08.11.1972
Neðri deild: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég þarf víst ekki að taka hér langan tíma, vegna þess að hv. 2. þm. Sunnl. er eiginlega búin að koma að öllum þeim atriðum, sem ég var búinn að hugsa mér að taka til meðferðar, og hef því lítið við það að bæta.

Eiginlega fannst mér dálítið gaman að því í fyrradag, þegar talsmenn þessa frv. voru hér í ræðustóli. Þá fór ekki á milli mála, hvaða hagsmuni þeir báru fyrir brjósti. Það voru ekki hagsmunir framleiðendanna. Og mér er nær að halda, að mörgum, sem hlustuðu á ræður þeirra, hafi fundizt, að það væru ekki heldur hagsmunir neytendanna í raun og veru, enda töluðu þeir um það, að vera l:ynni, að þessi breyting mundi leiða til þess, að dreifingarkostnaðurinn hækkaði. Eru það hagsmunir neytendanna, að dreifingarkostnaðurinn hækki? Það voru annarra hagsmunir, sem þessir hv. ræðumenn báru fyrir brjósti. Meira að segja var ekki hægt að heyra annað á hv. 1. þm. Sunnl., þó að hann vildi fara að öllu með gát í þessum málum, en að þetta væri mjög stórt mál og brýnt að breyta þessum lögum í þá átt, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég gæti vel trúað því, að umbjóðendum hans í Suðurlandskjördæmi fyndust þessi ummæli töluverð tíðindi. Ég var þar á fundi um daginn, og þeir, sem ég hitti að máli, höfðu mestar áhyggjur af þessu frv., eins og nú standa sakir. Að þeirra mati var þetta mál svo stórt.

Hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að tilgangur frv. væri að verða við óskum neytenda. Það er nú svo. Liggur það fyrir, að það séu óskir neytenda að breyta þessu fyrirkomulagi? Ég hef í mörg ár verið á ýmsum stöðum í þéttbýlinu hér við Faxaflóa og heyrt kvartanir yfir þeim kaupmönnum, sem hafa haft þessar vörur til sölu, vegna þess að þeir séu með mjólkina hér um bil eina og aðrar mjólkurvörur séu þar lítt eða ekki fáanlegar. Auðvitað verður að gera þá kröfu til þeirra, sem eru með mjólkina, að þeir hafi líka forsvaranlegt rúm fyrir aðrar þær vörur, sem úr mjólk eru unnar og til sölu eru hverju sinni. Ég held, að það ætti að kanna, hvernig þetta er í raun og veru. Það er eitt af því, sem þarf að skoða í þessu sambandi, hvernig ástandið er í þessum málum. Það verður að gera kröfu til þess, að verzlun, sem hefur mjólkursöluleyfi, hafi nægjanlegt rúm fyrir allar þær vörur, sem úr mjólk eru unnar, og sé með þær til sölu.

Nú langar mig til að spyrja hv. 1. þm. Sunnl. að því, hvort hann mundi vilja mæla með svona breytingu, ef að athuguðu máli kæmi í ljós, að Mjólkursamsalan mundi á stuttum tíma verða að loka búðum sínum. Hann gat um það 3 ræðu sinni, að framleiðendur ættu alls ekki að bera uppi aukinn dreifingarkostnað. En ef það færi nú þannig, sem margir, sem eru kunnugir þessum málum, telja líklegt, að á betri stöðunum, þeim stöðum, þar sem mjólkurbúð er við t.d. kjörbúð, yrði að loka þessum búðum, en standa uppi með búðir, þar sem taprekstur er, ætla kaupmennirnir þá líka að taka við þessum búðum, eða hver á að bera kostnað af því? Mundi það ekki koma við framleiðendurna, ef þeir yrðu að loka þessum búðum, sem gefa nú hagnað, eða hverjir mundu bera þetta tjón?

