12.04.1973
Sameinað þing: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3470 í B-deild Alþingistíðinda. (2995)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Hlustendur góðir. Nú liður að lokum annars þinghalds hér á Alþ. á ferli núv. ríkisstj., og brátt er kjörtímabilið hálfnað. Ástæða er því til að skyggjast um af miðmundahæð, ef svo mætti að orði komast, líta jöfnum höndum yfir farinn veg og leitast við að gera sér grein fyrir, hvað næst er fram undan. Til að átta sig á, hversu reitt hefur af til þessa og hvers helzt er að vænta, er síður en svo einhlítt að rifja upp lagasetningu í tilteknum málum og einstakar stjórnarathafnir. Allt orkar tvímælis, þá gert er, hljóðar orðskviður, sem oft hefur heyrzt í þessum sölum, hins vegar er dómur reynslunnar sá úrskurður, sem ekki verður áfrýjað.

Allar hagtölur bera því vott, að afkoma er nú betri í landinu, þegar á heildina er litið, en dæmi eru til. Reyndar þarf ekki hagskýrslur til að sanna þetta, hver maður veit, að atvinnuvegir eru reknir af svo miklu kappi, að tilfinnanlegur skortur er á vinnuafli. Útflutningsverðlag er hagstæðara en lengi hefur þekkzt, og fjölbreytni útflutnings vex hröðum skrefum. Þrátt fyrir mikla einkaneyzlu og stórfelldar framkvæmdir, bæði á vegum einkaaðila og hins opinbera, hefur tekizt að halda svo á málum, að gjaldeyrisforði við síðustu áramót var ríflegri en nokkru sinni fyrr. Um það má að sjálfsögðu deila endalaust og er líka óspart gert, að hve miklu leyti megi þakka það, sem gengið hefur landsmönnum og ríkisbúskap í haginn, athöfnum stjórnarinnar, sem með völd fer, og hversu drjúgur sé í því efni hlutur atvika og aðstæðna, sem borið hefur að höndum og íslenzkir valdhafar hafa alls ekki eða þá að takmörkuðu leyti tök á. Um hitt getur engum blandazt hugur, að ekkert tilefni er til annars eins svartagallsrauss og hér hefur mátt heyra af völdum hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar og Péturs Péturssonar. Samkv. þeirra málflutningi er allt í stakasta óefni á Íslandi. Ég vona, að hlustendur lái mér ekki, þó að ég veigri mér við að svara í sama tón málflutningi þessara talsmanna stjórnarandstöðunnar. Kjósendur hljóta að ætlast til annars af alþm. en að þeir leggi mesta áherzlu á að þylja talnarunur svo ótt og títt, að ekkert eyra fær numið að gagni, engu líkara en galdranorn væri að tauta töfraþulu fyrir munni sér.

Matið, sem lagt er á líðandi stund, er gjarnan æði vilhallt, og ég leiði hjá mér að fara út í þá sálma. Ástæða er þó til að benda á nokkur atriði, sem eru svo augljós, að ekki ætti að þurfa um að deila. Þá er það fyrst til að taka, að líta má langt aftur til að koma auga á annað tveggja ára tímabil, þegar vinnufriður hefur haldizt jafngóður og undanfarin tvö ár. Sér í lagi er andstæðan áberandi, þegar litið er til áratugsins eftir 1960. Ekki ætti að vera þörf á að útlista, hverja þýðingu það hefur fyrir afkomu þjóðarbús og kjör almennings, þegar framleiðslustarfsemin gengur með eðlilegum hætti án teljandi skrykkja og stöðvana. Togaradeilan í vetur er hrein undantekning, og á hún í rauninni rót sína að rekja til þess, að á liðnum árum var endurnýjun togaraflotans vanrækt, unz í óefni var komið, svo að togaraútgerðin telur sér um megn að sjá starfsmönnum sínum fyrir sambærilegum kjörum við aðra starfshópa, sem hliðstæð störf vinna á fiskiflotanum. Góður vinnufriður á tvímælalaust rót sín að rekja til kjarasamninganna, sem gerðir voru síðla árs 1971 og núv. ríkisstj. veitti sinn atbeina til að tækjust. Síðastur manna skal ég neita því, að við þá samningsgerð og við lagasetningu um kjaramál, sem henni fylgdi, var teflt á tæpt vað og eftirköst hafa ekki einvörðungu reynzt hagstæð. En ekki verður lengur vefengt með neinum rökum, að hlutur ríkisvaldsins að þeim málalokum stuðlaði að því, að alla tíð síðan hafa framleiðsluöfl þjóðarinnar verið nýtt með bezta móti og skilað afrakstri í samræmi við það.

