17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3744 í B-deild Alþingistíðinda. (3385)

251. mál, bætt aðstaða ferðafólks og verndun ferðamannastaða

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið. Þó að niðurstaðan, sem hann varð að gefa í þessu máli, yrði svona sorgleg, hef ég þar ekki við hann að sakast, heldur kannske fremur Alþ., fjárveitingavaldið eða kannske það, að menn hafi ekki veitt athygli þessu sérstaka vandamáli, sem ég aðeins drap á í orðum mínum áðan. Við erum að nytja náttúrugæði, en við höfum ekki gert okkur grein fyrir því, að við verðum að fara með þau eins og önnur náttúrugæði. Við megum ekki ofnýta þau eða rányrkja. Ég vil benda á, að þetta er hvorki frá heilbrigðislegu né náttúrufræðilegu sjónarmiði vansalaust. Heimamenn eða landeigendur á þessum stöðum, — og þá vil ég nefna það, að t.d. Skógrækt ríkisins á marga af þessum stöðum og hefur þá í vörzlu sinni, — þeir gera sitt. Skógræktin hefur kostað töluvert miklu og kostar árlega miklu til að reyna að halda í horfinu á þessum stöðum, en hún hefur ekki fengið til þess sérstakt fjármagn. Í Mývatnssveit, af því að hún hefur verið nefnd, veit ég, að hreppurinn hefur kostað fé til hreinlætisaðgerða og gerði það á síðasta sumri. Hann lagði í það verulegt fjármagn. En það er ekki hægt að ætlast til þess, að þessir aðilar kosti þetta. Þetta er samfélagsins, ég vil undirstrika það og taka undir orð ráðh. að þessu leyti