Hv. 1. flm., 9. landskj. þm., sagði ýmislegt í ræðu sinni áðan og um daginn. Hann talaði mikið um þau forréttindi, sem Mjólkursamsalan hefur í þessum málum. Hann talaði ekki um þau forréttindi, sem kaupmannastéttin hefur haft í þessu landi og hefur enn, eða vill hv. þm. ræða um þau mál hér í sölum Alþ.? Hann sagði, að þetta frv. væri flutt vegna þess ófremdarástands, sem ríkti í þessum málum. Hvað er hv. þm. að fara? Ég hef ekki heyrt kvartanir yfirleitt nema í kaupmönnunum, af því að þeir vilja hafa forréttindi í þessu sem ýmsu öðru. Þeir vilja hafa einkaleyfi á allri verzlun, bæði þessari og annarri verzlun. (LárJ: Hvað hafa þeir mikla mjólkursölu í Norðurl. e.?) Ég sagði: vildu hafa. (LárJ: Hvað hafa þeir mikla?) Það hef ég ekki kannað. Ég held, að það, sem þyrfti að gera í raun og veru í þessum málum, eins og hæstv. landbrh. sagði, væri að kanna, hvernig öll þessi mál eru. Það þyrfti að gera sér grein fyrir því, til hvers þessar breytingar mundu leiða, ef þær yrðu samþykktar, eða aðrar, ef það þætti heppilegra. Það þarf að fara ofan í þessi mál öll. Það er ekki nóg að breyta bara til þess að breyta einhverju. Það þarf að gera það til þess að bæta ástandið, ef talið er að athuguðu máli, að þess þurfi. Ég efa bara, að það sé nema á örfáum stöðum, a.m.k. miðað við þann kunnugleika, sem ég hef á þessum málum.

Hv. flm. sagði, að bændur eða samsölustjórnin væri á móti breytingunum, öllum breytingum, meira að segja áður en þeir vissu, hvers konar breytingar það væru, sem væru á döfinni. Það er ekkert óeðlilegt, þó að bændur og framleiðendur séu á móti þeim breytingum, ef þeir vita, úr hvaða átt þessar breytingar eru komnar, því að þeir vita, hvers vegna verið er að breyta þessu. Það er ekki verið að hugsa um þeirra hagsmuni. Það er verið að hugsa um allt aðra hagsmuni. Það er ekkert óeðlilegt, að þeir a.m.k. gjaldi varhug við slíkri tillögugerð. Hins vegar geri ég ráð fyrir því, að hv. flm. og þeir, sem hafa flutt þetta frv., geri það fyrst og fremst vegna þess, að þeir þekkja lítið inn á þessi mál, en ekki fyrir það, að þeir vilji verða til þess, að þessar vörur yrðu langtum dýrari, að dreifingarkerfið yrði langtum dýrara, eins og þeir telja, sem vinna við þetta, að breytingin hlyti að hafa í för með sér. Enda gefur það auga leið, að ef dreifa ætti mjólkinni á hér um til helmingi fleiri staði en nú er, þá er ekki lítill kostnaðarauki að slíku. Það er alveg rétt, að ef farið væri rétt að þeim málum, þá ætti sá kostnaður að koma á neytendurna, þó að ég geri ráð fyrir því, og hv. 1. þm. Sunnl. ætti að vera farinn að læra það af langri reynslu, að eftir því sem varan er dýrari, er minni sala á henni. Það eru þess vegna líka hagsmunir framleiðenda, að hægt sé að halda þessum liðum mjög hóflegum, eins og allir, sem þekkja þessi mál. telja, að nú sé gert.

Hv. 2. þm. Vestf. var að ræða um einhverja undirskriftasöfnun í kauptúni á Vestfjörðum í sambandi við þetta og taldi, að það væri merki þess, að neytendur væru mjög óánægðir yfir því ástandi, sem ríkti í þessum málum. Ég geri ráð fyrir því, að þm. leggi í sjálfu sér ekkert ákaflega mikið upp úr svona undirskriftasöfnun, því að sannleikurinn er sá, að það er oft ekki mikið upp úr því leggjandi. En þm. sagðist krefjast þess, að sú n., sem fengi þetta mál til meðferðar, legðist ekki á málið. Hann man líklega til daga fyrrv. ríkisstj., viðreisnarstjórnarinnar, þegar hún var að leggjast á mál, og er líklega uggandi yfir því, að slíkt geti endurtekið sig. Þm. getur einskis krafizt í þessu máli. Hann getur bara beðið og vonað. Við verðum að sjá til.