Ríkjandi velmegun er þeim mun ánægjulegri sem lífskjör fólks hafa verið jöfnuð verulega. Misskiptingu lífsgæða hefur verið hnekkt með tvennu móti. Annars vegar hafa bætur almannatrygginga til þeirra, sem mesta hafa þörf fyrir lífeyrí af sameiginlegum sjóði landsmanna, verið stórauknar og séð um, að þær fylgist með verðlagi nauðsynja. Hins vegar hafa nefskattar, sem voru þung byrði á hinum tekjulausu eða tekjulágu, verið afnumdir, en skattgjöld aftur á móti þyngd á þeim, sem búa við rúmar tekjur. Fjarri sé mér að halda því fram, að í þessu efni hafi réttlætinu verið fullnægt, en því verður ekki á móti mælt, að verulega hefur miðað í jafnaðarátt, og um það hefur ríkisstj. haft forustu og frumkvæði.

Markaðshagkerfið, sem við Íslendingar búum við, er undirorpið hagsveiflum, þensla og samdráttur eiga sér stað á víxl. Við slíkar aðstæður er stjórnlist þjóðmála í því fólgin að beita stjórntækjum, sem til umráða eru, til að jafna sveiflurnar eins og tök eru á. Ekki þarf orðum að því að eyða, að nú ríkir þensla í íslenzku hagkerfi, og er reyndar sömu sögu að segja um allan heimsmarkaðinn umhverfis okkur. Vissulega er það hlutverk sérhverrar ríkisstj. að gera ráðstafanir til að afstýra háskalegri ofþenslu, þegar aðstæður krefjast. En mikill misskilningur er, að það verði gert á einfaldan og sársaukalausan hátt með því að skera niður ríkisútgjöld og draga um leið úr fjáröflun til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins. Fjármunir, sem fara til einkaneyzlu eða einkafjárfestingar, hafa sízt minni þensluáhrif en sé þeim varið til sameiginlegra þarfa. Þar á ofan væri safnað vandamálum fyrir framtíðina, ef verkefni hins opinbera væru vanrækt að marki, samtímis því sem einstaklingar og fyrirtæki kepptust við að fullnægja sínum þörfum. Hömlur við ofþenslu hljóta eðli málsins samkv. að koma við einkaaðila ekki síður en ríki og sveitarfélög. Engum er greiði gerðum með því að reyna að telja fólki trú um, að vandamál ofþenslu verði leyst sársaukalaust, án þess að lausnin komi tilfinnanlega við nokkurn aðila nema hið ópersónulega ríki.

Hvað okkur Íslendinga varðar bætast sveiflur af völdum náttúruafla við hagsveiflurnar frá umheiminum. Hversu mjög sem við kostum okkur til að auka fjölbreytni atvinnuveganna, verðum við seint óháðir gæftum og fiskigengd. Undanfarinn vetur höfum við staðið í harði baráttu til að fá viðurkenndan forgangsrétt okkar til lífsbjargarinnar úr sjónum við strendur landsins. Góðu heilli hefur okkur tekizt að verja rétt okkar eftir föngum, án þess að til voveiflegra tíðinda drægi. Aldrei verður landhelgisgæzlunni og þá fyrst og fremst áhöfnum varðskipanna fullþakkað, hversu vel hún hefur gengið fram við hinar erfiðustu aðstæður. Varðskipsmenn hafa á liðnum vetri ritað glæsilegan kafla í sögu íslenzkrar sjómennsku. Við höfum haldið á okkar málstað af festu, og ég fyrir mitt leyti tel tvímælalaust, að andstæðingar okkar séu nú tilleiðanlegri til að líta á málin af skynsemi en þeir voru á haustnóttum, þótt enn beri mikið á milli.

