13.04.1973
Efri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3494 í B-deild Alþingistíðinda. (3027)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað frv. þetta, en varð ekki á eitt sátt um afgreiðslu málsins, þannig að það koma fram, eins og hv. þm. hafa séð, 3 nál. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu við 6. gr. frv., að þar verði fellt niður eitt ákvæði, sem hljóðar þannig:

„Eigi er heimilt að lána til framkvæmda, þó að á lögbýlum sé, ef þau eða framkvæmdirnar eru ekki notaðar til landbúnaðarframleiðslu.“

Sumum fannst vera fulllangt gengið, vegna þess að það eru margir menn, sem eru starfandi í sveitum og hafa yfir að ráða lögbýli, þótt þeir búi ekki, og eigi ekki aðgang að öðrum lánastofnunum. Okkur þótti því rétt að fella þetta niður. Að öðru leyti leggjum við til, að frv. verði samþ. eins og það var lagt fyrir hv. Alþ.

Ég ætla ekki að ræða frv. sérstaklega. Hæstv. landbrh. hafði framsögu fyrir þessu máli fyrir stuttu og gerði þá ítarlega grein fyrir málinu og vísa ég til þeirra röksemda, sem þar komu fram.