07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

262. mál, afkomu skuttogara

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram í tilefni af þessari fsp., að skip þau, sem hér er spurt um, eru ekki keypt af ríkinu og er ekki ætlazt til þess, að ríkið reki þau, og því er það ekki fyrst og fremst ríkisins að gera áætlanir um rekstur þeirra, geldur þeirra, sem kaupa skipin og eiga að reka þau. Þáttur ríkisins í sambandi við kaup þessara skipa, eins og reyndar annarra fiskiskipa í landinu, er sá, að ríkið veitir tiltekna lánafyrirgreiðslu, en síðan er það val hinna einstöku útgerðaraðila, hvort þeir vilja notfæra sér þessa fyrirgreiðslu eða ekki. Það er því fyrst og fremst um það að ræða, að hinir einstöku aðilar geri þessar áætlanir, sem hér er verið að spyrja um. Þannig hefur þessu verið varið jafnt í sambandi við almenna fiskibáta og í sambandi við togarakaup á undanförnum árum og fram til þessa dags. En þó að málið flokkist þannig ekki beint á venjulegan hátt undir hið opinbera eða ríkið, hafa verið gerðar áætlanir nokkrum sinnum um rekstur togara og annarra fiskiskipa, og þær áætlanir hafa auðvitað nokkrum sinnum verið endurskoðaðar miðað við breyttar aðstæður.

Svar mitt við þeirri fsp., sem hér liggur fyrir, aðalspurningunni, hvort gerðar hafi verið af hálfu opinberra aðila áætlanir um afkomu skuttogara, þeirra sem nú eru í smíðum, er því það, að slíkar áætlanir hafa verið gerðar nokkrum sinnum. En ég vitna til þess, að þær hafa auðvitað fyrst og fremst verið gerðar af kaupendum skipanna og þeim, sem eiga að reka skipin.

Þá er spurt: „Við hvaða aflamagn er miðað og meðalverð á afla, þegar tekjur eru fundnar?“ Þær áætlanir, sem gerðar hafa verið um þetta efni, eru miðaðar við margbreytilegar forsendur, þ.e.a.s. aflamagnið í hinum einstöku dæmum er mjög mismunandi, að því er varðar bæði stærri og minni skip. Nýjustu áætlanir miða við það, að stærri togararnir hafi afla um 4000–4500 tonn á ári, en um minni togarana er miðað við aflamagn frá 2500 tonnum á ári upp í 3500 tonn á ári.

Þá er spurt: „Nægja tekjur til þess að mæta útgerðarkostnaði miðað við núgildandi kaupgjald og verðlag?“ Það fer í rauninni alveg eftir því, hvaða meginforsendur þar eru lagðar til grundgrundvallar. Hér er um mjög breytilegar tölur að ræða, í fyrsta lagi, eins og ég minntist á, um aflamagnið, í öðru lagi um mannfjölda, sem endanlega verður ákveðið, að skuli vera á þessum skipum, en um það hefur ekki endanlega verið samið enn, og síðan kemur auðvitað til fiskverð, en að nokkru leyti er það óþekkt, svo sem í sambandi við landanir erlendis. En í sambandi við áætlanir, sem miða við um 4000 tonna afla á stóru skipin og um 3000 tonna afla í minni skipin og það verðlag, sem helzt verður gengið út frá nú, og þá verða menn einnig að gera sér reglur um mannfjölda á skipunum og fara eftir því, sem menn vita þar bezt, þá má telja, að þessi skip, bæði minni skipin og stærri skipin, standi undir eðlilegum fjármagnskostnaði.

Þá er í þriðja lagi spurt: Hversu miklu nema tekjur umfram gjöld eða gjöld umfram tekjur?“ Þessu er í rauninni svarað með því, sem ég hef sagt. Það fer alveg eftir því, hvaða meginforsendur eru lagðar til grundvallar. Þarna getur verið um rekstrarhagnað að ræða, og það getur líka verið um rekstrartap að ræða, eftir því hvað þarna er lagt til grundvallar um aflamagn fyrst og fremst.

Þá er spurt í fjórða lagi: „Hve hár er árlegur áætlaður fjármagnskostnaður vegna skipanna?“ Fjármagnskostnaður stóru skipanna er talinn nema um 15 millj. kl. á fyrsta ári, en á fimmta ári um 11.7 millj. kr. Á minni skipunum er fjármagnskostnaður talinn vera 12.7 millj. á fyrsta ári, en um 9.7 millj. á fimmta ári.

Þá er spurt: „Hver er talin hæfileg upphæð árlegra afskrifta þeirra?“ Afskriftir stóru skipanna hafa verið taldar frá 6 og upp í 8.7 millj. kr. eftir dýrleika skipanna, en minni skipanna frá 5.1 og upp í 6.1 millj., líka eftir verði skipanna skiljanlega.

Þá er spurt: „Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að afla fjár til fiskveiðasjóðs til þess að standa straum af fjármögnun umræddra skipa?“ Gert hefur verið ráð fyrir því að afla fiskveiðasjóði tekna eða lánsfjár í samræmi við þessi skipakaup frá ári til árs að langmestu leyti, en ekki með heildarlántöku fyrir allt tímabilið.

Með þessu hef ég svarað meginatriðunum í þessari fsp., en um fsp. mætti svo margt segja að öðru leyti. Ég hygg, ef hv. fyrirspyrjandi vill afla sér frekari upplýsinga um málið en hægt er í rauninni að gefa í slíkum fsp: tíma sem þessum, þá geti hann auðveldlega fengið það í sjútvrn., því að þar liggja fyrir margvíslegar og margbreytilegar áætlanir um þessi efni, sem ég tel mjög þýðingarlítið að fara að lesa hér upp, enda ynnist tími ekki til þess.

En varðandi þýðingarmesta atriðið, afkomuna, af því að hv. fyrirspyrjandi lagði hér áherzlu á það, að hann væri að spyrja um afkomumöguleika þessara skipa, um afkomu skipanna, þá vil ég segja, að það atriði, sem hér ríkir mest óvissa um, er aflamagn þessara skipa. Þegar nú eru gerðar áætlanir um, að þessi skip ættu að hafa ársafla, stærri skipin, 4000–4500 tonn, þá má gjarnan hafa í huga, að okkar gömlu togarar veiddu hér árum saman yfir 6000 tonn á ári. En afli þeirra hefur verið mjög breytilegur, og á þessu árí má búast við því; að afli fari niður fyrir 3000 tonn. Um afla minni skipanna vitum við minna, en þó höfum við gert út nokkur minni skip einnig á þessu ári, — skip, sem eru talsvert miklu minni en þessir svokölluðu minni togarar, sem við erum hér að ræða um, — skip, sem eru í kringum 320 rúmlestir að atærð, en þessir minni togarar, sem við tölum um, eru 450–500 rúmlestir að stærð og miklu betur útbúnir. Þau minni skip, sem við höfum nú, munu hafa ársafla, sem er yfir 3000 tonn, og sýnist því í rauninni ekki ýkja óvarlegt að áætla, að þessi nýju og fullkomnari skip ættu að geta haft 3000 tonna ársafla eða meira. En eins og ástatt er á okkar fiskimiðum nú, er mjög erfitt að, koma með staðgóða spádóma um það, hvert muni verða aflamagnið.

Þessi eru mín aðalsvör við þessari fsp., og vænti ég, að það nægi hv. fyrirspyrjanda, en það, sem á kann að vanta, getur hann síðan fengið í ýmsum frumgögnum, sem liggja um málið í rn.