17.04.1973
Neðri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3703 í B-deild Alþingistíðinda. (3323)

235. mál, tollheimta og tolleftirlit

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er enginn vafi á því, að með þessu frv. er verið að herða gildandi lagaákvæði um það efni, sem gr. fjallar um. Sjálfsagt er enginn, sem ekki telur, að nokkuð megi gera til þess að reyna að fyrirbyggja ýmis lögbrot eins og hafa verið framin að undanförnu í þessum málum. En þó held ég, að Alþ. verði alltaf að gæta þess, að ekki sé farin sú leið að hengja bakara fyrir smið og kannske ákveða sekt saklausra strax í lagagreininni, þegar hún er sett. Ég fæ ekki séð annað, og þyrftu auðvitað hinir lögfróðu hér að upplýsa það, hvort að það er ekki rétt túlkun hjá mér, en síðari málsgr. í hinni skriflegu brtt. hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Sömu refsingu skulu og þeir af áhöfn skipsins sæta, sem undirritað hafa móttökuskilríki eða innsiglisskrá yfir slíkan varning“.

Þarna sýnist mér verið að fastákveða, að þessir aðilar skuli sæta sömu refsingu og þeir, sem um er talað í fyrri hluta gr. Nú þekki ég það frá mínum gömlu dögum, þegar ég sigldi á slíkum skipum, hvernig vinnubrögðum í þessu er háttað. Það eru yfirleitt hinir lægra settu yfirmenn, sem stjórna lestun skips og móttöku slíks hluta farms og birgða skips, sem m.a. kemur af „tollfrílager“, bera það saman við pappíra, hvort tölurnar koma heim, og skrifa undir. Þetta gera þeir að sjálfsögðu í umboði æðsta manns skipsins, skipstjórans, — stýrimennirnir, þegar um varning fyrir skipið og bryta er að ræða, en hins vegar undirvélstjórar eða maður úr vélarúmi f.h. 1. vélstjóra, þegar slík vara kemur til vélarúms.

Þessir menn hafa svo ekkert meira með þetta mál að gera. Það getur verið á eftir, að æðri mennirnir um borð taki þessar vörur af innsiglisskrá, gefi þær ekki upp, þegar komið er í næstu höfn, en samt sem áður segir síðari málsgr. þessarar lagagreinar, að þessir menn eigi að hljóta sömu refsingu og þeir, sem brotlegir gerast. Ég vildi nú biðja lögfróða menn hér, eins og ég sagði áðan, að athuga, hvort þetta sé rangt túlkað hjá mér og hvort þetta geti yfirleitt staðizt, áður en að d. samþ. frv. í þeirri mynd, sem það er nú.