Við Íslendingar eigum að staðaldri í höggi við höfuðskepnurnar, vind og sæ, en þar á ofan megum við búast við búsifjum af völdum eldsins í iðrum jarðar. Á liðnum vetri dundu ósköp, sem enga hliðstæðu eiga sér í allri eldfjallasögu Íslands, yfir eitt blómlegasta byggðarlag landsins. Jarðeldurinn, sem hrakti Vestmanneyinga frá heimkynnum sínum að næturþeli, var mest áfalI fyrir þúsundirnar, sem flosnuðu upp frá heimilum sínum í einni svipan, en þar að auki voru náttúruhamfarirnar og eru enn mikil þolraun fyrir íslenzkt þjóðfélag. Svo er fyrir að þakka, að við höfum hingað til borið gæfu og haft manndóm til að standast þá þætti prófsins, sem mest ríður á. Brottflutningurinn frá Vestmannaeyjum var afreksverk og óhjákvæmilegur þá stund, sem enginn vissi, nema gereyðing Heimaeyjar væri á næsta leiti. Frammistaða þeirra einstaklinga og stofnana, sem á einni dagstund útveguðu fertugasta hluta þjóðarinnar athvarf til bráðabirgða a.m.k. ber því órækan vott, að þegar á reynir, hefur þorri landsmanna engu síður hjartarúm en húsrúm. Og ég er ekki í vafa um, að þegar frá líður þykir mikið koma til hetjusögunnar, sem gerzt hefur í Heimaey síðustu mánuði og er enn að gerast. Þar hafa menn í fyrsta skipti í sögunni snúizt til baráttu gegn mögnuðum jarðeldi og auðnazt, þrátt fyrir reynsluleysi og ófullkominn tækjabúnað lengi vel, að vinna hvern varnarsigurinn af öðrum, hemja ófreskju, sem enginn vissi fyrr, að mannlegur máttur mætti buga. Að vísu sér ekki enn fyrir enda eldsumbrotanna, en fari sem nú horfir, virðast allar líkur á, að meginhluta Vestmannaeyjakaupstaðar og höfninni, sem tilvera hans veltur á, sé borgið. Enginn skyldi fagna unnum sigri í ótíma, en engin ástæða er heldur að dyljast þess, að upp á síðkastið hafa horfur vænkazt dag frá degi.

Víst er það þungt áfall fyrir íslenzka þjóðarbúið, að Vestmannaeyjar hverfa um stund úr athafnakerfi landsmanna. Og þrátt fyrir skjóta aðstoð víðs vegar að, þar sem þó tekur yfir drengskapur bræðraþjóðanna á Norðurlöndum, munu eftirköstin segja lengi til sín í þjóðarbúskapnum, auka hvern þann vanda, sem fyrir var, en slíkt er stundarfyrirbæri. Hitt er aftur á móti ávinningur, sem aldrei verður frá þjóðinni tekinn, að mannbjörg og skyndihjálp fóru frábærlega úr hendi, og ég tala nú ekki um, ef þær vonir rætast, að íslenzkt hugvit og harðfengi íslenzkra manna auðnist það, sem aldrei hefur áður verið reynt á nokkru byggðu bóli, að hemja rennandi hraun og setja hervirkjum geisandi jarðelds skorður.

En þannig hefur ætíð verið. Tilvera íslenzkrar þjóðar veltur á því, að við göngum að því sem hverju öðru verkefni, sem í augum annarra og fjölmennari þjóða væri talið gersamlega um megn svo fámennu samfélagi. Það er t.a.m. lyginni líkast, hversu íslenzkum fyrirtækjum hefur tekizt að ryðja sér til rúms á flugleiðum á Atlantshafi norðanverðu í grimmustu samkeppni, sem þekkist í samgöngum nútímans. Hér skal ekki rakið, hvaða atvik lágu til þess, að tvö íslenzk félög tóku upp flug milli landa, en um skeið hefur verið Ijóst, að framtíðarhagur íslenzkra flugmála krefst þess, að kraftarnir séu sameinaðir. Vegna þess, sem á undan var gengið, voru margir næsta vantrúaðir á, að tök væru á að koma til leiðar nauðsynlegu samstarfi eða samruna flugfélaganna, en í gær voru kunngerð þau fagnaðartíðindi, að stefnuákvörðun um sameiningu hefði verið tekin og tímamörk sett. Ég er viss um, að sérhver Íslendingur kominn til vits og ára er þakklátur þeim mönnum, sem fjallað hafa um sameiningu flugfélaganna, bæði forustumönnum þeirra beggja og n., sem hafði milligöngu í löngum og ströngum samningaumleitunum.

En menn skyldu ekki láta sér sjást yfir, að til grundvallar þessari niðurstöðu liggur stjórnarákvörðun, sem fól samgrh. og fjmrh. að hrinda sameiningarviðræðum af stað. Löggjafarstarfið hér á Alþ. er ekki nema einn þáttur stjórnmálastarfsins, ákvarðanir teknar í ríkisstj. og rn. geta ekki síður verið afdrifaríkar en lagasetning.

Jafnrétti og aukinn jöfnuður meðal allra þegna þjóðfélagsins er grunntónninn í stefnumörkun núv. ríkisstj. Árangurinn af störfum hennar veltur á því, hvernig henni auðnast að starfa eftir þessu kjörorði, hvort sem í hlut eiga einstaklingar eða fyrirtæki, starfsstéttir eða hagsmunahópar. Landsmenn þurfa að geta treyst því, að þeir séu ekki aðeins jafnir fyrir lögunum, heldur engu síður gagnvart stjórnvöldum.

Þökk þeim, sem hlýddu. — Góða nótt.