14.04.1973
Sameinað þing: 72. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3526 í B-deild Alþingistíðinda. (3072)

19. mál, olíuverslun

Frsm. meiri hl. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Till. þessi til þál. er viðvíkjandi því að athuga um olíuverzlun á Íslandi og till., sem er flutt af jafnaðarmönnum, hljóðar þannig:

Alþ. ályktar að kjósa 7 manna n. til að gera till. um endurskipulagningu á innflutningi á olíuvörum og dreifingu þeirra í landinu í því augnamiði að tryggja fyllstu hagkvæmni í innkaupum, sölu og dreifingu olíuvara innanlands, svo að þær geti jafnan verið á boðstólum á lægsta verði til notenda. N. ljúki störfum fyrir 1. júlí n.k. og skili till. sínum til ríkisstj. og Alþ. N. leiti nauðsynlegrar sérfræðiaðstoðar, eftir því sem þurfa þykir, en kostnaður greiðist úr ríkissjóði“.

Við ræddum þetta mál nokkuð og sendum til umsagnar. Umsagnirnar voru yfirleitt ekki jákvæðar, og auk þess var í málefnasamningi ríkisstj. að taka þessi mál til athugunar og er víst enn þá, og vafalaust athugar hún, hvað hagkvæmast er að gera í þessu efni.

Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir lágu frá olíufélögunum, segjast þau hafa haft talsvert samstarf viðvíkjandi dreifingu á olíunni. Á 54 stöðum segjast þau meira og minna hafa samstarf. Ég veit, að þetta á sér stað, að þar sem ekki er mikil olíusala eða benzínsala, hafa þau sameiginlega afgreiðslu, a.m.k. í mörgum tilfellum, en þar sem meira er um að vera, þar er samkeppni. Þetta er vafalaust mál, sem er athugandi. En kerfið er nú einu sinni komið á, að ef ríkið ætlar að fara að taka það í sínar hendur, yrði að meta þær eignir og kaupa þær af olíufélögunum. Vextir, sem yrðu af þeirri upphæð, sem yrði að borga af þeim, yrðu vafalaust töluverð fjárhæð. Olíufélögin bentu enn fremur á það, að geymarnir, sem eru víðs vegar um landið eru fullnýttir nokkurn veginn og þyrfti alveg jafnt á þeim að halda eftir sem áður, þó að olíufélögunum yrði fækkað. Þetta er mál, sem er flókið. Það er ætlast til þess, að skipuð sé n. til að athuga þetta. Þn. út af fyrir sig getur ekki fullyrt neitt um þetta. En eftir þeim upplýsingum, sem fyrir lágu, þá er það mín persónulega skoðun, að það sé verulegt vafaatriði, hvort olíuverð mundi nokkuð lækka við þetta.

Eftir þeim upplýsingum, sem við fengum, er olía og benzín ekki dýrara hér en í öðrum löndum, það virðist ekki vera það. Raunar voru þær upplýsingar fengnar í gegnum olíufélögin að mestu leyti. Ég hef ekki ástæðu til að ætla, að þau ljúgi beinlínis, ég hef ekki ástæðu til að ætla það. Náttúrlega geta sjómenn borið þetta nokkuð saman, sem sigla til annarra landa og kaupa olíu og slíkar vörur.

Meiri hl. n. kom sér saman um að afgreiða málið með eftirfarandi nál.:

N. hefur rætt till. á tveimur fundum og sent hana til umsagnar til olíufélaganna, SÍS, Verzlunarráðs Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Svörunum fylgdu ítarlegar grg. um fyrirkomulag þessara mála.

Í málefnasamningi ríkisstj. var m.a. talað um að taka skipulag olíusölunnar til endurskoðunar með það fyrir augum, að sjávarútveginum verði tryggt hagstætt olíuverð. Með þetta í huga og þar sem þáltill. felur ekki í sér neina frekari stefnumörkun umfram það, sem stefnt er að af hálfu ríkisstj., er það till. meiri hl. atvmn. að umræddri þáltill. verða vísað til ríkisstj:

Mér finnst það einnig frekja af okkur að taka þannig fram fyrir hendurnar á ríkisstj. Að sjálfsögðu framkvæmir hún þessa þarflegu hluti, ef hún álítur þá nauðsynlega. Hafi henni yfirsézt með þessa ályktun í málefnasamningnum, þá svæfir hún það, og er það þá vel farið.