17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3798 í B-deild Alþingistíðinda. (3411)

37. mál, fjárlagaáætlanir

Frsm. meiri hl. (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Þessi till. til þál. er fram borin af hv. 2. þm. Norðurl. e., Magnúsi Jónssyni, og fjallar um það að skora á ríkisstj. að fela fjárlaga- og hagsýslustofnun að gera fjögurra ára áætlun um þróun útgjalda og tekna ríkissjóðs miðað við gildandi lagaskuldbindingar og tekjuheimildir og aukningu ólögbundinna útgjaldaliða með hliðsjón af fenginni reynslu og verði að því stefnt, að fjárlagaáætlanir þessar geti fylgt næsta fjárlagafrv. Fjvn. hefur rætt þetta mál og m.a. leitað umsagnar hjá fjárlaga- og hagsýslustofnuninni.

Eins og fram kemur í nál., hefur fjvn. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessarar till., þó að ég þori að fullyrða, að fjvn. sem heild er að mörgu leyti mjög hlynnt þeirri hugmynd, sem hér kemur fram. Þess vegna var það, að sá meiri hl., sem ég tala hér fyrir, er þeirrar skoðunar, að það sé rétt að stefna að því að taka upp langtímaáætlanir í sambandi við fjárlagagerð, og eftir að við höfum athugað þetta mál og eftir að við höfum fengið álit hagsýslustjóra, leggur meiri hl. fjvn. til, að málinu verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hún kanni nánar ástæður þessa máls.

Ég vil leiðrétta það, sem stendur í nál. okkar, þar sem segir: „leggur n. til“, þar á vitanlega að standa „leggur meiri hl. fjvn. til“.