14.04.1973
Sameinað þing: 72. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3522 í B-deild Alþingistíðinda. (3057)

102. mál, greiðsla ríkisframlaga samkvæmt jarðræktarlögum

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Atvmn. hefur athugað þáltill. á þskj. 127, en hún fjallar um greiðslu ríkisframlaga samkv. jarðræktarlögum. Það hefur komið í Ijós við athugun þessa máls, að árið sem leið voru greiddar 5 millj. kr. út á jarðabætur unnar á árinu, og er það nokkru hærri upphæð en Landnámið borgaði árið 1971. Þá hefur verið upplýst, að tillit hefur verið tekið til þessa greiðslufyrirkomulags á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár, enda hefur mál þetta verið í undirbúningi í nokkur ár, og bendir allt til þess, að áframhald verði á þessu greiðslufyrirkomulagi svo að hægt verði með hverju ári er líður að komast nær því marki að borga sem mest út af framlögum á því ári, sem framkvæmdin er unnin og tekin út af þar tilkvöddum mönnum, en á því kunna að vera tæknilegir örðugleikar í sambandi við frágang á skýrslum og útreikning þeirra og borga allt framlagið að fullu á sama ári og framkvæmdin er gerð.

N. leggur einróma til, að till. verði vísað til ríkisstj. eins og fram kemur á þskj. 587.