18.04.1973
Efri deild: 100. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3807 í B-deild Alþingistíðinda. (3438)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem spurt var um í gær í sambandi við 8. gr. þessa frv., í sambandi við fyrirframinnheimtuna, þá virtist mönnum ekki ljóst, að fyrirframinnheimtan yrði almennt að fara saman, heldur virtust þeir telja, að hægt væri af einstaka hópum, sem hefðu fengið sérstaklega hærri tekjur en aðrir, að innheimta hærri fyrirframinnheimtu en almennt gerðist. Um það er ekki að ræða í þessu sambandi. Almennt verður fylgt þeirri reglu, eins og verið hefur, að sú prósenta, sem yrði ákveðin af fyrra árs útsvari, ef við það er miðað, gilti jafnt um alla þá, sem fyrirframtekjuskatt eiga að greiða eða gjöld almennt, en ekki verði farið að mismuna einstökum hópum. Hins vegar er einnig heimild í þessari gr., að miða megi við tekjur yfirstandandi árs. Að vísu er þetta atriði sett inn til þess að reyna að nálgast staðgreiðslukerfið eins og frekast er hægt, án þess að tekin sé um það fullnaðarákvörðun. Má segja, að þessarar tvöföldu heimildar þarna sé kannske ekki beint þörf, en hún sakar nú ekki, og hún yrði einnig almenn heimild, en gæti ekki komið til greina, nema um væri að ræða, að ástæða þætti til að breyta áður tekinni ákvörðun um fyrirframgreiðslu, vegna þess að tekjur almennt hefðu hækkað geysilega frá því, sem áður hefði verið. Ég held, að þarna stafi engin hætta af, og staðfesti, að hér er um almenna heimild að ræða sem mundi því aðeins verða notuð, að um verulega breytingu væri að ræða á skatti á milli ára og verulega hækkun á tekjum á árinu, sem fyrirframgreiðslan yrði innheimt.

Hitt er annað atriði, sem einnig var spurt hér um í gær og er svo í gr., með leyfi hæstv. forseta: „Nú verður ljóst, þegar álagningu skatta lýkur, að gjaldandi hefur þegar greitt meira en álagða skatta“. Þetta getur oft komið fyrir, og þetta er bundið við einstaklinga. Það hefur oft komið fyrir, að fyrirframgreiðsla, sem var 50%, hefur getað verið það mikil, að orðið hafi að greiða gjaldanda til baka. Þetta átti sér t.d. stað á síldarárunum, þegar skipstjórnarnir, sem veiddu geysilega mikið, eitt árið, höfðu greitt sína fyrirframgreiðslu næsta ár á eftir, þ.e. helming af sínu útsvari og tekjuskatti árið áður, þá varð að endurgreiða það. Slík tilvik geta komið fyrir, og þetta er aðeins miðað við það og snýr að einstaklingunum, en hitt er almennt séð.

Út af því atriði, sem hv. þm. Axel Jónsson ræddi hér áðan, höfum við, — félmrh. mun skýra það hér á eftir, — haft samband við ráðuneytisstjórana í bæði fjmrn. og félmrn., og þeir hafa borið sig saman og telja, að með yfirlýsingu okkar um það, að auk þeirra liða, sem taldir eru upp í lögunum um tekjustofna sveitarfélaga, þá eigi þessir liðir, sem við bætast, einnig að ná til tekjustofnalaganna, þótt liðunum sé fjölgað breyti engu, því að yfirlýsing okkar nái yfir þau atriði, sem gr. nái til, og sem lögskýring á því mundi nægja slík yfirlýsing af hendi okkar þar um. Ég vil taka það fram, eftir að hafa borið mig saman um það og leitað um það álits, að þrátt fyrir það, að þessum liðum sé bætt við, eigi þeir einnig að gilda í sambandi við tekjustofna sveitarfélaga eins og ríkisins. Ég vona, að þetta nægi til þess, að hv. þm. geti afgreitt þetta mál út úr þessari d. án breytinga.