17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3736 í B-deild Alþingistíðinda. (3371)

310. mál, lögn háspennulínu frá Sigölduvirkjun til Norðurlands

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin, að svo miklu leyti sem þau voru svör við spurningum mínum. Það mátti glöggt heyra á máli hæstv. ráðherra, að hér var sneitt fram hjá því að svara þessum fsp. Er þá að sjálfsögðu við iðnrn. að sakast, en ekki þennan hæstv. ráðherra, þannig að það er erfitt um það að tala.

En í þessu sambandi vil ég aðeins undirstrika það, að hér kemur það fram einu sinni enn, að það hefur verið tekin ákvörðun um að leggja þessa margumræddu háspennulínu norður yfir öræfin, án þess að nokkuð sé vitað um það, hvað hún kosti, hversu mikið öryggi hún gefi, hversu mikið varaafl þurfi á Norðurlandi út af henni. Yfirleitt er ekkert vitað um þetta mál, þegar um línuna er tekin ákvörðun. Og þetta út af fyrir sig er gersamlega forkastanlegt.

Ég hef áður bent á það hér, að líkur bentu til þess, að við aðra virkjunarkosti á Norðurlandi, eins og t.d. gufuaflsvirkjanir, sem Orkustofnun hefur látið rannsaka við Námafjall og Kröflu, kosti raforka ekki nema 44 aura úr tiltölulega hóflegri virkjun hver kwst. En bara flutningskostnaðurinn er fyrstu árin, ef ætti að flytja raforku til Norðurlands, um 3 kr. á kwst. Hitt er svo annað mál, að hæstv. orkumálaráðherra hefur jafnan lagt á það áherzlu, að það yrði að líta á þessa línu frá allt öðrum sjónarhól, það yrði að líta á hana í tengslum við stórvirkjanir á Norðurlandi, hún væri forsenda fyrir þeim. Hér er um að ræða ákaflega furðulega röksæmdafærslu, vegna þess að það er miklu auðveldara að koma upp slíkri línu en stórvirkjun. Þegar ákvörðun væri tekin um stórvirkjun, væri hægt að ráðast í þessa línu. Það er engin deila um það, að slík lína á að koma. En hvenær á hún að koma, það er spurningin. Og það getur kostað okkur mörg hundruð millj. kr að taka slíkar ákvarðanir sem hæstv. ríkisstj. er að taka á þessu sviði.