menn. Þetta hljóta að vera ákaflega óvinsælar ráðstafanir, en þær sýna, að Danir vilja leggja flest í sölurnar til að vernda verðgildi dönsku krónunnar og forðast gengisfellingu.

Það er sannarlega kominn tími til fyrir Íslendinga að læra af reynslu annarra þjóða og af eigin reynslu í þessum efnum. Sparnaður, ráðdeildarsemi, aðhald, áætlunarbúskapur á að koma í staðinn fyrir árvissar gengisfellingar. Það þarf að breyta um stefnu í efnahagsmálum. Úr því að hér er minnzt á sparnað, kemur í hugann hin mikla yfirbygging í ríkisbákninu. Nýlega var gerð úttekt hjá Tryggingastofnun ríkisins, þar sem leitt var í ljós, að miklu var áfátt í daglegum rekstri stofnunarinnar og þjónustu við almenning. Úttektir af þessu tagi ætti að gera við öll ríkisfyrirtæki, stofnanir og rn. alltaf öðru hverju og fylgja þeim eftir. Einnig þarf að gera ýmsa aðra þarfa hluti, taka fyrir, að ráðh. láti að heita má gefa sér lúxusbíla, taka fyrir, að forstöðumenn ríkisstofnana geti fengið stórlán til 10 ára á 5% vöxtum til þess að kaupa sér einkabíla, taka fyrir, að fastir starfsmenn ríkisins taki 100 þús. kr. á ári fyrir setu í nefndum og ráðum, sem þeir vinna að mestu eða öllu leyti í vinnutímanum.

Allir stjórnmálaflokkarnir tala um að draga úr og lagfæra þessa miklu yfirbyggingu, sem er að sliga þjóðfélagið. Af hverju er ekkert gert? Af því að allir flokkar eiga þátt í þessu. Hér kemur til hin rómaða samábyrgð, en henni fylgir getuleysi og viljaleysi til úrbóta. Bankakerfið er skýrt dæmi um samábyrgðina. Flokkarnir hafa skipt bankakerfinu á milli sín og eiga sína bankastjóra. Núv. bankamrh. Lúðvík Jósepsson hefur lýst því tvisvar yfir á Alþ., að lagt yrði fram á yfirstandandi þingi frv. um endurskoðun bankakerfisins. En auðvitað hefur ekkert orðið úr því. Bankakerfið er undirstaðan að tryggingakerfi flokkanna, og við því vilja þeir að sjálfsögðu ekki hrófla, svo að nokkru nemi.

Heildarskoðun skattal. fer nú fram, og er sýnt, að verulegra úrbóta er þörf. Má nefna m.a. þessi atriði:

1) Dagvinnutekjur verkamanna verði ekki skattlagðar.

2) Persónufrádráttur verði hækkaður og sé miðaður við raunverulegan framfærslukostnað.

3) Skattþrepin séu breikkuð, þannig að fólk með miðlungstekjur og jafnvel þurftartekjur lendi ekki í hæsta skattstiga.

4) Stefnt sé að því að skattleggja eyðsluna, draga úr beinum sköttum, en afla fremur tekna með óheinum sköttum.

5) Tryggja verður miklu betur en nú er gert réttláta byrði, þannig að menn geti ekki smeygt sér undan því að greiða eðlileg gjöld til hins opinbera miðað við tekjur. Frádráttarliðir frá tekjuskatti, svo sem risna og einkabílar hjá fyrirtækjum, verði óheimilir.

6) Taka þarf upp staðgreiðslukerfi skatta. Það má ekki spenna bogann svo hátt með framkvæmdum, hversu æskilegar sem þær kunna að vera, að launafólki verði skattabyrðin áþján.

Nú er verið að koma upp landshlutasamtökum, sem miðast við kjördæmi landsins og eiga að vera stjórnunareiningar. Ég fagna þessu mjög. Ég tel brýnt úrlausnarefni í íslenzkum stjórnmálum að veita fólki á landsbyggðinni meiri aðild að ákvörðun eigin mála, meira sjálfsforræði svo sem í fræðslumálum, atvinnumálum, heilbrigðismálum og fjármálum. Valdið til fólksins, dreifing valdsins. En samtímis má ekki binda fólkið í þéttbýlinu við mölina. Það verður að hafa aðgang að náttúru landsins og gæðum þess. Það er af hinu illa að ala á úlfúð milli dreifbýlis og þéttbýlis, því að ef grannt er skoðað, fara hagsmunir þeirra saman, og þannig ber að standa að þessum málum.

