16.04.1973
Neðri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3605 í B-deild Alþingistíðinda. (3229)

214. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenzkum skipum er komið frá hv. Ed. og var samþ. þar ágreiningslaust og breytingalaust. Á síðasta þingi voru samþ. lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík, og þótti þá nauðsynlegt, að lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenzkum skipum yrði sem fyrst breytt til samræmis við stýrimannaskólann. Þau efnisatriði, sem felast í þessu frv., eru til samræmingar við þá löggjöf, sem sett var á s.l. vetri um stýrimannaskólann. Til þess að annast þá endurskoðun laganna um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna, sem nauðsynleg var í þessu skyni var Jónasi Sigurðssyni skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík og Kristni Gunnarssyni deildarstjóra í samgrn. falið að annast þessa endurskoðun, og hafa þeir gert það. Þær einu efnisbreytingar, sem í frv. eru, eru til samræmingar við hina áðurnefndu löggjöf, en margvíslegar orðalagsbreytingar eru í þessu frv., sem einnig miða að því, að ákvæði laganna séu í samræmi við stýrimannaskólalögin.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. og legg til, herra forseti, að því verði vísað til hv. samgmn. og 2. umr.