Vinstri hreyfingin í landinu virðist ekki hafa neitt bolmagn til þess að gera neinar verulegar breytingar á efnahagskerfinu, svo sem að setja vátryggingar og olíudreifingu undir félagslega stjórn né heldur að knýja fram hagkvæmari dreifingu og rekstur fiskvinnslustöðva. Ein megin ástæðan er sú, að verkalýðshreyfingin er ekki lengur róttækt umbótaafl, heldur kyrrstöðuafl. Kosningar til stjórna verkalýðsfélaga og ASÍ verða æ fátíðari, og er sjálf stjórn ASÍ spegilmynd af ástandinu.

Tryggingakerfi flokkanna tröllríður nú verkalýðshreyfingunni, og þar má engu hagga, líkt og í bankakerfinu. Meðan svo er, standa málin þannig í íslenzkum stjórnmálum, að erfitt er að tala um hægri og vinstri stefnu. Það má segja með nokkrum ýkjum, að við stjórnarskipti sé fremur skipt um menn en að um stefnubreytingu sé að ræða. Staðreyndin er sú, að núv. stjórnmálaflokkar, sem samkvæmt eðli og uppruna voru stofnaðir til að vera hreyfiafl framfara og umbóta, hafa ánetjast um of af sjálfu valdakerfinu, tryggingakerfi kyrrstöðunnar, að þeir eru naumast þeim vanda vaxnir að standa að meiriháttar þjóðfélagsbreytingum, þótt þeir fegnir vildu.

Hið íslenzka flokkakerfi er því ekki í samræmi við kröfur tímans. Það ríður á að stokka það upp, þannig að einlægt félagshyggjufólk úr öllum flokkum nái að standa saman í einni fylkingu til að vinna að baráttumálum sinum.

Hér á eftir vil ég telja upp 10 verkefni félagshyggjumanna:

1) Að breyta efnahagskerfinu þannig, að komizt verði hjá árvissum gengisfellingum.

2) Að draga úr miðstjórnarvaldi og auka sjálfstjórn landsbyggðarinnar.

3) Að taka til rækilegrar athugunar yfirbyggingu ríkisbáknsins í því skyni að koma á meiri sparnaði og hagkvæmni í rekstri.

4) Að stuðla að því, að verkalýðshreyfingin verði virkur þátttakandi í þjóðfélagsbaráttunni.

5) Að rjúfa staðnað flokkakerfi, til þess að unnt verði að leysa verkefnin, sem við blasa, á félagslegan hátt.

6) Létta skattabyrði á lágtekju- og miðlungstekjufólki.

7) Að endurskoða bankakerfið.

8) Að semja neytendalöggjöf, er næði ekki aðeins yfir vörur og þjónustu, heldur og húsnæði.

9)Að stuðla að því, að varnarliðið hverf úr landi.

10) Að tryggja jafnrétti þegnanna á öllum sviðum.

Að þessum baráttumálum munum við í Samtökum frjálslyndra í Reykjavík vinna ótrauðir og mundum fagna því, að menn hvaðanæva af landinu gengju til samstarfs við okkur.

Að lokum þetta: Allir hljóta að vona, að jarðeldunum í Heimaey taki nú að linna. Og lofsverður er dugnaður og bjartsýni þeirra manna, er berjast fyrir því öllum stundum, að Vestmannaeyjar verði áfram einn helzti útgerðar og athafnabær landsins.

Megum við vissulega taka þessa menn til fyrirmyndar og vera bjartsýnir um framtíðina, a.m.k. á meðan íslenzkar sjávarafurðir stíga stöðugt í verði á erlendum mörkuðum og útflutningsverðmætin aukast ár frá ári. Vissulega eigum við Íslendingar í nokkrum vanda, þar sem við heyjum nú stranga baráttu við Breta og Vestur-Þjóðverja um viðurkenningu 50 mílna fiskveiðilögsögu. Í þessu efni þurfum við að taka á öllu okkar, ef vel á að farnast.

Stjórnarandstaðan hefur haldið því fram, að sú stefna, sem mörkuð var í landhelgismálinu á Alþ. 15. febr. 1972 og ríkisstj. hefur fylgt, hafi ekki lengur þingmeirihl. að baki. Ég skora hér með á stjórnarandstöðuna að ganga úr skugga um það hér á Alþ. með flutningi till. um það efni. Að mínu viti ber ríkisstj. að slíta ekki þingi, fyrr en úrslit liggja fyrir í þessu máli. Ef svo reynist, að þingmeirihl. gangi í berhögg við hina einróma mótuðu stefnu, ber að rjúfa þing og láta þjóðina skera úr þessu með nýjum þingkosningum. Allur tvískinnungur og undansláttur slævir baráttuþrek þjóðarinnar í þessu lífshagsmunamáli hennar. En einungis órofa samstaða um markaða stefnu getur tryggt henni fullan sigur.

Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.